Um daginn sendi háöldruð móðir mín mér mynd af henni sjálfri ásamt Guðrúnu frænku og ömmu minni. Myndin var um átta ára gömul og var mamma mín þá 49 ára. Aðeins 14 árum eldri en ég er í dag. Ég benti mömmu gömlu á það að hún væri eiginlega bara unglingur á þessari mynd.
Mamma svaraði um hæl og sagði mér að ég væri að ná henni – allavega í hlutfalli, miðað við þegar ég fæddist. Sem var hárrétt hjá henni.
Mamma eignaðist mig þegar hún var 22 ára gömul. þegar ég varð eins árs var hún því 23 sinnum eldri en ég. Þá áttum við mamma enga samleið. Hún var ellismellur og ég ungabarn. 10 árum seinna náði móðir mín 33 ára aldri og ég 10 ára. Þá var hún rétt rúmlega þrisvar sinnum eldri en ég. Það var um það leiti sem við gengum Laugarveginn saman. Samræður okkar voru svo sem ekkert sérstaklega djúpar, en við náðum þó mun betur saman en við gerðum þegar hún var 23 sinnum eldri en ég.
Þegar fram líða stundir minnkar hlutfallslegur aldursmunur okkar mömmu
Ef við erum ódauðleg, sem ég tel ekkert sérstaklega líklegt (en hver veit?), þá heldur þessi munur áfram að minka. Þegar hún verður 152 ára (og ég 130) fellur hlutfallslegi aldursmunurinn niður í 1,17; þegar hún nær 512 ára aldri (og ég 490) fellur hann niður í 1,05; og á 13.136 afmælinu hennar (13.114 afmælinu mínu) verður munurinn aðeins 1,002.
Ef við mamma erum ódauðleg, þá verðum við á endanum hlutfallslegir jafnaldrar
Á endanum, þegar mamma verður óendanlega gömul og ég óendanlega mínus 22, mun hlutfallslegur aldursmunur okkar vera nánast enginn.
Ef þú trúir mér ekki, spurðu þá bara stærðfræðina
Þar hafið þið það.