Hvernig stendur á því að þann 14. september 2022 geti íslenskt réttarkerfi ekki ennþá gert upp við meðferð sína á sakamáli nr. 214/1978?
Mál þetta hefur verið kallað Guðmundar- og Geirfinnsmál, þar sem fólk var dæmt fyrir ýmsar sakir varðandi það að hafa banað Guðmundi Einarssyni í janúar 1974 og Geirfinni Einarssyni í nóvember 1974 og einnig fyrir ýmis afbrot önnur. Dómur var fyrst kveðinn upp í Sakadómi Reykjavíkur 19. desember 1977 og síðan í Hæstarétti Íslands 22. febrúar 1980. Svo miklir annmarkar voru bæði á rannsóknarstigi og á dómunum sjálfum að eftir það hafa farið fram fjölmargar rannsóknir, bótamál, rannsóknar- og endurupptökubeiðnir, frávísanir og synjanir innan úr dómskerfinu, lagabreytingar á Alþingi, sýkna af áður dæmdum sakfellingum fyrir manndráp og nú síðast synjun Endurupptökudóms á endurupptökubeiðni um nýja málsmeðferð vegna fyrri dóms um rangar sakargiftir.
Stærsta sakamál í samtíma réttarfarssögu
Það á að hætta að kalla þetta mál Guðmundar- og Geirfinnsmál, af því það snerist fljótt frá því að komast að því hvað varð um þessa menn og þeir urðu að aukapersónum í sínum eigin mannshvörfum. Við tók í staðinn skandall í íslenskri samtíma réttarfarssögu, þar sem saman fóru skelfilegir annmarkar á framkvæmd lögreglurannsóknar, réttarfarslegir vankantar þar sem samkrull lögreglu og dómsvalds bauð upp á misnotkun, pólitísk afskipti, réttarmorð með dómsuppkvaðningum á báðum stigum og endalaus afneitun réttarkerfisins sjálfs á að leiðrétta fyrri gjörðir sínar, undir kjörorðinu Dómar skulu standa.
Leirfinnsmálið
Þegar lögreglan í Keflavík, undir stjórn fulltrúa fógeta síns, hafði látið móta leirhöfuð þess sem þeir kölluðu lykilinn að lausninni, hófst Leirfinnsmálið. Sá leir var síðan hnoðaður aftur og aftur og efniviðurinn þynntist og þynntist í hvílíkt drullumall að kalla þurfti á þýskan sérfræðing í naglasúpugerð til að hægt væri að bera súpupottinn á borð dómstóla.
Þriggja daga rannsóknin
Á þriðjudagsmorgun 29. janúar 1974 var áhyggjufullur faðir mættur til Rannsóknarlögreglunnar í Reykjavík til þess að tilkynna um hvarf 19 ára gamals sonar síns, Guðmundar Einarssonar. Guðmundur fór frá heimili sínu í Blesugróf næst liðið laugardagskvöld og ætlaði með félögum sínum á ball í Alþýðuhúsinu í Hafnarfirði, en síðan hafði ekkert til hans spurst þrátt fyrir þónokkra eftirgrennslan. Hefur hann m.a. áhyggjur vegna þess að: „Þessa nótt var vitlaust veður, rok og snjókoma.“ Njörður Snæhólm aðalvarðstjóri tók skýrslu af föðurnum og undirritaði faðirinn hana. Að því búnu hringdi Njörður í formenn björgunarsveita og bað þá um að hefja leit og hringdi á næstu lögreglustöðvar og lét þar vita. Því næst hringdi hann í þá sem höfðu farið með Guðmundi þetta kvöld og komst að því að fyrst var haldið upphitunarpartý í Garðahreppi (nú Garðabæ) og svo farið á ball í Alþýðuhúsinu í Hafnarfirði og þar misstu félagarnir sjónar af Guðmundi. Skýrslum dagsins lýkur Njörður með því að segja frá að leitarhópar hafi leitað fram í myrkur meðfram vegum og fjörum, en „Þar sem 60 c.m. snjólag er yfir allt, er ekki hægt að leita í hrauninu eða utan vega...“ Tveimur árum seinna og áfram allt til dóms hæstaréttar er því haldið fram að glæpamenn hafi á þeirri nóttu sem veðri er svo lýst, ekið með lík Guðmundar í fólksbíl eftir einhverjum troðningum um Hafnarfjarðarhraun og komist til baka án þess að festa sig.
Á öðrum degi hringdi stúlka heim til Njarðar og sagði honum að um kl 02 nóttina sem Guðmundur hvarf hafi hún og önnur stúlka með henni ekið um Hafnarfjörð og þá séð Guðmund og annan mann til eitthvað eldri, í gulri skyrtu, á gangi nálægt bíóinu. Njörður hringdi í einn vinanna sem sagði engan þeirra hafa verið í gulri skyrtu.
Á þriðja degi, fimmtudegi, hringdi lögreglan í Kópavogi í Njörð til að láta vita af vitni um ferðir Guðmundar. Sá hafði verið á ferð með öðrum manni þegar hann sá drukkinn pilt og annan eldri þar skammt frá. Njörður nær tali af þeim báðum og skráir frásagnir þeirra.
Allar þessar frásagnir eru óundirritaðar af skýrslugjöfum, sú fyrsta (af föðurnum) skráð á forsíðublað með blaðhaus en hinar vélritaðar á ómerkt blöð og tölusettar með framhaldandi blaðsíðutölum til og með blaðsíðu 8.
Sunnudaginn eftir þetta skráir Njörður að björgunarsveitir séu enn að leita, en færi ekki gott og árangur enginn ennþá. Þar með er lokið skriflegum heimildum frá lögreglu um leitina að Guðmundi fyrst eftir að hann hvarf.
Síðan spurðist ekkert til Guðmundar meir.
Þeir voru ekki svona vitlausir
Keflavíkurrannsóknin var öllu viðameiri og ég er búin að fara ítarlega yfir öll gögn hennar og fleiri heimildir um hana líka. Þeir Valtýr og Haukur sem stýrðu lögreglurannsókninni á hvarfi Geirfinns hafa oft haldið því fram að ekkert mannshvarf hafi verið rannsakað eins mikið og í leit þeirra að Geirfinni. Þegar þeim félögum er bent á ýmsa annmarka á rannsóknargögnum sínum, eru þeir fljótir að grípa til afsakana, hjá embættinu hafi hvorki verið reynsla né tæknileg kunnátta til að gera betur, svo eðlilegt sé að þar hafði sitthvað mátt betur fara. Fyrir vikið hafa þeir komist upp með það að gorta sig fyrst, en malda síðan aðeins í móinn og láta annars gott heita að hafa verið taldir heldur slappir í rannsóknarvinnunni.
Þegar gögn lögreglunnar í Keflavík eru rannsökuð, þá verður hins vegar alveg ljóst að í þeim eru mörg og svo stór göt á svo mikilvægum svæðum að þeir geta ekki hafa verið nógu vitlausir til að taka ekki eftir þeim sjálfir. Af hverju eru þessi göt í Keflavíkurrannsókninni?
Þegar leit þeirra að Geirfinni hafði runnið út í sandinn, hefði hann horfið inn í hljóðan hóp annarra horfinna manna og enginn farið að rýna í vinnubrögð Keflavíkurlögreglunnar, ef ekki hefði komið til þetta óvænta Guðmundar- og Geirfinnsmál í Reykjavík rúmu ári síðar.
Sömu gömlu vinnubrögðin
Til að reyna að átta mig á vinnubrögðum lögreglu við rannsóknir las ég önnur mál þar sem hluti leikenda í Keflavíkurrannsókninni koma við sögu.
Þar er fyrst að nefna Tímamálið. Í Tímanum, 14. apríl 1976, skrifar S.P. Undir fyrirsögninni Dýrlingur og James Bond Íslands. Þar hefur hann eftir sakborningum í spíramálum fjögur atriði um aðferðir þær sem Kiddi P og Haukur hafi beitt. Að þeir hafi falsað undirskriftir með játningum og veifað framan í aðra fanga til að blekkja þá til játninga, að þeir hafi borið í þá sögur um aðstæður þeirra nánustu til að auka á óþreyju þeirra til að losna, að þeir hafi lofað mönnum vægari refsingum ef þeir bæru sakir á aðra, að Kiddi P fari iðulega einn til húsleita þegar eiginkonur eða jafnvel bara börn eru ein heima og átti sig ekki á heimildarleysi hans.
Hjálpið okkur að góma glæpamenn
Þann 6. desember 1976 stöðvaði lögreglan í Keflavík bíl í Vogunum þar sem í sátu maður sem kallaður var Batti rauði og bílstjóri hans. Í bílnum fann lögreglan tvær ótollskoðar vodkaflöskur og einn kassa af áfengum bjór. Voru ökumaður og bílstjóri þegar handteknir og fulltrúi fógeta (Valtýr var þá hættur og farinn annað) úrskurðaði Batta snarlega í gæsluvarðhald, sem hæstiréttur felldi síðar úr gildi. Batti-rauði þóttist vel vita hvenær hann væri með sprútt í skottinu og hvenær ekki og hélt því strax fram að hér væri verið að koma á hann sök. Sagði hann frá því að hann hefði tekið tvær stúlkur upp í bílinn og ekið með þær áleiðis til Grindavíkur, en þær þurft að koma við í Vogunum og stungið af þar. Taldi hann Hauk og Kidda P standa að baki þessu ólöglega plotti. Þá var kominn nýr bæjarfógeti og þótti honum full ástæða til að rannsaka hvað gerst hefði við þessa handtöku. Var leit gerð að þessum „huldumeyjum“ og nokkur fjöldi ungra vinkvenna Hauks leiddar fram í sakbendingu án árangurs. Sendi bæjarfógetinn málið til Sakadóms Reykjavíkur til frekari rannsóknar. Þar strandaði málið án niðurstöðu og Batti dó áður en málið upplýstist. Fógetinn vék Hauki frá tímabundið meðan rannsókn á handtökuaðferðum hans stóð og þótti Hauki sér þar illa launað fyrir vel unnin störf sín.
Þá var það 9. apríl 1978 að ung kona sem gefið hafði „huldumeyjunum“ fjarvistarsönnun, sá að sér og gaf sig fram við rannsóknarlögreglu ríkisins og játaði sök sína og benti á hinar tvær sem játuðu líka. Í framhaldi af því játaði fógetafulltrúinn að hafa vitað af plotti Hauks og Haukur játaði líka. Stúkurnar þrjár báru allar sömu sögu um ástæðu þess að þær tóku þátt í þessu. Haukur hafði komið að máli við þær og lýst fyrir þeim hve mikilvægt væri að þær hjálpuðu lögreglu við að taka hættulega glæpamenn úr umferð, þeir væru búnir að valda fólki mikilli óhamingju, annars vegar með því að lokka það inn í okurlánakerfi sem kæmu því síðar á vonarvöl og hins vegar með því að smygla eiturlyfjum sem gerðu fólk að aumingjum ættingjum þeirra til harma. Þær trúðu þessu og töldu sig vera að vinna gott verk í þágu réttvísinnar. Svo fékk ein þeirra bakþanka og allt komst upp. Haukur fékk fangelsisdóm sem hann afplánaði, en stúlkurnar og fógetafulltrúinn fengu skilorðsbundna dóma. Kiddi P slapp alveg við dómsmálin.
Slúðurberar á afsláttarkjörum
Báðar þessar aðferðir, að bera rangar sögur á milli fanga til að blekkja þá til játninga, hræða þá, hóta þeim og bjóða þeim miskunn gegn því að vitna gegn öðrum, eða þá að telja þeim trú um að þeim eða samfélaginu stæði ógn af vondum glæponum sem þyrftu bara smá tilhliðrun á sannleikanum til að koma maklega í fangelsi, voru notaðar á sakborninga í Guðmundar- og Geirfinnsmálum og ýmsa fleiri sem handteknir voru eða kallaðir til yfirheyrslu í þeim málum, þar á meðal gegn fjórmenningunum.
Í mörgum sakamálum á þessum tíma og þar á meðal við upphaf Guðmundarmálsins og áfram í Geirfinnsmálinu, var stuðst við framburð sakamanna sem báru slúðursögur í lögregluna gegn vilyrði um vægari meðferð á sínum eigin brotamálum. Þegar lögreglan fór fram á gæsluvarðhald yfir Sævari og Erlu, var tilgreint að það væri vegna þess að þeim hefðu borist upplýsingar um aðild þeirra að póstsvikamálinu. Upplýsingaraðilinn var þá fangi á Litla-Hrauni og var að reyna að milda sitt mál. Það er líklega alveg rétt að hann hafi frétt af þessu þar, en þessi söluvara gagnaðist honum ekki af því lögreglan var löngu búin að upplýsa það mál. Þá bauð hann þeim betur, aðkomu Sævars og Erlu að hvarfi Guðmundar. Þar með stökk lögreglan til og handtók Sævar og Erlu á grunni póstsvikamálsins og hóf Guðmundarþátt Guðmundar- og Geirfinnsmálsins og Geirfinnsþáttinn skömmu síðar. Lögreglan hafði ekkert fyrir sér sem gat á þeim tíma réttlætt handtöku þeirra vegna hvarfs Guðmundar og því var gæsluvarðhald vegna póstsvikamálsins það skjól sem gaf þeim færi á að pumpa hin handteknu um hvarf Guðmundar. Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar sátu á þeim tíma í afplánun inni á Litla-Hrauni og það þurfti bara bílferð til að keyra þá í Síðumúla til að yfirheyra þá um hvarf Guðmundar.
Annar svona slúðurberi með ljóta sakaskrá sem dreginn var fram var Gunnar nokkur sem Kiddi P sótti til Spánar til að bera að hafa verið vitni að því þegar Guðmundur var drepinn á Hamarsbrautinni. Honum var síðan sleppt til Spánar aftur.
Það þýddi lítið að fá Erlu og Sævar til að sakbenda glæpona af því það væri þjóðþrifamál, þau hafa líklega þótt frekar á bandi bófa enn löggu. Í þeirra tilviki hafa þau sagt frá tíðum heimsóknum lögreglumannanna Sigurbjarnar og Eggerts til Erlu, þann tíma sem hún var laus úr varðhaldi frá síðari hluta desember 1975 og fram í byrjun maí 1976. Hafi þeir þá alið á ótta hennar við að voða vondir menn, líklega Klúbbmenn, sætu um að vinna henni mein og það sama sögðu þeir við Sævar. Þau segja bæði að með því hafi það verið lagt inn hjá þeim að þau þyrftu að losa Erlu undan þessum ógnunum með því að hjálpa lögreglu að koma böndum yfir þessa menn. Gekk þetta svo langt að vopnaðir lögreglumenn voru á og við heimili Erlu henni til “varnar” á lokametrum þess að hún og Sævar báru fyrstu bendingar á Klúbbmenn og þá Einar bróður Erlu og Valdimar í Þórskaffi líka.
Pólitískt flogakast
Pólitík blandaðist vissulega inn í Klúbbmál frá upphafi 1972 og Geirfinnsmálið varð framhalds Klúbbmál. Kiddi P var Alþýðuflokksmaður, enginn framámaður bara almennur félagi, og náði í trausti þess eyrum áhrifamanna í þeim flokki, bæði á Alþingi og á ritstjórn Alþýðublaðsins. Á þessum sama tíma voru ungir menn í Alþýðuflokknum að rísa upp gegn margvíslegri spillingu í samfélaginu og pólitískri verndarhendi yfir þeirri spillingu. Þar fór fremstur í flokki Vilmundur Gylfason. Á Alþingi hélt Sighvatur Björgvinsson eldmessu og hraunaði yfir dómsmálaráðherra í þingræðu 2. febrúar 1976 og sakaði hann um pólitísk afskipti við að stöðva rannsókn og lokun á Klúbbnum, sem Kiddi P fór fyrir árið 1972. Tengdi hann það mál við þá ný handtekna Klúbbmenn og spurði hvort dómsmálaráðherra ætlaði að íhlutast um þeirra mál núna líka.
Það er oft erfitt að setja sig inn í stór mál sem útskýrð eru í löngu máli, svo þegar upp verður staðið stendur eftir mjög einfalt mál í hugum fólks: Framsóknarflokkurinn, undir forystu formanns síns sem jafnframt er dómsmálaráðherra, heldur hlífiskildi yfir glæpamönnum tengdum Klúbbnum, sem hafa stundað smygl á spíra og eru nú grunaðir um morð.
Betra er að hengja rangan sakamann en engan
Alþýðuflokksmenn gátu rifið kjaft, en Framsóknarflokkurinn fór með völd. Auðvitað gat dómsmálaráðherra ekki setið undir þeim ásökunum að skjóta skjólstæðingum flokks síns undan réttvísinni og allra síst í morðmáli. Rannsókn lögreglunnar, sem var á forræði Sakadóms, var komin í algjört klúður. Búið var að handtaka fjölda fólks og setja það í gæsluvarðhald, hafandi ekkert annað en misvísandi og síbreytilegar sögur og engar sannanir og engin lausn í sjónmáli. Það var ekki einu sinni hægt að láta sakborninga lausa vegna skorts á sönnunum, án þess að upp myndu koma ásakanir um að dómsmálaráðherra væri að hylma yfir með mögulegum morðingjum.
Ríkisstjórnin hékk á bláþræði og ef hún félli gæti komið vinstristjórn í kjölfarið sem myndi enn og aftur hóta að reka bandaríska herinn úr landi. Þetta var vandamál sem kallaði á aðstoð vinaríkja í NATO og einhvern veginn, sem ekki hefur verið upplýst alveg um ferilinn á, varð það úr að þýsk yfirvöld höfðu milligöngu um að finna þýskan rannsóknarlögreglumann á eftirlaunum til að fara til Íslands og bjarga ríkisstjórninni frá falli, eins og hann skýrði hlutverk sitt sjálfur síðar í endurminningum sínum.
Þann 15. júlí 1977 kom Helmut Schmidt kanslari V-Þýskalands í opinbera heimsókn til Íslands með 85 manna fylgdarliði. Í þeirri heimsókn voru hengdar fálkaorður á 6 manns, fimm þýska lögregluforingja og einn ríkisstarfsmann fyrir framlag þeirra til lúkningar Guðmundar- og Geirfinnsmálsins. Þá var ekki einu sinni búið að kveða upp fyrsta dóm í málinu, hann var kveðinn upp í Sakadómi Reykjavíkur 19. desember 1977. Þessi orðuveiting fór hljótt og spurðist ekki út fyrr en mörgum árum síðar.
Guðmundar- og Geirfinnsmál skýrast
Starfshópur um Guðmundar- og Geirfinnsmál var skipaður af Ögmundi Jónassyni, innanríkisráðherra þann 7. október 2011. Í yfirlýsingu ráðherra af því tilefni kemur m.a. fram að almenningur hafi látið sig Guðmundar- og Geirfinnsmál varða. „Þannig hef ég í þessari viku fengið í hendur 1190 undirskriftir þar sem krafist er rannsóknar og endurupptöku þessara mála. Þá hafa þau sjónarmið ítrekað komið fram að margt hafi farið svo alvarlega úrskeiðis við rannsókn málsins að það varði almannahag að rannsókn fari fram á sjálfri rannsókninni. Að mínum dómi er það slæmt fyrir réttarkerfið – og varðar almannahag – að sú skoðun sé útbreidd í þjóðfélaginu að réttarkerfið hafi brugðist.“
Starfshópnum var falið að fara yfir málið í heild sinni en sérstaklega þá þætti sem lúta að rannsókninni og framkvæmd hennar á sínum tíma. Starfshópnum var jafnframt falið að taka til athugunar þau gögn sem komið hafa fram á síðustu árum. Skilaði starfshópurinn viðamikilli skýrslu sinni í innanríkisráðuneytinu 21. mars 2013. Skýrsla þessi er besta samantekt á málinu sem gerð hefur verið. Við rannsókn Láru V höfðu verið dregin fram ný gögn sem fundust hér og þar og við vinnu þessa hóps komu fram enn fleiri gögn.
Skýrslu þessa sótti ég af þessari slóð.
Réttarfar á þessum tíma
Í skýrslu starfshópsins er greinargóð lýsing á því réttarfari sem gilti á þessum tíma, forsögu þess og síðari breytingum. Þar segir: „Málsmeðferð opinberra mála á Íslandi bar öll megineinkenni rannsóknarréttarfars fram eftir 20. öldinni. Dómarar höfðu með höndum stjórn lögreglu og hófu rannsókn brotamála að eigin frumkvæði og stýrðu rannsókn. Dómsmálaráðherra var æðsti handhafi ákæruvalds en dómarar fóru líka með það vald og sáu um öflun sönnunargagna. Skil á milli rannsóknar og málsmeðferðar fyrir dómi voru óglögg þar sem sönnunarfærsla fór gjarnan fram fyrir dómi á rannsóknarstigi.“
Við uppskiptingu embættis lögreglustjórans í Reykjavík árið 1939 var embætti sakadóms Reykjavíkur sett á laggirnar. Rannsóknarlögregla í Reykjavík flutti þá undir Sakadóm Reykjavíkur sem „fór þannig með rannsóknarvald og dómsvald í opinberum málum“ m.a. rannsókn fyrir dómi, framkvæmd refsidóma, stjórn rannsóknarlögreglu og stjórn Hegningarhúss.
Utan Reykjavíkur var þessu öðruvísi háttað: „þar voru fulltrúar bæjarfógeta bæði fulltrúar lögreglustjóra og dómara. Fulltrúi vann þar með lögreglu við rannsókn mála, útbjó málin í hendur ríkissaksóknara, tók síðan við þeim eftir útgáfu ákæru og dæmdi að lokum sem dómarafulltrúi.“
Persónur og leikendur
Frumrannsóknin á hvarfi Geirfinns Einarssonar er eini þáttur alls Guðmundar- og Geirfinnsmálsins sem fór fram utan Rannsóknarlögreglu Reykjavíkur og þar með Sakadóms Reykjavíkur. Þar gegndi Valtýr Sigurðsson hlutverki þess fulltrúa bæjarfógeta sem að ofan er lýst. Valtýr varð síðar ríkissaksóknari á árunum 2008 til 2011.
Gunnlaugur Briem var yfirsakadómari og fulltrúi hans í Guðmundar- og Geirfinnsmálum var Örn Höskuldsson og undir hans stjórn unnu einkum að þeim málum þeir Eggert N. Bjarnason og Sigurbjörn Víðir Eggertsson. Voru þeir Örn, Sigurbjörn og Eggert kallaðir Síðumúlatríóið.
Þórður Björnsson var ríkissaksóknari, en vararíkissaksóknari hans Hallvarður Einvarðsson sinnti G&G málunum af hörku.
Rannsóknarlögregla ríkisins, RLR, var stofnuð með lögum frá 1976 og tók til starfa 1977. Þá fluttist rannsóknarlögregla fyrst frá sakadómi og fór með lögreglurannsóknir í stærri sakamálum þvert á lögregluumdæmi. Fyrsti lögreglustjóri RLR var áðurnefndur Hallvarður Einvarðsson.
Þórir Oddsson varð vararannsóknarlögreglustjóri 1978 og síðan rannsóknarlögreglustjóri á lokametrum RLR áður en RLR var lagt niður með stofnun Ríkislögreglustjóra árið 1997 og varð þá aðstoðar ríkislögreglustjóri. Þórir stýrði Harðræðisrannsókninni sem komið er að hér síðar.
Njörður Snæhólm varð fyrsti yfirlögregluþjónn RLR, en hann hafði verið færður úr embætti aðalvarðstjóra Rannsóknarlögreglunnar í Reykjavík í embætti deildarstjóra á miðju ári 1976 og vann að undirbúningi stofnunar RLR. Njörður er sá sem rannsakaði hvarf Guðmundar í janúar 1974 og átti lítt skráða þátttöku með lögreglunni í Keflavík í rannsókninni á hvarfi Geirfinns frá nóvember 1974. Á hans könnu var póstsvikamálið sem hann upplýsti fyrir árslok 1974 og tók upp úr pússi sínu til að handtaka Sævar og Erlu í desember 1975 og fá þau á þeim forsendum í gæsluvarðhald þar sem þau voru síðan yfirheyrð um hvarf Guðmundar. Þá tók hann líka rannsóknina á fyllerísrausi G.A. í október 1975, sem ég hef fjallað um í fyrri grein. Njörður tók síðan þátt í rannsókn Guðmundar- og Geirfinnsmála frá upphafi.
Hér er allt í lagi
Með dómi hæstaréttar í Guðmundar- og Geirfinnsmálum 1980, varð engin sátt um málið í samfélaginu. Fyrst var aðeins pústað og hinir dæmdu gátu lítið beitt sér fyrr en þeir voru látnir lausir á reynslulausn, því annars hefði uppsteytur þeirra getað haft neikvæð áhrif á að þeir fengju reynslulausn. Samt voru þeir búnir að kvarta undan því harðræði sem þeir voru beittir í gæsluvarðhaldinu og fangelsisprestur búinn að benda á það harðræði líka.
Harðræðisrannsóknin fór fram haustið 1979 vegna ásakana Sævars Marinós Ciesielski um harðræði sem hann hafi orðið fyrir í Síðumúlafangelsi meðan á rannsókn málanna stóð. Var rannsóknin framkvæmd af RLR sem fól Þóri Oddssyni hana. Út úr henni komu nokkrar ábendingar en engin niðurstaða, en hæstiréttur lét þess þó getið í reifun dóms síns að yfirfangavörður hefði einu sinni slegið Sævar utanundir.
Endurupptökubeiðnum vísað frá
Eftir að fangarnir voru loks látnir lausir fóru sumir þeirra að sækja um endurupptöku á máli sínu. Einarðastur í því var Sævar Marínó Ciesielski og lagði fram beiðni 23. nóvember 1994 um endurupptöku dóms Hæstaréttar. Hæstiréttur vísaði þessari endrupptökubeiðni til ríkissaksóknara og var Ragnar H. Hall hrl. settur saksóknari í málinu af því Hallvarður Einvarðsson, þá ríkissaksóknari, var vanhæfur til þess vegna fyrri aðkomu sinnar að málinu. Ragnar H. sendi hæstarétti svar sitt 12. desember 1995 og lagði til að beiðninni yrði hafnað.
Hæstiréttur skipaði Ragnar Aðalsteinsson hrl. sem talsmann Sævars í endurupptökumálinu eftir þessa synjun saksóknara og þótti sumum það rausnarlegt þar sem slíkt var ekki skylt og hæstiréttur hafði aldrei gert svoleiðis áður. Talsmaðurinn skilaði ítarlegri greinargerð til hæstaréttar 21. febrúar 1976 og ítrekaði þar beiðnina um endurupptöku málsins. Ákæruvaldið skilaði umsögn sinni um þessa greinargerð 22. maí 1996 og hafnaði endurupptökunni aftur. Hæstiréttur ákvað loks þann 15. maí 1997 að málið skyldi ekki endurupptekið. Af öllum þeim nýju upplýsingum sem komið höfðu fram í málinu þótti hæstarétti engar þeirra gefa tilefni til að hafna fyrri niðurstöðu sjálfs hæstaréttar frá dómsuppkvaðningunni 1980.
Stattu úti Erla
Erla Bolladóttir fór líka fram á endurupptöku dóms síns fyrir rangar sakargiftir í Geirfinnsmálinu. Hæstiréttur tók beiðni hennar frá 4. maí 2000 til skoðunar og fékk álit ríkissaksóknara sem taldi ekkert tilefni til endurupptöku og á það féllst hæstiréttur og synjaði endurupptökubeiðni Erlu þann 22. júní 2000.
Eftir að búið var að búa til sérstaka endurupptökunefnd leitaði Erla til þeirrar nefndar 26. júní 2014 og fór fram á endurupptöku síns mál. Ríkissaksóknari skilaði umsögn sinni 1. júní 2015 og taldi engar forsendur til þess. Nefndin vísaði til þess að hafa hafnað beiðnum Sævars og Kristjáns Viðars um endurupptöku á röngum sakargiftum á sömu aðila og hafnaði beiðni Erlu þar með líka.
Nei og aftur nei
Að kröfu Magnúsar Leópoldssonar framkvæmdi RLR fyrri Leirfinnsrannsóknina frá nóvember 1979 sem lauk skömmu eftir áramótin, þar sem rannsakað var hvort lögreglan í Keflavík hefði lagt sig fram um að láta leirhausinn líkjast Magnúsi Leópoldssyni og komst að því að svo hefði ekki verið. Magnús var áður búinn að biðja lengi um þessa rannsókn, var þá tekið vinsamlega en ekkert aðhafst.
Þann 1. apríl 1998 fór Magnús fram á það við dómsmálaráðuneytið að ráðuneytið hlutaðist til um að fram færi rannsókn á því sem haldið var fram í heimildamyndin Aðför að lögum um hvernig lögreglan í Keflavík hefði bendlað hann við málið strax fyrir árslok 1974. Þann 2. júlí svarar dómsmálaráðuneytið því til að það skorti lagaheimild til að hlutast til um slíka rannsókn, en hafi sent erindið til ríkissaksóknara. Hinn 10. júlí svarar ríkissaksóknari Magnúsi og hafnar slíkri rannsókn þar sem mögulegar sakir í því máli séu fyrndar. Magnús heldur málinu áfram 19. júlí og fer fram á að fá greidda lögmannsaðstoð í þessum málarekstri sínum og féllst ráðuneytið á það með bréfi 19. október.
Í kjölfarið fékk ráðuneytið bréf frá Jóni Steinari Gunnlaugssyni lögmanni Magnúsar þar sem hann leggur til að ráðuneytið hafi frumkvæði að því að með lagabreytingu á Alþingi verði hægt að taka þennan þátt málsins til rannsóknar og greiða Magnúsi og hinum fjórmenninganna auknar miskabætur ef sannað þætti að lögreglan hefði misfarið gegn honum á sínum tíma. Þann 8. desember lofar ráðherra að flytja á yfirstandandi þingi þá lagabreytingu sem til þurfi.
Eftir þá lagabreytingu ritar Magnús ríkissaksóknara bréf þann 27. apríl 1999 og fer fram á að hann mæli fyrir um hina umbeðnu rannsókn þegar lögin taka gildi. Þessu svarar ríkissaksóknari með ítarlegu bréfi 15. september 1999 og hafnar beiðninni. Það sé búið að rannsaka þetta mál áður og ekkert saknæmt komið fram þá og síðari ábendingar ekki vakið nýjar grunsemdir um saknæmt athæfi lögreglu. Þar á ofan hafi allar gjörðir lögreglu og rannsóknaraðila lotið athugun og endurskoðun af hálfu dómstóla og séu því ekki tilefni lögreglurannsóknar nú. Með bréfi 7. október fer lögmaður Magnúsar fram á að ríkissaksóknari endurskoði þessa ákvörðun sína og þann 25. október svarar ríkissaksóknari með skýru nei.
Þann 30. maí árið 2000 leggur lögmaður Magnúsar til enn eina leið til að fá málið rannsakað og nú hvort forseti Íslands geti ógilt þessa neitun ríkissaksóknara og látið skipa sérstakan saksóknara til að fara með málið. Það var ekki hægt.
Með bréfi dómsmálaráðherra til Magnúsar 5. desember 2000, tilkynnti ráðherra að hann ætlaði að leggja fram nýja breytingu á lögum þar sem hann gæti sjálfur tekið svona mál og skipað sérstakan saksóknara til að rannsaka þau. Sú lagabreyting fór í gegnum Alþingi og þá var Lára V. Júlíusdóttir skipuð sérstakur saksóknari í málinu þann 21. maí 2001.
Íslenska ríkið viðurkenndi, í dómum bæjarþings Reykjavíkur, bótaskyldu í öllum fjórum skaðabótamálunum þeirra Magnúsar, Sigurbjörns, Einars og Valdimars. Ekki var deilt um að fjórmenningarnir hafi setið saklausir í fangelsi en ekki var fallist á að mistök hefðu átt sér stað við rannsóknina þannig að aukin bótaskylda væri. Spurningin sem eftir stóð var hvernig tjónið skyldi bætt og snerust skaðabótamálin þannig að mestu um fjárhæð bóta.
Enn kom nýr ráðherra og ný lög
Dómskerfi Íslands, bæði ríkissaksóknari og hæstiréttur hafa staðið þversum fyrir því að hreyfa við Guðmundar- og Geirfinnsmálum meir. Það hefur þurft atbeina ráðherra og aðkomu Alþingis fyrir sérhverju skrefi sem skilað hefur nýrri hreyfingu í málunum. Stóra vendingin var þegar Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra, (þá var búið að fella dómsmálaráðuneytið undir nýtt innanríkisráðuneyti) skipaði þá rannsóknarnefnd sem áður er getið. Niðurstaða hennar kom þeirri hreyfingu á málið að enn á ný var hægt að sækja um endurupptöku og nú á máli 214/1998 í heild sinni.
Nú samþykkti endurupptökunefnd með úrskurði 24. febrúar 2017 að taka dóma fyrir manndráp upp aftur og settur var sér saksóknari í það mál. Hann lagði aðeins til endurupptöku á manndrápsmálunum, en ekki á sakfellingum fyrir rangar sakargiftir. Sem saksóknari lagði hann ekki til áframhaldandi kröfu um sakfellingu fyrir manndráp heldur sýknu. Réttargæslumenn sakfelldra fóru líka fram á sýknu og hæstiréttur gat ekki annað en dæmt sýknu í máli en enginn krafðist sakfellingar í. Það var gert með dómi 27. september 2018.
Til hvers að benda á fjórmenningana?
Eftir standa gildar sakfellingar þriggja einstaklinga fyrir rangar sakargiftir á þá Magnús, Sigurbjörn, Einar og Valdimar. Í forsendum dómsins á sínum tíma kom fram að þau hefðu, eftir að hafa drepið Geirfinn, komið sér saman um að ef til kæmi þá myndu þau bendla þessa fjórmenninga við sakirnar. Hvernig það átti að koma þeim sjálfum undan sökunum var látið liggja á milli hluta, en þau höfðu öll sakbent sjálf sig líka sem þátttakendur með hinum fjórum, svo þeim gagnaðist ekkert að blanda fleirum í málið. Það datt heldur engum í hug af hverju þau hefðu bara ákveðið að koma sökum á aðra í Geirfinnsmálinu en ekki í Guðmundarmálinu líka, þar sem þau áttu að muna eftir að hafa drepið annan mann tæpu ári áður. Þar hefðu líka verið hægari heimatökin þar sem Guðmundur var þó í þeirra umhverfi og á þeirra aldri og þau því átt auðveldar með að finna líklega kandídata til að flækja í það mál.
Það gildir því enn að þótt Sævar hafi verið sýknaður að sér látnum og Kristján Viðar sem líka er látinn núna, af ákærum um að hafa banað Guðmundi eða Geirfinni, þá skulu þeir hafa með sér í gröfina að hafa samt sest niður og ákveðið það eftir að hafa ekki drepið Geirfinn að hafa samt farið með lík hans á Grettisgötuna í Reykjavík og samið samsæri um ljúgvitni á fólk til að hylma yfir morðið sem þeir frömdu ekki. Og Erla er líka ennþá sek um að hafa tekið þátt í þessu lygasamsæri með þeim.
Glórulaus lögfræði
Það er sitthvað að vera klár lögfræðingur sem þekkir alla lagatækni út og inn, eða að hafa færni í að rannsaka mál til að sjá hvað gerðist raunverulega, sundurgreina málsatvik og púsla þeim saman í heildarmynd. Það truflar allar þeirra rannsóknir á málavöxtum og atburðarás, - ef einhver geta var þar á annað borð -, að þeir eru alltaf að skoða hvort hægt sé að hártoga hvert atriði lagatæknilega. Þeir skilja ekkert í sálfræðiskýrslum enda ekki hægt að útskýra sálfræði eða mannlega hegðum lagatæknilega.
Eitt skilja þó lagatæknar, að ef sakborningar spunnu ekki sjálfir upp röngu skargiftirnar, þá höfðu einhverjir aðrir gert það. Þess vegna henti endurupptökudómur þessari heitu kartöflu í andlit þjóðarinnar. Þess vegna stendur dómskerfi Íslands ennþá þversum fyrir því að taka Guðmundar- og Geirfinnsmál efnislega fyrir.
Ennþá er einn maður sem á eftir að sýkna af röngum sakargiftum. Hann getur ekki krafist neinnar endurupptöku af því hann var líklega látinn áður en Geirfinnsmálið hófst og lík hans var varla kólnað í þeirri gjótu sem einhver henti honum í þegar lögreglan í Keflavík hóf að klína á hann aðild að smygli eða hvaðeina öðru sem hann hefði sér til óhelgis unnið.
Geirfinnur Einarsson á það skilið að rannsókn á hvarfi hans verði tekin upp frá byrjun.