Árið 2022 var sögulegt ár fyrir Pírata því við fögnuðum 10 ára afmæli flokksins á Íslandi. Það eru tíu ár síðan Píratar byrjuðu að beita sér fyrir breyttri stjórnmálamenningu, raunverulegu aðhaldi með valdi, gagnsæi, mannréttindum og lýðræði. Á þessum tíu árum höfum við náð raunverulegum árangri og við höldum áfram kröftugri baráttu fyrir betra samfélagi á hverjum einasta degi, hvar og hvenær sem við getum.
Atburðir ársins sem er að líða sýna glöggt, að enn er rík þörf fyrir áherslur og baráttu Pírata í íslensku samfélagi. Áhersla okkar á vernd mannréttinda og barátta okkar gegn spillingu hefur tekið á sig margvíslegar myndir á árinu og hér er aðeins reynt að drepa á því helsta.
Loftslagsmál eru mannréttindamál
Loftslagsváin ógnar mannréttindum á margvíslegan hátt. Hlýnandi loftslag veldur náttúruhamförum eins og flóðum, þurrkum og ofsaveðri sem kostar mannslíf og rekur fólk á flótta undan hungursneyð og öðrum lífshættulegum aðstæðum. Það er bjargföst trú Pírata að við verðum að bregðast við af miklu meiri festu en núverandi ríkisstjórn hefur gert fram að þessu og með raunverulegum aðgerðum en ekki innantómum og sviknum loforðum.
Ekki er vanþörf á þar sem útblástur Íslands jókst um þrjú prósent milli áranna 2020 og 2021. Já ekki náðist að hemja útblásturinn, hann heldur áfram að aukast. Niðurstöðurnar eru áfellisdómur fyrir loftslagsstefnu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur sem hefur lítið annað gert en að móta óljósar hugmyndir að aðgerðum en ekki heildstætt plan um hvernig Ísland eigi að leggja sitt af mörkum í þessari sameiginlegu baráttu mannkyns.
Píratar hafa kallað eftir lögfestum og metnaðarfullum loftslagsmarkmiðum, ásamt tímasettri framkvæmdaáætlun, en ríkisstjórnin er svifasein og metnaðarlaus. Ríkisstjórnin hefur þó ákveðið að taka upp tillögu Pírata um bann við leit að jarðefnaeldsneyti í íslenskri lögsögu og vonandi tekur hún upp fleiri tillögur Pírata á næstunni. Við höfum til dæmis lagt til að gera loftslagsráð að sjálfstæðri eftirlitsstofnun með loftslagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar til þess að halda henni við efnið. Tillögu okkar um að leggja til að vistmorð verði alþjóðlegur glæpur var vísað til ríkisstjórnarinnar og verður spennandi að sjá hvort hún standi undir því verkefni. Því miður hafa tillögur okkar um að ríkið stígi inn af krafti til þess að styðja einstaklinga sem velja almenningssamgöngur til þess að iðka bíllausan lífsstíl ekki hlotið náð fyrir augum stjórnarliða. Sömuleiðis hefur tillaga Pírata um að umbylta ívilnunum fyrir vistvænni ökutæki á þá leið að núverandi ríkisstuðningur renni ekki nánast einvörðungu til ríkasta fólksins á Íslandi ítrekað verið felld í þingsal.
Píratar hafa lagt sig fram við að draga úr upplýsingaóreiðunni um loftslagsáherslur ríkisstjórnarinnar sem enn hefur ekki fengist til þess að upplýsa um skýr markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, ári eftir kosningar. Píratar hafa kallað eftir svörum um þetta og munu áfram halda ríkisstjórninni við efnið.
Ófriður í Evrópu
Skelfilegt árásarstríð Rússlands á hendur Úkraínu hefur sett mark sitt á árið 2022. Píratar tóku undir þverpólitíska fordæmingu á stríðinu á Alþingi strax í kjölfarið og höfum við lagt mikla áherslu á að styðja málstað Úkraínu í orði og aðgerðum allar götur síðan. Við gagnrýndum ákvörðun dómsmálaráðherra um að veita flóttafólki frá Úkraínu síðri vernd en þau eiga rétt á. Ákvörðun sem veitir þeim styttra dvalarleyfi og takmarkað atvinnuleyfi á Íslandi.
Evrópuráðið hefur einnig staðið þétt við bakið á Úkraínu frá innrásinni og sjálf fór ég með sendinefnd Evrópuráðsins til þess að kanna aðstæður í Kiev, Bucha og Irpin og fræðast um stríðsglæpi rússneskra hersveita í júní síðastliðnum. Við funduðum með frjálsum félagasamtökum, ræddum við þingmenn í úkraínska þinginu og hittum fulltrúa í utanríkis- og dómsmálaráðuneytinu ásamt því að hitta ríkissaksóknara Úkraínu. Afrakstur ferðarinnar má finna í skýrslu um heimsóknina þar sem finna má tillögur um hvað Evrópuráðið og stuðningsríki Úkraínu geta gert til þess að bregðast við stríðsglæpum og glæpum gegn mannkyni.
Vegið að tjáningarfrelsi
Píratar hafa gagnrýnt harðlega atlögur valdhafa gegn fjölmiðlafrelsi og fjölmiðlafólki á árinu sem birtust meðal annars í yfirheyrslum lögreglu á blaðamönnum Kjarnans og annarra sem upplýstu um myrkraverk skæruliðadeildar Samherja. Blaðamennirnir fjórir hafa enn allir réttarstöðu sakbornings fyrir ætlað brot á friðhelgi einkalífs.
Aðgerðir lögreglu í þessu máli eru gagnrýniverðar fyrir margar sakir. Í fyrsta lagi virðist lögreglan ekki hafa nokkurn áhuga á að rannsaka möguleg brot Samherjastarfsmannanna í skæruliðadeildinni sem upplýst var um. Til dæmis hvað varðar ráðagerðir þeirra um að reyna að koma í veg fyrir að uppljóstrarinn Jóhannes Stefánsson beri vitni í Samherjamálinu í Namibíu, nú eða vinnu þeirra við að „njósna um blaðamenn, greina tengsl þeirra, safna af þeim myndum og skipuleggja árásir á þá“ eins og ritstjóri Kjarnans og einn sakborninganna orðaði það.
Þess í stað hefur lögreglan lagt mikla vinnu í að bera sakir á blaðamenn fyrir brot á 228. og 229. grein almennra hegningarlaga um brot gegn friðhelgi einkalífs þar sem vinna blaðamanna eru þó sérstaklega undanskilin. Ég ætti að vita það, þar sem ég skrifaði refsileysið inn í lögin og lögskýringargögnin sem fylgdu.
Þrátt fyrir að hafa greitt atkvæði með refsileysinu á þingi sá fjármálaráðherra tilefni til þess að ráðast til atlögu gegn blaðamönnunum fjórum, sakaði þá um að vera of góða með sig til þess að mæta í skýrslutöku og gaf í skyn að þeir hlytu nú að vera grunaðir um eitthvað annað og meira en að flytja fréttir fyrst lögreglan vildi ná tali af þeim. Það er rakinn þvættingur, svo það sé sagt.
Samantekið eru þessir atburðir grafalvarleg atlaga að tjáningarfrelsi á Íslandi og sem sérstakur skýrslugjafi Evrópuráðsþingsins um stöðu mannréttindavarða var ekki annað hægt en að bregðast við með yfirlýsingu í sameiningu með sérstökum skýrslugjafa um fjölmiðlafrelsi, þar sem framganga lögreglu og ráðherra var gagnrýnd.
Flóðljós fyrir tilstuðlan lögreglu
Þegar upplýst var um að starfsmenn ISAVIA hafi beint fljóðljósum að fjölmiðlum sem reyndu að ná myndum af fjöldabrottvísun flóttamanna fyrir tilstuðlan lögreglunnar, fengum við fulltrúa ISAVIA á fund allsherjar- og menntamálanefndar. Fundurinn var boðaður í samhengi við tillögu Pírata um að breyta 19. grein lögreglulaga sem leggur refsingu við að fylgja ekki fyrirmælum lögreglu. Píratar vilja setja skýrt í lögin að fyrirmæli lögreglu þurfi að vera lögmæt, en það skilyrði er ekki skrifað inn í 19. greinina.
Þótt hvorki Isavia né lögreglan vilji nú kannast við að nokkur hafi tekið ákvörðun um að hamla störfum fjölmiðla þessa nótt er fullt tilefni til þess að rannsaka nánar hvort misbrestir séu í samskiptum lögreglu við blaðamenn. Því hafa fulltrúar Pírata og Viðreisnar í allsherjar- og menntamálanefnd beitt sér fyrir því að nefndin taki það fyrir og boði fulltrúa blaðamanna og lögreglu á fund til sín.
Mikilvægi þess að breyta 19. grein lögreglulaga birtist einnig í dómi landsréttar gegn Elínborgu Hörpu Önundardóttur þar sem hán var dæmt fyrir að fylgja ekki fyrirmælum lögreglu vegna mótmæla sem hán og fleiri stóðu að gegn ómannúðlegri meðferð á flóttafólki. Við lítum svo á að 19. grein lögreglulaga sé notuð til þess að takmarka tjáningar- og samkomufrelsi borgaranna fram úr hófi og því sé rétt að breyta henni til hins betra.
Mannréttindi fólks á flótta
Þegar harkalegar og ómannúðlegar aðferðir lögreglunar við brottvísun á Hussein náðust á myndband spratt upp mikil og skiljanleg reiði í samfélaginu. Píratar hafa lengi barist gegn brottvísunum flóttamanna til Grikklands og annarri ómannúðlegri og óboðlegri meðferð yfirvalda á flóttamönnum. Stór liður í þeirri baráttu er barátta Pírata gegn útlendingafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem nú er til meðferðar á þinginu í fimmta sinn.
Helsti tilgangur útlendingafrumvarpsins er að setja í lög alla þá framkvæmd útlendingayfirvalda sem úrskurðarnefnd um útlendingamál eða dómstólar hafa dæmt ólögmæta fram að þessu. Dæmi um þetta er þegar Útlendingastofnun rak um 20 flóttamenn á götuna um miðjan vetur árið 2021 og svipti þá allri þjónustu. Úrskurðarnefnd um útlendingamál komst að þeirri niðurstöðu að engin heimild væri fyrir slíkri ómennsku í lögum. Með útlendingafrumvarpinu stendur til að gera yfirvöldum kleift að henda flóttafólki á götuna og svipta þau allri þjónustu, þar á meðal lífsnauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, takist þeim einhverra hluta vegna ekki að flytja þau úr landi.
Í frumvarpinu er einnig að finna fjölda annarra ákvæða sem annað hvort takmarka verulega eða brjóta á réttindum fólks á flótta og því telja Píratar nauðsynlegt að fram fari stjórnskipuleg úttekt á því hvort frumvarpið standist mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar sem og alþjóðlega mannréttindasáttmála sem Ísland hefur undirgengist (t.d. 3. og 13. grein Mannréttindasáttmála Evrópu). Dómsmálaráðuneytið viðurkennir í greinargerð með frumvarpinu að slík úttekt hafi ekki farið fram en þrátt fyrir það neitar stjórnarmeirihlutinn að samþykkja sjálfsagða beiðni Pírata um að óháðum aðila verði falið að meta lögmæti ákvæða frumvarpsins.
Útlendingafrumvarpið hefur aldrei verið eins nálægt því að verða að lögum og það er nú en Píratar höfðu það sem sitt meginmarkmið að koma í veg fyrir að það yrði að lögum fyrir jól og tókst að semja um að fá málið aftur til efnislegrar umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd í janúar. Með umfjölluninni munum við leitast við að upplýsa um hvort að þetta mál standist stjórnarskrá og mannréttindaskuldbindingar Íslands og reyna að kalla fram hvers vegna meirihlutinn stendur gegn stjórnskipulegri úttekt á þessum atriðum. Það er öllum til hagsbóta að öruggt sé að lagasetning Alþingis standist æðstu lög ríkisins og alþjóðlegar skuldbindingar þess.
Njósnaheimildir lögreglunnar
Dómsmálaráðherra lét sér ekki nægja að gera atlögu að réttindum flóttafólks á árinu heldur vann hann ötullega að því að grafa undan réttindum allra borgara á Íslandi með framlagningu frumvarps um forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu. Verði frumvarpið að lögum mun lögreglan hafa heimildir til þess að:
- Fylgjast með umferð á hvaða opnu vefsíðu sem er, þar með talið hverjir heimsækja og skoða þær.
- Hafa víðtækt og óskilgreint eftirlit með netnotkun einstaklinga án dómsúrskurðar og án gruns um afbrot né nokkuð saknæmt athæfi.
- Fylgja fólki eftir á almannafæri, á leið þeirra milli staða og inni á stöðum sem opnir eru almenningi eins og t.d. kaffihús, veitingastaðir, barir, söfn o.s.frv. og taka af þeim myndir og myndbönd án dómsúrskurðar og án þess að rökstuddur grunur um lögbrot né undirbúning á lögbroti liggi fyrir.
- Afla gagna um einstaklinga hjá öllum opinberum stofnunum, þar á meðal heilbrigðisstofnunum og félagsþjónustunni um tiltekna einstaklinga án gruns um að viðkomandi hafi framið né sé að undirbúa það að fremja afbrot.
- Að safna saman öllum upplýsingum sem lögreglan kemst í tæri við í störfum sínum í einn gagnagrunn til þess að nota við greiningarvinnu og „afbrotavarnir“ (lesist forvirkar rannsóknir).
Rökin sem dómsmálaráðherra og samstarfsfólk hans koma með fyrir því að veita lögreglu þessar heimildir eru þær að lögreglan á Norðurlöndunum sé sífellt að kvarta í lögregluyfirvöldum hérlendis vegna ónógra heimilda lögreglunnar til þess að fylgja eftir ábendingum frá erlendum lögregluyfirvöldum. Sé þetta rétt (við höfum engar sannanir fengið fyrir þessu), væri hægt að ná fram þeim markmiðum með miklu takmarkaðri heimildum en þeim sem lagt er til í frumvarpi dómsmálaráðherra.
Staðreyndin er sú að lögreglan hefur nú þegar mjög víðtækar heimildir til þess að fylgjast með borgurum þessa lands en hún þarf vissulega að hafa að minnsta kosti grun um afbrot eða undirbúning á afbroti til þess að beita þeim. Staðreyndin er einnig sú að lögreglan neitar að sæta því litla eftirliti sem henni þó ber að sæta samkvæmt lögum um þær eftirlitsheimildir sem hún hefur nú þegar. Um þetta hefur Ríkissaksóknari ritað harðorðar skýrslur þar sem því er haldið fram að lögreglan geri Ríkissaksóknara hreinlega ómögulegt að framkvæma lögbundið eftirlit með hlerunum og öðrum eftirlitsaðgerðum lögreglu. Í flestum þroskuðum lýðræðisríkjum væri þetta tilefni til þess að dómsmálaráðherra brygðist við af festu gegn lögreglunni. Ekki hér. Hér bregst dómsmálaráðherra við með því að færa lögreglu fleiri og víðtækari eftirlitsheimildir á silfurfati.
Hér eru ónefnd öll þau tilfelli þar sem lögregla dregur langt fram úr hófi að afhenda nefnd um eftirlit með störfum lögreglu nauðsynleg gögn til þess að nefndin geti sinnt eftirliti sínu. Sömuleiðis er vert að nefna að lögreglan viðurkennir að hafa ekki einu sinni lesið álit nefndarinnar um alvarlega misbresti í framkomu lögreglu gagnvart aðstandendum þolenda í fleiri mánuði eftir að það lá fyrir.
Píratar standa með borgararéttindum og munu því berjast gegn frumvarpi dómsmálaráðherra um njósnaheimildir fyrir lögregluna á næsta ári og eins lengi og þörf er á.
Rannsókn á bankasölunni
Þegar fjármálaráðherra upplýsti um að hann ætlaði sér að selja stóran hlut í Íslandsbanka í lokuðu söluferli mótmæltu fulltrúar Pírata í fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd þeim fyrirætlunum þar sem Bjarna Benediktssyni væri ekki treystandi fyrir því að selja ríkiseignir. Það kom enda á daginn að Bjarni hafði ekki aðeins klúðrað umgjörðinni á söluferlinu sjálfu heldur hafði hann einnig selt pabba sínum hlut í bankanum á afsláttarkjörum sem almenningi stóð ekki til boða.
Það sem er augljóst og ætti að vera óumdeilanlegt er að fjármálaráðherra má ekki selja pabba sínum hlut í ríkiseign. Um þetta gilda lög, 3. grein stjórnsýslulaga nánar tiltekið, og það er ekki hægt að fela sig á bak við það að þykjast ekki hafa vitað hver var að kaupa af ráðherranum. Það er raunar með miklum ólíkindum og segir dapra sögu af þöggun og meðvirkni að lögmannastéttin eins og hún leggur sig virðist hafa ákveðið að þegja þunnu hljóði um þessa augljósu staðreynd.
Þegar í ljós kom hversu illa hafði verið staðið að söluferlinu kallaði ég eftir því að sett yrði á fót rannsóknarnefnd Alþingis til þess að fara yfir söluferlið allt. Á tímabili leit út fyrir að meira að segja þingmenn stjórnarmeirihlutans væru sammála um nauðsyn þess því þingflokksformenn stjórnarflokkanna lýstu allir yfir vilja sínum til þess einn daginn áður en þeir drógu í land næsta dag. Bjarni hafði þá stuttu áður sjálfur lýst því yfir að hann myndi biðja Ríkisendurskoðun um að gera úttekt á ferlinu en eins og komið hefur í ljós hefur Ríkisendurskoðun ekki nægar heimildir til þess að skoða alla þætti söluferlisins sem varða almannahag. Skýrsla Ríkisendurskoðunar er enn til meðferðar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd en búast má við að hún ljúki störfum snemma á næsta ári.
Eftir stendur að skýrsla Ríkisendurskoðunar fjallar ekkert um vanhæfi fjármálaráðherra til þess að selja pabba sínum hlut í bankanum. Þá kom fram á opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að Ríkisendurskoðun hafi ekki séð tilefni til þess að kanna hvort þeir erlendu kaupendur sem fengu hluti í bankanum hafi í raun og sann verið erlendir kaupendur en ekki leppar fyrir innlenda aðila.
Í fyrsta lagi skiptir það máli að vera viss um að aðilar nátengdir sölunni hafi ekki farið framhjá vanhæfisreglum með því að nota milliliði til þess að kaupa fyrir sig hlut í bankanum.
Í öðru lagi skiptir það máli að það sé alveg öruggt að erlendir aðilar hafi keypt hlutina fyrir eigið fé en séu ekki fjármagnaðir af Íslandsbanka sjálfum eða öðrum bönkum á Íslandi vegna þess að ef svo væri myndi slíkt auðvitað veikja eigið fé bankanna á Íslandi eins og gerðist í fyrra einkavæðingarferli, ósælla minninga.
Og í þriðja lagi skiptir það máli vegna þess að þessir erlendu aðilar sem ráðherra er svo stoltur yfir að hafi tekið þátt í útboðinu, höfðu úrslitavald um ákvörðun á verði hlutanna í útboðinu - þessu margrædda 117 króna verði á hlut.
Enn er því mikil þörf á að skipa rannsóknarnefnd Alþingis til þess að svara þessum mikilvægu spurningum.
Árið framundan
Strax á næsta ári mun taka við mikil barátta gegn því að útlendingafrumvarp ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur verði að lögum. Þar mun stuðningur og þátttaka almennings skipta sköpum. Við vitum að meginþorri almennings vill að Ísland axli ábyrgð gagnvart alþjóðlegum skuldbindingum sínum og virði réttindi flóttafólks og við verðum að virkja samtakamáttinn til þess að koma sama viti fyrir ríkisstjórnina.
Á sama tíma stendur til að ljúka umfjöllun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka og þá mun það endanlega liggja fyrir hvort loforð stjórnarliða um skipun rannsóknarnefndar hafi bara verið ljótur pólitískur tafarleikur til þess að skapa fjarlægð frá réttmætri reiði almennings eða hvort þeim hafi raunverulega verið alvara þegar þau sögðust vilja velta við hverjum steini í því máli.
Píratar munu berjast gegn öllum tilraunum til þess að grafa undan réttindum borgaranna og munu áfram sem endranær leggja sig fram við að gagnrýna spillingu, sérhagsmunapot og fúsk. Við gerum það vegna þess að við viljum gera Ísland að alvöru lýðræðisríki, þar sem allir sitja við sama borð og þar sem enginn þarf að óttast um afkomu sína eða frelsi fyrir að nýta sjálfsögð mannréttindi sín. Þá fyrst, erum við frjáls.
Höfundur er þingmaður Pírata.