Þetta var reyndar róbóta ryksuga, sem ryksugar sjálf. En þegar ég útskýrði það fyrir vinum og vandamönnum, sem forvitnuðust um hvað ég ætlaði að gefa henni, þá settu þeir samt upp smá hneykslunarsvip. En ég er viss um að ef fólk hefði nennt að hlusta á útskýringar mínar, þá hefði eflaust dregið eitthvað úr hneykslunarsvipnum.
Konan mín og ég erum nefnilega bæði hagfræðingar, jafn gömul og vinnum svo gott sem sama starf hjá sama fyrirtæki. Helsti munurinn á okkur er sá að hún var mikið duglegri á sínum yngri árum og varð það til þess að hún dúxaði í menntaskóla og grunnnáminu í háskólanum í Freiburg (hún er Þjóðverji). Fyrir vikið fékk hún styrk til þess að lesa hagfræði við Cambridge háskólann í Bretlandi þar sem hún útskrifaðist með meistarapróf. Eftir útskrift fór hún beint til London og hóf störf hjá ráðgjafaskrifstofu þar sem hún vinnur enn í dag. Það var um það leyti sem gafst ég upp á því að reyna að meika það sem tónlistarmaður ég skellti mér í grunnnám í HÍ.
Fimm árum seinna var ég búinn að vinna mér inn sömu gráðu og Hanna (reyndar ekki frá Cambridge en þokkalegum skóla á Nýja Sjálandi). Ég flutti til London í leit að vinnu og landaði starfi hjá sama fyrirtæki og Hanna. – sem var þá komin með 5 ára starfsreynslu.
Sem sagt: konan mín, Hanna, hefur sömu menntun (frá betri skóla) og ég; hún hefur mikið meiri starfsreynslu og er þar af leiðandi mikið betri en ég í þessu starfi. Og sem betur fer gerir þetta það að verkum að hún gegnir ekki bara hærri stöðu í fyrirtækinu sem við vinnum í heldur er hún líka með hærri laun. Eins og það á að vera, alltaf.
Þar sem Hanna er með hærri laun en ég, þá þýðir það líka að fórnarkostnaður Hönnu vegna ryksugutengdra verkefna er að öllu jöfnu hærri en minn. Það er að segja, fyrir hverja stund sem hún eyðir í að ryksuga getur hún ekki unnið borguð störf (eða gert eitthvað annað sem hún metur jafn mikils virði).
Ef ég, sem hagfræðingur, án frekari upplýsinga um einstaklingana, ætti að ráðleggja okkur tveimur, þá mundi ég leggja það til að karlinn (ég!) sem hefur lægri fórnarkostnað af því að ryksuga, sæi um alla ryksugun á heimilinu. En í staðinn ryksuga ég allt of sjaldan.
Hvers vegna ryksuga ég ekki?
Staðreyndin er sú, að eins og allt of margir karlar, þá semur mér ágætlega við ryk. Það böggaði mig ekkert sérstaklega þegar ég bjó einn og þá ryksugaði ég ekki oft. Hanna aftur á móti þolir ekki ryk og vill helst að íbúðin sem við búum nú saman í sé ryksuguð tvisvar í viku.
Þetta gerir það að verkum að þegar líða tekur á vikuna og ryk byrjar að safnast saman í hornum og undir rúminu, þá pæli ég lítið í því. Á sama tíma sér Hanna rykið safnast saman og mynda bómullarhnoðra sem verða ógeðslegri og ógeðslegri með hverjum degi. Og þar af leiðandi endar hún oftast á því að grípa ryksuguna og gera allt fínt.
Nú ber að taka það fram að mér er ekki alveg sama um ryk. Staðreyndin er sú að ég kann betur við íbúðina mína ryklausa en fulla af bómullarhnoðrum. Hanna hefur bara minni þolinmæði fyrir ryki. Þar af leiðandi er það ég sem flýt áfram (e. free-ride) á hennar standard. Og það er því staðan á heimilinu undir því sem ákjósanlegt er (e. suboptimal).
Markaður fyrir ryksuguvinnu
Í dag eyðum við samanlagt um klukkustund á viku í að ryksuga. Það skiptist nokkurn veginn þannig að ég ryksuga í aðeins meira en núll klukkustundir á meðan Hanna ryksugar um það bil í eina klukkustund. Þar sem það er ekki möguleiki fyrir okkur að borga utanaðkomandi fyrir að ryksuga þá virðist eina markaðslausnin vera að koma á fót heimilismarkaði fyrir ryksugun. Eftir allt er markaðsbresturinn sem við stöndum frammi fyrir einfaldlega sá að það er ekki neinn markaður til staðar. En hver yrði útkoman á slíkum markaði?
Hanna er með um það bil 30% hærri laun en ég. Hún gæti því unnið einn yfirvinnutíma á viku (sem er raunsætt þar sem við erum bæði, sjálfviljug, í 80% vinnu) og borgað mér fyrir að ryksuga. Út frá hagfræðilegum sjónarmiðum, þá væri þeta nettó ávinningur fyrir okkur bæði: Hanna þyrfti ekki lengur að ryksuga; ég fengi allt upp að 30% meira borgað í klukkutíma af ryksugi en í vinnunni; og við byggjum saman í jafn hreinni íbúð og áður.
En þó svo að eigum lítinn róbóta, þá erum við ekki hagfræðiróbótar. Við erum passlega skynsöm til þess að átta okkur á því að of mikil skynsemi gæti dregið úr rómantíkinni á heimilinu og þess vegna er sú óskynsama ákvörðun að opna ekki heimilismarkað mögulega skynsamasta ákvörðunin sem við getum tekið. En það þýðir það að markaðsbresturinn er enn til staðar. Hanna ryksugar of mikið og ég ryksuga of lítið. En ekki mikið lengur.
Róbóta ryksugan leysir vandamálið
Sem betur fer er það þannig að sum verkefni er hægt að leysa annaðhvort með mannlegu striti (e. labour) eða með fjármunum (e. capital). Ef það er ódýrara að kaupa græju en að borga einstaklingi fyrir að framkvæma sama verk, þá er sjálfsagt að kaupa græjuna frekar en að borga einstaklingnum.
Róbóta ryksugan kostaði mig um það bil 62.000 krónur. Ég veit ekki hversu lengi róbótinn endist, en þessi kemur með tveggja ára ábyrgð. Ryksugan ætti því, að lágmarki, að spara okkur um það bil 104 klukkustundir af ryksugi. Sem þýðir að tímakaup hennar er rétt rúmlega 500 Kr. – sem er mikið minna en fórnarkostnaður (það er tímakaup) okkar beggja!
Gjöfin mín er því ekki beint róbóti, heldur er það lausn á litlum markaðsbresti sem á sér stað á heima hjá okkur sem kemur fyrst of fremst niður á konunni minni. Útkoman er það sem skiptir máli, ég er í eins góðum málum og áður en Hanna hefur grætt 104 klukkustundir. Sem er slatti af klukkutímum.