„Hej, allihopa!“ er fyndinn frasi. Þó svo að „allihopa“ þýði einfaldlega „allir“, minna þessi orð mig svolítið á íslenska jæjað. Jæja getur þýtt „Kýlum á það!“, „Nú ættum við að haska okkur heim,“ og „Vinsamlegast drullaðu þér út úr þessari verslun, við erum að loka.“ En hvers vegna er ég að velta þessu fyrir mér núna? Hvað hef ég við einhverja kumpánslegar kveðjur á öðru tungumáli að gera? Tja, þær gætu komið sér vel fyrst ég ætla að flytja til Stokkhólms í haust. Jebsí pepsí, nú skal pakkað í töskur og haldið til fyrirheitna landsins. Ég yfirgef illgresisgróinn klakann í leit að auðveldlega samsettum húsgögnum og stundvísum samlöndum brynjaða post-it miðum ef til passíf-agressífra átaka skildi nú koma. Þar mun ég ábyggilega kynnast tveggja metra háum, ljóshærðum karlmanni sem heitir Joon og saman munum við eignast tvíburana Jålhub og Luttel.
Eða ekki. Ég verð í burtu í heila þrjá mánuði og kem meira að segja heim fyrir jólin. Á heildina litið er þetta afskaplega stutt tímabil en samt skelf ég á beinunum. Breytingar geta nefnilega verið erfiðar. Ég hef áður flúið þessa fjandans moldarhrúgu þar sem er ekkert að gera nema vinna og drekka sig í hel í leiðinni (Ísland er land þitt, og ávallt þú geymir...). Fór til Costa Rica í vægast sagt vel heppnaða yoga-ferð *hóst*. En þar á undan hafði ég farið til Sviss sem au pair og ætlað að ala upp börn í níu mánuði samfleytt. Ég skakklappaðist heim aftur í faðm mömmu með skottið milli fóta eftir tæpa tvo mánuði, buguð á líkama og sál. Börn eru bara svakalega erfið, hverjum hefði dottið það í hug?
Ég man eftir því þegar ég gekk upp tröppurnar í Leifstöð, horfði til mömmu sem veifaði til mín, stolt og strax farin að sakna mín. Og röddin í höfðinu á mér hvíslaði staðfastlega: „Þetta eru mistök.“ Það er nú sjaldan sem ég tek mark á því sem gerist inn í eigin kolli, en þessa rödd þekki ég vel. Hún býr í maganum á mér og snýr öllu á hvolf þegar ég geri eitthvað sem ég veit innst inni að er ekki góð hugmynd. Lof mér bara að fullvissa ykkur um það að þegar þessi rödd byrjar að klingja innra með manni er langbest að hlýða, því fyrr því betra. Þú heldur að þú sért of langt leiddur, of seint að snúa við en þá er gott að muna að vondir hlutir eiga það til að versna nema eitthvað sé gert í þeim. Skerðu tap þitt og farðu heim.
Þessi rödd gargar hvað hæst þegar ég er við það að ganga fram af brúninni ofan í gjá vandræðanna. En ekki láta blekkjast, stundum áttu að stinga þér á bólakaf en þú snýrð við á ögurstundu og þá fer þessi sama rödd að láta á sér kræla. Því mistök eru ekki bara gjörðir sem við hefðum betur sleppt, heldur eftirsjá þeirra gjörða sem við létum ekki verða af. Að minnsta kosti með þeim fyrri færðu að fara heim reynslunni ríkari og oft með frábærar sögur í þokkabót (ekki þamba vodka í djús daginn eftir endajaxlatöku, nema þú viljir verða á sneplunum á innan við fimm mínútum. Til að ná sem bestum árangri: sittu á rassinum, drekktu þrjá í röð og stattu svo hratt upp. Farðu svo í vinnuna daginn eftir og vertu jákvæðasti móttökuritari í heimi).
Aðal spurningin felst í því að greina þessi tvö mistök í sundur: ertu að gera eitthvað sem þú ættir ekki að gera, eða ertu ekki að gera eitthvað sem þú ættir að gera? Það fyrra er kannski auðveldara að spotta, en það seinna svíður meira. Hvað mig varðar veit ég alltaf að ég á að gera eitthvað þegar ég rembist við að finna ástæður fyrir því hvers vegna ég ætti ekki að gera það (og svo öfugt).
Í gærkvöldi bjó ég til lista yfir hvers vegna ég ætti ekki að fara til Svíþjóðar. Þar má finna prýðindis rök á borð við fjárhagslega áhættu og að þurfa eignast nýja vini, en líka kjaftæði eins og mögulegt vesen við að kaupa mér lestarkort, hverju ég ætti eiginlega að pakka og hvað ég nenni ekki að læra sænsku. Þar með er ég gjörsamlega komin í þrot. Þetta er bara ótti við breytingar og óvissu í dulargervi skynsemi.
Svo nú er að hrökkva eða stökkva. Ég er búin að búa til aðgang að Duolingo þar sem ég hef lært lykilsetningar í sænsku á borð við: „sköldpaddan äter en smörgås.“ (Geri sterklega ráð fyrir því að þurfa að beita þessum orðaforða frá fyrsta degi). Ég get líka bara horft á góða krimmaþætti og lesið bækur, það er ekki eins og ég sé að fara út að leika mér í þessu geðveika veðri (...Ísland í huga þér, hvar sem þú ferð...).
Því hvet ég okkur öll til að skilgreina það sem við óttumst, finna rök með og á móti, og í kjölfarið kýla okkur í framan fyrir allt bullið sem við notum til að sannfæra okkur sjálf um að gera ekki eitthvað þroskandi og skemmtilegt.