Í Bandaríkjunum er maður forseti sem sýnir af sér, hið minnsta, fasískar áherslur. Hann aðhyllist einangrunarhyggju, hefur hafið tollastríð við helstu viðskiptalönd Bandaríkjanna, ræðst með hætti á helstu bandamenn landsins á opinberum vettvangi sem áður hefur verið einskorðað við óvinaþjóðir í aðdraganda stríðsreksturs og mærir einræðisherra á borð við Duterte og Kim Jong Un opinberlega. Þá hefur sami forseti talað m.a. fyrir því að Rússlandi verði hleypt aftur inn í G7-ríkja hópinn, sem landinu var sparkað úr fyrir að ráðast inn í annað land, Úkraínu, og hertaka hluta þess.
Á Íslandi situr fyrrverandi forsætisráðherra á ritstjórastóli í boði sérhagsmunahópa og þiggur fyrir tæpar sex milljónir króna á mánuði. Hluti þeirra greiðslna koma frá áðurnefndum sérhagsmunahópum, flestum tengdum sjávarútvegi, og restin kemur frá skattgreiðendum þessa lands, að stærstum hluta vegna eftirlaunalaga fyrir elítu sem samþykkt voru á meðan að Davíð Oddsson var forsætisráðherra.
Trumpism, íslenska útgáfan
Það hefur ekki farið fram hjá neinum sem les ritstjórnarskrif Morgunblaðsins að Davíð er mikill aðdáandi Trump, og ver aðgerðir hans ítrekað í leiðaraskrifum og Reykjavíkurbréfum. Þar ríkir ánægja með „sterka manninn“, sem margir kalla „freka kallinn“.
Á sama tíma er Davíð búinn að koma sér vel fyrir á „falsfrétta-vagninum“. Hann tekur ítrekað undir órökstudda gagnrýni á umfjöllun stórra meginstraumsmiðla sem styðjast við staðreyndir í fréttaflutningi og hefur að mörgu leyti yfirfært þá gagnrýni sína á fjölmiðla hérlendis, sem beinist sérstaklega að fréttastofu RÚV, sem hann setur ætíð innan gæsalappa líkt og um gervieiningu sé að ræða.
Nú hefur Davíð innleitt nýtt stílbragð, sem er að setja „fréttaflutning“ innan gæsalappa. Sama má segja um „fréttaskýrendur“. Lykillinn í þessari aðferðarfræði er að rökstyðja aldrei mál sitt með vísun í staðreyndir, heldur að tala um skoðanir sínar eða pólitískan áróður sem slíkar. Notast við valkvæðar staðreyndir (e. alternative facts), sem eru eðli málsins samkvæmt ekki staðreyndir heldur skáldskapur. Í grunninn snýst aðferðarfræði þeirra sem aðhyllast valkvæðar staðreyndir um það að ef þér finnst eitthvað, þá er það jafn rétt og jafnvel réttara en það sem hægt er að sýna fram á með gögnum eða annars konar staðreyndum. Þessar valkvæðu staðreyndir eru síðan notaðar í árásir á fjölmiðla sem leggja áherslu á að segja satt og upplýsa. Tilgangurinn er væntanlega sá að brjóta niður frjálsa og öfluga fjölmiðlun sem hornstein lýðræðisins, og eftirláta gerendum það að segja frá og skýra því sem á sér stað.
Þessari aðferðarfræði beitir Davíð og það gerir Trump líka, sem samkvæmt staðreyndagreiningu Washington Post setti fram 3.251 lygar eða afbakanir á fyrstu 497 dögum sínum á forsetastóli. Það gera 6,5 að meðaltali á dag.
Að kunna að gúggla
Í dag birtist leiðari í Morgunblaðinu þar sem Trump er komið, eins og svo oft áður, til varnar fyrir áherslur sínar og ákvarðanir. Þar er bæði fjallað um ferðabannið, sem beinist aðallega gegn múslimum, og nýteknar ákvarðanir um að aðskilja börn hælisleitenda frá foreldum sínum og loka þau sum hver inni í búrum.
Í leiðaranum birtast, að venju, umtalsvert magn af afbökunum og/eða lygum. Þ.e. valkvæðum staðreyndum sem ritstjórinn raðar upp til að rökstyðja stuðning sinn við Trump.
Það er rangt að Hæstiréttur Bandaríkjanna hafi komist að þeirri endanlegu niðurstöðu að Trump hafi ekki farið út fyrir valdsvið sitt með ásetningu ferðabannsins í upphafi forsetatíðar hans, sem beindist fyrst og síðast gegn múslimum. Sú útgáfa af ferðabanni Trump sem nú er til umfjöllunar er þriðja útgáfa þess. Stjórn Trump hefur notað niðurstöður úr dómsmálum vegna fyrstu og annarrar útgáfu bannsins til að sníða af lagalega vankanta á þriðju útgáfunni, sem er sú sem hélt fyrir Hæstarétti.
Það er líka rangt að vestrænir meginstraumsmiðlar, sem styðjast við staðreyndir í fréttaflutningi þótt að frjálslynd viðhorf í skoðanaskrifum sumra þeirra trufli afturhaldið í Hádegismóum, hafi ekki fjallað ítarlega um þá niðurstöðu sem þegar hefur komið frá Hæstarétti Bandarikjanna í málinu. Allir sem kunna að gúggla geta fundið þær ítarlegu fréttir og greiningar. Og frá byrjun desember 2017 hefur ferðabann gagnvart íbúum átta þjóðríkja (þeirra á meðal er nýjasta vinaþjóð Bandaríkjanna, Norður-Kórea), verið í gildi. Þúsundum hefur verið meinuð landvist í Bandaríkjunum á grundvelli þess.
Eitt af uppáhaldsstefum stuðningsmanna Trump þegar þeir verja ferðabann á ákveðin ríki er að fullyrða að forsetinn sé einfaldlega að fylgja eftir stefnu sem Obama hafi mótað í sinni forsetatíð. Þann málflutning má oft lesa í ritstjórnarskrifum Morgunblaðsins, m.a. í leiðara dagsins.
Þetta er rangt. Það sem Obama-stjórnin gerði árið 2011 var að kalla eftir endurskoðun á því sem kallast „a special immigrant Visa“. Þetta voru vegabréfsáritanir sem hópur Íraka sem hafði hjálpað Bandaríkjunum í Írakstríðinu gat sótt um til að komast til Bandaríkjanna. Um var að ræða mjög þrönga endurskoðunartilskipun sem hægði á innflæði þeirra flóttamanna sem sóttust eftir þessari áritun. Endurskoðunin var í gildi í hálft ár. Það má og á að gagnrýna Obama fyrir innflytjendastefnu hans. Hún var að mörgu leyti ekki góð. En þessi endurskoðun hans á ekkert sameiginlegt með tilskipun Trump.
Geta dómstólar stöðvað forseta?
Ritstjóri Morgunblaðsins gerir líka litið úr dómstólum í Bandaríkjunum, bæði á ríkis- og alríkisstigi, í leiðara dagsins og segir að niðurstöður þeirra haldi sjaldnast fyrir Hæstarétti. Ástæðan er auðvitað sú að þeir hafa úrskurðað að ferðabann Trump hafi verið ólögmætt.
Nú skal benda á tvennt, í fyrsta lagi fara örfá mál fyrir Hæstarétt og því má ætla að meginþorri allra mála sem dæmd eru i undirdómstigum haldi bara sannarlega. Í öðru lagi að flestir úrskurðir undirdómstiga gegn ferðabanni Trump snúast um þá ákvörðun að láta það líka gilda fyrir fólk sem er með græna kortið eða annars konar gilt landvistarleyfi.
Fyrir Hæstarétti er nú mál sem kallast Trump gegn Hawaii. Niðurstöðu er að vænta á næstu dögum. Þar er tekist á um þriðju útgáfu ferðabanns Trump og hvort að múslimaandúð Trump, sem er rökstudd með vísun í ummæli sem hann hefur látið falla á opinberum vettvangi, geri það að verkum að Trump sé að mismuna fólki á grundvelli trúarbragða og þjóðernis.
Það sé í andstöðu við stjórnarskrána en einnig séu undir lög frá 1965 sem segja að það megi ekki mismuna komufólki á grundvelli m.a þjóðernis, sem er nákvæmlega það sem ferðabann Trump gerir.
Í einföldu máli snýst málið um hvort dómstólar geti úrskurðað gegn ákvörðunum forsetans, sem fer með framkvæmdavaldið, ef þau telja þau ólögleg.
Gagnrýni á að börn séu sett í búr kölluð „ógeðfellt áróðursstríð“
Í leiðara Morgunblaðsins er líka fjallað um aðskilnað barna þeirra, sem koma til Bandaríkjanna til að leita hælis, frá foreldrum sínum. Þar segir m.a. að „Demókratar vestra sem höfðu misst niður fylgisforskot sitt töldu að þetta mál kynni að bjarga þeim í kosningunum í nóvember og að „í augnablikinu eru þessi ólánsömu börn notuð í ógeðfelldu áróðursstríði“. Davíð kallar síðan eftir að fréttamiðlar sem hann kallar í hæðni „vandaða“ skrúbbi burt áróðurinn.
Davíð leggur út frá því að stefna Obama um að skilja ekki að foreldra og börn flóttamanna, heldur að hleypa þeim saman inn í landið á meðan að mál þeirra yrðu til meðferðar hjá yfirvöldum, hafi leitt til þess að „flóttamenn komu eftir það flestir með börn“. Hann hendir svo upp fullyrðingum um að „lausn“ Obama hafi spurst út til flóttamannasmyglara sem hafi nýtt sér það. Davíð segir líka að „rökstuddur grunur“ sé um að þau séu í mörgum tilvikum „seld í kynlífsþjónustu eða þaðan af verra“.
Þetta er að mestu leyti rangt. Börnum innflytjenda/hælisleitenda sem fædd eru í öðru landi en koma til Bandaríkjanna fækkað umtalsvert það sem af er öldinni. Frá 2000 til 2016 fækkaði þeim um 21 prósent. Valkvæð staðreynd ritstjórans fellur því um sig sjálfa á fyrstu hindrun. Obama lét reyndar um tíma halda börnum og foreldrum þeirra sem komu ólöglega til Bandaríkjanna saman á árinu 2014. Það var harðlega gagnrýnt í fjölmiðlum og á opinberum vettvangi og því í kjölfarið hætt. Hér má svo lesa um það hvort og þá hvernig Obama stjórnin aðskildi fjölskyldur. Það var aðallega gert þegar grunur lék á að barnið tilheyrði ekki þeim sem kom með það, en það voru undantekningartilvik. Sem sýnir að staðhæfingar ritstjóra Morgunblaðsins um stórfellda nýtingu smyglara á börnum stenst ekki nánari skoðun.
Munurinn á „Zero tolerance“ stefnu Trump og því sem áður hefur verið við lýði í Bandaríkjunum er að nú hafa bandarísk stjórnvöld ákveðið að lögsækja alla hælisleitendur sem koma ólöglega til landsins fyrst sem glæpamenn í stað þess að þeir fái að sækja um hæli og fái í kjölfarið eðlilega málsmeðferð sem hælisleitendur. Þetta á að skapa fælingarmátt, og hluta af þeim fælingarmætti átti að skapa með því að taka um tvö þúsund börn af foreldrum sínum við landamærin á nokkurra vikna tímabili, loka þau inni í búrum með starfsfólki sem mátti hvorki hugga þau né taka upp. Þeirri ákvörðun hefur nú verið snúið vegna þess að allt fólk með snefil af mennsku sér að samkvæmt henni er verið að brjóta á börnum með ógeðfelldum hætti í pólitískum leik.
Þegar fasisminn læðist aftan að okkur
Við lifum á víðsjáarverðum tímum. Það er verið að ráðast að rótum þess kerfis sem tryggt hefur frið og fordæmalausa velmegun í hinum vestræna heimi frá lokum síðari heimstyrjaldar með því að binda hagsmuni þeirra saman.
Allt þetta kristallast í Trump en á sér fylgismenn víðar. Í Ungverjalandi er búið að banna hjálparsamtökum að aðstoða flóttamenn með lagasetningu, í Austurríki stjórna öfl sem reka mjög harða innflytjendastefnu, á Ítalíu er nýtekin við ríkisstjórn sem er af sama meiði, andstaða við innflytjendur nýtur vaxandi pólitísks fylgis í Þýskalandi og í Skandinavíu. Það er líka klár jarðvegur fyrir þennan málflutning á Íslandi, þótt að hreinir kynþáttahyggjuflokkar eins og Íslenska þjóðfylkingin og Frelsisflokkurinn hafi ekki náð neinum árangri. Það sést m.a. á áherslum sumra flokka sem sitja á þingi, sérstaklega Miðflokksins og Flokks fólksins, sem báðir leggja áherslu á hert landamæraeftirlit. Það skal þó sérstaklega tekið fram að hvorug stefnan er neitt í líkingu við það sem sést í nágrannalöndum okkar.
Ísland stendur því á tímamótum og málefni innflytjenda og hælisleitenda verða í brennidepli á næstu árum. Ástæðan er ekki sú að þetta séu vandamálahópar hérlendis – þvert á móti eru þeir nauðsynlegir áframhaldandi velsæld hérlendis – heldur vegna þess að málefnið er auðvelt tól fyrir tækifærissinnaða stjórnmálamenn til að hræða kjósendur með strámönnum og styrkja vald þeirra í stað þess að dreifa því enn frekar. Egill Helgason benti í nýlegum pistli á hvernig fasisminn læðist aftan að okkur. Það má taka undir að sú hræðilega hugmyndafræði virðist festast meir og meir í sessi, oft án þess að þeir sem taka undir hana átti sig á því. Og það er vert að benda á að jafnvel þótt dómstólar komist að þeirri niðurstöðu að Trump megi gera þetta og hitt, þá breytir það engu um hversu ógeðfelldar aðgerðirnar eru.
Áfram sömu tök á umræðunni
Hérlendis birtist stuðningur við þennan málflutning mjög skýrt í ritstjórnarskrifum Morgunblaðsins, þar sem blak er borið af fyrirferðamiklum leiðtogum þjóða sem boða hugmyndafræði sem snýst um samsömun ríkis og þjóðar og aðhyllast alls kyns takmarkanir á persónufrelsi, einangrunarhyggju, mannfyrirlitningu, kynþáttafordóma, jaðarsetningu ákveðinna hópa, ároðurs og lyga og aukins stjórnlyndis í lýðræðisríkjum. Leiðtogum sem takast hart á við aðrar stofnanir lýðræðisins sem eiga að veita þeim aðhald.
Þetta er mikilvægt að hafa í huga í ljósi þess að síðastliðinn tæpan áratug hefur Morgunblaðinu verið beitt mjög hart, með stuðningi forríkra sérhagsmunaaðila, til að fá „öðruvísi tök á umræðunni“.
Í ljósi þess að ritstjórinn tilkynnti nýverið að hann ætli sér að vera mörg ár til viðbótar á ritstjórastóli þá er þessi stuðningur hans við ofangreinda líklega eitthvað sem fellur í kramið hjá milljarðamæringunum sem borga launin hans.
Og því má búast við að áfram verði spilaður varnarleikur fyrir aðgerðir sem í felast að taka börn af foreldrum sínum og geyma þau í búrum.