Í morgun birti Kjarninn fréttaskýringu sem unnin er upp úr úrskurði yfirskattanefndar í máli hjónanna Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur. Í henni eru engar ályktanir dregnar heldur sagt frá þeim staðreyndum sem fram koma í þeim úrskurði. Þær staðreyndir eru eftirfarandi:
Þann 13. maí 2016 skrifaði umboðsmaður hjónanna bréf til ríkisskattstjóra. Þar óskaði hann eftir því að skattframtöl hjónanna fyrir árin 2011 til 2015 yrðu leiðrétt. Í bréfinu sagði umboðsmaðurinn orðrétt að ekki væri „útilokað að réttara hefði verið að haga skattskilum kærenda gjaldárið 2011 og síðar eftir efni 57. gr. a laga nr. 90/2003, sbr. 3. gr. laga nr. 46/2009, og reglugerðar nr. 1102/2013, um skattlagningu vegna eignarhalds í lögaðilum á lágskattasvæðum (CFC-reglum). Væru skattstofnar kærenda gjaldárin 2011 til og með 2016 því leiddir fram í erindinu í samræmi við framangreindar reglur.“
Hvað þýðir þetta? Jú, umboðsmaður þeirra hjóna, sem samkvæmt grein Sigmundar Davíðs í Fréttablaðinu í dag er endurskoðandi, sendir bréf til skattyfirvalda þar sem hann tilkynnir þeim að hjónin hafi ekki gert upp í samræmi við lög og reglur. Það er því ekki ályktun Kjarnans að skattframtal þeirra hjóna hafi ekki verið í samræmi við lög og reglur, heldur segir umboðsmaður þeirra það sjálfur.
Vert er að taka fram að þetta þarf ekki að vera refsiverð háttsemi. En það breytir því ekki að hjónin töldu ekki fram með réttum hætti og óskuðu þess, eftir að hafa verið opinberuð fyrir heimsbyggðinni í umfjöllun um Panama-skjölin, að fá að leiðrétta það.
Skattgreiðslur hækkaðar
Þetta bréf í maí 2016 leiddi til þess að ríkisskattstjóri ákvað að endurákvarða auðlegðarskatt sem þau greiddu vegna áranna 2011 til 2014, að embættið endurmat hagnað vegna tekjuársins 2010 og ákveður að hækka stofn til tekjuskatts og útsvars hjá eiginkonu Sigmundar Davíðs. Samhliða lækkaði hann skattgreiðslur á Sigmund Davíð sjálfan. Öllu ofangreindu una hjónin og gangast þar með við því að hafa ekki talið rétt fram um árabil. Vegna þessa hækkuðu skattgreiðslur þeirra um upphæð sem ekki hefur komið fram, enda kærðu þau ekki þennan hluta úrskurðar ríkisskattstjóra, heldur sættu sig við hann.
Í aðdraganda þess að þau tilkynntu ríkisskattstjóra um það að þau hefðu ekki talið rétt fram þá létu hjónin gera ársreikninga fyrir Wintris, aflandsfélagið sem hýsir umtalsverðar eignir þeirra, nokkur ár aftur í tímann. Þau ákváðu að hafa þessa ársreikninga í íslenskum krónum þrátt fyrir að félagið væri með heimilisfesti erlendis, sýslaði einungis með erlendar eignir og átti viðskipti í erlendum gjaldmiðlum. Þetta gerði þeim kleift að telja fram gengistap vegna sveiflna á gengi íslensku krónunnar, sem átti að nýtast sem uppsafnað tap gegn framtíðar skattgreiðslum. Ríkisskattstjóri taldi þetta ekki standast lög og hafnaði þessum breytta útreikningi á gengishagnaði síðustu ára. Hann endurákvarðaði síðan á hjónin og þau greiddu þær viðbótar skattgreiðslur.
Þau sættu sig hins vegar ekki við niðurstöðu ríkisskattstjóra varðandi uppgjörsmynt Wintris. Þann lið, og þann lið einan, kærðu þau til yfirskattanefndar.
Ofgreiddu einungs vegna eins liðar
Þegar hér var komið til sögu höfðu Sigmundur Davíð og Anna Sigurlaug því greitt viðbótar greiðslur vegna leiðréttra skattframtala sinna mörg ár aftur í tímann. Skattgreiðslur sem þau hefðu ekki greitt ef þau hefðu ekki sóst eftir því rúmum mánuði eftir að Sigmundur Davíð sagði af sér sem forsætisráðherra að fá að leiðrétta skattframtöl sín þannig að þau væru í samræmi við lög og reglur.
Yfirskattanefnd komst svo að þeirri niðurstöðu 22. september síðastliðinn að hjónin hefðu mátt gera Wintris upp í íslenskum krónum. Því hefðu þau ofgreitt skatta vegna þessa eina álagningarliðar. Hvergi í úrskurði yfirskattanefndar kemur fram hvort að þessi niðurstaða geri það að verkum að hjónin séu í plús eða mínus vegna þess að þau töldu ekki fram í samræmi við lög og reglur og greiddu viðbótarskatta vegna þess eftir á. Engu slíku er haldið fram í fréttaskýringu Kjarnans, sem byggir bara á úrskurði yfirskattanefndar og þeim staðreyndum sem þar eru settar fram.
Samandregið þá liggur fyrir að forsætisráðherrahjónin fyrrverandi höfðu ekki ofgreitt skatta áður en að fjölmiðlar opinberuðu Wintrismálið í fyrravor. Það liggur ekkert fyrir um hversu mikla viðbótargreiðslur þau greiddu vegna viðbótarauðlegðarskatts, endurmati á hagnaði tekjuársins 2010 og hækkunar á skattstofni til tekjuskatts og útsvars.
Eina sem liggur fyrir er að hjónin ofgreiddu skatta af breyttum útreikningi á gengishagnaði eftir niðurstöðu ríkisskattstjóra í desember síðastliðnum.
Spunameistarar ásaka aðra um spuna
Dagurinn í dag hefur verið áhugaverður. Hópur fólks sem fylgir Sigmundi Davíð að því er virðist í blindni hefur farið mikinn á samfélagsmiðlum og ráðist að hörku á þá sem benda á staðreyndir málsins.
Þetta ástand svipar mjög til þess sem var við lýði síðustu daga marsmánaðar í fyrra, þegar m.a. þingmenn réðust af fordæmalausri hörku að fjölmiðlum sem unnu einungis að því markmiði að upplýsa almenning. Þær raddir þögnuðu fljótt eftir að frægur Kastljósþáttur var sýndur sunnudaginn 3. apríl 2016, en í þeim þætti laug Sigmundur Davíð þegar hann var spurður út í tilvist Wintris og rauk síðan út úr viðtali.
Sigmundur Davíð bregst sjálfur við með þessum hætti í stöðuuppfærslu á Facebook í dag. Þar beinir hann augljóslega orðum sínum til mín og Kjarnans. Þar segir hann ýmsa ekki láta sig staðreyndir málsins varða og bætir við orðrétt: „Þegar allt liggur nú fyrir með formlegum hætti eru þeir hinir sömu langleitir mjög, skilja ekki neitt í neinu en reyna að klippa setningar sundur og saman, snúa út úr og spinna.
Og tvískinnungurinn er aldrei langt undan. Fremstir fara þeir sem öðrum fremur töluðu máli vogunarsjóða og menn eins og þeir sem skrifuðu um mig grein undir fyrirsögninni „Óvinur númer 1“ fyrir að tala fyrir skuldaleiðréttingu. Já, og eru jafnvel fjármagnaðir af þeim sem staðnir hafa verið að því að geyma eignir sínar í raunverulegum skattaskjólum.“
Við þetta framlag stjórnmálamanns, fyrrverandi forsætisráðherra þjóðarinnar, er ansi margt að athuga. Í fyrsta lagi fjallar hann ekki með neinum hætti efnislega um málið. Hann hrekur ekkert af því sem fram kemur í fréttaskýringu Kjarnans, enda getur hann það ekki þar sem hún byggir á því sem fram kemur í opinberum úrskurði yfirskattanefndar. Sigmundur Davíð segir því þá sem styðjast við staðreyndir vera að láta sig þær engu varða. Sem er eins og að segja að svart sé hvítt eða að upp sé niður.
Í öðru lagi er það rétt að ég skrifaði leiðara þegar ég starfaði á Fréttablaðinu í aðdraganda kosninganna 2013 sem bar fyrirsögnina „Óvinur númer 1“. Sá leiðari fjallaði um það að skuldaleiðrétting þeirra sem voru með verðtryggð lán, og gefið var í skyn á þessum tíma að gæti kostað um 240 milljarða króna, myndi hafa fleiri neikvæðar afleiðingar en jákvæðar. Í ljósi þess var sagt í niðurlagi leiðarans: „hver þarf á óvini að halda þegar hann á vin eins og Framsókn?“
Blessunarlega varð ekkert af aðgerð að þeirri stærðargráðu sem hótað var í aðdraganda kosninganna. Niðurstaðan varð að „bara“ 72,2 milljarðar króna voru millifærðir úr ríkissjóði til hluta landsmanna, að mestu til þeirra sem áttu eða þénuðu mest.
Hagsmunir almennings
Andstaðan við skuldaleiðréttingu hefur aldrei byggst á hagsmunum vogunarsjóða líkt og Sigmundur Davíð og fylgjendur hans þreytast seint við að reyna að sannfæra fólk um. Hún snýst þvert á móti um hagsmuni almennings og byggir á sanngirnisrökum.
Legið hefur fyrir árum saman, meðal annars í greiningum Seðlabanka Íslands, að vogunarsjóðir og aðrir kröfuhafar föllnu bankanna myndu ekki fá að yfirgefa íslenskt hagkerfi nema að þeir myndu gefa nægilega mikið eftir af eignum sínum til að greiðslujöfnuði íslenska þjóðarbúsins yrði ekki ógnað. Þeir peningar sem notaðir voru í Leiðréttinguna, og náð var inn í ríkissjóð með hækkun á bankaskatti, voru því fyrirframgreiðsla á því sem síðar var kallað stöðugleikaframlög. Þetta voru alltaf peningar sem vogunarsjóðir og aðrir kröfuhafar urðu að skilja eftir hér. Gagnrýni á Leiðréttinguna hefur falist í að þessum peningum hafi verið ráðstafað til hluta þjóðarinnar, meðal annars stórra hópa sem áttu miklar eignir og þurftu ekkert á þessum peningum að halda, í stað þess að þeir hafi verið nýttir í samneyslu þar sem þeir myndu gagnast öllum íbúum landsins.
Árum saman hafa þeir sem gagnrýnt hafa Leiðréttinguna þurft að sæta því að vera ásakaðir um að ganga erinda einhverra vogunarsjóða. Kjarninn hefur þurft að sitja undir slíkum atvinnuróg frá því að hann var stofnaður, án þess að hægt sé með nokkrum hætti að sýna fram á nokkur þau tengsl sem ýjað er að. Samt er stór hópur áhrifamanna, meðal annars tveir fyrrverandi forsætisráðherrar, sem halda þessum róg stanslaust fram. Kjarninn hefur margsinnis svarað þessum ávirðingum með vísun í gögn og þeir sem hafa haldið þessu fram eiga það allir sameiginlegt að geta ekki borið neitt fram sem styður við þær.
Það verður ekki ítrekað nægilega oft hversu alvarlegar ásakanir er um að ræða. Í þeim felst að fjölmiðill sigli undir fölsku flaggi og gangi erinda fjármálaafla. Þessar ásakanir hafa valdið Kjarnanum gríðarlegu tjóni.
Spuni étinn hrár
Lykilatriðið í þessari aðferðarfræði, þessari gaslýsingu, er að ásaka aðra um að horfa fram hjá staðreyndum en geta ekki bent á neinar staðreyndir sem styðja mál viðkomandi. Með því að hengja sig í aukaatriði, eins og að skattar hafi verið ofgreiddir af einum lið skattskila þeirra hjóna án þess að tilgreina þær viðbótargreiðslur sem þau þurftu að greiða vegna annarra liða sem voru hækkaðir við endurákvörðun skatta, þá er búinn til spuni sem á sér ekki stoð í veruleikanum. Spuni sem einn stærsti fjölmiðill landsins tók virkan þátt í að setja fram og undirbyggja í morgun og aðrir átu hrátt upp án þess að lesa úrskurð yfirskattanefndar. Það er ekki hlutverk fjölmiðla að taka þátt í spuna heldur að sjá í gegnum hann og upplýsa almenning um það sem raunverulega hefur átt sér stað. Mjög hefur vantað upp á að stærstu meginstraumsmiðlar Íslands hafi haft það að leiðarljósi við vinnslu frétta af úrskurði yfirskattanefndar í máli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.
Þar birtast ófrávíkjanlegar staðreyndir. Sú mikilvægasta er að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og eiginkona hans viðurkenna, í bréfi sem umboðsmaður þeirra sendi til ríkisskattstjóra 13. maí 2016, að þau hafi ekki greitt skatta í samræmi við lög og reglur. Og greiða viðbótargreiðslur í ríkissjóð vegna þess.
Það er mjög fréttnæmt og almenningur á rétt á að fá að vita um þessar upplýsingar. Því hlutverki stóð Kjarninn undir í morgun.