Nú liggur fyrir fyrsta niðurstaða siðanefndar Alþingis eftir rúmlega tveggja ára tilveru. Hún hefur komist að þeirri niðurstöðu að ummæli þingflokksformanns Pírata, Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, sem hún lét falla þann 25. febrúar 2018 um akstursgreiðslur til þingmanns Sjálfstæðisflokksins, Ásmundar Friðrikssonar, hafi ekki verið í samræmi við siðareglur fyrir alþingismenn.
Viðbrögðin í samfélaginu hafa ekki látið á sér standa og hafa margir lýst yfir furðu sinni á þessari fyrstu niðurstöðu í ljósi þess að þingmaðurinn sem um ræðir var að gagnrýna háttsemi sem þótti mjög vafasöm og vegna þess að forsætisnefnd tók ekki afstöðu til sannleiksgildis ummælanna sjálfra.
23,4 milljónir í endurgreiðslur frá 2013 til 2018
Mikið var fjallað um akstur Ásmundar í byrjun árs 2018 en þann 9. febrúar sama ár var upplýst um að hann væri sá þingmaður sem fékk 4,6 milljónir króna endurgreiddar vegna aksturskostnaðar árið 2017. Það þýðir að hann fékk um 385 þúsund krónur á mánuði í endurgreiðslu úr ríkissjóði vegna keyrslu sinnar. Alls keyrði Ásmundur 47.644 kílómetra árið 2017 og fékk endurgreitt frá ríkinu vegna kostnaðar fyrir þann akstur.
Í lok nóvember síðastliðins endurgreiddi Ásmundur skrifstofu Alþingis 178 þúsund krónur vegna ferða sem honum hafði verið endurgreiddar á árinu 2017. Samkvæmt upplýsingum um aksturskostnað þingmanna hefur Ásmundur aftur á móti fengið 23,4 milljónir króna endurgreiddar vegna aksturskostnað á fimm ára tímabili, frá árinu 2013 til ársins 2018.
Mest keyrði Ásmundur árið 2014 en þá fékk hann tæpar 5,4 milljónir endurgreiddar vegna aksturskostnaðar á eigin bifreið. Árið 2015 fór hann einnig yfir 5 milljóna króna markið en þá fékk hann rétt rúmlega 5 milljónir endurgreiddar. Árið 2016 fékk hann tæpar 4,9 milljónir fyrir aksturskostnað á eigin bifreið. Lægstu greiðslurnar vegna ferðakostnaðar á eigin bifreið fékk hann árið 2013 fyrir tímabilið 2013 til 2017 en þá fékk hann tæpar 3,2 milljónir endurgreiddar.
Á síðasta ári lækkuðu endurgreiðslur Ásmundar en þá voru þær rúmar 680 þúsund krónur fyrir ferðir á eigin bifreið og tæpar 1,2 milljónir fyrir ferðir með bílaleigubíl, eða samtals 1.850.000 krónur.
Forsætisnefnd taldi Ásmund ekki hafa brotið reglur með akstri sínum
Í lok nóvember síðastliðins kom fram í fréttum að nefndin teldi ekki skilyrði til staðar fyrir því að fram færi almenn rannsókn á endurgreiddum aksturskostnaði þingmanna. Þá komst forsætisnefnd að þeirri niðurstöðu að sú athugun sem þegar hefur farið fram á endurgreiddum aksturskostnaði Ásmundar, ásamt skýringum hans á akstrinum, „leiði til þess að ekkert hafi komi fram sem gefi til kynna að hátterni hans hafi verið andstætt siðareglum fyrir alþingismenn“.
Nefndin taldi einnig að ekki hefðu komið fram neinar upplýsingar eða gögn sem sýndu að til staðar væri grunur um að refsiverð háttsemi hefði átt sér stað við fram settar kröfur um endurgreiðslur vegna aksturskostnaðar sem kæra bæri sem meint brot til lögreglu.
Forsætisnefnd ákvað að skoða ekki frekar kynferðislegt áreiti
Forsætisnefnd hafði einnig til meðferðar erindi um brot Ágústs Ólafs Ágústssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, á siðareglum fyrir alþingismenn vegna kynferðislegs áreiti hans. Á mánudaginn síðastliðinn birti forsætisnefnd niðurstöðu sína en þar kemur fram að fyrirliggjandi erindi gefi ekki tilefni til frekari athugunar af hennar hálfu.
Einn nefndarmaður forsætisnefndarinnar, Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata, gagnrýndi aftur á móti þá ákvörðun forsætisnefndar að túlka meinta kynferðislega áreitni ekki sem brot á siðareglum og jafnframt bóka að erindið gefi ekki tilefni til frekari athugunar.
„Slík málsmeðferð vekur ekki traust á að forsætisnefnd ætli að virða vilja Alþingis varðandi kynferðislega áreitni sem eru skelfileg skilaboð að senda konum og þeim sem hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni,“ segir Jón Þór í bókun sinni við afgreiðslu nefndarinnar á málinu.
Þetta er annað dæmi um ákvörðun sem vert er að staldra við, þ.e. að þingmaður hafi viðurkennt að hafa áreitt aðra manneskju kynferðislega og fengið áminningu frá flokki sínum en að forsætisnefnd hafi ekki talið tilefni til frekari athugunar á málinu.
Traustið hríðfellur
Eftir allt þetta er vert að spyrja hver tilgangur siðanefndar Alþingis sé. Hvers vegna var hún sett á laggirnar og hverju eiga niðurstöður hennar að skila til samfélagsins? Svarið liggur ekki í augum uppi í dag og eru þær frekar til þess fallnar að rugla fólk í rýminu en hitt; að auka traust almennings á Alþingi.
Svo ég spyr: Hvaða ályktun eigum við að draga af þessum afgreiðslum forsætisnefndar og siðanefndar? Að þeim sem benda á það sem rangt fer hjá öðrum sé refsað og þeir sem gerast sekir um það sem augljóst þykir að sé rangt sé hlíft? Í þessu samhengi verður áhugavert að sjá hvað forsætisnefnd og siðanefnd gera við Klausturmálið svokallaða, þar sem þingmenn voru uppvísir af því að ausa milli sín fúkyrðum um annað fólk; samstarfsfólk og hina ýmsu minnihlutahópa í samfélaginu.
Fyrir ímynd Alþingis eru þessar afgreiðslur bagalegar. Eitt af grundvallaratriðum í lýðræðisríki er að traust ríki milli ráðamanna og almennings. Traust til Alþingis hefur aftur á móti hrunið niður að undanförnu og í lok febrúar var um 18 prósent þjóðarinnar sem treystir því. Það var um 11 prósentustigum minna en þegar þjóðarpúls Gallup mældi það síðast. Niðurstöður forsætisnefndar og siðanefndar eru ekki til þess fallnar að auka traustið.
Nú er boltinn því hjá þingmönnunum sjálfum að breyta þessu, taka afstöðu og laga ástandið. Það er ekki ómögulegt en til þess þarf vilji að vera fyrir hendi.
Þess ber að geta að höfundur er blaðamaðurinn sem Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, áreitti kynferðislega en málið fór fyrir forsætisnefnd eins og fram kemur í greininni.