Í kringum aldamót voru erlendir ríkisborgarar um tvö prósent af íbúum Íslands. Þeir eru nú 16 prósent þeirra.
Á örfáum árum hefur erlendum ríkisborgurum sem búa á Íslandi fjölgað úr rúmlega 20 þúsund árið 2011 í yfir 60 þúsund. Til að setja þessa tölu í samhengi má benda á að í Kópavogi, næst stærsta sveitarfélagi landsins, búa 39.360 manns. Þetta er því einn Kópavogur sem um ræðir á um ellefu árum.
Þar af hafa 20 þúsund, rúmlega einn Garðabær, bæst við á síðustu fjórum árum.
Aðfluttir umfram brottflutta hafa aldrei verið fleiri en þeir voru á öðrum ársfjórðungi 2022.
Langflestir, 22.567 alls, koma upprunalega frá Póllandi. Það eru um þrjú þúsund fleiri en búa á Akureyri. Mesta aukningin það sem af er ári hefur hlutfallslega verið af Úkraínumönnum, en þeir eru nú 1.679 en voru 239 í upphafi árs.
Þótt fjöldi flóttamanna hafi stóraukist í ár, sérstaklega eftir að stríðið í Úkraínu skall á, þá er það hins vegar þannig að langflestir sem flytja hingað eru ungt fólk á þrítugs- og fertugsaldri í leit af atvinnu og betra lífi.
Fólkið sem gerði Ísland betra
Nokkuð óumdeilt er að stór breyta í mesta hagvaxtarskeiði Íslandssögunnar, sem stóð frá árinu 2011 og til loka árs 2019, var uppgangur ferðaþjónustu. Ferðamönnum sem komu hingað til lands fjölgaði á þessu tímabili úr um hálfri milljón í um 2,3 milljónir.
Ferðaþjónustan er mannaflsfrek grein. Þegar mest lét síðsumars 2019 voru störfin í greininni um 32 þúsund talsins. Þessi störf voru að stóru leyti mönnuð af útlendingum. Fyrir faraldur voru níu af hverjum tíu nýjum skattgreiðendum sem bættust við á Íslandi erlendir ríkisborgarar.
Þeir vinna ekki bara í ferðaþjónustugóðærinu heldur líka þau störf sem aukin fjárfesting í húsnæði, samgöngum og mannvirkjum hefur kallað á. Þá manna innflytjendur stóran hluta þeirra starfa sem þarf að bæta í hvað varðar umönnunarstörf.
Menningarleg áhrif eru líka ýmiskonar og mjög sýnileg í fjölda fyrirtækja sem fólk úr öðrum menningarheimum hafa stofnað hérlendis, í viðburðum sem þau standa að, í íþróttalífi og í annars konar samfélagslegum verkefnum. Þau auka fjölbreytni og bæta í flóruna hérlendis, sem er frábært og eftirsóknarvert.
Fólkið sem fór ekki
Síðla árs 2019 lét Gissur Pétursson, ráðuneytisstjóri í félagmálaráðuneytinu, hafa eftir sér á málstofu að það væri mikill kostur að á Íslandi væri svo einfalt að „losa sig“ við erlent vinnuafl um leið og samdráttur byrjaði í efnahagslífinu. Það hefði enginn beðið erlenda verkamenn um að koma til landsins til að vinna og því væri það ekki á ábyrgð íslenska ríkisins að hjálpa fólkinu við að koma undir sig fótunum með nokkrum hætti.
Ráðuneytisstjórinn hafði fullkomlega rangt fyrir sér. Erlendu ríkisborgararnir fóru ekki þegar samdráttur hófst. Þvert á móti fjölgaði þeim jafnt og þétt í gegnum kórónuveirufaraldurinn. Og hefur fjölgað enn hraðar á þessu ári.
Samt komum við fram við þennan hóp, sem er undirstaða þess efnahagslega vaxtar sem við teljum eftirsóknarverðan, að mörgu leyti eins og vöru. Við látum það til að mynda líðast að hluti hans búi við aðstæður sem fæst okkar myndu láta bjóða sér. Þröngt en dýrt í óboðlegu húsnæði þar sem grundvallaratriði eins og eldvarnir eru ekki í lagi. Harmleikurinn á Bræðraborgarstíg árið 2020 var skýrasta áminningin um þá stöðu.
Þá eru ekki upptalin þau augljósu vinnuréttarbrot og sá launaþjófnaður sem margoft hefur verið opinberað að eigi sér stað gagnvart þessum viðkvæma hópi.
Fólkið sem fær ekki að hafa áhrif á samfélagið sitt
Við leggjum okkur heldur ekki fram við að skapa leiðir fyrir hópinn inn í fulla samfélagslega virkni hér á landi. Gylfi Magnússon, prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, fjallaði um einn anga þess í grein í Vísbendingu í sumar. Þ.e. aðkomu fólks með erlendan uppruna að stjórnmálum, enda krefst seta á Alþingi ekki bara búsetu, heldur ríkisborgararéttar.
Gylfi benti á að tæplega einn af hverjum fimm íbúum landsins væri fæddur utan Íslands. „Með hlutfallslegri skiptingu þingsæta ætti það að þýða að 12 þingmenn væru það líka, þar af 4 fæddir í Póllandi. Það þarf ekki að leggjast í tímafreka rannsókn á uppruna íslenskra alþingismanna til að átta sig á að því fer fjarri að skiptingin sé þannig.“
Þrír af núverandi alþingismönnum eru fæddir í útlöndum, nánar tiltekið einn hver í Stokkhólmi, Kaupmannahöfn og París. Gylfi sagði að þeir geti þó tæplega talist fulltrúar innflytjenda, að minnsta kosti bendir skráning foreldra í sama tali ekki til þess. „Innflytjendur hafa þó setið á Alþingi áður fyrr, þótt ekki séu þeir margir. Einn þeirra virtist raunar inni á núverandi þingi í stutta stund eftir síðustu kosningar en datt út aftur þegar búið var að telja nógu oft í Borgarnesi.“ Þar á hann við Lenyu Rún Taha Karim.
Í grein Gylfa sagði að það sem væri kannski skrýtnara sé að sex, eða tæp 10 prósent núverandi alþingismanna, séu fæddir á Akranesi, þar sem búa 7.890 manns. „Væntanlega er það þó bara tilviljun. En enginn alþingismaður er fæddur í Varsjá eða Vilníus. Raunar enginn fæddur utan Norðvestur-Evrópu.“
Þetta er ekki í takti við breytt hugarfar íslensku þjóðarinnar gagnvart hópnum. Í niðurstöðum íslensku kosningarannsóknarinnar töldu 34,6 prósent Íslendinga að innflytjendur væru alvarleg ógn við þjóðareinkenni okkar árið 2007. Árið 2017 var það hlutfall komið niður í 17,8 prósent, og hafði því helmingast.
Fólkið sem við þurfum á að halda
Af hverju er þetta til umræðu nú? Þegar kom að því að koma hagkerfinu aftur í gang eftir kórónuveirufaraldurinn var erlent vinnuafl í lykilhlutverki við að manna störfin sem urðu til, þrátt fyrir að það hafi verið fyrst til að missa vinnuna í faraldrinum. Þegar verst lét, í janúar 2021, var atvinnuleysi á meðal erlendra ríkisborgara hérlendis 24 prósent, eða tvöfalt heildaratvinnuleysi. Þetta er undirstaðan í því að spáð er 7,3 prósent hagvexti í ár.
Atvinnuleysi hjá erlendum ríkisborgurum er nú er á svipuðum stað og fyrir faraldurinn ef horft er á það hlutfallslega. Í lok ágúst mældist það 6,3 prósent hjá erlendum atvinnuleitendum á sama tíma og atvinnuleysi heilt yfir mældist 3,1 prósent, eða svipað og það var í byrjun árs 2019, skömmu áður en WOW air fór á hausinn. Það þýðir að 2.700 erlendir atvinnuleitendur voru án atvinnu í lok ágúst, sem gerir þá að 44 prósent allra atvinnulausra. Það er sama hlutfall atvinnulausra og erlendir atvinnuleitendur voru í febrúar 2020.
Í nýlegri könnun sem gerð var á meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins sagði 54 prósent þeirra að skortur væri á vinnuafli.
Frjósemi íbúa Íslands hefur dregist skarpt saman síðustu áratugi. Árið 1960, þegar hún náði hámarki, eignaðist hver kona að meðaltali 4,3 börn. Í fyrra mældist frjósemi tæplega 1,9 lifandi fædd börn á ævi hverrar konu. Á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar var meðalaldur mæðra sem eignuðust sitt fyrsta barn um 22 ár. Um miðjan níunda áratuginn var hann kominn upp í 23,3 ár og 2021 í heild 28,6 ár.
Við þurfum tvö til þrjú þúsund manns í viðbót á ári, að lágmarki, við þá sem við búum til til að viðhalda hagvexti. Sá fjöldi fæst ekki nema með aðflutningi, enda eru landsmenn með íslenskan bakgrunn ekki að búa til nógu mikið af fólki.
Útlendingar verða því að minnsta kosti fjórði hver landsmaður árið 2065 ef við ætlum okkur að gera slíkt. Þeir munu bjarga okkur efnahagslega og viðhalda, jafnvel auka, velmegun hérlendis sem væri ómöguleg án þeirra.
Við skulum því fara að venjast þessari breytingu. Og laga kerfin okkar að þeim.
Fólkið sem er ekki annars flokks borgarar
Vegna þessarar stöðu þá stöndum við frammi fyrir margskonar áskorunum. Fyrir liggur að okkur vantar fólk af efnahagslegum ástæðum. Fyrir liggur að okkur vantar fólk til að manna störf í heilbrigðis- og ummönunargeirum. Og hingað mun koma fullt af fólki til að vinna inn í aðra anga atvinnulífsins, vegna þess að það er eftirsóknarvert að búa á Íslandi. Þá er fjöldi þeirra sem eru á flótta frá stríði, náttúruvá og ótryggu stjórnmálaástandi ekki að fara að dragast saman í nánustu framtíð. Svo vægt sé til orða tekið.
Við þurfum þjóðarátak í að bæta aðlögun þeirra að samfélaginu. Við þurfum að takast af miklum krafti á við þá stöðu sem er uppi í mótttöku flóttafólks, og er að sliga þau örfáu sveitarfélög sem standa almennilega sína pligt í þeim málum. Það verður gert með lagabreytingum, fjármagni og breyttu viðhorfi, þar sem ekki er horft á flóttafólkið sem við tökum við sem vandamál heldur tækifæri, fyrir þau og okkur sem þjóð.
Við þurfum að stórauka framboð á íslenskukennslu fyrir nýja Íslendinga, jafnt þá sem eru á flótta og þá sem koma hingað í atvinnuleit, svo þeir hafi betra aðgengi að kerfum stjórnsýslunnar, betri farveg í samfélagið í heild og skýrari rödd í landinu sem þeir búa í. Það þarf líka að styrkja kennslu á móðurmáli barna svo þau geti hugsað gagnrýnið og myndað skýrar skoðanir á tungumálum sem þau hafa fullt vald á á meðan að þau eru að þroskast og dafna. Samandregið þá þarf að aðlaga skólakerfið að raunveruleikanum, og fjármagna þá aðlögun.
Við þurfum sérstakt húsnæðisátak sem beinist að viðkvæmustu hópunum innan mengisins. Við þurfum að koma í veg fyrir að atvinnurekendur geti komið fram við hópinn eins og skepnur. Við þurfum að opna stjórnsýsluna og samfélagslega umræðu fyrir þeim. Og finna leiðir til þess að þessi risastóri hópur fái lýðræðislega aðkomu að því að móta samfélagið sem hann býr í.
Heilt yfir þurfum við að móta langtímastefnu í málefnum aðfluttra til að mæta þeirri þróun sem allar tölur benda til að sé fyrirliggjandi, og er að mörgu leyti þegar orðin. Það erum við ekki að gera. Og ef við gerum það ekki fljótlega þá munum við skapa vandamál sem hafa komið upp í nágrannalöndum okkar þar sem mikilvægir borgarar samfélagsins upplifa sig sem annars flokks.
Það er ekki boðlegt í einu ríkasta landi heims.