Í nóvember 2020 lagði þáverandi dómsmálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, fram frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum. Það var unnið af Maríu Rún Bjarnadóttur lögfræðingi og byggði á skýrslu sem hún vann fyrir stýrihóp sem forsætisráðherra skipaði í mars 2018. Tilefni lagasetningarinnar var aukið stafrænt kynferðisofbeldi í íslensku samfélagi og þörf fyrir skýrari „réttarvernd friðhelgi einstaklinga, sem skapast hefur með aukinni tæknivæðingu í mannlegum samskiptum.“
Hér átti að verja þolendur fyrir stafrænum brotum gegn kynferðislegri friðhelgi.
Gerðar voru breytingar á 228. og 229. grein hegningarlaga til að ná þessu fram. Eftir breytingar myndi fyrrnefnda greinin hljóma þannig að hver „sem brýtur gegn friðhelgi einkalífs annars með því að hnýsast í, útbúa, afla, afrita, sýna, skýra frá, birta eða dreifa í heimildarleysi skjölum, gögnum, myndefni, upplýsingum eða sambærilegu efni um einkamálefni viðkomandi, hvort heldur sem er á stafrænu eða hliðrænu formi, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári, enda er háttsemin til þess fallin að valda brotaþola tjóni.“ Sú síðari myndi hljóma þannig að hver „sem í heimildarleysi verður sér úti um aðgang að gögnum eða forritum annarra sem geymd eru á tölvutæku formi skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári.“
Ekkert er minnst á fjölmiðla eða blaðamenn í frumvarpinu.
Ákvæðið á ekki að hamla störfum og tjáningarfrelsi fjölmiðla
Eftir að frumvarpið var lagt fram gekk það til allsherjar- og menntamálanefndar til umfjöllunar. Þar var það unnið áfram í þverpólitískri sátt og þegar nefndin skilaði áliti sínu á frumvarpinu var það gert í nafni allra nefndarmanna, fulltrúa sjö mismunandi flokka á Alþingi.
Í nefndarálitinu var hins vegar gerð breytingartillaga þar sem nefndin taldi æskilegt að ofangreindar breytingar á ákvæðum almennra hegningarlaga ættu ekki við „þegar háttsemin er réttlætanleg með vísan til almanna- eða einkahagsmuna. Er hér m.a. litið til þess að ákvæðið hamli ekki störfum og tjáningarfrelsi fjölmiðla, m.a. í þeim tilvikum þegar þeir fá aðgang að gögnum eða forritum sem hefur verið aflað í heimildarleysi og geti varðað almannahagsmuni.“
Þann 17. febrúar 2021 fór fram atkvæðagreiðsla um frumvarpið með ofangreindum breytingum, sem eru í samræmi við það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar. Allir viðstaddir þingmenn, úr öllum flokkum á þingi, samþykktu það. Enginn sagði nei.
Skýrt erindi við almenning
Í maí 2021 birtu Kjarninn og Stundin röð fréttaskýringa sem byggðu á gögnum sem sýndu hvernig stjórnendur, starfsfólk og ráðgjafar Samherja höfðu lagt á ráðin um að ráðast gegn nafngreindum blaðamönnum, listamönnum, stjórnmálamönnum, félagasamtökum og ýmsum öðrum til að hafa af þeim æruna, trúverðugleikann eða lífsviðurværið.
Á sama stað var birt yfirlýsing ábyrgðarmanna Kjarnans um að starfsfólk miðilsins hafi engin lögbrot framið og að fjöldi fordæma væru fyrir því hérlendis sem erlendis að fjölmiðlar birti gögn sem eiga erindi við almenning án þess að hafa upplýsingar um hvernig þeirra var aflað. „Það var skýr niðurstaða ábyrgðarmanna Kjarnans að hluti gagnanna ætti sterkt erindi og því eru almannahagsmunir af því að fjalla um þau með ábyrgum hætti.“
Viðbrögð við umfjölluninni sýndu það erindi skýrt. Athæfi launaðra ráðgjafa og starfsmanna Samherja, í samstarfi við og með vitund og vilja helstu stjórnenda samstæðunnar, var fordæmt víða, meðal annars af helstu ráðamönnum þjóðarinnar.
Samherji sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins 30. maí 2021. Þar sagði að ljóst væri að stjórnendur félagsins hafi gengið „of langt“ í viðbrögðum við „neikvæðri umfjöllun um félagið [...] Af þeim sökum vill Samherji biðjast afsökunar á þeirri framgöngu.“
Vill lögregla að blaðamenn fremji lögbrot?
Á mánudag tilkynnti lögreglan á Norðurlandi eystra fjórum blaðamönnum, þar á meðal þeim þremur sem skrifuðu um „skæruliðadeildina“, að þeir væru með stöðu sakbornings við rannsókn á brotum á 228. og 229. grein almennra hegningarlaga, sem minnst var á hér að ofan. Það er fordæmalaust, enda ákvæðin sett í lög fyrir innan við ári síðan sérstaklega með skýringu um að þau ætti ekki að nota til að hamla störfum og tjáningarfrelsi fjölmiðla, „m.a. í þeim tilvikum þegar þeir fá aðgang að gögnum eða forritum sem hefur verið aflað í heimildarleysi og geti varðað almannahagsmuni.“
Það þýðir að lögregla er annað hvort að gefa blaðamönnum stöðu sakbornings fyrir að afla gagna eða fyrir að nýta þau til að skrifa fréttir. Ef hið fyrrnefnda á við, og spurningar lögreglu við yfirheyrslur snúast um þá öflun er verið að hvetja blaðamenn til að brjóta gegn ákvæði fjölmiðlalaga um vernd heimildarmanna. Ef hið síðara á við þá er lögreglan að fara með öllu gegn tilgangi ákvæðanna eins og þau voru samþykkt á þingi fyrir ári síðan.
Eru blaðamenn of góðir til að svara spurningum?
Fréttastofa RÚV beindi fyrirspurn til Lilju Alfreðsdóttur, ráðherra fjölmiðlamála, vegna þessa. Í svari hennar sagðist hún ekki tjá sig um einstök mál sem væru til rannsóknar. Þó væri brýnt að fjölmiðlar geti sinnt sínu mikilvæga lýðræðishlutverki og stuðlað þannig að málefnalegri umræðu í þjóðfélaginu.
Skömmu síðar ákvað annar ráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, hins vegar að gera það í langri stöðuuppfærslu á Facebook.
Þar gagnrýndi Bjarni fjölmiðla harðlega fyrir umfjöllun um aðgerðir lögreglu, kallaði það getgátur og sagði sakborninga ekkert vita hvað þeim væri gefið að sök. Bjarni spurði svo hvort fjölmiðlamenn væru of góðir til að mæta og svara spurningum lögreglu eins og almennir borgarar, og hvernig það gæti talist alvarlegt mál að lögregla óskaði eftir því að þeir gæfu skýrslu.
Nú liggur það fyrir að umræddir blaðamenn, meðal annars sá sem hér skrifar, vita hvað þeim er gefið að sök. Vegna þess að þeir spurðu og fengu upplýsingar um það. Það er brot gegn friðhelgi einkalífs með nýtingu á gögnum sem urðu undirstaða fréttaskrifa.
Gefið í skyn að málið snúist um annað
Bjarni, sem er lögfræðingur, hefur setið á þingi í næstum 19 ár og verið formaður Sjálfstæðisflokksins í 13 ár, á að vita að blaðamenn eru jafnir öðrum borgurum að lögum ef þeir eru grunaðir um ýmis hefðbundin afbrot. Til dæmis þjófnað, umferðarlagabrot eða ofbeldi. Ef um er að ræða atferli í störfum þeirra gildir hins vegar allt annað, enda frelsi blaðamanna til að fjalla um mikilvæg fréttamál og veita valdhöfum aðhald í lýðræðissamfélaginu lífsnauðsynlegt. Líkt og segir í yfirlýsingu frá Blaðamannafélagi Íslands og Félagi fréttamanna vegna spurninga formanns Sjálfstæðisflokksins þá getur blaðamennska verið „óþægileg fyrir fólk, stofnanir og fyrirtæki í valdastöðum, því hún afhjúpar mistök, bresti og spillingu í kerfinu. Til þess að greina frá slíkum brestum getur verið nauðsynlegt að nota gögn sem ekki hefur verið aflað með lögmætum hætti. Dómstólar hafa staðfest að notkun blaðamanna á slíkum gögnum geti samræmst hlutverki þeirra að taka við og miðla upplýsingum sem erindi eiga við almenning.“
Svarið við helstu spurningu Bjarna um hvort fjölmiðlamenn séu of góðir til að mæta og svara spurningum lögreglu eins og almennir borgarar er því augljóslega já, ef spurningarnar snúa að störfum þeirra sem eru sérstaklega skilgreind í lögum með varnöglum til að tryggja þeim athafnafrelsi. Varnöglum sem hann samþykkti á Alþingi.
Ef gengið er út frá því að vegna stöðu hans, sérþekkingar og reynslu ætti Bjarni að vita þetta þá er erfitt að álykta annað af skrifum hans en að Bjarni sé að gefa í skyn að ætluð brot blaðamanna séu önnur en þeim var tilkynnt að væru til rannsóknar. Í stöðuuppfærslunni segir hann meðal annars að „engar fréttir hafa verið fluttar af því sem mestu máli skiptir og flesta þyrstir að vita hvað lögreglan kunni að hafa undir höndum sem gefi tilefni til rannsóknar“.
Var Jesús hvítur?
Þessar óbörnuðu vangaveltur Bjarna finna sér fyrst og síðast stað í bloggfærslum eins manns. Í haust hóf menntaskólakennarinn Páll Vilhjálmsson að leggja fram brjálaðar kenningar um samsæri ýmissa fjölmiðla. Í því fólst að þeir áttu að hafa eitrað fyrir áðurnefndum Páli Steingrímssyni, stolið síma hans og birt umfjallanir á grundvelli þessara gagna.
Páll Vilhjálmsson hefur stundað þessa iðju sína lengi, en eðlilega verið sniðgenginn af fjölmiðlum sem taka sig faglega alvarlega. Helst hefur ranghugmyndum hans verið básúnað í gegnum nafnlausa níðdálka í Morgunblaðinu til að barna óþol ritstjóra blaðsins á nafngreindu fólki sem þeir telja andstæðinga sína.
Páll, sem kennir sögu, hefur meðal annars haldið því fram að miðausturlandabúinn Jesús hafi verið hvítur. Þegar lekamálið stóð sem hæst skrifaði hann bloggfærslu sem í stóð að líklegast væri heimildarmaður blaðamanna sem opinberuðu málið „vinstrimaður, ráðinn til innanríkisráðuneytisins í tíð vinstristjórnarinnar, og að viðkomandi vinstrimaður starfi sem moldvarpa í þágu vinstrimeirihlutans sem almenningur flæmdi frá völdum vorið 2013“. Skömmu síðar kom í ljós að sá sem lak gögnunum í málinu var Gísli Freyr Valdórsson, þá aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og nú ráðgjafi hjá almannatengslafyrirtækinu KOM. Hann fékk skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir lekann. Sú niðurstaða breytti engu í huga Páls. Hann taldi málið samt sem áður hafa verið samsæri DV og RÚV og að helsta fórnarlamb þess væri gerandinn Gísli Freyr.
Páll bloggaði síðar um að Panama-skjölin væru falsfréttir sem byggðu á samsæri RÚV og annarra fjölmiðla, að RÚV hefði hannað fréttir um uppreist æru-málið og sagði að umfjöllun um gögn úr Glitni um Bjarna Benediktsson sem lögbann var sett á væri samsæri vinstri manna, RÚV og annarra fjölmiðla. Svo fátt eitt úr sagnabrunni Páls sé tíundað.
Órar settir fram sem viðurkennd þjóðmálaumræða
Það er því skýrt samræmi í málflutningi umrædds Páls. Hann heldur allskyns hugarburði sem á sér enga stoð í raunveruleikanum fram sem staðreyndum án þess að geta rökstutt það með vísun í nokkuð annað en eigin ranghugmyndir og vafasamar túlkanir.
Í ljósi þess að hann hefur nær alltaf rangt fyrir sér þá hefur maðurinn engan trúverðugleika sem heimildarmaður. Það stöðvaði þó ekki Ísland í bítið, einn vinsælasta morgunþátt þjóðarinnar, að gefa honum næstum 17 mínútur á miðvikudagsmorgun til að útlista ásakanir sínar um að nafngreindir fjölmiðlamenn á ýmsum miðlum hefðu framið samsæri og reynt að drepa Pál Steingrímsson til að ná af honum síma. Með þessu var látið sem málflutningur Páls, byggður á órum hans og óþoli gagnvart ákveðnum fjölmiðlum og fjölmiðlafólki, væri viðurkennd þjóðmálaumræða.
Brynjari fannst ekkert athugavert við að nánasti samstarfsmaður æðsta yfirmanns lögreglunnar í landinu tjáði sig með þessum hætti um fólk sem er með stöðu sakbornings.
Athæfi hans, sem er augljóslega ekki sæmandi lykilmanni innan framkvæmdavaldsins, hefur ekki haft neinar afleiðingar né vakið nein sérstök viðbrögð hjá yfirmann hans. Þess í stað setti Brynjar tíkall í sjálfan sig, bætti í og hreytti frá sér orðavaðli í tveimur færslum á samfélagsmiðli þar sem hann á fleiri viðhlæjendur um hvað blaðamenn væru frekir, sjálfhverfir og haldnir forréttindablindu fyrir að leggjast ekki flatir fyrir misbeitingu valds.
Kæling
Það verður ekki ítrekað nógu oft að enginn blaðamaður er til rannsóknar fyrir að hafa reynt að drepa skipstjóra, né fyrir að stela símanum hans. Maðurinn sem kærði þessi athæfi hefur meira að segja sagt það sjálfur.
Ekkert í umfjöllun fjölmiðla um „skæruliðadeildina“ hefur verið rengt. Smjörklípur til að reyna að færa umræðu um málið frá efnisatriðum að formsatriðum um hvers konar gögn megi vera undirstaða frétta eða hvað þeir séu sjálfumglaðir er ekkert annað en léleg afvegaleiðing.
Það er búið að taka afstöðu til þess í lögum og fjölmörgum dómafordæmum þar sem almannahagsmunir trompa rétt viðfangsefna til einkalífs sé erindið skýrt og vinnan fagleg. Ef viðbrögð við umfjöllun Kjarnans og Stundarinnar eru mælikvarði á erindi umfjöllunar um „skæruliðadeildina“ við almenning er ljóst að það var mikið.
Það að gefa blaðamönnum stöðu sakbornings á grundvelli lagaákvæðis sem sérstaklega er tekið fram að eigi ekki að nota gegn þeim verður ekki túlkað öðruvísi en athæfi sem getur leitt til kælingar. Að letja þá frá því að vinna eftir þeim ramma sem þeir þurfa og eiga að vinna í lýðræðisríki.
Yfirlýsingar valdamikilla stjórnmálamanna um að þetta séu eðlileg og réttlætanleg vinnubrögð með því að sniðganga þá sérstöðu sem starf blaðamanna hefur samkvæmt lögum er ekki síður alvarlegar.
Og þeim á ekki að taka af léttúð.
Höfundur er einn þeirra blaðamanna sem hefur stöðu sakbornings í rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra á brotum gegn friðhelgi einkalífs.