Í gærmorgun birtist frétt á forsíðu Morgunblaðsins. Meginmál hennar var 79 orð og hún vísaði ekki inn á frekari umfjöllun inni í blaðinu, líkt og vani er með stuttorðar forsíðufréttir. Fyrirsögn hennar var „Hælisleitandi safnaði geymasýru á Ásbrú“.
Hér er meginmál fréttarinnar í heild sinni: „Hælisleitandi í búsetuúrræði Útlendingastofnunar á Ásbrú í Reykjanesbæ var í vor staðinn að því að safna sýru úr rafgeymum bifreiða á brúsa. Þetta hefur Morgunblaðið samkvæmt áreiðanlegum heimildum, en öryggisvörður á svæðinu mun hafa fundið sýruna í fórum mannsins. Eftir að málið komst upp var lögreglu gert viðvart, en ekki er vitað í hvaða tilgangi sýrunni var safnað. Þá mun hælisleitandanum, samkvæmt heimildum blaðsins, hafa verið vísað úr landi um leið og endanleg niðurstaða lá fyrir í hælisumsókn hans.“
Myndskreyting með fréttinni var frá mótmælum hælisleitenda og sýndi lögreglu vera að beita sér. Í myndatexta sagði að myndin tengdist fréttinni óbeint. Fréttin var mest lesna fréttin á mbl.is, mest lesna vef landsins, í gær. Hún var tekin upp á vef RÚV, þar sem hún var einnig mest lesna fréttin um tíma, á vef Vísis og á vef DV. Þetta eru fjórir mest lesnu vefir landsins.
Flaut sem valdir hópar heyra
Það er ekki sagt berum orðum í fréttinni að hælisleitandinn hafi ætlað sér eitthvað illt með sýruna. En það var ljóst að ansi margir sem eru tortryggnir gagnvart hælisleitendum, eða bera jafnvel illan hug til þeirra, ákváðu að barna þá fullyrðingu í kjölfarið.
Í þeim skilningi var þetta klassískt vel heppnað hundaflaut, óháð því hvort það hafi verið tilgangurinn eða ekki. Slíkt vísar í hátíðnihljóð sem hundar geta bara heyrt, ekki menn. Í hugtakinu felst að segja eitthvað án þess að segja það berum orðum, og með því ná til ákveðinna undirhópa sem sjá svo um að setja upplýsingarnar í annað og skýrara samhengi, oft byggt á engu nema tilfinningu.
Vert er að taka fram að sú framsetning Morgunblaðsins á fréttinni er alfarið á ábyrgð ábyrgðarmanna blaðsins, ritstjóranna tveggja, en ekki blaðamannsins sem skrifaði fréttina. Líkt og er með allt birt fréttaefni í fjölmiðlum. Lesandinn getur aldrei vitað hvort að blaðamaður sé einungis að framfylgja skipun yfirboðara eða hvort að hann eigi framkvæmdina alveg sjálfur. Og jafnvel þá ber ritstjóra skylda til að tryggja að fréttin innihaldi nægjanlegar upplýsingar til að vera birtingarhæf.
Í Morgunblaðinu í dag er svo enn ein fréttin um málið og nú kemur fram að hælisleitandinn hafi gefið þá skýringu við yfirheyrslu að hann hafi ætlað að losa um stíflu í vaski með sýrunni.
Það má hrósa blaðamönnum Morgunblaðsins fyrir að hafa haldið áfram með málið og náð að skýra það á endanum.
En skaðinn var skeður.
Vona að þú verðir „fyrsti Íslendingurinn til að fá sýrubað“
Mbl.is dreifði fréttinni í gegnum Facebook-síðu sína, sem hefur 73.751 fylgjendur. Fyrstu ummælin undir fréttinni voru: „Það þarf ekkert að dansa í kringum hver tilgangurinn var,“ og svo var tengt inn á Wikipedia-síðu um sýruárásir. Í kjölfarið fylgdu tugir ummæla. Hér verður farið yfir nokkur.
Karlmaður sagði: „Þeir nota það til að kasta í andlit fólks. Þeir gera það í Svíþjóð, Danmörku, Englandi. Hvers vegna ætti það að vera öðruvísi á Íslandi.“ Kona fylgdi á eftir og sagði: „ Bara senda ALLA þessa HÆLISLEITENDUR BURT úr landinu STRAX og þeir koma !!!“ Annar bætti við: „Helsta notkun rafgeymasýru (fyrir utan rafgeyma) er til sprengugerðar, (eitur-)lyfja, áburðar (og síðan sprengju...) og til að skvetta á kvenfólk sem ekki vill hlýðast viðkomandi.“
Nær öll ummælin sem eru undir fréttinni eru í þessum anda. Þeir sem setja þau fram eru búin að draga þá ályktun að viðkomandi ætlaði sér að fremja sýruárás og að hann sé lýsandi fyrir þá hælisleitendur sem hingað leita eftir betra lífi. Um sé að ræða stórhættulegan hóp fólks sem ógni öryggi „alvöru“ Íslendinga.
Í umræðuhópnum Þjóðleið, þar sem útlendingaandúð er mjög ráðandi, var endursögn af upphaflegu fréttinni dreift. Í umræðum undir deilingunni sagði kona: „Er fólk HISSA þessir hælisflótta frá islam eru hér aðeins í einum tilgangi og þegar þeir verða nógu margir láta þeir til skara skríða. Hefur ekkert með trú að gera islam er stjórntæki en ekki trú.“ Annar bætti við: „Misindismenn skvetta sýru í andlit fólks sem afskæmir og veldur blindu - óskiljanleg fólska.“ Sá þriðji sagði: „Hvar er núna góða fólkið og No borders og mótmæli þeirra? Fínt að svona liði sé hent út úr landinu.“ Sá sem botnaði umræðuna sagði: „send þessa allar pöddur og skordýr úr landi.“
Kona tjáði sig um málið í löngu máli og sagði meðal annars: „Er ekki vitað af hverju hann var að safna sýrunni?? Til að fokkin skvetta henni framan í einhvern!! Á þetta að vera þjóðfélagið sem ég er að ala dóttur mína upp í, sem er kona!! Þetta hefur ekkert með rasisma að gera, svona menn sem hafa verið aldir upp í ákveðnu samfélagi telja þessa verknaði ekkert annað en eðlilegt!“. Önnur sagði: „Stjórnvöld vilja okkur illt, í þessum efnum sem öðrum….það mætti halda að þingmenn væru andsetnir,,,,, haldnir illum öndum.“
Höfundur tísti sjálfur um málið í gærmorgun og annar miðill gerði frétt upp úr því. Í ummælum undir þeirri frétt skrifaði maður undir nafni eftirfarandi: „Mikið óskaplega ætla ég að vona að þú Þórður ferði fyrsti íslendingurinn til að fá sýrubað. Það yrði kannski til að opna augu þín ef þau væru ekki brennd úr hausnum á þér. Það er eitt að vera veruleikafyrrtur fábjáni en allt annað að verja það sem öllum hugsandi mönnum skilst hvað hann ætlaði að gera. Gífurleg fjölgun sýruárása í nágrannalöndum okkar af hendi þessara sýruskvettandi múslima nægir ekki til að þið skiljið fyrir hvað þetta helvíti stendur.“ Annar bætti við: „Hann hefur ætlað að skvetta sýruni á einhvern til að fá fangelsisdóm. Frítt fæði og húsnæði áfram. Þórður Snær Júlíusson er sennilega með sýru í hausnum.“
Þetta er einungis brot af þeirri umræðu sem fór fram á samfélagsmiðlum um frétt Morgunblaðsins.
Þingmaður mætir til leiks
Einn þingmaður tjáði sig um málið, Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks úr Suðurkjördæmi. Hann deildi upprunalegri frétt Morgunblaðsins og setti stöðuuppfærslu á Facebook í gærkvöldi þar sem sagði meðal annars: „Það er verulega óþægilegt fyrir nágranna hælisleitenda á Ásbrú, sem hafa mátt þola nafnlausar hringingar og hótanir á erlendu tungumáli, að sjá frétt um hælisleitenda á Ásbrú sem tók upp á því að safna geymasýru. Ekki dettur mér það til hugar að fallegur og góður ásetningur liggi þar að baki en kann það þó að vera að ég hafi rangt fyrir mér.“
Nú er vert að rifja upp að lögreglan var þegar búin að segja á þessum tíma opinberlega að hún taldi umræddan hælisleitanda ekki líklegan til að ætla að skaða nokkurn mann. Ásmundur hefur margsinnis áður borið á torg sambærilegan málflutning þar sem hælisleitendur eru tortryggðir og sterklega gefið í skyn að þeir ógni öryggi Íslendinga. Um það má t.d. lesa hér og hér.
Pólitík Ásmundar hefur orðið öðrum hvatning. Í frægu samtali sex þingmanna á Klaustri í lok nóvember í fyrra var meðal annars rætt um hversu móttækilegir kjósendur í Suðurkjördæmi væru fyrir kynþáttahyggju og útlendingaandúð. Ólafur Ísleifsson sagði þar að það væri „augljós markaður fyrir þessi sjónarmið í Suðurkjördæmi.“
Það sæist meðal annars á því að Ásmundi Friðrikssyni hefði gengið vel í prófkjörum þar þrátt fyrir að hann hefði verið að skrifa það sem „andstæðingar hans kalla rasistagreinar“.
Mikilvægi fjölmiðla
Umræðan á Íslandi fer hratt versnandi. Staðreyndir skipta minna og minna máli og málflutningur sem byggir ekki á raunveruleikanum eins og hann er, heldur raunveruleika sem ákveðnir múgæsingarmenn halda fram að sé til staðar, fer mjög víða. Ástæðuna er að finna í því að samfélagsmiðlar gera dreifingu á áróðri, hálfsannleik, ósannindum og afbökunum mun auðveldari og þeir sem það stunda eru orðnir mun betri og bíræfnari í dreifingu slíks efnis.
Það er hægt að kaupa rafgeymasýru á brúsa út í búð. Lítrinn kostar 605 krónur. Það að safna slíkri afurð á brúsa er því ekki á neinn hátt ólöglegt. Þvert á móti. Í ofangreindu tilfelli ákvað ótrúlegur fjöldi fólks hins vegar að dæma mann fyrir hugsunarglæp. Þ.e. glæp sem hafði ekki verið framinn né lá nokkuð fyrir um að til stæði að fremja. Glæpurinn var að vera múslími og ætla að framkvæma sýruárás. Hvorugt kom fram í fréttinni sem notuð var til að barna hugsunarglæpinn.
Í þessu umhverfi er mjög mikilvægt fyrir fjölmiðla að vanda til verka og sýna að þeir ætli sér ekki að verða hluti af vandamálinu heldur lausninni. Mikilvægi þeirra til að greina Kjarnann frá hisminu hefur líkast til aldrei verið meira en nú.
Til þess eru þeir, eða eiga að minnsta kosti að vera. Til þess að segja satt og upplýsa almenning.
Það misfórst í gær.