Á fundi efnahags- og viðskiptanefndar nýverið kom skýrt fram í máli starfsmanna Fjármálaeftirlitsins að ólíklegt sé að almenningur muni fá upplýsingar um hverjir standi að baki þeim vogunar- og fjárfestingarsjóðum sem brátt verða meirihlutaeigendur í Arion banka. Þótt sjóðirnir upplýsi Fjármálaeftirlitið um endanlega eigendur sína myndu þær upplýsingar falla undir trúnaðarskyldu þess og því gæti eftirlitið ekki miðlað þeim áfram til almennings. Svör eftirlitsins við eðlilegum og réttmætum spurningum fjármála- og efnahagsráðherra um sama mál virðast fela í sér sömu niðurstöðu.
Það er svo sem ekkert nýtt að leynd ríki yfir því hverjir séu endanlegir eigendur sjóða sem hagnast mjög á íslensku samfélagi. Fjölmargir sjóðir sem stýrt er af íslenskum sjóðstýringarfyrirtækjum eru á meðal stærstu eigenda skráðra félaga í Kauphöll landsins. Til að mynda er Stefnir-ÍS 15, sem stýrt er að stærsta sjóðstýringarfyrirtæki landsins Stefni, eigandi að 9,04 prósent hlut í Icelandair, 5,64 prósent hlut í Símanum, 6,32 prósent hlut í Sjóvá, 8,04 prósent hlut í Tryggingamiðstöðinni, 6,31 prósent í Reginn, 8.91 prósent í Högum og æa stóran hlut í Marel. Heildarstærð sjóðsins er 37,8 milljarðar króna. Eigendur eru ókunnir.
Stefnir rekur líka framtakssjóði. Á meðal þeirra eru SÍA II, sem fjárfest hefur í Skeljungi, Verne Global, Festi og Kynnisferðum, og SÍA III, sem fjárfestir í hlutafé óskráðra fyrirtækja. Alls er Stefnir með yfir 400 milljarða króna í stýringu. Þótt vitað sé að íslenskir lífeyrissjóðir og tryggingafélög séu stórir fjárfestar í þessum sjóðum, þá eiga fullt af einstaklingum líka hlutdeild í þeim. Hverjir það eru er ekki gefið upp opinberlega.
Stefnir er bara eitt af mörgum sjóðstýringarfyrirtækjum hérlendis sem hýsa sjóði sem ónafngreindir aðilar hafa sett peninga í. Landsbankinn á Landsbréf og Íslandsbanki á Íslandssjóði. Kvika á Júpiter. Auk þess eru til fyrirtæki eins og Virðing, GAMMA, Íslensk Verðbréf, Akta sjóðir, Alda sjóðir og Summa sem öll reka verðbréfasjóði.
Leynd yfir fjárfestingarleið og aflandsfélögum
Það er leynd yfir ýmsu öðru sem snertir fjármagnseigendur en bara um fjárfestingar þeirra í íslenskum sjóðum. Seðlabanki Íslands vill til að mynda ekki birta upplýsingar um hverjir þeir 794 innlendu aðilar sem komu með peninga inn í íslenskt hagkerfi í gegnum fjárfestingarleiðina eru. Peningar þeirra námu 35 prósent þeirrar fjárhæðar sem alls komu inn í landið með þessari leið, en hún tryggði um 20 prósent afslátt á eignum sem keyptar voru fyrir peninganna á Íslandi. Alls fengu þessir aðilar 72 milljarða króna fyrir þann gjaldeyri sem þeir skiptu í íslenskar krónur samkvæmt skilmálum útboða fjárfestingarleiðarinnar. Afslátturinn, eða virðisaukningin, sem þeir fengu með þessu umfram það ef þeir hefðu skipt gjaldeyrinum á skráðu gengi Seðlabankans er um 17 milljarðar króna. Um þetta ríkir trúnaður.
Starfshópur á vegum hins opinbera hefur birt skýrslu um aflandsvæðingu íslenskra eigna. Þeim fylgdi, samkvæmt skýrslu hópsins, umtalsverð undanskot fjármuna á erlenda leynireikninga. Fjármuna sem urðu til í íslensku samfélagi. Alls hafa 1.629 skilgreind aflandsfélög fengið íslenska kennitölu vegna banka- og hlutabréfaviðskipta. Tilgangurinn með þeim var annað hvort „skattalegt hagræði“ eða sá að leyna eignum fyrir t.d. kröfuhöfum sem áttu réttmæta og löglega kröfu á þessar eignir. Áætlað tekjutap hins opinbera á árunum 2006 til 2014 vegna þessa nemur líklega um 56 milljörðum króna. Á hverju ári gæti tapið vegna vantalinna skatta verið á bilinu 4,6 til 15,5 milljarðar króna.
Erfitt er að áætla tap kröfuhafa þessara aðila sem hafa ekki fengið sitt greitt. Það hleypur þó án efa á milljörðum. Þrátt fyrir að hið opinbera sé í einhverjum tilvikum með upplýsingar um hverjir séu þarna á ferðinni, og hver ætluð brot þeirra séu, þá ríkir leynd yfir því. Réttur þeirra sem brutu lög og stungu undan fé til leyndar er ríkari en réttur almennings til upplýsingar.
Leyndin sem ríkti um „Lundafléttuna“
Fyrir viku síðan var opinberað að stjórnvöld, eftirlitsaðilar, almenningur, fjölmiðlar og meira að segja Finnur Ingólfsson voru blekkt af Kaupþingi og Ólafi Ólafssyni í fléttu þess hóps til að komast yfir viðskiptabanka og lánshæfi án þess að leggja fram eina peninga til þess. Í opinberuninni, sem tók rúm 14 ár að fá fram sökum þess að valdahópar í samfélaginu, með djúp tengsl í þá stjórnmálaflokka sem hér hafa oftast ráðið flestu, komu í veg fyrir það.
Þar sem áhrifum þeirra sleppti tóku lögmenn og almannatenglar sem eru falir út fyrir öll siðferðismörk við og spunnu varnarvefi fyrir gerendur málsins. Síðast í desember sendi almannatengslafyrirtæki tilkynningu frá lögmanni Ólafs Ólafssonar og Guðmundar Hjaltasonar þar sem sagði að allt í kringum rannsóknarferlið á aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser að kaupum S-hópsins á hlut í Búnaðarbankanum á sínum tíma sé „undarlegt, fordæmalaust og byggt á órökstuddum dylgjum.“ Í kjölfarið voru Ólafur, Guðmundur og lykilstjórnendur Kaupþings skikkaðir til að mæta fyrir héraðsdóm og gefa skýrslu. Þar lugu þeir allir.
Í skýrslunni sem birt var á miðvikudag í síðustu viku er sýnt fram á það með óhrekjanlegum gögnum að þessi hópur svindlaði og blekkti til að komast yfir Búnaðarbankann, sem síðar var rennt saman við Kaupþing og búið til skrímsli sem olli gríðarlegri eyðileggingu í íslensku samfélagi. Á bak við fléttuna, sem kennd var við lunda, lágu baksamningar sem færðu Ólafi og fleirum tengdum Kaupþingi yfir ellefu milljarða króna á núvirði og eitt stykki banka til að leika sér með, og eftir atvikum tæma. Ágóðinn var falinn í aflandsfélögum og nýttist ugglaust vel eftir hrunið til kaupa eignir á Íslandi á brunaútsölu.
Í þessu ferli brugðust stjórnvöld og eftirlitsstofnanir, sem falið var að sjá til þess að almannaeignir yrðu seldar með skaplegum hætti, algjörlega. Það lá í raun fyrir nánast við undirskrift að svo hefði verið. En í stað þess að vinda ofan af eigin mistökum, og taka undir kröfu um að upplýst yrði um málið, þá var reynt út í hið óendanlega að koma í veg fyrir að málið yrði rannsakað almennilega og sannleikurinn myndi koma í ljós.
Leynd um kaupendur Arion banka
Nú eru erlendir vogunarsjóðir og Goldman Sachs að kaupa meirihluta í íslenskum banka. Það veit enginn hver stendur endanlega á bak við þessa fjárfestingu. Eina sem við vitum er að sjóðirnir keyptu Arion banka af félagi sem þeir eiga að mestu sjálfir.
Það má segja að skýrslan um Hauck & Aufhäuser hafi ekki getað komið á betri tíma. Hún er skýr áminning um hvernig á ekki að gera hlutina, á sama tíma og við erum að gera hlutina á nákvæmlega þann hátt enn einu sinni. Meira að segja Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, þekktur varðhundur auðvaldsins og hins kapítalíska kerfis, segir við íslensk stjórnvöld að þau eigi fyrst og síðast að horfa á gæði eigenda þegar bankar verða seldir, ekki verð né hraða. Þessi skilaboð má þýða á þennan hátt: Ekki selja vogunarsjóðum og Goldman Sachs, sem er aldrei að fara að kaupa þennan hlut á eigin reikning til langs tíma, ráðandi hlut í kerfislega mikilvægri fjármálastofnun. Bara ekki gera það.
Hinn heilagi réttur til að græða í leyni
Það er nánast ekkert traust milli almennings og stofnana á Íslandi. Fæstir treysta bankakerfinu (14 prósent), næst fæstir Fjármálaeftirlitinu (19 prósent) og skammt þar fyrir ofan er Alþingi (22 prósent). Samt eru tvær þessara stofnanna að bixa með að selja þá þriðju (kerfi sem var endurreist með handafli ríkisins) án þess að nokkur almennileg stefnumótum eða umræða hafi farið fram um hvers konar bankakerfi við þurfum eða viljum. Eina stefnan er sú að aðrir en ríkið eigi að eiga banka. Setja þurfi almennar leikreglur og láta svo markaðinn sjá um málið. En við reyndum það einu sinni. Það skilaði okkur neyðarlögum, gengishruni, fjármagnshöftum, atvinnuleysi, kaupmáttarrýrnun, áralöngu ósætti og fordæmalausum efnahagsglæpum. Og í lok þess leiks þurfti ríkið að grípa bankana vegna þess að markaðurinn hafði ekki ráðið við verkefnið.
Algjör forsenda þess að traust skapist aftur er að stjórnmálamenn, stjórnvöld, eftirlitsstofnanir og allir aðrir sem koma að ferlum eins og þeim að móta sölu á kerfislega mikilvægum banka hafi allt uppi á borðum. Að fullkomið gagnsæi ríki. Þótt það hafi skapast hefð fyrir því að ríkt fólk fái að njóta nafnleyndar í gegnum hannaðar fléttur eða manngerð kerfi fjármálalífsins, þá er það ekki eitthvað óbreytanlegt lögmál.
Spurningarnar sem varðmenn þessa kerfis þurfa að svara er þessi: Af hverju má enginn vita hverjir það eru sem eru að græða svona ógurlega mikla peninga? Er það feimnismál að hagnast á fjárfestingum? Og er frelsi þessa fámenna hóps til að hagnast í leynd ríkara en frelsi almennings til að vita hvað sé að gerast í samfélaginu?
Eða er það heilagur réttur að fá að græða peninga án þess að nokkur annar fái að vita af því? Er rétturinn til að fela peninga í aflandsfélögum, að nýta sér „alþjóðlegt skattalegt hagræði“ til að komast hjá greiðslum til samfélaga sem skapa auðinn og rétturinn til að fela aðild sína að viðskiptum ofar öllum öðrum rétti?
Íslenskt samfélags stendur frammi fyrir þessum spurningum.