Árslokin eru yfirleitt tíminn til að staldra við, hvað er það sem stendur upp úr, er kannski komið að einhverjum krossgötum? Samfélagsþróun er oft hröð á Íslandi, og ekkert hefur breyst jafn mikið hér og samsetning samfélagsins.
Snemma í desember fengum við þær fréttir frá Hagstofunni að innflytjendur séu nú orðnir yfir 50.000 að tölu og eru þar ekki með taldir þeir sem teljast til annarra kynslóða eða hafa einhvern erlendan bakgrunn. Sumir fögnuðu, aðrir ekki.
Ég hef persónulega nákvæmlega enga skoðun á því, talan sjálf skiptir mig ekki miklu máli. Fólksflutningar hafa alltaf átt sér stað, hvort sem það var á landnámsöld eða í dag, stríð eða önnur áföll á borð við bankahrunið hér hafa kannski áhrif til skamms tíma en breyta litlu í stóru myndinni, fólk fer þangað þar sem tækifærin eru og þörf er fyrir það. Kannski eru krossgöturnar einmitt þessar – að í staðinn fyrir að þeytast endalaust milli hægri og vinstri vængs, hvort fleiri eða færri eigi að koma eða vera, ættum við að ganga út frá öðru:
Íslenskt samfélag er einfaldlega allt fólk sem hér býr.
Og okkar hlutverk er að búa þeim sem mynda þetta samfélagið bestu skilyrði með því að vinna út frá því að fjölbreytileiki sé undirstaða jákvæðrar samfélagsþróunar.
Þetta þýðir ekki að horfa eigi framhjá áskorunum sem við stöndum frammi fyrir í þessu samhengi. Við gleymum ekki MeToo-sögum kvenna af erlendum uppruna, nútímaþrælahaldi sem tíðkast sums staðar á íslenskum vinnumarkaði eða börnum af erlendum uppruna sem hafa hvorki vald á móðurmáli sínu né íslensku. Ef við viljum virkilega breyta einhverju í því þá þurfum við að breyta um stefnu. Þurfum að hætta að hugsa um innflytjendur einungis sem umsækjendur, þolendur og þiggjendur heldur sem mannauð.
Við gerum það nefnilega ekki núna og þess vegna var það sem sló mig mest á þessu ári skýrsla sem Claudie Ashonie Wilson og Auður Tinna Aðalbjarnardóttir frá lögmannsstofunni Réttur unnu með styrk frá Þróunarsjóði innflytjendamála um aðgengi innflytjenda að störfum hjá hinu opinbera. Skýrslan segir mjög skýrt að þrátt fyrir að innflytjendur tali góða íslensku og séu með áberandi góða menntun, fá þeir lítinn sem engan aðgang að ábyrgðarstörfum hjá hinu opinbera, fá ekki einu sinni tækifæri að koma í atvinnuviðtal, hvað þá ráðningu. Af 740 starfsmönnum í ráðuneytum eru tveir staðfestir af erlendum uppruna og aðrar stofnanir standa sig ekki miklu betur heldur.
Ekkert krassandi hér. Enginn skandall. Enginn glæpur. Og þó.
Erum við búin að ná einhvers konar samfélagssáttmála þar sem fest er í steypu að hér skuli vera tvískipt samfélag, með einum hópi sem fær að njóta yfirburða mannréttinda og tækifæra og öðrum hópi sem er aðallega ætlað að vera ekki fyrir?
Við vitum að hugsunin um gestavinnuafl sem kemur, vinnur og fer svo bara er úrelt og leiðir ekki til góðs. Að hengja sig endalaust í hugmyndir um „aðlögun“ hjálpar ekki heldur, því alveg sama hversu mikið verið er að „laga“ mig, þá verð ég alltaf pínu öðruvísi og ef ég er ekki viðurkennd sem slík þá er ég dæmd til að misheppnast.
Það eina sem virkar og er til góðs fyrir alla er að horfast í augu við það að fjölbreytileiki er undirstaða jákvæðrar þróunar í nútímasamfélagi. Við höfum lært að setja upp kynjagleraugun og íslenskt samfélag hefur náð langt þar. Sú þekking gæti nýst okkur hér. Við þurfum nefnilega að setja upp fjölmenningargleraugun alls staðar. Hvaða verðmætasköpun missum við af ef við leitum við ekki markvisst að innflytjendum í sérfræði- og ábyrgðarstörf?
Er það hrokafullt að halda því fram að stundum gætu innflytjendur jafnvel haft eitthvað fram að færa sem Íslendingar kunna eða vita ekki enn? Matarmenningin er gott dæmi þar sem allir fagna fjölbreytileikanum og framlagi innflytjenda en það er svo miklu meira. Ég gleymi aldrei þegar einhver útskýrði fyrir mér fyrir örfáum misserum hversu gott það væri fyrir umhverfið að flokka ruslið. Ég reyndi að missa ekki andlitið, ég var nefnilega búin að læra þetta ca. 35 árum áður heima hjá mér.
Innflytjendur eru fólk sem situr ekki heima þegar tækifæri eru annars staðar, það er fólk sem hefur eitthvað fram að færa, sem hefur kjark, sköpunarkraft og hugvit, sem er ekki hrætt við áskoranir og erfiðleika, fólk sem leitar nýrra farvega fyrir dugnað sinn.
Þegar Reykjavíkurborg gaf út fjölmenningaryfirlýsingu núna í haust sem byggir einmitt á þessu, leitaði ég að myndefni. Þó að ég gleðjist alltaf yfir skemmtilegum viðburðum þar sem fólk fagnar sinni þjóðmenningu, þá átti þetta ekki að vera enn ein myndin af fólki að dansa í litríkum þjóðbúningum fyrir framan Hallgrímskirkju. Það sem ég fann er mynd af Hverfisgötunni, þar sem ég vann í mörg ár og var þá frekar grá og einsleit, margar fallegar gamlar byggingar sem nutu sín samt ekki, lítið framboð af búðum og veitingastöðum. En núna er Hverfisgata að verða mest spennandi gatan í borginni og þar eru m.a. tvær búðir hlið við hlið – ein frönsk sælkerabúð sem lætur mann upplifa annan heim, og svo í næsta húsi sýrlenski flóttamaðurinn sem rekur þar klæðskeraverkstæði í kjallara. Fólk sem ekki sat heima.
Vits er þörf
þeim er víða ratar
dælt er heima hvað.