Enn týnast til púsl í heildarmyndina af fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands, aðgerð sem hefur aukið misskiptingu gæða á Íslandi mjög. Í nýju svari við fyrirspurn þingmannsins Björns Leví Gunnarssonar hafa starfsmenn Seðlabankans brotið niður hvar peningar þeirra Íslendinga sem nýttu sér leiðina komu, á ítarlegri hátt en bankinn hefur áður verið tilbúinn að gera. Enn er þó þráast við að upplýsa um hverjir það nákvæmlega voru sem fengu að nýta sér þetta tækifæri og fá allt að 20 prósent fleiri krónur fyrir evrur sem þeir skiptu í gegnum Seðlabankans, og gátu notað til að kaupa upp eignir á Íslandi á hrakvirði.
Þessir sömu aðilar geta nú sumir hverjir farið aftur út með féð sem þeir ferjuðu í gegnum leiðina. Skipt krónunum sínum í evrur eftir að hafa ávaxtað fé sitt ævintýralega á margháttaðan hátt. Þeir sem komu inn í gegnum leiðina á fyrstu mánuðum ársins 2012 og keyptu sér t.d. íbúðarhúsnæði hafa tekið út alls konar ágóða. Í fyrsta lagi hefur íbúðarverð hækkað um 72 prósent frá því í byrjun árs 2012. Miðað við útboðsverðið sem þeir fengu á evru, sem var 240 krónur, þá hefur virði krónanna sem Seðlabankinn leyfi þeim að skipta tvöfaldast í evrum talið. Sá sem skipti t.d. einni milljón evra í krónur í febrúar 2012 í útboði fjárfestingarleiðarinnar, keypti sér íbúðarhúsnæði fyrir, seldi það síðan og skipti hermanginu í evrur í mars 2017, hefur fengið 3,7 milljónir evra á heimleiðinni. Ágætis ávöxtun, í boði íslensks samfélags.
Peningar frá aflandseyjum
Nýju upplýsingarnar í svari Seðlabankans eru t.d. þær að í fyrsta sinn gefur bankinn upp hver virðisaukning þeirra sem fóru leiðina í heild var. Samkvæmt útreikningum bankans var hún 31 milljarður króna. Það eru peningar sem þessi litli hópur (alls rúmlega eitt þúsund bjóðendur) fengu umfram skráð gengi Seðlabanka Íslandi til að kaupa hér eignir.
Kjarninn hafði áður greint frá því að um 35 prósent af því fé sem ferjað var til Íslands í gegnum leiðina hafi komið frá innlendum aðilum. Þ.e. Íslendingum og erlendum félögum í eigu Íslendinga. Alls kom þessi hópur með 72 milljarða króna í gegnum leiðina og fékk virðisaukningu upp á ellefu milljarða króna.
Nú birtir Seðlabankinn líka í fyrsta sinn upplýsingar um hvernig skiptingin var milli þeirra Íslendinga sem nýttu sér leiðina. Þar kemur fram af þeim 795 aðilum sem teljast innlendir voru 301 búsettir hérlendis. Þeir komu samtals með 60 milljónir evra af þeim 385 milljónum evra sem innlendir aðilar komu með inn í landið í gegnum leiðina, eða um 42 prósent heildarupphæðarinnar sem innlendir ferjuðu hingað til fjárfestinga.
Restin, alls 225 milljónir evra, kom frá innlendum aðilum sem búa erlendis. Í svarinu segir að bein kaup lögaðila frá lágskattarsvæðum, eins og t.d. Bresku Jómfrúareyjunum, í meirihlutaeigu Íslendinga hefðu numið 26 milljónum evra, eða um fimm milljörðum króna. Frá Lúxemborg, Kýpur og Möltu, sem eru ekki skilgreind sem lágskattarsvæði samkvæmt lista fjármála- og efnahagsráðuneytisins, tóku 12 lögaðilar í meirihlutaeigu íslenskra aðila þátt og komu samtals með 15,2 milljarða króna inn í landið.
Semsagt: Seðlabanki Íslands hannaði leið sem Íslendingar með peninga á aflandseyjum og þekktum skattasniðgöngulöndum notuðu til að ferja 20 milljarða króna inn í landið og kaupa upp eignir með afslætti.
Ekki vitað hvort peningar hafi verið þvættaðir
Í svari Seðlabanka Íslands við fyrirspurn þingmannsins segir að ekki sé „hægt að útiloka með öllu að í einhverjum tilvikum hafi ekki verið farið í einu og öllu samkvæmt ákvæðum skilmála fjárfestingarleiðar.“ Með öðrum orðum, bankinn veit ekki hvort þeir sem nýttu sér leiðina fylgdu skilmálum hennar eða ekki. Raunar hafa komið upp sakamál þar sem sýnt hefur verið fram á að menn gerðu það ekki, heldur nýttu sér leiðina til að stunda ólögmætt gjaldeyrisbrask sem skilaði miklum ávinningi. Seðlabankinn tiltekur að hann hafi veitt skattyfirvöldum þau gögn um framkvæmdina sem óskað hafi verið eftir.
Í svari bankans segir enn fremur að það hafi verið fjármálafyrirtækjanna sem voru milliliðir í viðskiptunum að kanna viðskiptamenn sína með tilliti til laga um peningaþvætti. Kjarninn greindi frá því í janúar að einungis einn viðskiptabanki, Kvika banki, hafi viljað gefa það upp hvort hann hefði sent tilkynningar um peningaþvætti vegna viðskiptavina hans sem nýttu sér fjárfestingarleiðina. Sá banki sendi engar tilkynningar. Þrír bankanna, Íslandsbanki, Arion banki og Landsbankinn, vilja hins vegar ekki svara því hvort þau hafi sent einhverjar tilkynningar til peningaþvættisskrifstofu vegna gruns um að einhverjir úr viðskiptamannahópi þeirra hafi þvættað peninga með því að nýta sér fjárfestingarleiðina. Og peningaþvættisskrifstofan sjálf sagði að eftir því sem næst yrði komist hefðu engar tilkynningar borist um peningaþvætti í gegnum fjárfestingarleiðina.
Skattahagræði í boði löggjafans
Upplýsingarnar sem Seðlabanki Íslands birti eru mjög áhugaverðar í samhengi við annað sem á sér stað í íslensku samfélagi núna. Fjárfestingarleiðin var til dæmis einungis fyrir efnað fólk. Lengst af þurfti viðkomandi að eiga að minnsta kosti 50 þúsund evrur sem hann vildi skipta í krónur til að taka þátt en sú upphæð var lækkuð í 25 þúsund evrur allra síðustu mánuðina sem hún var við lýði.
Þeir Íslendingar sem ferjuðu fé í gegnum leiðina voru því fólk sem hafði fært peninganna sína út fyrir íslenska lögsögu áður en höft voru sett. Flestir þeirra gerðu það vegna þess sem á fínu máli kallast „skattahagræði“ en má líka bara kalla viljaleysi til að greiða sinn skerf til samneyslu. Eða bara græðgi. Það að nýta sér „skattahagræði“, eða jafnvel „skattasniðgöngu“, var hins vegar löglegt. Fólki sem hafði fjármagnstekjur var gert það mögulegt af þeim sem settu lög hérlendis að komast hjá því að borga sömu skatta og venjulegt fólk þarf að greiða. Þess vegna kom ekkert rosalega á óvart þegar Seðlabankinn opinberaði það í vikunni að 36 prósent alls þess fjár sem streymdi á brunaútsöluna Íslands eftir hrunið í gegnum fjárfestingarleiðina kom frá Lúxemborg og Sviss, þeim tveimur löndum sem efnaðir Íslendingar horfa aðallega til þegar þeir vilja geyma peninganna sína, sem urðu til á Íslandi, í vari frá íslenskri skattheimtu.
Elítuleið
Þetta er líka áhugavert í samhengi við nýja rannsókn sem sýnir að íslenskt þjóðfélag er lagskipt og það er gjá milli elítu og almennings. Sterk tengsl eru á milli elítu viðskipta- og atvinnulífsins annars vegar og félags- og hagsmunasamtaka, til dæmis stjórnmálaflokka, hins vegar. Auk þess tengjast valdamiklir aðilar í fjölmiðlum og stjórnsýslu elítuhópum úr mörgum atvinnugreinum.
Í ljósi þess að umrædd elíta á þorra raunverulegs fjármagns (þegar búið er að draga frá eigið fé í húsnæði, sem er ekki mjög nýtanleg eign fyrir flesta en það eina sem venjulegt launafólk eignast) má vel draga þá ályktun að elíturnar hafi fyrst og síðast getað nýtt sér þessa fjárfestingarleið. Fengið afslátt á eignum á Íslandi og heilbrigðisvottorð á peninganna sem þeir komu fyrir á lágskattarsvæðum fyrir hrunið.
Og hlæi nú alla leið í bankann.