Fyrr í þessum mánuði tóku gildi ný lög sem ætlað er að auka „hvata fyrir gefendur vegna gjafa framlaga þeirra til [almannaheilla].“ Á máli okkar mannanna: Alþingi vill hvetja okkur til að gefa meira til góðgerðarfélaga og annarra stofnanna sem reknar eru með hag almennings í huga, eins og góðgerðarfélög og íþróttaklúbba.
Nú getur fólk stutt við almannaheillafélög að eigin vali án milligöngu ríkisins og fengið skattafrádrátt.
Mikilvægt mál sem snýst bæði um að styrkja stöðu mikilvægrar starfsemi og leyfa fólki að ráðstafa peningum eftir eigin höfði. https://t.co/Zx10ZcVw92— Bjarni Benediktsson (@Bjarni_Ben) November 18, 2021Auglýsing
Það er gott og blessað. Líklega eiga lögin, eins og þau standa í dag, eftir að hvetja fólk aðeins, kannski eins og áhugalaus pabbi á karate æfingu sonar síns, í öllu falli eru þau engir 30 þúsund Íslendingar á EM í Frakklandi að víkingaklappa.
Að ná markmiðum sínum
Þegar lög eru skrifuð með sérstakt markmið í huga ætti markmiðið að vera blekið í pennanum. En allt of oft er það þannig að lög eru skrifuð með hálftómum penna. Hvað veldur því veit ég ekki þó oft virðast fulltrúar fólksins ekki skilja fólkið.
Þegar hanna á stefnu sem miðar að því að auka hvata fólks til að gera meira af einu en öðru þarf að skilja hvernig eitt og annað spilar saman. Ef ætlunin er að láta fólk eyða meira í gjafir til góðgerðarmála þá þarf að skilja genamengi gjafa til góðgerðarmála.
Hagfræðingar hafa pælt í gjöfum til góðgerðarmála í nokkur hundruð ár. Almennt hugsum við um gjafir einfaldlega sem eina vöru í útgjaldakörfu einstaklinga. Í körfunni, sem hagræðingar kalla nytjafall, eru allur mögulegur unaður og nauðsynjar: Kaffi, rafmagn, Ari Eldjárn í Hörpu – þið vitið hvað ég á við.
Hagfræðingar flokka vörur í nytjafallinu eftir því hvernig neytendur bregðast við verðbreytingum og breytingum á tekjum, algengastar eru: Venjulegar vörur og óæðri vörur. Hagfræðingar kalla allt bara vöru. Það er ekki af því við teljum allt sem við gefum pening fyrir sér vara, en það einfaldar okkur að tala um hlutina.
Óæðri vörur eru vörur sem við neytum minna af þegar tekjur okkar hækka: Við kaupum færri pakka af pakka núðlum eftir að við útskrifumst úr skóla og byrjum að vinna.
Venjulegar vörur eru vörur sem við neytum meira af þegar tekjur okkar hækka: Við kaupum dýra bíla þegar við fáum stöðuhækkun.
Rannsóknir hagfræðinga á vörunni gjöf-til-góðgerðarmála (sem ég mun kalla gjöf héðan af) benda sterklega til þess að hún sé ósköp venjuleg vara. Þeim mun meiri pening sem þú átt, þeim mun meira gefur þú til góðra málefna. Félagsfræðingar eru líklega sammála og mundu smella þessum byggingarsteini yfir miðju Maslow pýramídans síns.
Það að gjöf sé venjuleg vara þýðir það að þegar verð á gjöfum lækkar, eins og það er ef maður fær endurgreiddan hluta gjafarinnar, þá eyðir maður meira í gjafir en áður. En, þar sem það er ódýrara að gefa er maður líka ríkari og eyðir því hluta endurgreiðslunnar í eitthvað annað, eins og til dæmis góðan mat eða jafnvel bjór, hvað það er skiptir þó ekki máli.
Afleiðingin af lögunum verður líklega sú að landsmenn eiga eftir að eyða meiri pening í gjafir en áður. Áhrifin verða líklega takmörkuð.
Afslátturinn kemur of seint
Afslátturinn virkar þannig að einstaklingur með 600 þúsund krónur í mánaðarlaun sem gefur 100 þúsund krónur til góðgerðarmála árið 2022 fær um 38 þúsund krónur endurgreiddar árið 2023. Afleiðingin er sú að þeir sem gefa, sem oft gefa án þess að pæla mikið í því hvað þeir „græða“ á því, taka endurgreiðsluna ekki að fullu inn í reikninginn.
Rannsakendur fundu það út að í Bretlandi leiddi 10% endurgreiðsla til u.þ.b. 3% aukningar í frjálsum framlögum til góðgerðarmála. Svipaða sögu er að segja frá Frakklandi og öðrum vestrænum ríkjum. Manneskja sem hefði gefið 100 þúsund krónur án afsláttar, gæfi þá 111 þúsund krónur ef hún fengi 38% gjafarinnar endurgreidda.
Kæri lesandi, afsakaðu. Ég veit að svona talnarugl er ekki mjög aðgengilegt, það minnir mig alltaf á það þegar Sigurjón Kjartansson útskýrði stofn til tryggingargjalds fyrir Þorsteini Guðmundsyni á sínum tíma í Fóstbræðrum. En, ég er mannlegur og fell í sömu gildrur og sérfræðingarnir sem ég geri svo oft grín að í þessum dálki. Óháð því hvort stærðfræðin rugli lesandann þá stendur punkturinn: Lögin ættu að miða að því að koma sem mestu af endurgreiðslunni til góðgerðarmála, en ekki bara þriðjung hennar.
Komum til móts við fólk
Undanfarin ár hef ég fylgst grannt með og skrifað reglulega um söfnun Hlaupastyrks í kringum Reykjavíkurmaraþonið. Ég hef notað hana til að útskýra hvernig við karlarnir, með útblásinn brjótskassann, mættum stundum hegða okkur meira eins og konur og setja okkur markmið sem við ráðum við. Og í fyrra skrifaði ég dapurlegan pistil (sá sem finnur klaufavilluna í honum fær prik), sem sýndi það mikla tap sem góð málefni urðu vegna COVID-19 og aflýsingu hlaupsins.
Þegar ég sá í hvað stefndi vissi ég að ég gæti ekkert gert annað í málunum en að hlaupa sjálfur og gefa góðu málefni pening. Þar sem ég er hagfræðingur, og sem slíkur, pældi ég mikið í því hvað ég gæti gert til þess að gefa sem mest, án þess að enda á hreppnum. Ég setti því í gang útboð þar sem ég bauð að gefa framlagið mitt, sem var 50.000 krónur, til málefnis sem hæstbjóðandi mætti velja. Hæstbjóðandi skuldbatt sig auðvitað til að gefa upphæðina sem hann bauð til sama málefnis.
Ég ætla að hlaupa 21,1km í Rvk maraþonni @islandsbanki, hér í Köln.
— Eirikur Ragnarsson (@eikonomics_eiki) August 20, 2020
Ég ætla að heita 50.000 kr. á sjálfan mig.
Uppboð:
Sá sem lofar hæsta áheitinu á mig fær að velja málefnið sem ég safna fyrir (og fær málefnið þar með 50k aukalega frá mér).*
Uppboði lýkur eftir 24 tíma. pic.twitter.com/boYga7wOEJ
Úr uppboðinu varð ágætis fjör á samfélagsmiðlinum Twitter. Fyrsta boðið var 5.005 kall (ég tek ekki 5.000 kr. tilboð Hauks Viðars sem eyrnamerkt var Miðflokknum með), annað tilboðið var 7.000 kr. og koll af kolli alveg þangað til Björgvin Ingi jafnaði framlag mitt og vann þar með uppboðið.
@bjorgvinio, bitte:https://t.co/2dHJ8FEZal
— Eirikur Ragnarsson (@eikonomics_eiki) August 21, 2020
Hugmyndin var einföld. Með því að segja fólki að ég mundi gefa því málefni sem var þeim mikilvægt hvatti ég fólk til að gefa meira. Ég bauð þátttakendum ekki pening, ég bauð þeim að gefa peninginn sinn betur. Rannsóknir styðja þessa nálgun, ein slík frá 2007 sýndi að jöfnun gjafa leiddi til hærri framlaga og drægi inn fólk sem hefði annars ekki gefið. Og það merkilega er að hvort framlagið var jafnað eða greitt var meira skipti litlu máli.
Skattalækkun fyrir þá sem minnst þurfa á henni að halda
Ef lögin hafa engin áhrif á hegðun fólks, ef enginn gefur meira út af skattalegum hvötum, þá eru svona lög eins misheppnuð og þau geta orðið. Ástæðan er sú að í grunninn, ef við hugsum um þau sem venjulega vöru, þá þýða þau það að þeir sem mest hafa – og þar af leiðandi mest eyða í góðgerðarmál – fá stærstu endurgreiðsluna.
Það sem meira er, þar sem við búum blessunarlega í landi með skattþrepum sem hækka í takti við laun, þá fá þeir sem eru með hærri laun meira endurgreitt, þó þeir gefi minna en þeir sem eru með lægri laun.
En auðvitað hefur þetta einhver áhrif. Í öllu falli hefur fólk meira í milli handanna ári eftir að þau gefa til góðgerðarmála og gefur þá, að öllu óbreyttu, meira til góðgerðarmála. Ofan á það bætist svo hvatinn sem endurgreiðslan sjálf er.
Afleiðing skattalækkananna er sú að tekjur ríkisins minnka. Ríkið getur því gert minna fyrir þá sem mest á því þurfa að halda. Sem oftast er slæmt en ekki endilega í þessu tilfelli. Færi öll endurgreiðslan í góð málefni þá má vel vera að fjármununum sé betur varið en ef ríkið sér um að deila þeim út. Oft vita einstaklingar meira um það hvar peningunum er best varið.
Þegar öllu er á botninn hvolft þá hefði mátt hugsa þetta betur. Í stað þess að drýgja tekjur ríkissjóðs og gefa hluta tekjutapsins til góðra málefna hefði ríkið einfaldlega getað eyrnamerkt endurgreiðsluna því málefni sem fólk gefur til. Þegar maður slær inn 50.000 kr. áheit á hlaupara þá mundi einfaldlega poppa upp í samtölu gluggann á skjánum: 50.000 kr. + 19.000 kr. Slík, einföld útfærsla, hefði líklega dregið inn nýja gefendur og aukið framlög einstaklinga.
Allavega ef Íslendingar eru eitthvað eins og útlendingar.