Þær eru byrjaðar aftur, skylmingarnar um hvernig eigi að bjarga frjálsri fjölmiðlun á Íslandi. Allt síðasta kjörtímabil fór í þær. Lengst af var málið í skotgröfum, að uppistöðu vegna þess að valdir stjórnmálamenn ákváðu að nálgast málið út frá pólitískum sérhagsmunum. Framferði þeirra og tillögur miðuðust við að fjölmiðlar sem voru þeim þóknanlegir, og enduróma þeirra pólitísku sýn, myndu fá sem mest en aðrir sem minnst. Og RÚV, sem þeim er sérstaklega illa við, þyrfti að að bremsa verulega af. Og helst blæða út.
Fyrir vikið drógust þeir sem reka fjölmiðla landsins inn í þennan ljóta leik, og sá þess merki t.d. í leiðaraskrifum og nafnlausum dálkum þeirra blaða sem enn stunda slíka fortíðarútgerð.
Sá sem þetta skrifar er ekki saklaus af þátttöku, enda ekki óeðlilegt að bregðast við þegar pólitísk tækifærismennska ógnar afkomuöryggi starfsmanna og samkeppnishæfni fyrirtækisins.
Þetta hefur hins vegar leitt til þess að skort hefur á samstöðu hjá fjölmiðlum landsins og vangetu til að horfa heildrænt á stöðuna. Ef tekin eru nokkur skref til baka þá blasir nefnilega við að engin ein leið mun tryggja það markmið sem sett er í nýjum stjórnarsáttmála um stöðu fjölmiðla. Þar segir frjálsir fjölmiðlar séu forsenda opinnar lýðræðislegrar umræðu og veiti stjórnvöldum, atvinnulífinu og helstu stofnunum samfélagsins nauðsynlegt aðhald. „Ríkisstjórnin leggi áherslu á fjölbreytni í flóru fjölmiðla með öflugu almannaútvarpi og einkareknum fjölmiðlum.“
Til þess þarf samstillt átak og innleiðingu margra ólíkra þátta.
Réttindi og skyldur umfram önnur á markaði
Í janúar 2018 skilaði nefnd undir forystu Björgvins Guðmundssonar skýrslu. Í henni er tiltekið af hverju það þurfi að nálgast stöðu fjölmiðla frá öðrum sjónarhóli en fyrirtækja á öðrum mörkuðum. Þar stendur: „Fjölmiðlar hafa rík réttindi og skyldur umfram önnur fyrirtæki á markaði. Þau réttindi og skyldur byggja á eðli starfsemi fjölmiðla, m.a. til miðlunar á fréttum og fréttatengdu efni í lýðræðissamfélagi. Frjálsir fjölmiðlar þykja grundvöllur fjölbreyttrar umræðu í samfélaginu þar sem mismunandi skoðanir koma fram. Þeir miðla fréttum og upplýsingum, eru vettvangur skoðanaskipta og hafa það menningarlega hlutverk að spegla sjálfsmynd og sögu þjóðarinnar.“
Þær snéru meðal annars að stöðu RÚV á auglýsingamarkaði, breytingum á skattalegu umhverfi, gagnsæi í kaupum hins opinbera á auglýsingum, textun og talsetningu til að vernda íslensku, áfengisauglýsingum og endurgreiðslu framleiðslukostnaðar á fréttum og fréttatengdu efni. Þá var einnig ítarleg samantekt um opinberan stuðning við fjölmiðla í helstu nágrannaríkjum.
Hugmyndin var ekki sú að leggja fyrir stjórnmálamenn sjö ólíka valmöguleika og láta þá velja einn, heldur að innleiðing þeirra allra – að minnsta kosti flestra – myndi leiða til þess að fjölmiðlaumhverfið yrði sterkara, þannig að frjálsir fjölmiðlar geti sinnt því hlutverki sem nefndin, almenningur og íslensk lög ætla þeim.
Stuðla að nýsköpun og samkeppnishæfni
Fyrsta tillagan í skýrslu nefndarinnar snerist um endurgreiðslur á allt að 25 prósentum af kostnaði við rekstur fréttaritstjórna upp að einhverju hámarki, sem stjórnmálamönnum var falið að finna. Í skýrslu Björgvinsnefndarinnar segir: „Með því að leggja til að hluti af kostnaði vegna framleiðslu á fréttum og fréttatengdu efni verði endurgreiddur er komið til móts við þau sjónarmið að styðja við þann hluta í starfsemi fjölmiðla sem sinnir lýðræðislegu hlutverki með öflun og miðlun upplýsinga til almennings með það að markmiði að efla tjáningarfrelsi og lýðræðið í landinu. Því markmiði er náð með því að stuðla að nýsköpun og samkeppnishæfum fjölmiðlamarkaði sem og fjölbreytni frétta og umræðu um málefni líðandi stundar með gæðum á fréttatengdu efni, sjálfstæðri fréttamennsku og sterkum fjölmiðlum.“
Í þessum texta kemur kjarni tilgangs þessarar leiðar fram. Hún á ekki að bjarga stærri fjölmiðlafyrirtækjum út úr rekstrarvandræðum heldur er helsti tilgangur endurgreiðslna að stuðla að nýsköpun, aukinni samkeppnishæfni og fjölbreytni.
Það þarf ólíkar lausnir fyrir ólíka fjölmiðla
Þetta fór framhjá flestum þingmönnum landsins á síðasta kjörtímabili. Þeir rifust að uppistöðu einungis um þessa einu leið, hversu stór úthlutunarpotturinn ætti að vera og hvað hver fjölmiðill ætti að fá mikið. Fyrir vikið varð fyrsta útfærsla hennar, pakkað inn sem COVID-styrk, að sértækri lausn til að færa þorra þeirra fjármuna sem voru til skiptanna til þriggja stærstu fjölmiðlafyrirtækja landsins, en fjölmiðlahluti þeirra allra var þá rekinn í miklu tapi.
Alls var 400 milljónum króna útdeilt en breytt aðferðafræði stjórnvalda á lokametrunum, til að mæta kröfum örfárra þingmanna úr einum flokki, gerðu það að verkum að 106 milljónir króna sem hefðu annars farið til 20 smærri fjölmiðla, enduðu hjá þremur stærstu miðlunum. Samanlagt fengu þrjú stærstu fyrirtækin næstum tvær af hverjum þremur krónum af þeim 400 milljónum króna sem var úthlutað.
Hluti þess þarf að koma frá stjórnendum og hluthöfum fyrirtækjanna, og fela í sér aðlögun að gjörbreyttum veruleika. En ríkið getur líka stutt við þá umbreytingu með til dæmis breytingum á stöðu RÚV á auglýsingamarkaði, breytingu á hömlum um hvaða vörur megi auglýsa, lækkun skatta á tekjur fjölmiðla og með því að skattleggja tekjur samfélagsmiðla í eigu alþjóðlegra stórfyrirtækja, sem hafa étið upp íslenskar auglýsingatekjur hefðbundinna íslenskra fjölmiðla, og útdeila ávinningnum til innlendra fjölmiðla.
Fyrirmyndarkerfi fyrir miðla í vexti
Endurgreiðslukerfið nýtist hins vegar fjölmiðlum sem eru í vexti gríðarlega vel. Í nýlegri umsögn Blaðamannafélags Íslands um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar er fjallað ágætlega um það. Þar segir: „Reynslan af þeim tveimur árum sem einkareknir fjölmiðlar hafa fengið opinbera styrki hefur sýnt að þeir skipta gríðarlega miklu máli fyrir fjölmiðlafyrirtæki í vexti og sem eru að þróa sjálfbæran rekstur og hafa jafnvel leitt til fjölgunar starfa. Til að mynda má benda á að á árinu 2020 fékk útgáfufélag Stundarinnar styrk upp á 17,8 milljónir króna en tekjur þess jukust um 38,8 milljónir króna, eða 21 prósent. Á sama ári fékk útgáfufélag Kjarnans styrk upp á 9,3 milljónir króna en tekjur þess jukust um 18,3 milljónir króna á því ári, eða 31 prósent. Í tilfelli þessara miðla sést skýrt að hver króna í styrk leiðir af sér aðra krónu í nýjum tekjum. Þær tekjur umbreytast svo í ný störf.“
Önnur leið sem vert væri að feta er að gera fjölmiðlum kleift að sækja um styrki til rannsókna og þróunar, sem ríkisstjórnin ákvað að tvöfalda í fyrra úr fimm milljörðum króna á ári í tíu. Ljóst er að fjölmiðlafyrirtæki sinna umfangsmikilli þróun og þegar fá fjölmörg fyrirtæki sem framleiða fyrst og síðast afþreyingarefni en búa ekki til tækni styrki úr þeim potti. Má þar nefna framleiðendur tölvuleikja.
Hækka framlög til RÚV en lækka til allra hinna
Því miður virðast litlar líkur á að stjórnmálamennirnir ætli að taka af sér stríðshatta sérhagsmuna í þessum málum. Nýtt frumvarp nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokks ber þess skýr merki að þar á að bæta í frekar en að leita skynsamra málamiðlana.
Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar er heldur ekki til þess fallið að auka trú á raunverulegan vilja þeirra sem rituðu stjórnarsáttmálann að standa við þau fyrirheit um fjölmiðla sem þar er að finna.
Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu á að skerða endurgreiðslur til einkarekinna fjölmiðla um tvö prósent, en auka framlög til RÚV um 430 milljónir króna. Við það fara framlög úr ríkissjóði til RÚV yfir fimm milljarða króna auk þess sem hvalurinn í busllauginni tekur til sín um tvo milljarða króna í samkeppnistekjur (að uppistöðu auglýsingasala) á ári. Hækkun á framlaginu til RÚV er 40 milljónum krónum hærra en allur potturinn sem á að skiptast á milli á þriðja tug einkarekinna fjölmiðlafyrirtækja í endurgreiðslustyrki.
Veljum sterka og fjölbreytta fjölmiðla
Það sem stjórnmálamenn eiga að spyrja sig að núna er hvort þeir vilji í raun frjálsa og sterka fjölmiðla á Íslandi sem geta keppt hver við annan og veitt ráðandi öflum samfélagsins eðlilegt aðhald. Ef svarið við þeirri spurningu er já þá ættu þeir að skoða vel ástand markaðarins og spyrja sig aftur hvort verið sé að ná því markmiði.
Tölur Hagstofu Íslands um að störfum í fjölmiðlum hafi fækkað úr 2.238 í árslok 2013 í 876 í árslok 2020 benda ekki til þess. Þróunin á síðasta kjörtímabili einu saman, þegar starfandi fólki í fjölmiðlum fækkaði 45 prósent, eða 731 manns frá byrjun árs 2018 og fram til síðustu áramóta, sýnir ennfremur að þróunin er að versna hratt til hins verra.
Fjöldi þeirra afburða blaðamanna sem hefur yfirgefið fagið til að ráða sig í sífellt umfangsmeira upplýsingafulltrúager hins opinbera og atvinnulífsins í stað þess að gera blaðamannastarfið að ævistarfi er svo skýrasti vitnisburðurinn. Flestir sem réðust í slíka yfirfærslu gerðu það vegna vinnuumhverfis, launa og álags, ekki vegna þess að þá hafi frekar dreymt um að senda út fréttatilkynningar í stað þess að vinna fréttir.
Stjórnmálamenn, fjölmiðlar og aðrir hagaðilar þurfa að skipta um kúrs í þessum málaflokki og ná sátt um niðurstöðu sem virkar til að ná markmiðum stjórnarsáttmálans. Stjórnendur Kjarnans munu ekki láta sitt eftir liggja í þeim efnum.