Það var ólíklegur hópur sem fagnaði Hannesi eftir að hann varði vítaskotið frá Messi: hagfræðilúðar heimsins. „Ég vann heimavinnuna mína“ sagði Hannes við blaðamenn eftir leikinn. „Einnig stúderaði ég Messi og hvernig hann tekur vítaspyrnur. Og hvernig ég hef hegðað mér í markinu í vítaspyrnum, til þess að reyna að skilja hvernig þeir hugsa um mig.“
Það var ekki markvarslan sjálf sem kveikti áhuga hagfræðilúðana, heldur var það þetta svar Hannesar. Ástæðan: Hannes hegðaði sér nákvæmlega eins og hagfræði-módel tengd leikjafræði (í leik tveggja einstaklinga (eða fyrirtækja) sem þurfa að taka ákvörðun samtímis) segja til um.
Leikjafræði er eitt af lykiltólunum í verkfærakistu hagfræðinga. Með leikjafræði er hægt að rannsaka og spá fyrir um líklegar útkomur þegar tveir eða fleiri einstaklinga (eða fyrirtæki) þurfa að taka ákvarðanir sem hafa áhrif á velferð hvors annars.
Frægasta dæmið í leikjafræði hefur lítið með vítaspyrnur að gera. Kallast það fangaklemman og virkar svona: Bonny og Clyde eru í gæsluvarðhaldi sitt í hvorum fangaklefanum og geta ekki talað saman. Ef annað þeirra kjaftar frá en hitt heldur kjafti, þá fær sá sem hélt kjafti lífstíðardóm og kjaftvaskurinn fær að ganga laus; ef hvorugt þeirra kjaftar þá fá þau bæði eins árs dóm; en ef þau kjafta bæði frá þá fá bæði 10 ára dóm.
Í þessu tilfelli segir leikjafræði okkur það að ef bæði Bonny og Clyde hugsa bara um rassgatið á sjálfum sér þá sé best fyrir þau bæði að kjafta, sem hefur þá afleiðingu að þau fæ bæði 10 ára fangelsisdóm. Ástæðan er sú að sama hvað Bonny gerir er best fyrir Clyde að kjafta (og svo öfugt).
(Ef Clyde ákveður að kjafta þá er best fyrir Bonny að kjafta líka af því að 10 ár er betra en lífstíðar fangelsi; en ef Clyde ákveður að halda kjafti þá er betra fyrir Bonny líka að kjafta af því þá gengur hann laus í stað þess að sitja inni í eitt ár – og sama gildir fyrir Clyde.)
Það sem gerir fangaklemmuna sérstaklega áhugaverða er að sjálfselska leiðir til verri útkomu fyrir bæði Bonny og Clyde heldur en ef þau hefðu tekið ákvörðunina með hagsmuni hvors annars í huga (og hvort fengið aðeins eins ár dóm í staðin fyrir 10 ára dóm).
En þrátt fyrir að vera að mestu leiti stærðfræðilegt tól þá var hún það mikil snilld að fólk hikaði ekki við að nota leikjafræði við ákvörðunartöku. Henni var beitt í það að reikna út næsta leik í póker upp í að reikna út hversu stórt kjarnavopnabúr Bandaríkjanna ætti að vera til þess að koma í veg fyrir kjarnorkustríð.
Ástæðan fyrir því að leikjafræðin var að mestu leiti fræðilegt tól var sú að þegar hagfræðingar rannsaka ákvörðunartöku í hinum raunverulega heimi er erfitt að einangra hver gerir hvað hvers vegna og hvaða áhrif það hafði á útkomuna. Nema þegar það kemur að vítaspyrnu. Þar er klárt að markmaðurinn og skyttan taka ákvörðun á sama tíma, og hvor græðir ef þeir hafa rétt fyrir sér, en tapa ef þeir hafa rangt fyrir sér.
Eins og allir vita, þá er líklegra að markmaður verji ef hann velur sama horn og skyttan, og svo öfugt. Þetta gerir það að verkum að ef Hannes myndi alltaf henda sér í sama hornið þá væri auðvelt fyrir Messi að skora með því einfaldlega að skjóta í hitt hornið. Því myndi leikjafræðin segja manni það að best væri fyrir Hannes að kasta sér ekki alltaf í sama hornið. Og þegar kemur að Messi, ætti hann að velja hornið af handahófi, nema ef hann hafi haft ástæðu til þess að gruna að Messi sé líklegri til að skjóta til vinstri. Sem var nákvæmlega það sem Hannes gerði.
Árið 2002 rannsökuðu Steven S. Levitt og félagar hegðun markmanna og skyttna í 500 vítum í Frönsku deildinni. Þeir komust að því að leikmenn hegða sér eins og hagfræðimódelin spá fyrir um. Og kom því frammistaða Hannesar hagfræði-Twitter ekkert á óvart. Þeir höfðu lengi vel vitað að, meðvitað eða ómeðvitað, hegða góðir markmenn sér eins og Hannes. En sjaldan gerist það að markmenn lýsi ákvörðunartöku sinni svo skýrt. Hannes hefði allt eins getað verið að kenna leikjafræði í hagfræði 101. Og þess vegna er Hannes ekki bara stjarna okkar Íslendinga, heldur líka stjarna hagfræðilúða út um allan heim. HÚH fyrir því.