Íslendingar hafa búið við nánast fordæmalausa efnahagslega velsæld á undanförnum árum. Hagvöxtur hefur verið hér á hverju ári frá árinu 2011. Mestur var hann í fyrra, þegar hagvöxtur var 7,4 prósent. Það er einn mesti hagvöxtur sem mældist í heiminum það árið.
Samhliða hefur íslenska krónan styrkst um tugi prósenta og verðbólga haldist undir markmiðum, sem hefur leitt af sér mikla kaupmáttaraukningu. Það er einfaldlega góðæri. Mesta góðæri sem Íslendingar hafa upplifað.
Lítil breyting virðist fram undan. Í nýrri Þjóðhagsspá Hagstofu Íslands er gert ráð fyrir að hagvöxtur hérlendis verði 4,9 prósent í ár og 3,1 prósent á næsta ári. Á árunum 2019-2023 er því spáð að hann verði 2,6 prósent árlega að meðaltali. Gangi sú spá eftir hefur verið góður hagvöxtur á Íslandi samfleytt í 13 ár. Veislan á að halda áfram.
Tvær meginástæður eru fyrir þessum mikla vexti. Og hvorug þeirra hefur nokkuð með stjórnmál að gera. Sú fyrri er makríll, sem synti inn í íslenska landhelgi í feikilegu magni þegar við þurftum mest á einhverju óvæntu að halda til að bjarga þjóðarskútunni. Hin síðari, og sú stærsta, er síðan gríðarlegur vöxtur í ferðaþjónustu sem hefur skilað því að sú stoð hagkerfisins er orðin sú stærsta sem það hvílir á.
Útlendingum fjölgar gríðarlega hratt
En það er líka hægt að kafa aðeins dýpra eftir ástæðunni. Þessi mikli vöxtur hefur nefnilega útheimt mikið vinnuafl. Vinnuafl sem var ekki til staðar á Íslandi og þurfti því að sækja annað. Eða réttara sagt til útlanda.
Í lok árs 2011 voru erlendir ríkisborgarar sem bjuggu á Íslandi 20.957 talsins. Þeim hafði fækkað árin á undan í ljósi þess að hrunið hafði skilið eftir sig atvinnuleysi sem slagaði upp í tveggja stafa tölu, verðbólgu sem fór hæst upp í um 18 prósent og tugprósenta gengisfall íslensku krónunnar.
Um síðustu áramót voru erlendir ríkisborgarar 30.275 talsins. þeim fjölgaði því um 9.318 á sex árum. Mest var fjölgunin í fyrra, þegar fjöldi þeirra jókst um 3.790.
Í nýbirtri mannfjöldaspá Hagstofu Íslands er því spáð, samkvæmt miðspá, að alls muni aðfluttum íbúum á Íslandi umfram brottflutta fjölga um 23.385. Samkvæmt háspá yrði sá fjöldi 33.734. Þeir eru nær einvörðungu erlendir ríkisborgarar. Erlendum ríkisborgurum sem hér búa ætti því að fjölga um 77-111 prósent á fimm ára tímabili. Það eru ótrúlegar breytingar.
En líklega er þessi mannfjöldaspá að vanmeta fjölgun útlendinga. Að minnsta kosti miðað við tölur ársins í ár. Það hefur nefnilega orðið sprenging í komu erlendra ríkisborgara. Á fyrstu níu mánuðum þessa árs fjölgaði þeim um 6.310 talsins, eða um tæplega 21 prósent. Á níu mánuðum!
Það er langt yfir háspá Hagstofunnar fyrir árið 2017.
Gætu orðið fleiri en við eftir átta ár
Fyrir liggur að uppistaðan í þessum hópi er að koma hingað til lands til að starfa í t.d. ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Þar verða flest störf til á Íslandi þessi misserin og þau er nauðsynlegt að manna til að svala eftirspurn. Einnig er um að ræða, í mörgum tilvikum, láglaunastörf sem Íslendingar sækja ekki mikið í að vinna. Fyrir utan að það eru einfaldlega ekki nógu margir Íslendingar til svo hægt sé að manna þau.
Í grein í síðustu Tíund, eftir Pál Kolbeins rekstrarhagfræðing, var fjallað um álagningu skatta á einstaklinga á síðasta ári. Þar kemur fram að erlendum skattgreiðendum á Íslandi fjölgaði um 27,3 prósent í fyrra. Á því ári var einn af hverjum átta framteljendum til skatts erlendur ríkisborgari. Þá eru ekki meðtaldir þeir útlendingar sem hlutu íslenskan ríkisborgararétt árið 2016, en hluti fjölgunar á íslenskum skattgreiðendum er rakin til þeirra. Um síðustu áramót voru erlendir ríkisborgarar á skattgrunnskrá 35.414 talsins, eða 12,4 prósent skattgreiðenda.
Erlendir ríkisborgarar á meðal íslenskra skattgreiðenda hafa aldrei verið jafn margir og þeir voru þá. Í grein Páls kemur fram að ef útlendingum á skattskrá heldur áfram að fjölga jafn mikið og þeim fjölgaði í fyrra, um 27,3 prósent á ári, þá verða þeir orðnir fleiri en Íslendingar eftir átta ár. Það er árið 2024.
Líkt og áður sagði þá liggur þegar fyrir að útlendingum mun að öllum líkindum fjölga meira hérlendis í ár en þeim fjölgaði í fyrra. Því gæti orðið styttra í þessa stöðu en boðuð átta ár.
Jákvæð áhrif
Hvaða áhrif hefur þessi mikla fjölgun haft á íslenskt velferðarkerfi? Hafa útlendingarnir sem hingað flytja lagst eins og mara á það? Tölurnar benda ekki til þess.
Þvert á móti drógust greiðslur sveitarfélaga vegna félagslegrar framfærslu saman í fyrra. Þá námu greiðslur sveitarfélaga í húsaleigubætur, félagslega aðstoð og styrki alls 2,6 milljörðum króna. Það er 848 milljónum krónum minna en árið áður og samdráttur í slíkum greiðslum upp á 24,4 prósent.
Sömu sögu er að segja af útgreiðslu atvinnuleysisbóta. Árið 2009 fengu tæplega 28 þúsund manns samtals 23,2 milljarða króna greiddar í slíkar. Í fyrra fengu tæplega tíu þúsund manns 7,8 milljarða króna í atvinnuleysisbætur. Heildarkostnaður vegna þeirra lækkaði um milljarð króna á milli ára og árlegur kostnaður hefur lækkað um 15,4 milljarða króna á sjö árum. Þá fækkar þeim sem þiggja bæturnar ár frá ári, og hefur alls fækkað um 18 þúsund frá árinu 2009. Frá þeim tíma hefur erlendum ríkisborgurum sem búa á Íslandi fjölgað um 15 þúsund.
En hvað með glæpi? Fylgja þessum aukna fjölda útlendinga ekki aukin glæpatíðni? Nei, ekki samkvæmt afbrotatölfræði.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu birti í síðustu viku skýrslu um framin hegningarlagabrot á svæðinu á árinu 2016. Þar kom fram að tilkynningum um hegningarlagabrot hafa fækkað á því ári í samanburði við árið á undan. Tilkynnt brot eru miklu færri en þau voru árið 2009. Þá voru þau rúmlega fjórðungi fleiri en í fyrra.
Óumflýjanlegar samfélagsbreytingar
Haldi þessi þróun áfram munum við upplifa meiri samfélagsbreytingar á örfáum árum en nokkru sinni áður hérlendis. Útlendingum mun fjölga um tugi prósenta á skömmum tíma.
Nokkur dæmi er hægt að taka því til stuðnings. Stærsti hópur erlendra ríkisborgara sem hér búa eru Pólverjar. Þeir voru 13.795 í byrjun þessa árs og hafði þá fjölgað um 7.799 á einum áratug, eða 130 prósent. Það eru aðeins færri en búa á öllu Vesturlandi og fleiri en búa á öllu Austurlandi. Á sama tímabili hefur Litháum á Íslandi fjölgað um eitt þúsund, eða 110 prósent. Það búa nú um 200 fleiri Litháar á Íslandi en búa í öllum Sandgerðisbæ. Ekkert bendir til annars en að áfram muni fjölga í þessum tveimur hópum.
Í Reykjanesbæ einum saman hefur íbúum fjölgað mikið á undanförnum árum, sérstaklega vegna návígis við alþjóðaflugvöllinn þar sem fjölmörg störf verða til á hverju ári. Á árinu 2016 einu saman urðu til um 1.300 störf á því svæði. Búist er við því að þau verði 1.045 í ár. Þessi störf eru mönnuð fyrst og síðast með útlendingum.
Áætlað er að íbúar Reykjanesbæjar verði 17.300 í lok þessa árs. Þeim hefur þá fjölgað um rúmlega 3.300 frá árinu 2011. Á sama tíma hefur erlendum ríkisborgurum sem búa í sveitarfélaginu fjölgað úr 1.270 í 2.660. Því er 42 prósent af íbúafjölgun í Reykjanesbæ á undanförnum árum tilkomin vegna erlenda ríkisborgara. Því er spáð að störfum á Keflavíkurflugvelli muni fjölga um 2.513 á næstu fjórum árum. Þau þarf að manna með erlendum ríkisborgurum sem flytja hingað, annað hvort einir eða með fjölskyldum sínum. Því má búast við að erlendum íbúum Reykjanesbæjar fjölgi um mörg þúsund í nánustu framtíð og verði allt að 30 prósent íbúa sveitarfélagsins.
Flestir Íslendingar hræðast ekki útlendinga lengur
Sem betur fer virðast Íslendingar verða frjálslyndari og opnari með hverju árinu. Og betur í stakk búnir til að takast á við þessar mestu breytingar á samsetningu íbúa landsins sem nokkru sinni hafa átt sér stað hérlendis. Í niðurstöðum íslensku kosningarannsóknarinnar töldu 34,6 prósent Íslendinga að innflytjendur væru alvarleg ógn við þjóðareinkenni okkar árið 2007. Í fyrra var það hlutfall komið niður í 17,8 prósent, og hafði því helmingast. Einungis kjósendur Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks eru enn jafn hræddir við útlendinga í dag og þeir voru fyrir áratug síðan.
Íslenska góðærið er tilkomið að stóru leyti vegna þess að hingað til lands hefur flutt gríðarlega stór hópur af harðduglegu fólki sem hefur verið tilbúin að ganga í þau störf sem við annað hvort höfum ekki mannskap í eða viljum einfaldlega ekki vinna.
Því fylgja eðlilega miklar breytingar á okkar einsleita samfélagi. Við þurfum að vera undir þessar breytingar búin og þurfum að aðlaga öll kerfin okkar að þeim áskorunum sem fylgja svona mikilli fjölgun útlendinga.
En við eigum líka að vera þessu fólki ákaflega þakklát. Það hefur leikið lykilhlutverk í íslenska góðærinu. Takk fyrir okkur.