Árið 2010, fljótlega eftir að ég smitaðist af langhlaupabólunni, hljóp ég mitt fyrsta maraþon. Á þeim tíma átti ég heima á Nýja Sjálandi og gerði móðir mín sér leið hálfa leið í kringum hnöttinn til að hlaupa með mér. Ég æfði þokkalega, fylgdi prógrammi eftir hentisemi og sýndi þessum mikla viðburði ekki mikla virðingu. Ég lagði af stað af miklu öryggi og lét gamalmenni, móður mína, horfa á eftir mér og leyfði henni að gæða sér á rykinu sem ég spólaði upp á hlaupnum. Eftir 10 kílómetra var ég í flottum málum. 3:30:00 markmiðið var vel innan seilingar. 11. kílómetrum síðar, þegar hlaupið var hálfnað, var ég enn bara nokkuð öruggur, allavega yrði ég ekki yfir fjórum tímum.
Snemma á seinni helmingnum fékk ég að kynnast hinum svokallaða „vegg“. Veggurinn virkar þannig að allt í einu tvöfaldast þyngd hlauparans. Lím myndast undir skóm hans og skrefin, verða þyngri en sovésk skriffinnska. Hægt og rólega fóru hlaupararnir, sem ég hafði þotið fram hjá fyrr í hlaupinu, að taka fram úr mér. Þó sárt væri, gat ég samt með því lifað. Þangað til í kringum 30 kílómetra. Þá tók háöldruð móður mín (komin vel á fimmtugsaldurinn) fram úr mér. Vorkunnin í augum mömmu, þegar hún horfði á eftir þessum auma syni sínum, sást frá tunglinu. Ég hélt að niðurlægingin gæti ekki orðið meiri. Ekki fyrr en ég datt inn á kílómetra númer 36. Á þeim tímapunkti var ég ekki hættur að hlaupa, en erfitt er að segja hvort hraðinn hafi verið meiri en ef ég hefði labbað. Ég fann að klappað var á bakið á mér, ég leit við og við hliðina á mér skokkaði vinalegur maður – á áttræðisaldri. Kallinn peppaði aumingja mig og þó svo að ég hafi þurft að horfa á eftir honum í markið á undan mér, þá var þessi auðmýkjandi upplifun einnig til þess að ég hélt áfram. Guð blessi hann.
Maraþonhlaup er undarlegt sport. Eftir að hafa hlaupið 42,2 kílómetra var ég ekkert sérstaklega glaður. Mér þótti það ótrúlega fúlt að hafa hlaupið 42,2 kílómetra á rúmlega fjórum klukkutímum og 19 mínútum, en ekki undir fjórum tímum, eins og upphaflega markmið mitt var. Sem er fáránlegt. Og þeim mun meira sem ég hugsa um það, þeim mun vitlausari þykir mér ég vera. En þegar manni líður eins og asna er oft huggun í því að vita að maður sé ekki eini vitleysingurinn. Því hlóð ég niður úrslitum frá tæplega 10.000 hlaupurum úr Reykjavíkurmaraþoninu, frá árinu 2010. Og eftir smá tölfræðivinnu fékk ég svarið sem hjálpaði mér að komast yfir eigin vitleysu. Þessir hlauparar virðast vera alveg jafn vitlausir og ég. Það er að segja, þeir berjast um það að komast í mark undir einhverskonar handahófskenndu markmiði, eins og fjórum tímum. Þetta sést vel á myndinni hér að neðan. Það sýnir að mikið stökk verður í fjölda hlaupara í Reykjavíkur sem koma í mark rétt fyrir næsta hálftíma. Og hlauparar fortíðarinnar eru alveg jafn vitlausir í það og ég að klára undir fjórum tímum og ég. Þegar það markmið er glatað, trítla þeir meira minna bara einhvern vegin, á einhverjum hraða, í mark. Það er þá ekki bara ég sem set mér tilgangslaus markmið og rembist svo við að reyna að ná þeim af engri sérstakri ástæðu. Flestir gera það.
Mynd: Rétt fyrir handahófskennd hálftíma markmið koma mun fleiri í mark en þar á undan og þar á eftir koma færri í mark.
Tæplega tveimur árum síðar jafnaði ég mig á niðurlægingunni sem mitt fyrsta maraþon var. Ég fylgdi, í auðmýkt minni, góðu prógrammi sem lofaði því að ég myndi hlaupa mitt næsta maraþon undir 3:30:00. Ég útbjó plan fyrir hlaupið, fylgdi því og passaði mig að drekka vel og troða í mig orkugeli áður en að veggnum kæmi. Þegar ég sá markklukkuna í fjarska þótti mér hún ganga óþægilega nálægt næsta hálftíma (3:30:00). Ég ákvað að taka ekki neinn séns og gaf í, eins og ég gat. Þegar ég kom í mark vantaði klukkuna um það bil 20 sekúndur upp á 3:30:00 og náði ég markmiði mínu. Það var fínt. Þó ekki eins fínt og það var sárt að missa af markmiðinu tæpum tveimur árum áður.
En það er undarlegt, af því að þessi markmið eru bara tilbúningur. Ef ég hefði skriðið yfir marklínuna á 3:30:10, þá hefði það líka verið alveg geggjað afrek. Ekki eins og að hafa farið undir þremur þrjátíu hafi gert mig að sigurvegara hlaupsins, 41 hlauparar voru á undan mér. Að sama skapi eru álíka markmið alls staðar í kringum okkur: Ná fyrstu einkunn, ganga viss mörg skref, fá stöðuhækkun. Allt er þetta gott og blessað, þangað til við reynum að ná markmiðum okkar í blindni. Fólk æfir fyrir maraþon og til að ná markmiðinu hamast fólk oft á meiðslum, sem getur leitt til langtímaskaða. Þegar fólk reynir að næla sér í stöðuhækkun olnbogar það oft samstarfsmönnum frá sér og vanrækir fjölskyldu sína. Því geta markmið, eins ágæt og þau eru oft, einnig verið manni til ama. Að klára 3, 10, 21, eða 42 kílómetra hlaup er afrek. Ekki láta markmiðin ykkar eyðileggja það. Það kemur hlaup á eftir þessu hlaupi.
Þetta er fyrsti af þremur pistlum sem ekki beint tengjast hagfræði, en aðeins með aðferðir úr tölfræði að gera. Tilefnið er að sjálfsögðu Reykjavíkurmaraþonið sem haldið er á menningarnótt. Höfundur biður lesendur sem ekki eru hlauparar velvirðingar, en eikonomics snýr aftur í sýnu hefðbundna horfi í september.