Góð málefni: Enn eitt fórnarlamb COVID

Eikonomics tekur saman áhrif COVID-19 á áheit til keppenda í Reykjavíkurmaraþoninu og það tekjufall sem góðgerðafélög virðast ætla að verða fyrir sökum þess að ekki er hlaupið í ár. Hann er líka með lausnina.

Auglýsing

Fyrir 16 árum tók ég í fyrsta skipti á ævi minni þátt í Reykja­vík­ur­mara­þon­inu. Ég hljóp reyndar ekki mara­þon, heldur 10 kíló­metra. Það var þó meira en nóg, afrek mitt árið 2004 var ekki tím­inn held­ur að klára hlaup­ið, án þess að enda á gjör­gæslu. Það árið var hlaupið minna í snið­unum og kláruð­u 1.778 manns eina af fjórum vega­lendum sem í boði voru (7km, 10km, hálft og heilt).

Síðan hefur hlaupið vax­ið, eins og ill­gresið í blóma­pott­unum á svöl­unum mín­um. Í fyrra tók ég aft­ur þátt og hljóp 10 kíló­metra, formið var betra og ég fékk að vera 45 mín­útna héri. Það árið tóku 10.477 sálir þátt í einum af við­burð­unum fjórum sem í boði voru (3km, 10km, hálft og heilt). Ein­hverjir þeirra ­sem hlupu með mér skriðu í mark á undir 45 mín­út­um, sem ég leyfi mér að taka smá heiður af.

8.699 við­bótar þátt­tak­endur er mikið afrek fyrir móts­hald­ara og hval­reki fyrir góð­gerð­ar­fé­lög, sem sáu vax­andi hóp hlaupara og hugs­uðu sér gott til glóð­ar­inn­ar. Hlaupið er nú einn hel­sti fjár­öfl­un­ar­vett­vangur margra góðra mál­efna. Í fyrra höfðu ein­stak­lingar safnað hvorki meira né m­inna en 110 milljón krónum til góðra mál­efna dag­inn fyrir rás­dag, þegar söfn­un­inni var lokið höfð­u ein­stak­lingar safnað 41 milljón til við­bótar og í heild­ina söfn­uðu ein­stak­lingar og hópar 167 millj­ón­um[1].

Auglýsing

(Ástæðan fyrir því að ég tala um söfnun ein­stak­linga dag­inn fyrir hlaup hefur að gera með það að ég hef safnað þessum gögnum síð­ustu ár, en aðeins fyrir ein­stak­linga en ekki hópa og ekki að hlaup­in­u lokn­u.)

Frjáls fram­lög

Mál­efnin sem fólk hefur safnað fyrir í gegnum tíð­ina eru af ýmsum toga. Dag­inn fyrir rás­dag í fyrra höfðu ein­stak­lingar safnað 10,3 milljón fyrir Ljósið, félag sem veitir fólki sem fengið hef­ur krabba­mein end­ur­hæf­ingu. 4,3 millj­ónir höfðu safn­ast fyrir Kraft, félag sem veitir ungu fólki sem ­greinst hefur með krabba­mein stuðn­ing og 3,6 millj­ónir höfðu safn­ast fyr­ir Ein­stök börn, félag sem ­styður við börn með sjald­gæfa sjúk­dóma. 3,7 millj­ónir höfðu safn­ast fyrir vöku­deild Barna­spít­ala Hrings­ins.

Ég er ekki að gráta, heldur var ég að skera lauk[2].

En nú hefur verið hætt við hlaupið í ár. Ástæðan fyrir því er þó rétt­læt­an­leg, ekki viljum við hrúga tíu ­þús­und manns saman á tímum Covid – það gæti endað illa.

Þó veiran hafi áhrif á okkur öll þá hefur hún hvað mest áhrif haft á við­kvæm­ustu hópa sam­fé­lags­ins. ­Gam­al­menni og fólk með veikt ónæm­is­kerfi urðu oft mjög veik eða jafn­vel lét­ust út af veirunni. Fólk ­sem vinnur lág­launa­störf (sér­stak­lega í ferða­manna­geir­an­um) töp­uðu tekj­um. Gam­al­menni á elli­heim­ilum og öðrum stofn­unum fengu ekki heim­sókn lengur frá vinum og vanda­mönnum – sem lík­lega hefur hraðað hrörnun og í öllu falli haft nei­kvæð áhrif á vellíðan þeirra. Svo ekki sé minnst á fólk með alvar­lega sjúk­dóma, sem oft end­uðu í algerri ein­angr­un.

Heildar söfnunarupphæð einstaklinga á hlaupastyrkur.is; mikið minna hefur safnast í ár en á sama tíma í fyrra, fyrir fjögur af vinsælustu góðgerðarfélögunum.



Minna rennur í vasa góð­gerð­ar­fé­lag­anna

Í ár hefur söfn­unin ekki gengið eins vel og í fyrra. Þó hafa safn­arar staðið sig jafn­vel í ár; sam­kvæmt ­síð­ustu tölum er með­al­á­heiti í ár rúm­leg 18 þús­und krón­ur, eins og í fyrra. En mun færri hafa skráð ­sig í hlaupið og fyrir vikið hefur ekki eins mikið safn­ast. Dag­inn fyrir rás­dag í fyrra höfðu ein­stakir hlauparar safnað 110 millj­ónum en í ár hafa þeir safnað 44 millj­ón­um, sem er vissu­lega góð­ur­ ár­ang­ur, þó vondar fréttir fyrir sömu við­kvæmu hópa sam­fé­lags­ins og veiran leikur hvað grá­ast.

Heildar söfnunarupphæð einstaklinga á hlaupastyrkur.is; samanlagt hefur mikið minna safnast í ár en á sama tíma í fyrra.

Óæðri vara

Þegar harðna fer á dalnum dregur úr útgjöldum ein­stak­linga til góðra mál­efna. Helsta ástæða þess er að sjálf­sögðu sú að þegar fólk á minni pen­ing þá getur það ekki gefið eins mikið til góðra mál­efna. Einnig má færa rök fyrir því að í útgjalda­mengi okkar – sem inni­heldur allt það sem við viljum og ­getum keypt fyrir pen­ing­ana okkar – séu góð­gerð­ar­mál óæðri vara.

Óæðri vörur eru, í hag­fræði­legum skiln­ingi, vörur sem við neytum meira af þegar við eigum minn­i ­pen­ing. Til að mynda þegar ég var í háskóla keypti ég mikið af ódýrasta past­anu í Bón­us. Þegar ég fór að vinna þá dróg ég úr neyslu á ódýru pasta – og skipti yfir í líf­rænt ferskt pasta. Það gerir ódýrt ­Bónus pasta að óæðri vöru og ferskt pasta að venju­legri vöru.

Að sama skapi, þegar ég var í háskóla gaf ég ekki mikið til góð­gerð­ar­mála. Og mæld­ust fjár­út­lát mín til þeirra sem aukastafir í pró­sentum tekna minna. Eftir að ég fór á vinnu­markað juk­ust tekjur mín­ar og nú gef ég heilar pró­sentu­tölur af tekjum mínum til verð­ugra mál­efna. 

Eða alla­vega gerði ég það. Í dag er ég kom­inn í langt feðra­or­lof – sem að mestu ég fæ ekki greitt fyrir og er ég því ekki eins vel ­settur fjár­hags­lega og áður. Fyrir vikið er ég ekki eins örlátur og þegar pen­ingar komu inn á reikn­ing­inn í hverjum mán­uði. Því er ég lif­andi sönnun þess að gjafir til góðra mál­efna séu óæðri vara.

(Óæðri vara þýðir þó ekki að hún sé ekki eins merki­leg og aðrar vör­ur, að sjálf­sögðu eru gjafir til­ verð­ugra mál­efna langt um æðri flestum öðrum vörum í bók­staf­legri, en ekki hag­fræði­legri, ­merk­ingu orðs­ins.)

Minnk­andi jað­ar­nyt pen­inga

Tekju­lægstu ein­stak­lingar sam­fé­lags­ins fá hvað mest út úr hinni svoköll­uðu jað­ar­krónu. Jað­ar­króna er fræði­heiti sem þýðir ein­fald­lega „næsta króna“. Hug­takið lýsir þeirri við­bótar gleði sem ein­stak­ling­ur ­fær úr næstu krónu sem hann þén­ar.

Hag­fræð­ingar eru allir sam­mála um það að jað­ar­nyt falli almennt með auknum auði. Og ég meina all­ir. Meira að segja Milton Fried­man og Karl Marx hefðu ekki deilt um þá stað­reynd[3].

Góð­gerð­ar­fé­lög eru því hönnuð til þess að hámarka sam­fé­lags­lega ham­ingju. Þau fá pen­inga frá þeim ­sem ekki verða fyrir miklum lífs­gæðaskaða við tekju­tap og færa þá til þeirra sem fá tals­vert auk­in lífs­gæði úr sömu summu. Í fyrra var fullt af fólki sem ekki var með ofur­laun sem gaf til góðra mál­efna. Í núver­andi efna­hags­á­standi er jað­ar­króna margra þeirra of verð­mæt og það getur ekki lengur gef­ið eins mikið og áður. Rétt eins og ég í mínu feðra­or­lofi.

Þó er enn slatti af Íslend­ingum sem geta gef­ið, án þess að finna mikið fyrir því.

Lausnin liggur hjá þeim sem mest eiga

Þó hart sé í ári hjá mörgum er þó fullt af fólki sem á heilan hell­ing af pen­ing­um. Í fyrra áttu 238 ­fjöl­skyldur milli sín 260 millj­arða króna. Eða rúm­lega millj­arð hver, að með­al­tali. Þessar fjöl­skyld­ur ­gætu stoppað í gatið sem kemur til með að mynd­ast í fjár­öflun þess­ara verð­ugu góð­gerð­ar­fé­laga.

Lík­lega hafa þessar fjöl­skyldur tapað ein­hverju á Covid. En þó maður tapi ein­hverju af millj­arði, þá á maður enn slatta af millj­ón­um. Því hvet ég rík­ustu fjöl­skyldur lands­ins til þess að ganga í málið og sjá til þess að, í það minnsta, safn­ist eins mikið í ár og í fyrra. Nei, ég hvet þær til þess að sjá til þess að ­meira safn­ist – Ljósið, Kraft­ur, Ein­stök Börn og Barna­spít­ali Hrings­ins hafa, ef eitt­hvað er, meira við ­pen­ing­ana að gera núna en í fyrra.

Hin ein­falda kenn­ing hag­fræð­innar um mink­andi jað­ar­nyt krón­unnar segir okkur það að þeir sem eiga millj­arð og gefa eina miljón verða ekki fyrir miklum gleði­m­issi, alla­vega ekki af því að láta af hendi eina miljón eða svo (eða tvær, eða tíu). En gleði og lífs­gæði veikra barna, krabba­meins­sjúk­linga og aðstand­enda þeirra geta stór­batnað við að fá auka miljón (eða tvær eða tíu).

Einnig fylgir því oft mikil gleði að gefa – því gæti þessi rýrnun í eigna­stofni þeirra sem hafa það svo ­gott aukið á lífs­gæði og gleði þeirra sem gott hafa það, þegar upp er stað­ið.

Síð­asti dagur til að heita á hlaupara er á þriðju­dag­inn (25. ágúst).

Því segi ég: Kæru millj­óna­mær­ing­arn­ir, hugsið um jað­ar­nyt­in; hámarkið ham­ingju sam­fé­lags­ins á þessum glöt­uðu tímum og styðjið þá sem mest á því þurfa að halda. Þannig getið þið sofið vært, vit­andi það að þið búið í betri heim­i[4].

Punktar höf­und­ar:

[1] Þar sem þessi grein birt­ist á „rás­dag“ not­ast ég við tölur deg­inum fyrir hlaup­ið. Því eru þær aðeins lægri en loka­töl­ur, sem finna má hér.)



[2] Ég sagði ósatt. Ég var ekki að skera lauk
.



[3] Reyndar færði Milton Fried­man einu sinni fyrir því rök að þeir rík­ustu upp­lifðu aukin jað­ar­nyt úr ­pen­ing­um. En í grunn­inn trúði Fried­man því að fátæk­ustu hópar sam­fé­lags­ins fengju mest út úr jað­ar­krón­unni, meira segja svo að hann lagði til að lág­laun­að­asti hópur sam­fé­lags­ins greiddi „nei­kvæðan tekju­skatt“, þ.e.a.s. fengju við­bótar laun frá rík­inu – halló Milton Marx!

[4] Ég hvet reyndar alla sem geta til þess að leggja sitt af mörk­um, molar gera góm­sæta Semmelknödel.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiEikonomics