Fyrir skemmstu var birt skýrsla sem KPMG vann með Ferðamálastofu og Stjórnstöð ferðamála þar sem teiknaðar voru upp sviðsmyndir um áhrif veirunnar sem veldur COVID-19 á ferðaþjónustu á Íslandi. Svartasta sviðsmyndin sem var þar teiknuð upp gerði ráð fyrir að komur ferðamanna myndu dragast saman um 69 prósent á þessu ári og að gjaldeyristekjur myndu minnka um 330 milljarða króna vegna þessa.
Í þessari svörtustu sviðsmynd er reiknað með að ferðamenn sem heimsæki Ísland verði 600 þúsund í ár, en þeir voru um tvær milljónir í fyrra. Samkvæmt tölum Ferðamálastofu um fjölda ferðamanna þá komu alls 351.264 ferðamenn til Íslands á fyrstu þremur mánuðum ársins 2020. Slá má því föstu að fjöldinn í apríl sé nánast enginn og að þeir sem þó fari um Keflavíkurflugvöll séu aðallega Íslendingar sem eru að flýja aðstæður í öðrum löndum eða útlendingar sem vilja frekar vera heima hjá sér á meðan að faraldurinn, og frelsistakmarkanirnar sem hann hefur í för með sér, gengur yfir. Þetta sást ágætlega um páskahelgina þegar 99 farþegar fóru um flugstöðina. Á sama tíma í fyrra voru þeir 84 þúsund.
Svartasta spá KPMG gerir því ráð fyrir að um 250 þúsund ferðamenn til viðbótar muni heimsækja Ísland áður en að árið 2020 verður liðið. Hvaðan þeir eiga að koma liggur ekki fyrir. En verulega ólíklegt er að þessi spá verði að veruleika. Og sú eyðimerkurganga gæti teygt sig töluvert inn í framtíðina.
Þótt vona verði að ferðaþjónustan jafni sig sem fyrst, og nái að rísa upp á ný sem mikilvæg atvinnugrein fyrir land og þjóð í einhverju formi þegar betur árar, þá ætti Ísland að búa sig undir að það komi vart annar ferðamaður inn í landið um ófyrirséðan tíma.
Miklar takmarkanir þangað til að bóluefni finnst
Ákvörðun um að opna Ísland fyrir ferðamönnum liggur auðvitað hjá íslenskum stjórnvöldum. Hvort þeir komi þótt að opnað sé er hins vegar eitthvað sem við ráðum litlu um. Þvert á móti mun það fara eftir því hvernig baráttan við veiruna þróast og hver staða mála verður á okkar helstu markaðssvæðum. Í Evrópu er rætt um mögulegar tvíhliða opnanir milli ríkja sem hafa náð árangri í baráttunni en fyrirliggjandi er að þær verða takmörkunum háð og munu örugglega ekki, nema mögulega að mjög litlu leyti, ná til Íslands.
Það er nokkuð ljóst að eitt af þrennu þarf að gerast til að hlutir geti fallið aftur í þann ferðalagafarveg sem þótti venjulegur fyrir nokkrum mánuðum síðan í heiminum: Að bóluefni finnist við kórónuveirunni, að lyf verði þróað sem haldi COVID-19 sjúkdómnum niðri eða að hjarðofnæmi myndist í heiminum.
Í heimssögunni hefur aldrei tekið styttri tíma en fjögur ár að þróa bóluefni. Það met var sett við þróun bóluefnis við hettusótt á fimmta áratug síðustu aldar. Bjartsýnustu menn vonast nú til þess að það takist að þróa bóluefni á einu og hálfu ári. Það er sannarlega ekki ómögulegt. Tækni og þekking í dag er allt önnur og betri en hún var um miðja síðustu öld og þegar um er að ræða faraldur sem hefur jafn víðtæk áhrif og COVID-19 þá verður að teljast líklegt að ýmsum varnöglum varðandi prófanir og þróun verði ýtt til hliðar. Jafnvel þótt þessar bjartsýnisspár gangi eftir þá yrði bóluefnið ekki til fyrr en seint á árinu 2021 í fyrsta lagi. Þá ætti eftir að framleiða það, til að byrja með, í nokkur hundruð milljónum skammta áður en hægt væri að fara að opna heiminn að nýju. Sú framleiðslugeta er ekki til staðar í dag. Fjarri lagi.
Ef lyf yrði þróað til að halda niðri sjúkdómnum þá myndi endurkoma efnahagskerfa samt sem áður verða mjög hæg, enda fyrirliggjandi að sjúkdómurinn myndi áfram berast á milli manna þótt betri tól væru tiltæk til að berjast gegn verstu afleiðingum hans.
Heildrænt hjarðónæmi, þar sem stór hluti íbúa heimsins er orðinn ónæmur fyrir smiti þannig að hægt sé að opna fyrir frjálsa för milli flestra landa, er fjarlægur draumur eins og sakir standa.
Algjör óvissa um ónæmi
Allskyns hugmyndir eru um að samhliða auknum mótefnamælingum verði hægt að opna fyrir viðskipti eins og venjulega fyrir þá sem hafa þegar sýkst. Málið er þó mun flóknari en svo, líkt og kom fram í viðtali við Þórólf Guðnason sóttvarnarlækni á Kjarnanum um liðna helgi. Þar sagði hann meðal annars ekkert vitað um hversu lengi mótefni muni verja fólk frá því að sýkjast af veirunni. Mótefnamæling getur því ekki nýst til að votta það að einstaklingur hafi sýkst og sé nú varinn.
Fyrir ákveðna hópa, til dæmis margt ungt fólk sem telur sig ódauðlegt, myndi skapast ákveðinn freistnivandi ef þetta fyrirkomulag myndi reynast gerlegt og mótefnamælingavegferðin yrði fetuð. Þeir sem væru búnir að mynda algjört ónæmi væru þá í annarri og betri stöðu til að lifa lífinu til fulls, innan þeirra marka sem aðstæður setja, á meðan að aðrir myndu þurfa að búa við miklar hömlur. hinir ónæmu yrði þá verðmæt vara á atvinnumarkaði, enda mættu þeir gera miklu meira, og gætu verðlagt sig í takti við það. Því gætu sumir metið það sem svo að það væri áhættunnar virði að sýkjast vísvitandi til að verða einn af hinum ónæmu. Það eru þekkt dæmi um slíka hegðun í öðrum faröldrum.
Læknar og sérfræðingar vara mjög við slíku enda kórónuveiran sem veldur COVID-19 stórhættuleg. Þótt ungt og heilsuhraust fólk sé ekki talið til viðkvæmra hópa þá eru fjöldamörg dæmi um að slíkt hafi veikst alvarlega og jafnvel dáið.
Allar aðgerðir í þá átt að tvískipta samfélaginu í hina ónæmu sem hafa fullt frelsi til athafna og hina ósýktu sem þurfa að sæta miklum hömlum á daglegu lífi munu ýta undir þennan freistnivanda.
Við erum heppin og í forréttindastöðu
Íslendingar eru að mörgu leyti heppnir. Við búum á eyju með einn alþjóðaflugvöll, erum fámenn, mjög tengd með gott upplýsingaflæði, tæknivædd og með sterkt velferðarkerfi. Allt þetta gerði það að verkum að Ísland var í miklu betri stöðu til að takast á við útbreiðslu veirunnar en flest, ef ekki öll, önnur lönd. Það er í raun ekki hægt að bera okkar aðstæður saman við nokkrar aðrar, sérstaklega í þéttbýlli og flóknari samfélögum. Gæfa okkar hefur síðan verið sú að stjórnmálamenn hafa eftirlátið sérfræðingum að stýra viðbrögðunum að öllu leyti, og sniðganga sófaspekinganna að öllu leyti. Það mætti gera á mun fleiri sviðum en í sóttvörnum.
Það vinnur líka með okkur að geta hratt skipt aftur yfir í neyðargír ef smit fara að greinast í einhverju magni aftur. Allir ferlar um sóttkví og einangrun hafa virkað framúrskarandi, til staðar er mikil geta til prófana og smitrakningarappið mun reynast ómetanlegur bandamaður ef við þurfum á því að halda.
Allt þetta gerir það að verkum að takmarkanir á frelsi okkar á Íslandi hafa verið afar mildar miðað við flest önnur lönd. Og það styttist í að þær mildist enn frekar. Ef allt gengur að óskum, sem er sannarlega ekki sjálfgefið, þá ættum við að geta lifað nokkuð eðlilegu lífi innan okkar landamæra þangað til að varanleg lausn finnst til að drepa veiruna. Það eru forréttindi.
Það er hins vegar óskhyggja að ætla að ferðaþjónusta, stoðin undir efnahagskerfið sem varð óvart til vegna blöndu af bankahrunsfréttum, Eyjafjallajökulsgosi og falli krónunnar, muni hafa möguleika á að ná sér í fyrri hæðir í nánustu framtíð. Um það ráðum við engu. Það fer allt eftir aðgerðum helstu markaðssvæða okkar, hvernig til tekst að vinna bóluefni við kórónuveirunni og vilja fólks til að ferðast þegar þessu skrýtna tímabili lýkur.
Vegna þessa stöndum við frammi fyrir stórum pólitískum spurningum um það hvernig eigi að bregðast við stöðunni og þeirri staðreynd að sem stendur eru rúmlega 50 þúsund manns, fjórðungur vinnumarkaðarins, atvinnulaus að hluta eða öllu leyti.
Stórar pólitískar spurningar
Þetta eru spurningar sem stjórnmálamenn sem kosnir voru til valda við allt aðrar aðstæður eru ekki með umboð til að svara. Spurningar um framtíðaráætlanir sem þeir sáu ekki fyrir og hafa aldrei rætt við kjósendur.
Þótt flestir sjái að varhugavert sé að boða til kosninga í sumar eða haust – á meðan að neyðaraðgerðir eru enn í gangi, rykið er að setjast og ný heimsmynd að birtast – þá knýja þessar aðstæður á að kosið verði um hugmyndir um framtíðaruppbyggingu íslensks samfélags. Landsmenn þurfa að geta lýst skoðun sinni á þeim og stjórnmálaflokkar ættu að fagna tækifærinu til að kynna sína sýn.
Ólíkt því sem var eftir bankahrunið þá munu alþjóðadeilur og stórfelld skuldakreppa, með tilheyrandi óróa og erfiðleikum, ekki lita uppbyggingartímann í þetta skiptið. Við þurfum ekki að eyða tíma í að finna pólitíska sökudólga, rífast um Icesave og skuldaleiðréttingar eða að opinbera flókna hvítflibbaglæpi. Þetta verður ekki tiltekt eftir hömlulausa og siðferðislega vafasama svallveislu. Þetta ástand er nefnilega ekki neinum að kenna.
Og við erum í afar góðum færum til að bregðast vel við því.
Umbætur fylgja áföllum
Hér er mikill mannauður. Hátt menntunarstig. Um fimm þúsund milljarða króna eignir í lífeyrissjóðum og rúmlega 700 milljarða króna eigið fé í þremur stærstu ríkisfyrirtækjunum. Staða ríkissjóðs er afar heilbrigð. Við eigum tæplega þúsund milljarða króna gjaldeyrisvaraforða.
Framundan er eðlileg aðlögun opinbers reksturs að nýjum veruleika. Í því felast fjölmörg tækifæri, til dæmis til að einfalda alla stjórnsýslu hérlendis með stórfelldri fækkun sveitarfélaga og annarra stjórnsýslueininga, ekki með það að leiðarljósi að geta lækkað skatta á fjármagnseigendur heldur til að bæta alla nauðsynlega þjónustu við borgaranna. Ekki til að minnka fjármagnið sem fer í velferðar- og stoðkerfin heldur að nýta það betur. Ekki til að fækka hjúkrunarfræðingum, lögreglumönnum eða kennurum heldur fjölga og þess í stað skera burtu algjörlega óþarfa stjórnsýslulega fitu, oft mannaða af pólitískum gæðingum. Ekki til að flækja framfærslukerfi þeirra verst settu heldur að laga þau.
Framundan er vinna við að teikna upp hvernig Ísland 2.0 uppfærslan verður. Á hvaða atvinnuvegauppbyggingu sú útgáfa af samfélaginu á að byggja. Á að setja mikla opinbera fjármuni í mannaflsfrekar atvinnugreinar með lága framleiðni og vona það besta? Á að dæla því í niðurgreidda innlenda framleiðslu og stíga frekari skref aftur að einangrun? Á að nýta fjármagnið til að fjárfesta í hugverkadrifnum greinum með miklu meiri framleiðni og vaxtartækifæri í alþjóðageiranum sem henta best þeirri menntun sem við eyðum miklu fjármagni í að bjóða Íslendingum upp á? Eigum við að leggja enn meiri áherslu á auðlindanýtingu áfram í stað þess að „fjölga eggjunum í körfunni“? Eða eigum við að gera eitthvað allt annað? Það þarf að minnsta kosti að finna leiðir til að auka landsframleiðslu um 300 til 400 milljarða króna til að ná þeirri stöðu sem var í fyrra. Og enn meira til að tryggja frekari lífsgæðasókn til framtíðar.
Framundan er sanngirni- og réttlætisumræða um hvernig fjármagna eigi velferðarkerfið, hvernig verðmeta eigi störf og hvert framlag hvers og eins á þar að vera í gegnum innheimta skatta.
Eftir yfirstandandi erfiðleika þá verða stórkostlega spennandi, og mögulega einstakar, aðstæður sem ættu að laða frjótt og hugsandi fólk úr öllum stigum samfélagsins að stjórnmálaþátttöku. Raunverulegt tækifæri til að hrinda stórum hugmyndum sem munu móta íslenskt samfélag í nánustu framtíð í framkvæmd.
Eftir stór áföll koma nefnilega mikilvægustu umbæturnar. Skyndilega verða ómögulegar kerfisbreytingar mögulegar. Það sást til dæmis eftir seinni heimsstyrjöldina þegar velferðarríkin urðu til.
Þetta er ekki tímabundið ástand og við munum ekki hverfa aftur inn í tímann sem var. Heldur mögulega, og vonandi, í eitthvað betra.