Ég gæti hafið þessa hugleiðingu á að skrifa: Guð býr í Bach. En það væri klisja. Frumlegra væri kannski að skrifa: Guð er dauður en Bach lifir. En það gæti farið skakkt ofan í einhverja, auk þess sem ég hef ekkert í höndunum sem sannar þá fullyrðingu.
En ég get þó fullyrt að laugardaginn 20. júní árið 2020 hljómaði Bach sprelllifandi á Vestfjörðum. Og ég held að guð hafi líka spriklað af lífi á meðan Bach hljómaði, samkvæmt skilningi hvers og eins sem á hlýddi. Guð í einhverri mynd. Í huga einhvers gljáandi feitur fiskur, í huga annars eitthvað óræðara, stærra ... eitthvað eins og Bach. Árið 2020 lifir guð í óteljandi ásýndum, þó að hann eigi að heita margdauður.
Þetta skrýtna, skrýtna ár ... sem var að líða. Eitthvað svo óvænt skreið inn í tilveruna, í fyrstu í líki dularfullra frétta frá fjarlægu Kína – ef eitthvað er til enn þann dag í dag sem heitir fjarlægð. En fréttirnar voru fjarlægar, svipað að lesa um veiru í Kína og gamalt morð á einhverjum James í Nebraska í sakamáladálkum dagblaðanna, svo fjarlægar að maður veltir vöngum yfir hvort téður James hafi verið til eða hvort það sé tilviljun að svo margir myrtir heiti einmitt James. En svo færðust fréttirnar nær, skyndilega á ógnarhraða. Allt í einu voru við öll lokuð inni, við blöstu myndir af fjöldagröfum í kunnuglegum borgum, í næstu götu mátti sjá sjúkraliða í geimverubúningum og á næturna heyrði kona búsett í miðborginni hljóð í þyrlu eins og á stríðstíma.
Eitt augnablik vissum við ekkert, vorum við kannski öll feig? Einhver voru það. Og kannski eiga fleiri eftir að deyja hér á landi áður en við verðum bólusett. Veiru sem gerði það að verkum að hversdagslegt atferli okkar var skyndilega orðið að áhættuhegðun og í trássi við lög og reglur.
Þjóðarsálin
Og hvað stendur upp úr á þessu skrýtna ári?
Fegurðin, hugsa ég – af ásetningi því ef fegurð er merkingin sem ég legg í veruleikann, þá verður hún raunveruleikinn. Eftirminnilegasta augnablik mitt þetta árið er ekki þyrluhljóð um nótt í aðþrengdri innilokun heldur sellótónar í gamalli kirkju á Vestfjörðum á sumarsólstöðum, þegar víðáttan var algjör og himinn rann saman við sjóinn í botnlausum bláma.
Ef ekki fyrir kóvid, þá hefði ég farið með son minn í sumarfrí til útlanda en fyrir sakir þess ferðuðumst við innanlands og fórum á Bach-tónleika fyrir vestan. Ég leigði gamalt timburhús á Ísafirði fyrir mig, son minn, systurdóttur og vinkonu mína sem er spákona. Satt að segja eru hún mjög vinsæl spákona sem annar aldrei biðlistanum, allskonar fólki úr öllum stéttum og á öllum aldri, nokkuð sem segir heilmikið um þjóðarsálina, býst ég við.
Ég fór í fyrsta skipti til hennar í inngrónum mannlífsáhuga rithöfundar en forvitnin ágerðist þegar hún eygði gamlar sögur í lífi mínu jafnt sem sögur sem áttu eftir að rætast. Vinkona mín er töluvert eldri en ég, komin yfir sextugt en spræk eins og bæjarlækur með húð ungabarns og augu sem tindra lifandi. Hún var dræverinn á leiðinni vestur en börnin sátu aftur í og veltu fyrir sér hvernig firðir gætu verið endalausir, eins og leiðinni myndi aldrei ljúka, það sem eftir lifði yrðum við stöðugt að keyra innar og innar í fjörð fullan af sjófuglum, blóðbergi og sjó. Og svo allt í einu vorum við komin.
Við gistum í svo notalegu húsi í Tangargötu að mér leið strax eins og ég hefði alltaf átt heima þar, og kannski, ef tíminn er afstæður, hef ég það. Börnunum leið svipað, álíka fjörug og fuglarnir sem tímdu ekki að fara að sofa.
Stuttu áður hafði ég rekist á kunningja á förnum vegi, Greip Gíslason, sem sagði mér að hann væri að skipuleggja tónleika fyrir vestan, þar sem Sæunn Þorsteinsdóttir myndi leika sex sellósvítur Jóhanns Sebastian Bach í jafn mörgum kirkjum á norðanverðum vestfjörðum. Tilefnið: 300 ár síðan Bach skrifaði þær og aftur virtist tíminn afstæður.
Um leið og ég heyrði þetta varð ég staðráðin í að upplifa það. Og svipað gilti um spákonuna þegar hún heyrði af þessu; eitthvað, ég veit ekki hvað, hvíslaði að hún yrði að fara vestur.
Fyrir tilviljun örlaganna, eins háfleygt og það hljómar, voru mamma mín og bróðir stödd á gisitheimili á Ísafirði og um morguninn heimtuðu börnin að vera frekar með þeim en að fara á tónleika í sólskininu svo við spákonan brunuðum tvær til Þingeyrar.
Fegurðin birtist í kófinu
Veröldin eins fögur og hún getur orðið, sólin baðaði fjöllinn, móana og sjóinn, allt svo ferskt og nývaknað eins og við tvær. Fyrstu tónleikararni liðu í transi í kirkju á Þingeyri og þegar þeim lauk keyrðum við yfir að Mýrum handan Dýrafjarðar og settumst inn í gamla kirkju. Þar sem ég sat á bekk við glugga og horfð á sjóinn glitra í sólinni, uppnumin yfir fegurðinni, trúði ég varla að aðeins fyrir stuttu síðan hefði ég verið lokuð inni heima hjá mér í einveru vikum saman í skammdegi og hríðarbyl, yfir endalausum hamfarafréttum tengdum dularfullri veiru, og fundist heimurinn vera að enda.
Á þessu augnabliki, að bíða tónleika, nýbúin að upplifa fyrstu sellósvítuna, leið mér frekar eins og ég væri sjófugl og varð hugsað til þess að hafa sungið þessar línur í lagi þegar ég var lítil í kór: Í nótt mig dreymdi hamingjuna, hún var háfleyg eins og fugl, við klettabrún ...
Mér fannst ég standa á bjargbrún og sjá fegurðina blasa við, viðbúin að geta hrapað á hverri stundu. Og einhvern veginn þannig endar skáldsaga eftir mig sem heitir Stóri skjálfti og kom út árið 2015. Önnur tilviljun örlaganna hafði gert að verkum að tónskáldið Páll Ragnar Pálsson hafði innblásinn samið verk upp úr henni sem heitir Quake og var tileinkað sellóleikaranum Sæunni Þorsteinsdóttur – sem hafði einmitt flutt það á sínum tíma. Þannig tengdist ég henni í gegnum orð og tóna. Og nú, allt í einu, stóð ég á þessari bjargbrún, og skynjaði svo kröftuga fegurð að mig sundlaði um leið og ég fann, eftir vorið og veturinn, að ég gæti hvenær sem er hrapað.
Og einmitt þessi stund, þegar fegurðin birtist mér svo sterk og um leið svo hverful, er það sem ég á eftir að muna helst frá árinu 2020.
Spákonan upplifði eitthvað svipað, hún lygndi aftur augunum eins og hún væri horfin í annan heim. Raunar voru flestir á tónleikunum horfnir á yfirskilvitlegan stað meðan Sæunn lék á sellóið og galdraði úr því eitthvað af öðrum heimi – eða kannski einmitt ekki – heldur einmitt af þessum heimi.
Seinna sagði spákonan mér að Sæunn hefði verið umkringd hátíðni verum. Hún vildi meina, af því sem hún skynjaði, að á einhvern hátt væri það ekki tilviljun að Sæunn hefði leikið einmitt þetta verk, á þessum stað. Ég sá ekki það sem hún sá, ég sé aldrei neitt nema bara merkinguna sem ég legg sjálf í veruleikann, en á þessari stundu var skynjun mín svosem ekki ósvipuð hennar. Það sem við skynjuðum báðar var botnlaus fegurð – sem hvor um sig eygði á sinn hátt.
Ég veit ekki hvernig nýja árið verður, en ég veit að árið 2020 var þessi stund, svo sterk einmitt af því vorið hafði verið svo aðþrengt. Fegurðin birtist mér í kófinu. Bjargbrúnin.