Meðal íþróttasálfræðinga hafa skapast miklar deilur um titil fræðigreinar sem kom út árið 2012 eftir Dave Collins og Ainie Macnamara og heitir The Rocky Road to the Top: Why talent needs trauma. Þar velta höfundar því fyrir sér hvort þeir sem starfi í hæfileikamótun hafi ekki gengið of langt í að búa til verndað umhverfi fyrir börn og unglinga. Afreksíþróttir séu erfiðar og krefjandi og það sé nauðsynlegt að kunna að takast á við erfiðleika og krefjandi verkefni ætli maður sér að ná langt.
Það er ekki þessi fullyrðing sem truflar íþróttasálfræðinga. Þar eru allir sammála um að það sé nauðsynlegt að fá krefjandi verkefni í íþróttauppeldi. Þar á meðal að tapa leikjum og reyna verulega á sig, keppa við erfiða mótherja, æfa vel og duglega og leysa fjölbreytt verkefni á leiðinni. Það er til að mynda talið íslenskum atvinnumönnum og konum til tekna að þau hafa mörg góða sjálfsbjargarviðleitni í hörðum heimi íþróttanna. Að þau kunni að bjarga sér innan sem utan vallar. Foreldrar ættu til að mynda ekki að láta krakkana sína missa af því að þurfa að redda sér sjálf á æfingar, standa í fjáröflun til að komast í keppnisferðir og vakna af og til snemma á aukaæfingar og keppa. Íþróttir eru enda frábær vettvangur til að leggja inn góð og gömul gildi eins og aga, vinnusemi, dugnað, metnað og samvinnu.
Það er hins vegar notkunin á orðinu áfall (trauma) sem truflar. Dave Collins er öflugur fræðimaður á sínu sviði og veit hvað hann syngur. Enda hefur greinin fengið mikinn lestur og athygli miðað við fræðigreinar almennt og fjöldan allan af tilvitnunum sem er jú orkugjafi akademíunnar. En áfall er almennt notað um alvarlega atburði sem valda varanlegu sálrænu tjóni. Íþróttasálfræðingar samþykkja ekki að það sé nauðsynlegur þáttur í uppeldi til árangurs. Í fyrsta lagi vegna þess að það eru mýmörg dæmi um annað og í öðru lagi vegna þess að umhverfi sem hefur áföll sem innbyggt markmið er einfaldlega siðferðislega rangt. Einn öflugasti afreksþjálfari í fimleikum á Íslandi lýsti því til að mynda nýlega í ræðu í Háskólanum í Reykjavík hvernig það væri í raun ósiðlegt að taka við Ólympíugulli eftir að hafa beitt aðferðum sem hafa verið í hávegum hafðar í Bandaríkjunum og Kína undanfarna áratugi.
Í yfirstandandi Erasmus verkefni um gæðaþjálfun þar sem International Council of Coaching Excellence er þátttakandi ásamt HR og þremur evrópskum háskólum er lögð áhersla á aðgæsluskyldu í þjálfun. Það er skylda allra þjálfara að stunda viðurkendar og faglegar aðferðir þegar þeir eiga í samskiptum við íþróttafólk. Rannsóknir hafa sýnt að þar sem sumar vafasamar þjálfunaraðferðir hafi öðlast viðurkenningu og réttmæti í einsleitu umhverfi skiptir mjög miklu máli að þeir sem sjái um þjálfaramenntun aðstoði þjálfara við að gera sér grein fyrir aðgæsluskyldu þeirra.
Eins og áður segir hafa mjög miklar umræður skapast í kringum þessa grein. Það er þó vert að benda á Rob Book sem er kanadískur fræðimaður á sviði íþróttasálfræði sem er sem stendur að gefa út mjög áhugaverðan greinabálk um rannsóknir sínar á körfuboltamönnum sem koma úr fátækrahverfum Bandaríkjanna. Hér er vísað í grein frá í fyrra, Oatmeal is better than no meal: the career pathways of African American male professional athletes from underserved communities in the United States sem hann vann með tveimur öflugustu íþróttasálfræðingum Evrópu, Kristoffer Henriksen og Natalia Stambulova. Þar tekur hann undir það sjónarmið Collins og Macnamara að mótlæti geti haft styrkjandi áhrif á ungt fólk, en enginn geti sagt hversu mikið eða í hvaða samhengi. Hann bendir hins vegar á að það beri að varast að horfa á þá sem komast úr miklu mótlæti með survivor bias gleraugum og segja að þeirra leið sé til fyrirmyndar. Mun fleiri heltast úr lestinni í þessum erfiðu aðstæðum sem fátækrahverfin bjóði upp á. Þar birtist tráma meðal annars í vannæringu sem hafði þannig áhrif að einn táningur missti úr heilt ár úr körfubolta því hann hafði blóðþrýsting á við eldri borgara og annar var með óreglulegan hjartslátt út af stressi og andlegu álagi. Þessir ungu menn þakka því að hafa komist í atvinnumennsku seinna meir að það voru þjálfarar og kennarar sem komu þeim í háskóla eða menntaskólaumhverfi sem var líkara skandinavísku umhverfi með mýkri áherslur.
Þróunin í Evrópu – Heildræn nálgun
„Ef skipuleggja á íþróttir í takt við nám fyrir börn yngri en 12 ára ber að ýta undir kosti og draga úr neikvæðum áhrifum snemmbundnar sérhæfingar. Því væri t.d. stýrt af þjálfara í fullu starfi sem hefur reynslu og menntun í að þjálfa ungt íþróttafólk á heildrænan hátt, í nánu samstarfi við fjölskyldur, með samræmda náms-og íþróttadagskrá, náið samstarf við íþróttafélög í nágrenninu, félagsþjónustu í skólanum og eftirlit sem tryggir öryggi nemenda, líkamlegan og andlegan þroska þeirra og forvarnir gegn meiðslum og kulnun.“ – Leiðbeiningar Evrópusambandsins um samræmingu íþrótta og menntunar.
Kristoffer Henriksen og Natalia Stambulova sem getið er að ofan hafa átt mikinn þátt í því að stýra hefðbundnum hugmyndum um hæfileikamótun í nútímalegri átt. Þau ásamt Kirsten Roessler gáfu út mjög áhrifaríka grein um heildræna hæfileikamótun, Holistic approach to athletic talent environments: A successful sailing milieu árið 2010 en þar er fókusinn tekinn af íþróttamanninum einum og sér og færður yfir á manneskjuna í heild sinni og umhverfið sem hún elst upp í.
Í stuttu máli má lýsa þessari þróun þannig að þó að vitað sé að hæfileikafólk getið komið hvaðan sem er, þá er samt líklegra að það komi úr umhverfi þar sem er gott aðgengi að íþróttum og þjálfurum, fjölskyldur hafi í sig og á og séu nálægt starfinu og að krakkar upplifi að þau stýri sjálf þeim hvötum sem keyra þau áfram í íþróttum. Áhrif þessa má meðal annars sjá í breyttri starfsemi hjá knattspyrnuakademíum í Evrópu þar sem lögð er sífellt meiri áhersla á menntun samhliða íþróttum, félagslegum stuðningi, menntun þjálfara og nálægð við fjölskyldur. Einnig á því að sífellt fleiri skólar og íþróttafélög setji upp leiðir fyrir ungt fólk til að stunda nám meðfram íþróttaiðkun, þar sem utanumhald og félagslegur stuðningur er einnig í boði. Á Íslandi má sjá þessa þróun hjá mörgum framhaldsskólum og á Norðurlöndum og um Evrópu alla er mikil og hröð þróun í þessa átt.
„Fyrir utan að þróa duglega knattspyrnumenn með hæfni til að ná árangri á alþjóðavísu, þá hefur akademían okkar frá stofnun árið 2004 haft það ófrávíkjanlega markmið að ala upp heilsteyptar manneskjur – þess vegna reynir FC Midtjylland alltaf að tryggja rétt jafnvægi milli knattspyrnu, skóla og félagslífs, þannig að hver einasti leikmaður akademíunnar fái sem bestan grunn fyrir framtíðina. Grunngildi akademíu FC Midtjylland er að hjálpa hverjum einasta knattspyrnumanni að verða heilsteypt manneskja.“ – Heimasíða FC Midtjylland.
Höfundur er fagstjóri Afrekssviðs Menntaskólans í Kópavogi, yfirmaður knattspyrnuþróunnar í HK og doktorsnemi í sálfræði í Háskólanum í Reykjavík. Hann kennir einnig kúrsinn Afreksþjálfun við HR.