Til að fagna frumútboði á hlutum í Íslandsbanka, sem lauk 15. júní 2021, var haldinn kvöldverður 24. september sama ár, þremur mánuðum og níu dögum síðar. Þann kvöldverð sóttu Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, og starfsmenn hennar. Aðrir viðstaddir voru starfsmenn fyrirtækjaráðgjafar og verðbréfamiðlunar Íslandsbanka. Íslandsbanki greiddi reikninginn, sem var um 34 þúsund krónur á hvern kvöldverðargest.
Þann 30. nóvember 2021 fóru forstjóri og starfsmenn Bankasýslunnar aftur út að borða. Um var að ræða kvöldverð með fulltrúum þriggja umsjónaraðila, tveggja fjármálaráðgjafa og þriggja lögfræðilegra ráðgjafa sem höfðu, samkvæmt minnisblaðinu, unnið að frumútboði á hlutum í Íslandsbanka. Fimm og hálfur mánuður var liðinn frá frumútboðinu þegar kvöldverðurinn var haldinn.
Kostnaður á hvern kvöldverðargest var að meðaltali verið um 48 þúsund krónur. Fyrir liggur vegna umfangs að hann hefur ekki einungis fallið til vegna matar, heldur líka vegna kaupa á áfengum drykkjum. Ekki er tilgreint hversu margir einstaklingar sóttu fundinn en ljóst að heildarkostnaður við kvöldverðinn hefur hlaupið á mörg hundruð þúsund krónum. Kostnaðurinn vegna þessa kvöldverðar var greiddur af Íslandsbanka, Citibank og JP Morgan.
Þetta kemur fram í minnisblaði frá Bankasýslunni, sem skilað var til fjárlaganefndar fyrir helgi, þar sem fjallað er um „málsverði, tækifærisgjafir og sérstök tilefni“. Það tók stofnunina sex mánuði að taka minnisblaðið saman. Það er tvær blaðsíður.
Sama kvöld og síðari kvöldverðurinn fór fram var fjárlagafrumvarp vegna ársins 2022 lagt fram á Alþingi samhliða fjármálastefnu fyrir árin 2022-2026. Í því kom meðal annars fram að ríkisstjórnin ætlaði sér að selja þá eftirstandandi 65 prósent eignarhlut sinn í Íslandsbanka að fullu á árunum 2022 og 2023.
En það var sennilega bara tilviljun.
Mörg hundruð milljónir undir
Í mars 2022 var 22,5 prósent hlutur í Íslandsbanka seldur í lokuðu útboði, með afslætti af þáverandi markaðsverði, til 207 fjárfesta. Þeir fjárfestar höfðu verið handvaldir af söluráðgjöfum sem höfðu verið handvaldir af Bankasýslu ríkisins. Þ.e. ekkert útboð fór fram þar sem ráðgjafar gátu keppt um að fá að koma að sölunni og fengið þóknun fyrir, líkt og hafði verið gert fyrir frumútboðið sumarið 2021.
Um feitan bita er að ræða. Fyrir þátttöku sína áttu ráðgjafarnir að skipta á milli sín mörg hundruð milljóna króna þóknun. Hún átti að dragast frá því söluandvirði sem myndi renna til ríkissjóðs fyrir sölu á eign hans.
HSBC Continental Europe og Fossar markaðir höfðu aðkomu að viðskiptunum sem söluráðgjafar og Acro Verðbréf, Íslensk verðbréf og Landsbankinn störfuðu sem söluaðilar. Bankasýslan átti hádegisverðarfundi með veitingum með öllum þessum aðilum nema HSBC á tímabilinu 23. apríl 2021 til 13. apríl 2022. Ekki er tilgreint í minnisblaði hennar hver hafi greitt fyrir þær veitingar og ekki er tilgreint hver kostnaðurinn var. Hann er þó sagður hafa verið „óverulegur“, en fundirnir voru alls 20.
Í lagi vegna þess að þeir fengu aldrei jólagjafir
Allir innlendu söluráðgjafarnir, nema Fossar, gáfu starfsmönnum Bankasýslunnar líka „tækifærisgjafir“ um jól og áramót 2021 til að þakka gott samstarf. ACRO verðbréf gaf þeim vínflösku. Íslensk verðbréf gáfu þeim tvær slíkar. Landsbankinn gaf þeim konfektkassa. Verðbréfamiðlun og fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka gaf þeim léttvínsflösku og smárétti, sem kostuðu samtals um 14 þúsund krónur hver gjöf.
Í minnisblaðinu sem sent var fjárlaganefnd fyrir helgi er sérstaklega tekið fram, í þessu samhengi, að Bankasýslan hafi aldrei gefið neinar jólagjafir til starfsmanna, að minnsta kosti frá árinu 2012, og aldrei boðið þeim á jóla- eða áramótahlaðborð. Þegar salan átti sér stað í mars störfuðu þrír hjá Bankasýslunni.
Umdeildur flugeldur, sem færður var forstjóra Bankasýslunnar að gjöf, er í minnisblaðinu sagður vera staðfest vinagjöf. Ekki kemur fram hver vinurinn sem gaf forstjóranum flugeldinn er. Né hvað hann vinnur við.
Að falla í freistni
Þegar útboðið var kynnt kom fram að einungis „hæfir fjárfestar“ ættu að fá að taka þátt, einnig kallaðir fagfjárfestar. Þingmenn sem samþykktu söluferlið töldu margir hverjir að hið lokaða fyrirkomulag væri til þess að laða að nokkra stóra og sterka langtímafjárfesta og til að spara ríkinu pening í kostnað.
Þegar á hólminn var komið kom þó í ljós að margir þeirra 207 útvöldu voru pinkulitlir í stóra samhenginu. Þeir sem keyptu fyrir minna en 30 milljónir króna voru 59 talsins. Þeir sem keyptu fyrir minna en 50 milljónir voru 79. Á meðal kaupenda voru faðir fjármála- og efnahagsráðherra, starfsmenn söluráðgjafa útboðsins, fjölmargir aðilar sem voru fyrirferðamiklir í bankarekstri fyrir bankahrun, fólk í virkri lögreglurannsókn, útgerðareigendur með enga augljósa sérþekkingu á fjármálastarfsemi, skammtímafjárfestar sem höfðu keypt og selt aftur hratt eftir frumútboðið og einstaklingar sem fáum hafði fyrirfram dottið í hug að teldust vera fagfjárfestar. Sá sem keypti fyrir lægstu upphæðina keypti fyrir um 1,1 milljón króna.
Búið að greiða þrátt fyrir yfirstandandi rannsókn
Samtals áttu ráðgjafarnir sem Bankasýslan valdi til að sjá um lokaða útboðið í mars að fá 703 milljónir króna fyrir starf sitt við útboðið. Þar af áttu innlendir söluráðgjafar að fá 322,5 milljónir króna. Sú upphæð skiptist þannig að 193,5 milljónir króna áttu að greiðast í svokallaða grunnþóknun en 129 milljónir króna í svokallaða valkvæða þóknun.
Í lok apríl 2022 hafði Bankasýslan þegar greitt 79 milljónir króna í grunnþóknun en forsvarsmenn stofnunarinnar sögðu á fundi fjárlaganefndar á þeim tíma að lögmenn væru að skoða hvort möguleiki væri að halda eftir þeim 114,5 milljónum króna sem eftir stóðu af henni. Ekkert hefur frekar spurst út um þá skoðun.
Staðan var öðruvísi hvað varðar erlendu söluráðgjafanna í útboðinu. Þeir voru þegar búnir að fá 158 af 201,4 milljón króna af grunnþóknun sinni greidda í lok apríl og ógreidd valkvæð þóknun til þeirra á þeim tíma var 134,4 milljónir króna.
Í minnisblaði Bankasýslu ríkisins, sem birt var 26. apríl 2022, sagði að engin ákvörðun yrði tekin um greiðslu á valkvæðri þóknun „fyrr en að niðurstaða athugunar Fjármálaeftirlits Seðlabanka („FME“) liggur fyrir og hefur stofnunin sagt opinberlega að ef einhverjir söluráðgjafar hafi brugðist stofnuninni þá muni valkvæð þóknun vera skert eða ekki greidd út.“
Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands er að skoða háttsemi einhverra þeirra fimm innlendu söluaðila sem Bankasýslan valdi til að vinna að útboðinu. Heimildir Kjarnans herma að þar sé verið að skoða mögulega hagsmunaárekstra, meðal annars vegna þess að starfsmenn sumra söluráðgjafa hafi sjálfir tekið þátt í útboðinu, og viðskipti sem áttu sér stað með hlutabréf í aðdraganda útboðsins. Niðurstöður þeirrar rannsóknar hafa enn ekki verið opinberaðar.
„Vænað og dænað“ til að þéna peninginn
Í fjármálageiranum snýst allt um að græða peninginn. Það er í eðli hans. Undirliggjandi starfsemi byggir annars vegar á því að fá lánaða peninga og lána þá aftur út á hærri vöxtum, sem skapar vaxtamun og þar af leiðandi hagnað. Hins vegar byggir hún á því að rukka þóknanatekjur. Í heimi verðbréfaviðskipta rukkast þær þóknanir fyrir að vera milligönguaðili í kaupum á verðbréfum og þóknanir fyrir að sjá um verðbréfin. Þessar þóknanir eru svo notaðar til að greiða laun sem eru langt umfram það sem tíðkast í flestum öðrum geirum samfélagsins.
Það liggur fyrir að mikið er „vænað og dænað“ í fjármálageiranum. Starfsmenn fjármálafyrirtækja bjóða iðulega viðskiptavinum, eða þeim sem þeir vilja ná í viðskipti, í mat, drykk og ýmis konar ferðir til að liðka fyrir frekari viðskiptum, og þóknunum. Það liggur líka fyrir að skynbragð á hvað sé óhóf er öðruvísi innan þess geira en á meðal flestra sem búa í raunveruleikanum. Á meðan að þessi lífsstíll er á kostnað hluthafa í einkafyrirtækjum er ekki hægt að gera athugasemdir við hann, þótt á honum megi hafa skoðanir.
Bankasýsla ríkisins er hins vegar ekki fjárfestir, né fjármálafyrirtæki. Hún er opinber stofnun sem heyrir undir fjármála- og efnahagsráðherra og er rekin fyrir fé úr ríkissjóði. Hún hefur meðal annars það hlutverk að selja hluti í ríkisbönkum. Henni er, samkvæmt lögum um starfsemi hennar, ætlað að sýna af sér góða stjórnsýslu- og viðskiptahætti.
Eiga opinberir starfsmenn að þiggja gjafir?
Í gildi eru almennar siðareglur starfsmanna ríkisins sem segja að ríkisstarfsmönnum beri að „gæta að orðspori vinnustaðar í samskiptum utan vinnu“, að þeir eigi að „forðast hagsmunaárekstra“ og gæta þess að „persónuleg tengsl hafi ekki áhrif á störf þeirra“ og standa vörð um óhlutdrægni. Þessar siðareglur gilda um starfsmenn Bankasýslu ríkisins.
Til leiðbeiningar um hvað sé í lagi og hvað ekki, þegar opinberum starfsmönnum er falið jafn mikilvægt hlutverk og það að selja ríkisbanka, er ekki óeðlilegt að horfa líka til siðareglna sem settar voru fyrir starfsfólk Stjórnarráðs Íslands, sem samþykktar voru af þáverandi forsætisráðherra árið 2012. Bankasýslan er enda sértæk stofnun sem heyrir beint undir fjármála- og efnahagsráðherra og hefur það eina hlutverk að fara með eignarhluti ríkisins í bönkum. Þar segir nefnilega að starfsfólk megi ekki þiggja ekki persónulega verðmætar gjafir vegna starfs síns.
Þá má á benda, til samanburðar, siðareglur Ríkiskaupa, miðlægrar innkaupastofnunar fyrir ríkið, sem sér um mikið magn opinberra innkaupa. Þar sem segir að starfsfólk stofnunarinnar hvorki semji um né taki á móti gjöfum, greiðum „eða annarri fyrirgreiðslu fyrir okkur sjálf, fjölskyldu, vini eða aðra sem tengjast okkur.“
Tafaleikurinn
Þegar bankasölumálið gaus upp í vor var ljóst að það hrikti í stoðum ríkisstjórnarinnar. Valdamesti maðurinn innan hennar, og sá sem ber pólitíska ábyrgð á sölunni, var vantreyst af 70,7 prósent landsmanna í kjölfar hennar. Margir stjórnarþingmenn voru verulega óánægðir. Ráðherrar gagnrýndu söluna opinberlega. Þorri almennings var brjálaður. Meira að segja margir innan fjármálageirans voru ósáttir, en aðallega vegna þess að þeim var ekki boðið í veisluna.
Þessi leikjafræði hefur svínvirkað, að minnsta kosti til skamms tíma. Það hefur sjatnað í óánægjunni. Eða hún, að minnsta kosti tímabundið, færst yfir á önnur svið. Vika er enda langur tími í pólitík. Og hvað þá rúmt hálft ár.
Ríkisstjórn sem er sammála um lítið annað en að lafa saman, eyða opinberu fé í hugðarefni og tryggja aðgengi að völdum náði að sparka vandamálinu langt fram í tímann. Í millitíðinni er meðal annars búið að ýja að því að áfram verði haldið að selja hluti í Íslandsbanka strax á næsta ári, og sérhagsmunagæsluöflin blásið samhliða í hræðslulúðrana um að veruleikinn eins og við þekkjum hann muni sennilega hrynja ef það verði ekki af þeirri sölu.
Þegar skýrsla Ríkisendurskoðunar kemur loks út mun koma í ljós hvort þetta upplegg hafi skilað langtímaárangri.
Bankasýsla er ekki fjármálafyrirtæki á einkamarkaði
Á meðan er þó að minnsta kosti hægt að vera sammála um það að það sé ekki í lagi að forstjóri og starfsmenn ríkisstofnunar sem er að selja banka séu að þiggja mat, vín og ýmsar aðrar gjafir frá þeim sem hafa margháttaða, beina og óbeina, hagsmuni af því hvernig sú sala fer fram. Það er eiginlega ótrúlegt að það þurfi að segja það upphátt.
Það er ekki í lagi að það hafi tekið sex mánuði að fá rýr og ekki tæmandi svör við því hvað þessi hópur fékk gefins frá fyrirtækjum sem hann tryggði gríðarlega háar þóknanagreiðslur fyrir að koma að bankasölu sem níu af hverjum tíu Íslendingum telur að hafi verið staðið illa að, næstum sjö af hverjum tíu telja að lög hefðu verið brotin við framkvæmd á og næstum níu af hverjum tíu telja að óeðlilegir viðskiptahættir hefðu verið viðhafðir.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður fjárlaganefndar, er eini stjórnarþingmaðurinn sem hefur sagt eitthvað opinberlega. „Mér finnst þetta vekja spurningar um fagmennsku [...] Mér finnst þetta ekki vera eitthvað sem ætti að eiga sér stað hjá stofnun sem þessari.“ Hún bætti við að vel kæmi til greina að starfsmenn Bankasýslunnar myndu endurgreiða þær gjafir sem þeir þáðu. „En fyrst og síðast, þá er gjörningurinn búinn að eiga sér stað. Og það er ámælisvert.“
Það er ekki í lagi að ekkert hafi heyrst frá helstu ráðamönnum þjóðarinnar vegna þessa. Enginn ráðherra hefur tjáð sig um það hvort þeim þyki í lagi að starfsmenn Bankasýslu ríkisins séu „vænaðir og dænaðir“ af fjármálafyrirtækjum.
Eða finnst þeim þetta kannski bara i lagi? Ef svo er, þá stöndum við frammi fyrir enn stærra vandamáli.