Það eru uppi aðstæður í heiminum, og íslensku samfélagi þar með talið, sem kalla á að víkja öllu hefðbundnu dægurþrasi til hliðar. Pólitísk hugmyndafræði og kredduáherslur í ríkisfjármálum verða líka að víkja. Skynsamt og rétt meinandi fólk verður að taka höndum saman, móta markvissa stefnu um skýrar aðgerðir og hrinda þeim svo fumlaust í framkvæmd. Það verður að geta sett sig í spor mismunandi hópa samfélagsins við mótun þeirra aðgerða og reyna eftir bestu getu að hafa samráð þegar að framkvæmd þeirra kemur.
Með hverjum deginum sem líður sem að fát er á því hvernig skilaboð eru framsett, að óvissa sé um hver staðan sé og hvað sé í vændum, þá minnkar glugginn til að takast á við þessar áskoranir almennilega. Og samhliða vex lýðskrumurum sem reyna að selja sig sem sterka leiðtoga, en eru aðallega sjálfhverft lýðræðislegt skaðræði sem kunna fyrst og fremst að nýta sér aðstæður til að slá pólitískar keilur, fiskur um hrygg. Það er gríðarlega samfélagslega mikilvægt að samhentar aðgerðir jaðarsetji slíka aðila. Allir sem leggja til að tilmæli sérfræðinga séu hunsuð eiga að dæmast samstundis úr leik, enda oftar en ekki vart sérfræðingar í nokkru nema sjálfum sér.
Það þarf að vera áætlun
Enn sem komið er hefur ríkisstjórninni mistekist illa að sinna því leiðtogahlutverki sem hún á að sinna. Blaðamannafundur hennar síðastliðinn þriðjudag, þar sem sjö óljósar og að einhverju leyti endurnýttar aðgerðir til að skapa viðspyrnu fyrir íslenskt efnahagslíf, fer í sögubækurnar fyrir að vera andstæðan við það að ná tilgangi sínum. Þar sáust þrír leiðtogar þriggja ólíkra flokka sem eru búnir að hafa gaman saman í ríkisstjórn aðallega í meðvindi, skiptast á að troða sér í sviðsljósið án þess að nokkur þeirra hefði í raun mikið markvert að segja. Á sama tíma eru aðrir ráðherrar, sem augljóslega er haldið frá helstu ákvörðunum og sviðsljósinu gegn þeirra vilja, að tala fyrir harðari og umfangsmeiri aðgerðum í fjölmiðlum og þar með á skjön við tón forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar.
Munnleg skýrsla um aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum á Alþingi í gær var sömuleiðis afar innihaldsrýr og skildi áhorfendur eftir með fleiri spurningar en svör.
Fundurinn í dag, þar sem greint var frá samkomubanni, var skárri og upplýsingarnar sem þar voru settar fram skýrar. Þar skipti máli að hafa það öfluga teymi sérfræðinga sem stýrt hafa aðgerðum í sóttvarnarmálum með stjórnmálamönnunum. En öll umgjörðin var ekki traustvekjandi.
Þetta þarf allt saman að batna og ósamstíga ríkisstjórn þarf að koma sér saman um hvernig sé best að eiga reglulegt og stöðugt samtal við þjóðina á þessum fordæmalausu tímum. Og hver sé best til þess fallinn að leiða það samtal.
Samkomubann og ferðabann
Fyrst og síðast þarf að setja heilbrigði íslenskrar þjóðar í forgang og grípa til allra þeirra aðgerða sem þarf til að tryggja það. Til þess að leggja þá línu erum við með sérfræðinga sem á að hlusta á og fylgja út í eitt. Það verður seint sagt nógu oft að þeir séu að standa sig frábærlega, við ótrúlega krefjandi og erfiðar aðstæður með mikið magn af heimatilbúnum besservisserum á bakinu sem ala á ótta og óöryggi byggt á engu nema tilfinningu. Við erum að greina, rekja og skima betur en flestar aðrar þjóðir. Samfélagið allt er að taka þátt í að vinna gegn útbreiðslu með því að sýna ábyrga hegðun og verja þá hópa sem eru viðkvæmastir.
Í dag bættust svo við tilmæli um samkomubann og ákveðnar hömlur á skólastarfi. Þetta er gert vegna þess að sóttvarnarlæknir kallar eftir aðgerðunum og einboðið að ráðast af æðruleysi í aðgerðirnar.
Samhliða því að taka ákvarðanir um ítrustu heilbrigðisákvarðanir þarf að huga að þeim gríðarlegu efnahagslegu afleiðingum sem þær fordæmalausu aðstæður sem við stöndum frammi fyrir munu hafa í för með sér.
Í gær breyttist þessi staða enn til hins verra þegar forseti Bandaríkjanna ákvað að setja ferðabann á lönd sem tilheyra Schengen-svæðinu til að fela eigin almenna vanhæfni og sértækt aðgerðarleysi í baráttunni gegn útbreiðslu kórónuveirunnar.
Áhrif bannsins verða mest á Ísland, enda Bandaríkin stærsta einstaka viðskiptaland Íslands í þjónustuútflutningi, sem í felst aðallega sala á ferðaþjónustu. Á árinu 2018, þegar sá þjónustuútflutningur náði hámarki, var hann 32 prósent af öllum heildarútflutningi Íslands á þjónustu. Samkvæmt bráðabirgðartölum Hagstofu Íslands fyrir síðasta ár var hann 29,2 prósent það árið. Alls var um að ræða 202 milljarða króna í þjónustutekjum sem koma frá þessu eina landi.
Nú er, í fullri alvöru, hægt að búast við því að ferðamenn sem heimsæki landið í ár verði nær einni milljón en tveimur.
Hefur áhrif alls staðar
Þessi staða mun hafa ruðningsáhrif út um allt atvinnulífið og samfélagið. Ísland er örríki, með örmynt og mjög einhæfar gjaldeyrisskapandi tekjulindir. Það verður keðjuverkun sem byrjar hjá ferðaþjónustunni og teygir sig síðan yfir í aðrar greinar. Við blasir erfið kreppa með miklu atvinnuleysi og fjöldagjaldþrotum. Í þetta skiptið munum við ekki geta sótt lausnina í vasa erlendra kröfuhafa. Kórónuveiran á hvorki bankareikning né kreditkort og það verður ekkert til hennar að sækja. Við verðum að leysa þessa stöðu sjálf.
Til þess erum við í góðum færum. Skuldastaða ríkissjóðs er mjög góð, enda hafa stöðugleikaframlögin sem kröfuhafarnir borguðu fyrir að fá að losna út úr íslenskum höftum lækkað skuldir ríkisins um mörg hundruð milljarða króna á örfáum árum. Krónan hefur veikst og það bætir samkeppnishæfni útflutningsgreina strax. Engin teikn eru á lofti um verðbólgu vegna slaka í efnahagskerfinu og lágs heimsmarkaðsverðs á olíu og frekar líklegt að hún lækki en hitt. Gamlar plötur um að verja verði verðtryggða húsnæðislántakendur, sem hafa búið við bestu lánaaðstæður Íslandssögunnar undanfarin ár á sama tíma og virði eigna á höfuðborgarsvæðinu hefur tvöfaldast, mega því fara aftur niður í geymslu.
Gjaldeyrisvaraforði þjóðarinnar er nú 856 milljarðar króna og ríkissjóður ætti líka að geta fengið lán á mjög góðum kjörum ef eftir því verður leitað. Við erum í góðri stöðu til að bregðast vel við og skila landinu heilu út úr þessum efnahagslegu hremmingum.
Til að stilla þessu upp á skiljanlegan hátt þá má líkja þessu við heimilisbókhald. Íslenska ríkið er búið að vera að greiða niður húsnæðislánið sitt hratt á síðustu árum og vann auk þess í lottóinu árið 2015. Það hefur safnað góðum varasjóði til að takast á við erfiðari tíma.
Þeir erfiðu tímar eru núna.
Skýrt og auðskiljanlegt
Þær aðgerðir sem hafa verið kynntar duga ekki til. Það að fresta skilum á opinberum gjöldum, líkt og ákveðið var í dag að heimila, leysir ekki vanda þeirra fyrirtækja sem eiga illa fyrir helstu útgjöldum, heldur frestar honum bara þangað til í apríl. Sú aðgerð lyktar af því að vera skammtímaaðstoð við Icelandair í dulargervi almennrar aðgerðar. Afnám gistináttaskatts skiptir engu máli þegar það eru fáir ferðamenn hvort eð er að koma til að greiða hann. Markaðsátak í framtíðinni gerir ekkert fyrir fyrirtækin sem þurfa að loka um næstu mánaðamót, eða starfsfólkið sem missir vinnuna. Óútfærðar hugmyndir um að halda óskilgreindum „lífvænlegum“ fyrirtækjum í ferðaþjónustu lifandi gera ekkert fyrir öll hin fyrirtækin í landinu, jafnvel í óskyldum greinum, sem verða óhjákvæmilega fyrir miklum áhrifum af stöðunni.
Í þriðja lagi þarf að stórauka allar greiðslur í atvinnuleysistryggingasjóð, lengja tímabilið sem fólk getur verið á fullum bótum, búa til aukinn sveigjanleika fyrir starfsfólk að geta fengið bætur en samt verið í hlutastarfi og beina fleirum í nám á komandi hausti án þess að það skerði framfærslumöguleika þeirra. Það ætti líka að setja aukið fjármagn í millifærslukerfi og beina þeim í auknum mæli að lágtekjuhópum sem fara alltaf verst út úr öllum dýfum.
Í fjórða lagi þarf að vera með puttann á púlsinum, grípa inn í hratt ef með þarf og viðhalda hið minnsta rekstri allra þeirra sem teljast kerfislega mikilvæg þjónustufyrirtæki.
Ísland er í færum til að komast í gegnum þessar aðstæður. Til þess þurfa þeir einstaklingar sem við kjósum til að stýra þjóðinni að sýna auðmýkt, fórnfýsi, dugnað og þor. Takist þeim það mun Ísland ná sér hratt og örugglega eftir að faraldrinum og afleiðingum hans slotar. Takist þeim það ekki munu pólitískir tækifærissinnar nýta sér ástandið til að skapa glundroða og auka eigin fyrirferð.
Vonandi tekst þeim það.