Um daginn birtist grein á Vísi um ákvörðun Haga að gangast að skilyrðum Samkeppniseftirlitsins (SE) til þess að fá samþykki eftirlitsins fyrir yfirtöku Haga á Olís. Í fyrirsögn greinarinnar segir að Hagar hafi ákveðið að „loka Bónus á Hallveigarstíg“. Þessi grein var skrifuð á þann hátt að auðveldlega var hægt að túlka hana sem svo að SE hefði neytt Haga til þess að loka verslun sinni, af því bara. Þar af leiðandi er eflaust heill hellingur af fólki sem las greinina (og hef ég séð þó nokkur dæmi þess á internetinu) og heldur í dag að SE sé í þeim bisness að ákveða hvaða búð skal vera opin hvar.
En staðreyndin er sú að greinin á Vísi er orðuð á villandi máta (eflaust óviljandi). Ef hún er lesin þá má lesa úr henni að SE hafi einfaldlega sagt Bónus að loka einni búð í 101. En það er ekki þannig sem SE vinnur. Tvö mikilvægustu hlutverk SE, að mínu mati, eru að:
- sjá til þess að stór fyrirtæki misnoti sér ekki stöðu sína til þess að græða fullt af pening á kostnað neytenda; og
- reyna að koma í veg fyrir að markaðir, þar sem einhver samkeppni ríkir í dag, breytist í fákeppnis- eða einokunarmarkaði.
Þetta er reyndar ekki orðrétt hlutverk þeirra, en á mannamáli er þetta hlutverk SE (fyrir þá sem kunna og nenna að lesa lögfræðsku með hagfræðskum hreim þá er hægt að lesa allt um SE á heimasíðu þeirra).
Venjulega þegar Samkeppniseftirlitið er í fréttunum tengist það fyrsta liðnum að ofan. Til dæmis var það frægt þegar Byko og Húsasmiðjan fóru í sæng saman til þess að hækka verð á timbri. Slíkar fréttir er oft þokkalega auðvelt að skilja: Byko og Húsasmiðjan töluðu saman, hækkuðu verð á timbri og allir sem keyptu þessa tegund timburs, beint eða óbeint, borguðu meira fyrir það. Því eru neytendur venjulega þokkalega sáttir við SE þegar þeir heyra slíkar fréttir. Það fær sér svo sem enginn tattú með SE lógóinu, en það gleður flesta þó að vita að það sé afl sem kemur í veg fyrir að stór fyrirtæki misnoti stöðu sína öllum, nema sjálfum sér, til ama.
Seinni liðurinn hefur að gera með samruna. Ein leið sem fyrirtæki geta farið til þess að græða er að eiga í samráð við önnur félög, rétt eins og Byko og Húsasmiðjan gerðu. En vandamálið við samráð er að fyrirtækin í samráðinu hafa oft hvata til þess að svíkjast undan og lækka verð til þess að stela kúnnum af þeim sem þeir eru í samráði við. Einnig er það bannað með samkeppnislögum að eiga í samráði. Og eins og Byko hefur nú lært, þá getur það verið ansi dýrt spaug þegar SE kemst á sporin og sektar þá um 650 miljónir fyrir brotið, og vararíkissaksóknari lætur stinga starfsmönnum Byko í steininn, skilorðsbundið.
Með því að sameinast losna þessi fyrirtæki við þessi vandamál. Nýja einingin getur hækkað verð án þess að eiga á því hættu að einhver steli af þeim viðskiptavinum og SE getur ekki skellt á þá sekt af því að ekki er hægt að vera í samráði við sjálfan sig.
Samrunar eru þó ekki alltaf slæmir. Til dæmis getur sameining leitt til skalahagkvæmni sem á það til að skila sér í lægri verðum til neytenda. Einnig geta tvö lítil fyrirtæki, sem vegna smæðar sinnar í dag veita stóru fyrirtæki á sama markaði takmarkað aðhald, sameinast og í stærð sinni veitt stærri fyrirtækjum meira aðhald.
Greinin á Vísi lætur það hljóma svolítið eins og SE hafi sagt Högum að loka Bónus á Hallveigarstíg. En það er ekki rétt. SE vann vinnuna sína fyrir okkur neytendur, með okkar hagsmuni í huga. Rannsókn SE gaf þeim ástæðu til að trúa því að þessi samruni gæti dregið úr samkeppni, en gæti einnig skilað sér í hagræðingu fyrir Haga. Því gerði SE samning við Haga: Hagar fengju að kaupa Olís, en með því skilyrði að þeir myndu selja Bónus búðina á Hallveigarstíg til „aðila sem er til þess fallinn og líklegur að veita Högum og öðrum keppinautum umtalsvert samkeppnislegt aðhald“ . Sem þýðir það að þegar Bónus búðin lokar á Hallveigarstíg þá ætti önnur sambærileg verslun að opna í sama húsi, innan skamms.
Til að mynda gæti Iceland mögulega keypt reksturinn. Það ætti að gera rekstur Iceland skilvirkari, sem gæti leitt til lægra verðs fyrir alla Reykvíkinga. Annar möguleiki, þó ólíklegur sé, er að erlend verslunarkeðja myndi kaupa búðina og við gætum fengið búð eins og Aldi, Lidl eða Waitros til Íslands. Ef Costco er fordæmi, þá myndi slíkri innkomu á markað vera fagnað af landsmönnum.
Að sjálfsögðu má deila um það hvort þessi niðurstaða SE hafi verið sanngjörn eða rétt. Það má deila um það hvort Bensínstöðvar og Bónus séu á sama markaði (þó svo eignarhald á Íslandi séu svo flókið að oft er samruni ekki bara samruni), en það er ekki hægt að deila um hlutverk SE. Þeir eru ekki í þeim bisness að loka búðum, heldur eru þeir í þeim bisness að reyna að sjá til þess að fyrirtæki okri ekki á neytendum í valdi stærðar sinnar.