Hvernig líður þér, elsku vinur? Bara prýðilega, takk, ég er með ykkur öll í vasanum
Jón Kalman Stefánsson rithöfundur skrifar um íslensk stjórnmál, Kristján Þór Júlíusson, Samherja, RÚV og Miðflokkinn. Hann veltir því fyrir sér hvort við séum smám saman að missa sjónar á réttu og röngu á meðan púkarnir á fjósbitanum fitni.
Við lifum undarlega tíma, að líkindum háskalega, þar sem siðferðisleg grunngildi eru komin á flot. Við lifum tíma siðrofs, Donald Trump forseti Bandaríkjanna staðfestir það nánast í hvert sinn sem hann opnar munninn. Hér á Íslandi hefur siðrofið hvað skýrast sýnt sig í Klaustursmálinu svokallaða – og auðvitað Samherjamálinu.
Það fyrsta sem Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra gerði eftir að hafa séð fréttaskýringaþáttinn Kveik um sláandi lögbrot og siðlausa framkomu Samherja í Namibíu, var að hringja í vin sinn og forstjóra fyrirtækisins, Þorstein Má Baldvinsson, og spyrja, fullur umhyggju, hvernig honum liði.
Fáir fréttaskýringaþættir hafa haft viðlíka áhrif hér á Íslandi. Þjóðin sat eftir í losti og hefði þurft áfallahjálp. Langstærsta fyrirtækið í íslenskum sjávarútveg hefur árum saman arðrænt fátæka þjóð, stundað mútur í stórum stíl, komið gríðarlegum upphæðum undan í skattaskjól, og í ofanálag notfært sér þann góðvilja og það fallega orð sem Íslendingar höfðu getið af sér með því að hjálpa til við að byggja upp sjávarútveg Namibíu. Þátturinn afhjúpaði furðu eindreginn brotavilja, miskunnarleysi og að því virðist algert siðleysi. Í stað þess að biðjast afsökunar hafa Samherjamenn undanfarið reynt að sverta uppljósrarann og gera fjölmiðlamennina tortryggilega. „Ég stóð alltaf í þeirri trú“ skrifar Björgólfur Jóhannsson, settur forstjóri Samherja, „að fréttamenn hefðu sannleiksleit að leiðarljósi í sínum störfum. Það var kannski misskilningur hjá mér.“
Nokkrum dögum eftir þáttinn gagnrýnir fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, Ríkisútvarpið og segir það fljóta um á vindsæng með sólgleraugu. RÚV flettir ofan af stærsta spillingarmáli Íslandssögunnar, sýnir fram á fordæmalaust siðleysi í viðskiptum; Kristján Þór sjávarútvegsráðherra hringir í Þorstein Má, höfuð og keisara Samherja, spyr áhyggjufullur hvernig honum líði; Bjarni Benediktsson gefur sterklega í skyn með myndlíkingu sinni að RÚV, og þar á meðal Kveikur, sé ekki marktækt.
Það er eitthvað undarlegt að hérna, sagði Sven Harald Øygard, fyrrverandi seðlabankastjóri, í nýlegu viðtali.
Eru fordómar eftir allt saman bara eðlilegar skoðanir?
Í nóvember fyrir rúmu ári síðan náðust á upptöku samræður þingmanna, sem allir eru í Miðflokknum í dag, þar sem þeir á ruddafenginn hátt hrakyrtu, smáðu og hæddust að nafnkunnu fólki. Subbar, hugsaði maður þegar upptökurnar urðu opinberar. Ruddar, ómerkilegir subbar. Hryggilegt að slíkir einstaklingar hafi verið kosnir á þing. En nú hljóta þeir að vera búnir að vera, þeir rísa ekki upp sem þingmenn eftir þetta. Hér eftir eru þeir ærulausir, það getur varla nokkur manneskja horft framan í þá, hvað þá kosið á þing.
Hér fyrrum, bara fyrir fáeinum árum, hefðu þessir þingmenn farið niður á hnén og beðist afsökunar. Beðið þær manneskjur sem þeir höfðu hrakyrt og smánað afsökunar, og þjóðina sem þeir eiga að þjóna. Þeir hefðu ekki endilega gert það af fúsum og frjálsum vilja – en umhverfið, samfélagið, og allt sem umlykur þá, hefði krafist þess. Og um skamman tíma virtust tveir þeirra, Bergþór Ólason og Gunnar Bragi, fyrrum utanríkisráðherra, ætla að fara þá leið, einkum Gunnar sem kom niðurlútur, beygður fram í Kastljósi og gekkst þar við því að æra hans væri sködduð. Við sáum mann sem vissi að hann hefði brotið ófyrirgefanlega af sér. Að hann hefði komið fram sem ruddi. Maður sá iðrun hans og hugsaði, honum er þá viðbjargandi.
En á einhverjum tímapunkti áttuðu þingmennirnir af Klaustursbarnum sig á því að tímarnir væru breyttir. Kannski lærðu þeir það af Donald Trump að virðing fyrir öðrum er óþörf, og að það sé ekkert að því að tala ruddalega og af augljósri fyrirlitningu um aðrar manneskjur.
Í öllu falli sneru þingmennirnir ekki auðmjúkir til baka, heldur bólgnir af sjálfsöryggi. Báðust ekki afsökunar heldur réðust að uppljóstraranum, reyndu að sverta hann, og sökuðu fjölmiðla um annarlegar hvatir. Á einhverjum tímapunkti höfðu þeir áttað sig á því að á tímum siðrofs eru fyrstu fórnarlömbin sanngirni, háttvísi, sannleikur. Á tímum siðrofs er óskammfeilni og alger skortur á iðrun styrkur. Þingmenn Miðflokksins áttuðu sig á því að við lifum því miður tíma þar sem fordómar eru taldir eðlilegar skoðanir, siðleysi bara sjónarhorn eða þá mjög teygjanlegt hugtak. Enda var flokknum ekki refsað fyrir þetta mál, fylgi hans jókst þvert á móti.
Við erum smám saman að missa sjónar á réttu og röngu. Og púkarnir á fjósbitanum fitna.
Ég bara segi svona. Við strákarnir
Það er eitthvað undarlegt að hérna. Vandaður fréttaskýringaþáttur RÚV flettir ofan af siðlausri framgöngu Samherja í Namibíu, formaður Sjálfstæðisflokksins segir að Ríkisútvarpið fljóti um á vindsæng með sólgleraugu – fyrstu viðbrögð sjávarútvegsráðherra við þættinum voru að hringja í vin sinn og forstjóra Samherja og spyrja hvernig honum liði. Maður hefði haldið að slík viðbrögð ráðamanna tíðkuðust einvörðungu í löndum þar sem hagsmunir og stjórnmál renna saman í svo þétt faðmlag, að ráðamenn þjóðarinnar taki umhugsunarlaust hagsmuni stórfyrirtækja framyfir þjóðarhag. Þar sem drengskapur þeirra og tryggð liggur hjá peningaaflinu, ekki kjósendum sínum, þjóð sinni.
Var símtalið þá kannski svona?
Hvernig líður þér, elsku vin?
Bara prýðilega, við erum búnir að arðræna Namibíumenn í mörg ár, höfum grætt fáránlega mikið, syndum í peningum, við mútuðum, við komumst hjá því að borga skatt af gróðanum, skildum ekki gat með krónu eftir í samfélaginu. Hugsaðu þér, Kristján, við komum þarna inn þegar Íslendingar eru nýbúnir að byggja upp sjávarútveginn, við njótum því trausts og nýttum okkur það til hins ítrasta. Við stálum ekki bara öllu steini léttara heldur fluttum vinnsluna út á sjó eftir að búið var byggja upp verkþekkingu í landi og þjálfa til þess þúsund manns. Við rændum þúsund fjölskyldum viðurværi sínu. Við skildum allt eftir í rúst. Þetta var svona rbb dæmi.
Ríða, búið bless?
Ég bara segi svona. Við strákarnir.
Æ, hvernig líður þér, elsku vinur?
Bara prýðilega, ég hef þig í vasanum.
Þessvegna hef ég áhyggjur, þessvegna hringi ég, því hvað ef buxurnar verða settar í þvott?
Til móts við framtíðina með augun í baksýnisspeglinum en ekki á veginum framundan?
Ég get ekki tekið undir þá gagnrýni, sagði Þorsteinn Pálsson í Silfri Egils þar sem Kristján hafði verið gagnrýndur fyrir símtalið. „Mér finnst það bara vera eðlilegur drengskapur og íslenskt og það á ekki að gera það pólitískt tortryggilegt, en mér finnst að hann hefði líka átt að hringja í þjóðina og spyrja hvernig henni líður.“
Ég held að Þorsteinn Pálsson sé mætur maður, réttsýnn. Einn þeirra sem tilheyrðu gamla Íslandi en ofbauð svo spillingin, ófagmennskan og græðgin sem hrunið afhjúpaði að hann gerðist talsmaður nýrra tíma. En það virðist samt ennþá það mikið af gamla Íslandi í honum, að hann kemur hvorki auga á það hversu óboðleg og skökk viðbrögð Kristjáns Þórs voru, né hversu óboðlegt það er að sjávarútvegsráðherra sé vinur forstjóra langstærsta fyrirtækisins í sjávarútvegi, og hafi starfað hjá þeim í áraraðir. Orð Þorsteins opinberuðu óvart stóra bresti í samfélagi okkar: „Mér fannst það vera eðlilegur drengskapur og íslenskt.“
Að vegna vinskapar beri ráðherra að sýna Þorsteini Má tryggð, jafnvel þótt að hann beri að líkindum höfuðábyrgð á glæpsamlegri og siðlausri framkomu í máli sem fellur undir ráðuneyti Kristjáns.
Það er eitthvað undarlegt að hérna, sagði Svein Harald.
Undarlegt? Já og nei. Þetta er nefnilega … íslenskt; Þorsteinn Pálsson hnaut óvart um hvað væri að með því að gefa í skyn að símtal Kristjáns hafði bara verið fallegur íslenskur drengskapur. Svona gerum við hér á Íslandi.
Eftir að hafa varið símtal Kristjáns, talaði Þorsteinn um hvað ráðherrann ætti að gera. Tók skýrt fram að framferði Samherja væri ófyrirgefanlegt og benti á ýmsar leiðir, allar góðar og ábyrgar, hvað ráðherra sjávarútvegsins ætti og bæri að gera til að byggja upp traust á faginu, og koma í veg fyrir að Samherji skaðaði orðspor annarra íslenskra fyrirtækja með græðgi sinni og siðleysi.
Jafnvel góður og gegn maður á borð við Þorstein Pálsson gat í alvöru listað upp hvað Kristján Þór ætti að gera sem sjávarútvegsráðherra til að komast til botns í málinu og byggja upp traust; og að láta rannsaka Samherja. Láta rannsaka vin sinn. Í alvöru? Maður trúir því varla að Þorsteinn Pálsson hafi ekki áttað sig á rökvillunni, séð það sem æpti á okkur: að Kristján Þór væri sem fyrrum stjórnarmaður Samherja og vinur Þorsteins Más, og minnir á þau tengsl sín með fyrstu viðbrögðum sínum við uppljóstrunum Kveiks, fullkomlega vanhæfur sem ráðherra sjávarútvegsmála. Og hafi verið frá fyrstu stundu.
„Jafnvel í Rússlandi þyrfti Kristján Þór að stíga til hliðar,“ er haft eftir Ilia Shumanov, aðstoðarframkvæmdastjóra Rússlandsdeildar Transparency International.
Jafnvel í Rússlandi Pútíns.
Þrátt fyrir að vanhæfni Kristjáns æpi á okkur tók það ríkisstjórnina rúmar fimm vikur að komast að þeirri niðurstöðu að Kristján þyrfti að „víkja úr sæti við meðferð og töku ákvarðana í fjórum stjórnsýslukærum tengdum Samherja hf.“
En er áfram talinn fullkomlega hæfur sem ráðherra yfir málaflokki þar sem hann getur ekki snúið sér við án þess að rekast á eitthvað sem tengist Samherja. Fyrirtæki sem hefur í gegnum árin farið hiklaust á svig við lögin og sölsað undir sig stærri sneið en þeir mega hafa samkvæmt lögum.
Auðvitað er ég hæfur, svaraði Kristján Þór með góðlátlegu brosi, þegar hæfi hans sem ráðherra sjávarútvegsmála var á sínum tíma dregin í efa. Brosti hann vegna þess að hann vissi að vanhæfni hans skipti engu máli. Að skipan hans væri svo … íslensk?
Og við getum þá kallað brosið storkunarglott gamla Íslands, þar sem hagsmunir verða ævinlega teknir framyfir fagmennsku, og hagsmunaöflin beygja og sveigja lýðræðið eins og þeim sýnist?
Sú hugsun, og viðhorf gamla Íslands, hefur verið nokkuð augljós hjá Sjálfstæðis– og Framsóknarflokknum sem hafa löngum staðið vörð um óbreytt ástand. En nú virðist Samherjamálið sýna að sama hugsunin ríki hjá Vinstri grænum. Þrátt fyrir Katrínu Jakobsdóttur. Að þeir taki líka vald og hagsmuni framyfir fagmennsku og lýðræði. Samkvæmt því eru ríkisstjórnaflokkarnir þrír á vegferð með íslensku þjóðina inn í framtíðina með augun í baksýnisspeglinum en ekki á veginum framundan.
Voru Samherjamenn táldregnir af vondu fólki?
Það er eitthvað undarlegt að hérna.
Kristján Þór situr áfram, Gunnar Bragi, fyrrum utanríkisráðherra og varaformaður Miðflokksins, skrifar bréf þar sem hann gagnrýnir RÚV og aðra fjölmiðla fyrir að hugsa ekki um börn Samherjamanna í fréttaflutningi sínum, nefnir ekki einu orði börn þeirra þúsunda Namibíumanna sem höfðu verið svikin og rænd af sömu mönnum. Hann skrifar bréf sem stuðningsmaður Samherja, reynir að gera ofbeldismanninn að fórnarlambinu, tekur sér stöðu með óbilgjörnum og spilltum hagsmunum. Þar vill hann standa, þar á hann heima. Og væntanlega flokkur hans líka sem samþykkti bréfið með þögn sinni.
Eins og þingmenn Miðflokksins í Klaustursmálinu ráðast Samherjamenn annarsvegar á uppljóstrarann, reyna sverta hann með öllum hugsanlegum aðferðum, og hinsvegar með því að ýja sterklega að því að fjölmiðlafólkið sem hafa unnið fréttir um málið, hafi annarlega hagsmuni að baki og því valið þá tölvupósta Samherja „sem pössuðu við þá sögu sem átti að segja.“
Vörn Samherja virðist vera sú að þeyta upp nógu miklu ryki, þvæla málið, gera staðreyndir tortryggilegar, gera fjölmiðlamönnum upp annarlegar hvatir – og hún fær stuðning frá jafn ólíkum stjórnmálamönnum og Gunnari Braga og Bjarna Benediktssyni. Bjarni sem vissulega sagði framgöngu Samherja ólíðandi, reyndust upplýsingar réttar, en bætti hinsvegar við: „En það sem er sláandi, og það sem maður hefur lengi vitað, að það er spilling í þessum löndum. Rót vandans í þessu tiltekna máli er veikt stjórnkerfi og spillt stjórnkerfi í landinu. Það virðist vera undirrót alls þess sem við erum að sjá flett ofan af.“
Svona talar einn valdamesti stjórnmálamaður landsins, formaður stærsta flokksins og fjármálaráðherra. Bjarni virðist sjá heiminn í gegnum undarleg sólgleraugu, og gefur í skyn að sökin liggi í raun ekki hjá Samherja, heldur Namibíumönnum. Fjármálaráðherra vill kannski fá okkur til að álykta að veikt og spillt stjórnkerfi þeirra hafi dregið saklausa Samherjamenn á tálar?
„Ég stóð alltaf í þeirri trú að fréttamenn hefðu sannleiksleit að leiðarljósi í sínum störfum. Það er kannski misskilningur hjá mér,“ skrifar Björgólfur Jóhannsson. Björgólfur er gamall samherji Þorsteins, sat lengi í stjórn Samherja og Síldarvinnslunnar sem Samherji á drjúgan hluta í. Og í fyrra var hann tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins sem stjórnarformaður og stjórnarmaður Íslandsstofu. Íslandsstofa er „samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs … veitir fyrirtækjum faglega aðstoð við markaðssókn erlendis …“ eins og segir á vef hennar. Hún hefur það hlutverk að sinna markaðs– og kynningarmálum fyrir Ísland á erlendri grund, „sem beinist að því að efla orðspor og ímynd Íslands erlendis.“
Hvað eigum við að lesa úr því að maður sem hefur valist til að vera andlit íslenskra viðskipta út á við, taki sér frí frá þeim störfum til að vinna fyrir Samherja, ekki til að bæta verulega skaddað orðspor þeirra, biðja namibísku og íslensku þjóðina afsökunar, heldur til að leggja sig allan fram við að réttlæta óboðlegt, siðlaust, gráðugt og glæpsamlegt framferði fyrirtækisins í Namibíu? Hvernig komumst við hjá því að álykta að Björgólfur hjá Samherja og Björgólfur á Íslandsstofu vinni á samskonar hátt? Er kannski siðferðisleg skylda okkar að senda hraðskeyti til heimsins: Ekki treysta neinu sem kemur frá Íslandsstofu, þeir eru með Samherjavírusinn?
Eða erum við kannski, þegar allt kemur til alls, fyrst og fremst glúrin í að flytja út spillingu?
Fjandinn, kannski endar þetta ekki vel, kannski erum við bara vonlaus
Það er eitthvað undarlegt að hérna, sagði Svein Harald Øygard, í viðtali við Egil Helgason sem hafði rétt áður rætt við Svein um gráa listann sem íslenska ríkið lenti á, og bætt við að það hafi auðvitað verið líka verið áfall að við skyldum vera svona áberandi í Panamaskjölunum; það hefði átt að vekja okkur, en gerði það ekki.
„Það er með ólíkindum,“ svaraði Svein. „Það kom mér líka á óvart þegar ég var hérna. Fjármálagjörninga sem tíðkuðust hérna hafði ég aldrei séð áður. Ég hef unnið við þetta í 30 ár. Ég hafði hvergi séð annað eins fyrirkomulega og ég sá á Íslandi. Hvernig fólk talar um skattaskjól, Ég hafði aldrei heyrt annað eins … Það er eitthvað undarlegt að hérna og þetta er góður tími til að grípa til aðgerða.“
Panamaskjölin, grái listinn, Samherji, Kristján Þór, árás fjármálaráðherra á RÚV í kjölfar fréttaþáttarins um Samherja. Hvernig líður þér, elsku vinur? Bara prýðilega, takk, ég er með ykkur öll í vasanum, öll á einni lyklakippu, stjórnmálamenn, Íslandsstofu, byggðirnar, ég nefni aðallykilinn Ófyrirleitni, og trúðu mér, hann gengur að öllu, líka þér.
„Þetta er góður tími til aðgerða.“
Sagði Svein Harald í Silfri Egils; viku síðar er Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækja í sjávarútvegi, ein gestanna í þættinum þar sem Egill undrast víðtækt erlent fyrirtækjanet íslenskra útgerðarfyrirtækja, aflandseignir, mikla fjármuni sem fyrirtækin koma undan í stað þess að láta renna til íslensks samfélags. Heiðrún Lind var skjót til svars, sagði þetta firru hjá Agli, og bætti við: „Hvaða fyrirtæki er það? Nefndu mér dæmi um þau fyrirtæki!“
Egill hafði engin nöfn handbær og áhorfendur sátu uppi með þá tilfinningu að hann hefði farið með fleipur. Enda er Heiðrún Lind afar skelegg, örugg, rökföst. Maður hugsaði, hún er með allt á hreinu.
Eða ekki.
Því daginn eftir birtist í fjölmiðlum ógnarlangur listi sem staðfesti af ískyggilegum þunga orð Egils. Aflandseignir íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja á Tortóla og í Panama. Vissi hin skelegga Heiðrún Lind ekki betur, eða laug hún einfaldlega að Agli og að þjóðinni í beinni útsendingu?
„Förum ekki í umræður um kerfisbreytingar,“ sagði Elliði Vignisson bæjarstjóri í Ölfusi, og í mörg ár bæjarstjóri fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Vestmannaeyjum, í sama þætti. Að hans mati geri Samherjamálið enga kröfu um umræðu um kerfisbreytingar: „Það eru sósíalistar í Namibíu sem þiggja mútur,“ sagði hann, og virtist fara í skó formanns síns með því gefa í skyn að sökin liggi ekki síður, eða jafnvel frekar, hjá þeim sem þiggja mútur, en þeim sem greiða þær. Menn fara stundum langar bæjarleiðir til að réttlæta siðleysi.
„Hvaða fyrirtæki eru það? Nefndu mér nöfn um þau fyrirtæki.“
„Förum ekki í umræður um kerfisbreytingar“.
„Jafnvel í Rússlandi þyrfti Kristján Þór að stíga til hliðar.“
„Ég hafði hvergi séð annað eins fyrirkomulega og ég sá á Íslandi. Hvernig fólk talar um skattaskjól, Ég hafði aldrei heyrt annað eins.“
Það er eitthvað undarlegt að hérna, og hefur lengi verið.
Afar flókin og lævísleg eigendatengsl á íslenskum bönkum fyrir hrun vakti furðu sérfræðinga um allan heim, og ól á tortryggni í garð íslensks efnahagslífs.
Samherjamálið, langur listi yfir aflandseignir einstaklinga og fyrirtækja í sjávarútvegi, fullkomin vanhæfni sjávarútvegsráðherra – allt þetta hlýtur að vekja upp óþægilegar spurningar um íslenskan sjávarútveg. Og við eigum rétt, við eigum heimtingu á raunverulegum svörum. Ekki útúrsnúningi. Ekki kattarþvott eins og ríkisstjórnin sýnir í máli Kristjáns Þórs. Við eigum heimtingu á alvöru rannsókn.
Eða finnst okkur kannski bara í fínu lagi að fólk sem hefur auðgast stórlega á sameign þjóðarinnar komi peningum undan í skattaskjól? Að risafyrirtæki á borð við Samherja, sem ræður yfir lífi byggðarlaga, fari hiklaust á svig við lög?
Miðflokksmenns drógu þann lærdóm af Klaustursmálinu að það skiptir engu máli hvað maður gerir, maður kemst upp með hvaða óhreinindi sem er. Það liggur í siðrofi tímans. Donald Trump, valdamesti leiðtogi heims, staðfestir það daglega. Formaður Sjálfstæðisflokksins gefur í skyn að Samherjamönum hafi verið vorkunn að stíga inn í samfélag þar sem mútur tíðkast, reynir jafnframt að draga úr trúverðugleika RÚV, og þá um leið fréttaskýringar þess á Samherjamálinu. Og stjórnarformaður Íslandsstofu, andlit Íslands út á við í viðskiptum, sest í forstjórastól Samherja, reynir að réttlæta siðleysi þess og að sverta alla þá fjölmiðla sem gagnrýna fyrirtækið. Það er eitthvað að hérna, það er eitthvað mikið að. Okkur mistókst að hreinsa til eftir hrunið, misstum af því tækifæri. Íhaldssamir flokkar sitja nú við völd, og sjá til þess að ekki verði hreyft við stjórnarskránni, að ekki verði gerðar neinar grundvallarbreytingar. Útgerðamenn fá að hafa sín skattaskjól í friði. Og nú kemur siðrof tímans ofan í allt saman. Þetta endar ekki vel.
Lestu meira:
-
1. janúar 2020Mest lesnu aðsendu greinar og skoðanagreinar ársins 2019
-
1. janúar 2020Árið þar sem áhyggjur af peningaþvætti flutu upp á yfirborðið á Íslandi
-
1. janúar 2020Ómöguleg staða að pólitískt kjörinn ráðherra veiti sérstakar fjárheimildir til rannsókna
-
31. desember 2019Árið 2019: Endalok GAMMA
-
31. desember 2019Heilt ár á Hótel Tindastól
-
30. desember 2019Mest lesnu viðtöl ársins 2019
-
30. desember 2019Árið 2019: Allir ríkisstjórnarflokkar fengu fé frá sjávarútvegnum í fyrra
-
30. desember 2019Ár vinnandi fólks
-
30. desember 2019Hvernig líður þér, elsku vinur? Bara prýðilega, takk, ég er með ykkur öll í vasanum
-
29. desember 2019Mest lesnu fréttir ársins 2019