Ný ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar er tekin við og hennar bíða erfið verkefni, eins og ávallt þegar ný stjórn tekur við stjórnartaumunum. Í ríkisstjórninni er einn ráðherra af landsbyggðinni, Kristján Þór Júlíusson, en aðrir hafa sínar rætur fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu (sé Akranes þar tekið með í reikninginn). Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar og nýr fjármála- og efnahagsráðherra, kemur úr Norðausturkjördæmi en hann er Reykvíkingur, fyrst og fremst.
Eðlilegar áhyggjur
Það er eðlilegt að fólk á landsbyggðinni hafi af þessu áhyggjur en ástæðulaust er að ætla stjórninni fyrirfram að sinna henni illa. Það er auðvelt að benda á efnahagslegt mikilvægi þess að á Íslandi blómstri mannlíf og atvinnulíf á landsbyggðinni, til sjávar og sveita, en sjaldan hefur það verið mikilvægara en nú. Uppgangur ferðaþjónustunnar er að vissu leyti opinberun á því hversu miklu skiptir að hlúa að landsbyggðinni og hinum dreifðari byggðum. Náttúruperlur og þjóðgarðar. Allt er þetta hluti af heild sem hugsa þarf um af heilindum og virðingu. Aðgansstýring á þétt setin og vinsæl svæði er til dæmis mál sem þarf að leysa farsællega sem allra fyrst.
Í þessu samhengi beinist kastljósið að samgöngum. Í stjórnarsáttmálanum segir meðal annars þetta: „Ríkisstjórnin mun stuðla að uppbyggingu á innviðum samfélagsins, samgöngum, heilbrigðis- og menntakerfi og kraftmiklu og samkeppnishæfu atvinnulífi fyrir íbúa um land allt.“ Þetta er stór og mikil fullyrðing eins og oft má segja um stjórnarsáttmála, þá er textinn opinn í báða enda og engar útfærslur boðaðar.
Merkilegar upplýsingar
Vegagerðin birti á dögunum upplýsingar um umferðarþunga á hringveginum á síðasta ári og má með sanni segja að þær hafi verið athyglisverðar. Ekki er annað að sjá en að mikill vöxtur í ferðaþjónustu komi glögglega fram í umferðartölunum, því umferðarþunginn jókst um mikið á árinu 2016 samanborið við árið 2015.
Í umsögn Vegagerðarinnar um umferðartölurnar segir meðal annars. „Árið 2016 var algert metár í umferðinni á Hringveginum en umferðin jókst um ríflega 13 prósent sem er gríðarlega mikil aukning á einu ári. Aukningin er nærri tvöföld á við aukninguna sem næst kemur á milli áranna 2006 og 2007 sem var 6,8 prósent. Aldrei fyrr hafa jafnmargir bílar farið um mælipunkta Vegagerðarinnar á Hringveginum. Sama á við um nýliðinn desembermánuð en umferðin jókst um ríflega 21 prósent í mánuðinum og hefur umferð yfir vetrarmánuðina aukist gríðarlega sem líklega má fyrst og fremst rekja til aukinnar vetrarferðamennsku. Umferðin í desember 2016 jókst gríðar mikið en niðurstaðan varð rúmlega 21% aukning árið 2016 miðað við sama mánuð árið 2015. Þetta er mesta aukning mill desember mánuða frá því að þessi samantekt hófst. Umferð jókst á öllum landssvæðum en langmest mældist aukningin um mælisnið á Austurlandi eða um tæplega 52%. Minnst jókst umferð um mælisnið um og í grennd við höfuðborgarsvæðið eða um 18%.“
Það má svo nefna það einnig, að umferð utan hringvegarins og innan höfuðborgarsvæðisins, hefur einnig aukist mikið og litlu minna en á hringveginum, hlutfallslega. Það má meðal annars nefna að umferð á Vestfjörðum hefur aukist um 120 prósent frá árinu 2005 þrátt fyrir að fólksfækkun hafi verið viðvarandi vandamál á þessu fallega svæði sem ferðamenn sækja sífellt meira.
Þessar tölur gefa tilefni til þess að ætla, að endurhugsa þurfi fjárfestingar í samgöngum. Einkum og sér í lagi vegna þessarar gjörbreyttu stöðu sem komin er upp vegna aukinna umsvifa ferðaþjónustu. Vegagerðin hefur bent á það ítrekað, að nauðsynlegt sé að huga að viðhaldi þannig að ekki verði til mikil vandamál og kostnaðarauki að lokum. Nú er svo komið að þetta þarfnast allt endurskoðunar.
Stórar tölur
Ekki er langt síðan að Skúli Mogensen, forstjóri WOW Air, benti á það á að líklega þyrfti að fjárfesta í bættum samgöngum fyrir 100 til 200 milljarða króna á næstu árum. Stórar tölur, vissulega, en hagsmunirnir eru líka miklir fyrir hagkerfið. Uppbygging ferðaþjónustunnar hefur breytt hagkerfinu og uppsöfnuð þörf í innviðafjárfestingum er orðin verulega mikil.
Tölurnar frá Vegagerðinni benda til þess að samgönguáætlun stjórnvalda sé ekki nógu metnaðarfull. Vonandi mun ný ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar skoða þessi mál vel núna. Fljótt á litið gæti það orðið mikið mál fyrir ríkisstjórnina að mynda góða tengingu við landsbyggðina. Vonandi verður horft eftir hagsmunum sem þar liggja og þar eru samgöngumál ofarlega á blaði.
Enginn gerir lítið úr því að staðan sé snúin þegar að þessu kemur. Helsti áhættuþátturinn í hagkerfinu er ofhitnun þar sem gengið hefur styrkst stöðugt með miklu gjaldeyrisinnstreymi, ekki síst frá ferðamönnum. Gangi spár eftir þá mun sú þróun vafalítið halda áfram.
Hið opinbera þarf því að velja fjárfestingarverkefni sín vel til að hjólin snúist ekki of hratt. Hinn breytti veruleiki þegar kemur að auknum umferðarþunga ætti að vekja ráðamenn til umhugsunar um að huga að stórbættum samgöngum. Sagan sýnir að þær leysa oft efnahagskrafta úr læðingi og skila sér alltaf margfalt til baka.