Það er karlmannlegt að sparka bolta í mark. Það er karlmannlegt að veiða fisk á togara. Það er karlmannlegt að taka 100 kíló í bekk og horfa á aðra karlmenn lumbra hvor á öðrum í boxhring. Það er karlmannlegt að skjóta úr byssu og ybba gogg. Það er karlmannlegt að keyra yfir hámarkshraða.
Það er karlmannlegt að taka áhættu – og yfirstíga ótta.
Það er kvenlegt að sauma í. Það er kvenlegt að elda mat. Það er kvenlegt að vinna í verslun. Það er kvenlegt að halda hreinu. Það er kvenlegt að ræða málin. Það er kvenlegt að hjúkra sjúkum.
58% starfandi lyfsala eru konur. 70% lyfjafræðinga eru konur. 92% geislafræðinga eru konur. 97% sjúkraliða eru konur. 97% hjúkrunarfræðinga eru konur. 99% lífeindafræðinga eru konur. Allar ljósmæður Íslands eru konur.
Heilbrigðisstarfsfólk, eftir kyni og stétt (2019)
Rúmlega 85% heilbrigðisstarfsmanna Íslands eru konur.
Ef horft er á fréttir mætti halda að það væri karlmannlegt að ræða peningastefnu Seðlabankans. Maður gæti líka haldið að það væri karlmannlegt að útbúa efnahagspakka, til með að koma í veg fyrir það sem gæti auðveldlega orðið verra hrun en hrunið.
Víglínan gegn COVID-19 er að mestu mynduð af konum. Það eru aðallega konur sem mæta í vinnuna, taka sýni og hlúa að sjúkum, þrátt fyrir smithættu. Það eru fyrst og fremst konur sem stara framan í COVID-19 og berja ófétið á brott. Konur taka áhættu og yfirstíga óttann.
Kannski er orðið karlmennska rangnefni. Ef ekki þá hlýtur það að vera karlmannlegt að haga sér eins og kona þessa dagana.