Á árinu 2020 greiddu sjávarútvegsfyrirtæki landsins, þ.e. þau sem stunda útgerð, alls 17,4 milljarða króna í opinber gjöld. Þar er um að ræða tekjuskatt, tryggingagjald og hið sértæka veiðigjald, sem samtals nam 4,8 milljörðum króna. Þau hafa einungis einu sinni greitt lægri upphæð innan árs í sameiginlega sjóði frá árinu 2011. Mest greiddu þau árið 2013 þegar bein opinber gjöld geirans voru 24,5 milljarðar króna, eða 41 prósent hærri en þau voru í fyrra.
Á síðasta ári greiddu eigendur sjávarútvegsfyrirtækja sér út arð upp á 21,5 milljarða króna. Það var hæsta arðgreiðsla sem atvinnugreinin hefur greitt til eigenda sinna á einu ári.
Geirinn borgaði því eigendum sínum meira í arð en hann greiddi samtals til samneyslunnar á síðasta ári, á sama tíma og ríkissjóður var rekinn með mörg hundruð milljarða króna tapi. Þetta er í eina skiptið eftir bankahrun sem umfang greiddra opinberra gjalda er minna en arðgreiðsla sjávarútvegsfyrirtækja til eigenda sinna innan árs.
Samtals hagnaðist sjávarútvegurinn um 468 milljarða króna frá byrjun árs 2009 og til loka árs 2020. Frá árinu 2009 hafa sjávarútvegsfyrirtæki greitt 126,3 milljarðar króna í arð til eigenda sinna. Auk þess sátu eftir 325 milljarðar króna í eigið fé í útgerðarfyrirtækjunum um síðustu áramót. Það jókst um 28 milljarða króna í fyrra þrátt fyrir metarðgreiðslur. Hagur sjávarútvegsfyrirtækja í heild vænkaðist því um næstum 50 milljarða króna á síðasta ári.
Halda verður til haga að eigið fé geirans er stórlega vanmetið þar sem virði kvóta, sem útgerðir eignfæra, er bókfært á miklu lægra verði en fengist fyrir hann á markaði.
Frá 2009 hefur sjávarútvegurinn greitt alls 196,7 milljarða króna í opinber gjöld, þar af 78 milljarða króna í veiðigjöld. Sú tala dregst frá áður en hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja er reiknaður.
Yfir 70 prósent situr eftir hjá þeim sem halda á kvótanum
Því var hagnaður geirans fyrir skatta og gjöld alls um 665 milljarðar króna á umræddu tímabili. Af þeirri upphæð fór undir 30 prósent til íslenskra ríkisins, eiganda auðlindarinnar, í formi tekjuskatts, tryggingagjalds og veiðigjalda. En rúmlega 70 prósent situr eftir hjá eigendum fyrirtækjanna sem fá að nýta auðlindina í formi eigin fjár og arðgreiðslna sem greiddar hafa verið út úr fyrirtækjunum.
Þetta eru ekki getgátur eða ályktanir, heldur það sem fram kemur í árlegum sjávarútvegsgagnagrunni Deloitte sem kynntur er á Sjávarútvegsdeginum og fyrirtækið heldur í samstarfi við tvö öflugustu og fyrirferðamestu lobbíistasamtök landsins: Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtök atvinnulífsins.
Óhætt er að fullyrða að hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja verði enn meiri í ár en í fyrra í ljósi þess að Kristján Þór Júlíusson, sem enn er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þrátt fyrir að hafa ekki verið í framboði til þings í lok síðasta mánaðar, undirritaði reglugerð fyrr í þessum mánuði sem heimilar íslenskum skipum stórauknar veiðar á loðnu. Raunar verður komandi vertíð sú stærsta í tæp 20 ár og aflaverðmætið er áætlað um og yfir 50 milljarða króna. Stórútgerðir taka þorra þeirra verðmæta til sín.
Skýrslan sem svaraði engu
Þessa stöðu sem er uppi hafa sumir eigendur sjávarútvegsfyrirtækja meðal annars notað til að kaupa sig inn í óskylda geira og herða tök sín á íslensku samfélagi. Reynt hefur verið að kalla eftir upplýsingum frá hinu opinbera um hversu víðtækt það eignarhald sé.
Það var til að mynda gert með beiðni um skýrslu á Alþingi í lok síðasta árs. Átta mánuði tók að gera skýrsluna, sem sýndi þó hvorki krosseignartengsl eða ítök útgerðarfyrirtækja í einstökum óskyldum fyrirtækjum.
Þess í stað var Skatturinn fenginn til að setja upp yfirlit yfir bókfært virði þeirra eigna sem útgerðarfélögin, eigendur og tengdir aðilar áttu í öðrum félögum en útgerðum.
Þær upplýsingar sem Skatturinn tók saman á bókfærðu virði eigna byggja á upprunalegu kostnaðarverði sem greitt var fyrir þær eignir. Það þýðir á mannamáli að verðið sem er uppgefið er það sem greitt var fyrir eignina upphaflega, ekki markaðsvirði hennar. Framsetningin var svo loðin að skýrsluhöfundar gerðu sérstakan fyrirvara við hana. Í skýrslunni segir á einum stað að það verði að hafa „fyrirvara um ályktanir sem kunna að verða dregnar af þeim tölulegu gögnum, um bókfært virði fjárfestingar, sem skýrslan byggir á.“
Til viðbótar var því haldið fram í skýrslunni að persónuverndarlög hömluðu því að hægt væri að birta upplýsingar um raunverulega eigendur félaga í skýrslunni. Vegna þessarar túlkunar skýrsluhöfunda var ekkert yfirlit að finna yfir þau fyrirtæki sem útgerðarmenn og aðilar tengdir þeim hafa keypt í óskyldum geirum.
Persónuvernd hefur síðar gert alvarlegar athugasemdir við þá skýringu og sagt að hún sé einfaldlega röng. Því var ráðuneytið að leyna upplýsingum sem beðið var um, og ranglega að beita fyrir sig persónuverndarsjónarmiðum í þeirri vegferð.
RÚV greindi svo frá því í september, degi fyrir kosningar, að listar yfir fjárfestingar útgerðarfélaga og tengdra félaga í íslensku atvinnulífi hafi verið í drögum að skýrslunni sem Skatturinn sendi ráðuneytinu í júlí. Listarnir voru hins vegar ekki í seinni drögum og ekki í endanlegri skýrslu sjávarútvegsráðherra til Alþingis.
Eiga í hundruðum íslenskra fyrirtækja
Þar sem stjórnvöld treystu sér ekki til að taka saman þessi gögn ákvað Stundin að gera það. Í sérstakri úttekt sem birt var fyrir rúmir viku kom fram að 20 stærstu útgerðarfyrirtæki landsins eigi eignarhluti, beint og óbeint, í hundruðum íslenskra fyrirtækja sem starfa í alls óskyldum greinum.
Það sem hefur gert þessum aðilum kleift að öðlast þessi ítök er hinar gríðarlega verðmætu aflaheimildir, einnig kallaðar kvóti, sem þeir hafa til umráða, og er metinn á um 1.200 milljarða króna miða við síðustu gerðu viðskipti með hann. Síðast var bætt við þessa stöðu þegar makríll var færður í kvóta á grundvelli veiðireynslu. Þær aflaheimildir, metnar á 65 til 110 milljarða króna, fóru að mestu endurgjaldslaust til stórútgerða.
Í greiningu Stundarinnar kemur fram að einstaklingar fari með verulega stjórn yfir aflaheimildum. Þar fer fremstur í flokki Guðmundur Kristjánsson, kenndur við Brim, með 7,77 prósenta hlutdeild í öllum aflaheimildum á Íslandi. Erfingjar Samherjaveldisins eru svo þar næst á eftir með hlutdeild í aflaheimildum frá 1,5 prósentustigum til 2,4 prósentustiga hver.
Kjarninn hefur greint frá því að alls sé 67,4 prósent allra úthlutaðra aflaheimilda í höndum 15 útgerða sem margar hverjar tengjast innbyrðis.
Tölum aðeins um Noreg
Hvernig hafa aðrar þjóðir sem byggja auð sinn á mikilvægri auðlindanýtingu hagað þeim málum? Hafa þær fært yfirráð yfir auðlindum til einstaklinga sem fara með þær eins og persónulegar eignir? Til að finna fyrirmynd að því er nærtækast að líta til Noregs.
Norska ríkið þjóðnýtir til dæmis olíuauðlindir sínar að mestu. Það á um 70 prósent hlut í Equinor (áður Statoil) á móti norskum lífeyrissjóðum og einkafjárfestum. Hagnaður á olíuframleiðslu er skattlagður með alls 78 prósent skatti. Þar af er 22 prósent venjulegur fyrirtækjaskattur og 56 prósent sérstakur skattur. Afraksturinn er settur í norska olíusjóðinn, sem norska ríkið á og stýrir í gegnum sérstakt samkomulag við seðlabanka Noregs. Sjóðurinn er í dag stærsti fjárfestingarsjóður heimsins. Hann á tæpt prósent af öllum hlutabréfum heims og gæti gefið hverjum einasta lifandi Norðmanni 30 milljónir króna ef allar eignir hans yrðu seldar í dag og sjóðnum.
Sjóðurinn fjárfestir nánast ekkert innan Noregs, og þegar hann gerir það er einkum um að ræða innviðaverkefni, sérstaklega í samgöngum og fjarskiptum.
Annað dæmi frá Noregi er orkufyrirtækið Statkraft, sem framleiðir og dreifir orku og hefur það markmið að raforkusala þess til Evrópu í gegnum fjölda sæstrengja verði jafn ábatasöm norska hagkerfinu og olíuframleiðsla í náinni framtíð. Statkraft er að öllu leyti í eigu norska ríkisins. Það á raunar kjölfestueignarhluti í mörgum kerfislega mikilvægum fyrirtækjum. Auk áðurnefndra er þar um að ræða álframleiðandann Norsk Hydro (hið opinbera á yfir 40 prósent hlut), fjarskiptafyrirtækið Telenor (54 prósent) og DNB bankann (34 prósent).
Norðmenn hafa þannig valið aðra leið en ýmis önnur auðlindarík lönd eins og Rússland, Saudí-Arabía, Nígería eða Venesúela þar sem fáir útvaldir hafa notið góðs af nýtingunni í stað þess að afraksturinn sé notaður til að byggja almenn upp betri lífskjör og samfélög.
Kerfisbundið og valkvætt óheilbrigði
Hér heima höfum við ekki farið jafn hefðbundið spillta leið með nýtingu auðlinda okkar og í Rússlandi, Saudí-Arabíu, Nígeríu eða Venesúela en þó valið að búa hér til ofurstétt manna sem eru ríkari og áhrifameiri en nokkur ætti að vera fyrir það eitt að nýta sameign þjóðar. Kerfið sem við sitjum uppi með hefur ekki leitt af sér mikið heilbrigði. Þvert á móti.
Það hefur auk þess, beint og óbeint, fjármagnað fjölmiðla sem draga taum Samherja með stórtækum hætti í gegnum árin.
Til stendur að ákæra Íslendinga sem störfuðu fyrir Samherja í Namibíu ef það tekst að koma þeim fyrir dóm í landinu. Í ljósi þess að ekki er framsalssamningur milli Íslands og Namibíu þarf það þó að gerast með þeim hætti að þeir mæti sjálfviljugir, sem verður að teljast ósennilegt. Kyrrsetningarmál gegn félögum í eigu Samherja í Namibíu er rekið sjálfstætt til hliðar við sakamálarannsóknina.
Verðlaunað fyrir að vera framúrskarandi
Þrátt fyrir að vera til rannsóknar hérlendis og í Namibíu, í málum sem eiga sér ekki hliðstæðu að umfangi, rataði Samherji ofarlega á lista CreditInfo yfir framúrskarandi fyrirtæki sem birtur var í síðustu viku. Samherji var auk þess í þriðja sæti yfir stór fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri 2021 samkvæmt samantekt Viðskiptablaðsins og Keldunnar, þar sem skilyrðin fyrir því að rata á listann eru sögð „ströng“. Til að teljast framúrskarandi fyrirtæki að mati CreditInfo þarf, til viðbótar við það að uppfylla einhver skilyrði sem fela ekki í sér að vera undir rannsókn fyrir stórfelld efnahagsbrot, að greiða 99 þúsund krónur.
Til að vera framúrskarandi að mati Viðskiptablaðsins og Keldunnar þarf að greiða þeim fyrirtækjum 50 þúsund krónur.
Fyrir það verð fæst leyfi til að segjast framúrskarandi í kynningarefni fyrirtækja.
Hér virðist fara saman að vera grunaður um að hafa stundað stórfellda skattasniðgöngu gagnvart samfélaginu sem á auðlindina sem auður fyrirtækisins spratt upp úr og þykja framúrskarandi. Það að vera grunaður um stórfellt peningaþvætti vegna þess að auðurinn var falin frá þeim sem áttu réttmætt tilkall til hans er þá væntanlega líka framúrskarandi. Og það að vera grunaður um að múta stjórnmálamönnum í ríki sem Ísland veitti þróunaraðstoð til að byggja upp sjávarútveginn sinn í viðleitni til að komast yfir kvóta og græða enn meiri pening er kemur að minnsta kosti ekki í veg fyrir það sé hægt að kaupa sér vottun upp á að vera framúrskarandi.
Hvað ræður þar för er erfitt að festa fingur á. Kannski er það hræðsla við þá einstaklinga sem stýra þessari samstæðu. Kannski er það sjúkleg meðvirkni. Eða kannski fylgja þessi fyrirtækja þeim takti sem hið opinbera setur þegar kemur að fiskveiðistjórnunarkerfinu. Og snúa sér undan þegar augljósir gallar blasa við.
Ætlum við að halda þessum leik áfram?
Þessi staða sem lýst er hér að ofan er í andstöðu við vilja þjóðar. Það sýna allar skoðanakannanir sem gerðar hafa verið. Í aðdraganda síðustu kosninga sögðust tveir af hverjum þremur vera óánægðir með kvótakerfið og nánast sama hlutfall að núverandi útfærsla þess ógni lýðræðinu hérlendis. Tæplega átta af hverjum tíu lýstu þeirri skoðun sinni yfir að það ætti að greiða markaðsgjald fyrir afnot af fiskimiðum þjóðarinnar.
Samt er ekkert gert til að breyta málum og konungsríkin eru nú farin að ganga milli kynslóða. Þjóðareign er á borði orðin að einkaeign.
Síðasta kjörtímabil fór allt í það að setja breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu í einhverjar nefndir eða skýrslugerð sem skiluðu á endanum engu sem hönd er á festandi. Þess í stað var dregið úr skattgreiðslur útgerðarmanna, meðal annars með því að afnema stimpilgjald af fiskiskipum. Það voru einu breytingarnar sem kyrrstöðustjórnin bauð upp á.
Nú um stundir sitja formenn sömu stjórnmálaflokka og gerðu ekkert í þessum málum á síðasta kjörtímabili og berja saman grundvöll fyrir áframhaldandi samstarfi. Fólk ætti að fylgjast vel með því hvað verður sagt um fiskveiðistjórnunarkerfið í þeim stjórnarsáttmála sem þau munu birta, nái þau saman. Ætlar ríkisstjórnin að viðhalda kerfi sem hefur þurrkað út öll mörk milli stjórnmála og viðskipta til að færa auð, völd og áhrif til fárra fyrirferðarmikilla einstaklinga í stað þess að nýta hann til að byggja upp réttlátara og sanngjarnara samfélag fyrir raunverulega eigendur auðlindar?
Svarið við því fæst á næstu vikum.