Í fyrradag var samþykkt á Alþingi frumvarp um að leggja niður embætti skattrannsóknarstjóra í þeirri mynd sem það er nú. Yfirlýst markmið frumvarpsins var að koma í veg fyrir tvöfalda refsingu, í kjölfar dóma Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem framkvæmd í ákveðnum skattsvikamálum var sögð brot á mannréttindum.
Hliðarmarkmið var að ganga enn lengra en áður í að sameina skattembætti og ná þannig fram hagræði í ríkisrekstri. Bæði markmiðið eru góðra gjalda verð þegar þau eru skoðuð í tómarúmi. Við eigum að taka niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu alvarlega og það á að leita allra leiða til að fá sem besta þjónustu fyrir hverja krónu sem við setjum í samneyslu.
Það eru hins vegar þau atriði sem eru ekki nefnd í greinargerð með frumvarpinu sem leiða af sér alvarlegar afleiðingar. Í fyrsta lagi er verið að gera minni skattalagabrot refsilaus. Þau verða í öllum tilfellum leyst með sektum eftir rannsókn skattrannsóknarstjóra, sem nú verður bitlaus eining innan Skattsins. Það mun væntanlega gleðja skattsvikara landsins verulega að geta borgað sig frá brotum sínum í kyrrþey.
Hins vegar á að flytja rannsóknir stærri skattsvikamála yfir til embættis héraðssaksóknara í stað þess að hann saksæki slík mál einvörðungu, eins og var áður. Og með því verða skilvirkar rannsóknir á stórum skattsvikamálum í raun lagðar niður.
Fært til stofnunar sem getur ekki sinnt sínum málafjölda
Embætti héraðssaksóknara hefur byggt upp nokkuð mikla sérhæfingu og náð árangri í ýmsum málum sem það hefur saksótt á undanförnum árum, þrátt fyrir aðför stjórnmálamanna að hrunrannsóknum þess árið 2013.
Sú aðför fól í sér að að framlög til fyrirrennara embættisins voru skorin niður um 774 milljónir króna eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum þá um vorið. Niðurskurðurinn varð til þess að saksóknaraembættið gat ekki klárað rannsóknir á nokkrum fjölda mála tengdum hruninu sem það taldi fullt tilefni til að klára.
Í minnisblaði sem Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari sendi til dómsmálaráðuneytisins í nóvember 2019 kom fram að um hundrað mál bíði rannsóknar hjá embættinu og að þáverandi starfsmannafjöldi dygði ekki til að sinna öllum þeim rannsóknarverkefnum sem það þyrfti að takast á við, hvað þá viðbótarmálum af stærra umfangi. Meiri fjármuni þyrfti til. Ástæða þess að minnisblaðið var sent var Samherjamálið svokallaða, sem þá var nýkomið upp. Það mál er ein stærsta efnahagsbrotarannsókn Íslandssögunnar, ef ekki sú stærsta. Á meðal annarra embætta sem rannsaka málið nú er skattrannsóknarstjóri.
Í janúar í fyrra ákváðu stjórnvöld að setja 200 milljóna króna viðbótarframlag í eftirlit og varnir gegn peningaþvætti, skattrannsóknir og skatteftirlit vegna Samherjamálsins. Þessari upphæð var skipt á milli Skattsins, skattrannsóknarstjóra og héraðssaksóknara til að efla rannsóknir og fjölga rannsakendum.
Hafa ekki aðgang að gagnabönkum
Hverjum sem vill sjá ætti að vera ljóst að fyrir þegar undirfjármagnaðar og undirmannaðar stofnanir var þetta framlag plástur á svöðusár. Í stað þess að koma þessum eftirlitsstofnunum í það horf að þær geti rannsakað mál á eðlilegum tíma, með hagsmuni þeirra sem eru til rannsóknar líka að leiðarljósi, er hins vegar kerfisbundið reynt að veikja eftirlit og rannsóknir á Íslandi. Sú umbylting sem nú er að eiga sér stað á fyrirkomulagi rannsókna og refsinga skattalagabrota, og var samþykkt af þingmönnum stjórnarflokkanna og Viðreisnar á Alþingi á þriðjudag, er enn ein skýra birtingarmynd þess.
Á það má benda að innan skattaembætta er eitt stærsta gagnasafn á Íslandi. Í því er að finna upplýsingar um laun, staðgreiðslu, launamiða, verktakamiða lögaðila og einstaklinga hér á landi. Þar er líka að finna upplýsingar um allar eignir einstaklinga og lögaðila eins og þær eru um hver áramót.
Í þessu gagnasafni er hægt að fletta upp verðbréfaeign, fasteignum, bílum, bankareikningum bæði á Íslandi og erlendis. Þar er hægt að nálgast upplýsingar um kaup og sölu allra eigna, þar á meðal fjármálagjörninga. Þar er hægt að fletta upp yfirliti yfir erlendrar greiðslur til landsins og upplýsingum um notkun erlendra kreditkorta hérlendis.
Þarf lagabreytingu
Innan Skattsins er líka fyrirtækjaskrá, ársreikningaskrá, virðisaukaskattskerfið og allt tollakerfi landsins. Þar er svo auðvitað hægt að nálgast öll skattframtöl sem fólk og fyrirtæki skila inn. Að lokum eru skattyfirvöld með upplýsingar um stórtæka aflandsfélagaeign Íslendinga sem komu meðal annars fram í upplýsingum sem voru keyptar af uppljóstrara fyrir nokkrum árum og í Panamaskjölunum.
Embætti skattrannsóknarstjóra er með aðgengi að öllum þessum gagnabönkum. Það aðgengi er tryggt í lögum um tekjuskatt. Héraðssaksóknari hefur það ekki.
Í umsögn skattrannsóknarstjóra um frumvarpið sem leggur embættið í núverandi mynd niður segir: „Auk sérhæfðrar kunnáttu og jafnframt þjálfunar og reynslu er það afar mikilvæg forsenda árangurs við rannsóknir skattalagabrota og þá jafnt einfaldra mála og flókinna að rannsakendur hafi aðgang að upplýsingakerfum skattyfirvalda. Er þar um að ræða ómissandi verkfæri á þessu sviði. Er í því sambandi að langmestu leyti stuðst við hérlend kerfi og upplýsingar en aðgangur að upplýsingum frá erlendum skattyfirvöldum skiptir einnig máli. Aðgangur að þessum kerfum er aðeins fyrir hendi hjá skattyfirvöldum. Eigi frumrannsókn mála að fara annars staðar en hjá skattyfirvöldum er óheftur aðgangur að þeim kerfum lykilforsenda þess að slíkar rannsóknir reynist mögulegar.“
Aðgengi að þessum gagnabönkum er bundið heimild í tekjuskattslögum. Þeim þarf að breyta til að veita öðrum en Skattinum og skattrannsóknarstjóra aðgang. Í lögunum sem lögðu niður skattrannsóknarstjóra er aðgengi héraðssaksóknara að gagnabönkum ekki tryggt. Raunar er það ekki nefnt einu orði.
Hatast út í eftirlit
Þetta er orðið leiðarstef hjá íslenskum stjórnvöldum. Eftirlit er vont. Það eftirlit sem bítur, það þarf að veikja.
Fjármálaeftirlitið er orðið týnt eftirlit inni í Seðlabanka Íslands sem veitir nánast engar upplýsingar um neitt sem það er að skoða, og þau mál sem það skoðar virðast frekar vera á forsendum atvinnulífs, fjármálafyrirtækja og annarra eftirlitsskylda aðila en vegna hagsmunagæslu fyrir almenning.
Þegar þessi lokakafli stóð yfir ákvað sitjandi ríkisstjórn að leggja fram frumvarp um að takmarka getu Samkeppniseftirlitsins til verka. Mætur maður sagði við það tilefni að verið væri að „láta blauta drauma fákeppnismógúla rætast með því að draga tennurnar úr samkeppniseftirliti á Íslandi eins og frekast er unnt“.
Fiskistofa var flutt til Akureyrar án nokkurrar vitrænnar ástæða með þeim afleiðingum að margir lykilstarfsmenn hættu og mikil sérfræðiþekking tapaðist út úr stofnuninni. Þegar Ríkisendurskoðun tók starfsemi hennar út, í skýrslu sem birt var snemma árs 2019, var niðurstaðan sú að eftirlit eftirlitsstofnunarinnar væri veikburða og ómarkvisst. Fiskistofu væri ómögulegt að sinna því eftirliti sem henni bæri að sinna. Eitt þeirra atriða sem verulegar athugasemdir voru gerðar við, og vakti mikla athygli, var að Fiskistofa kannaði ekki hvort yfirráð tengdra aðila í sjávarútvegi yfir aflahlutdeildum, eða kvóta, væru í samræmi við lög. Hún bara kannaði það ekki!
Umboðsmaður Alþingis getur ekki tekið upp mál að eigin frumkvæði vegna þess að hann er ekki með rekstrarlega burði til þess.
Og svo framvegis.
Við erum búin að prófa eftirlitsleysi, það gekk ekki
Stjórnmálamaður sagði í umræðuþætti um liðna helgi að vilji til herðingar á eftirliti gengi út frá því að allir væru óheiðarlegir. Það er ofsalega grunn afstaða. Hérlendis hefur verið gerð tilraun með nánast algjört eftirlitsleysi. Hún hófst með því að greiningum á efnahagsmálum var útvistað frá Þjóðhagsstofnun til banka vegna þess að þáverandi forsætisráðherra fór í fýlu. Hún ágerðist eftir að ríkisbankar landsins voru einkavæddir í hendurnar á pólitískt tengdum hópum með enga reynslu af því að eiga eða reka viðskiptabanka.
Fjármálaeftirlitið varð á þessum tíma að athlægi vegna getuleysis, fjölmiðlar voru keyptir upp og reynt að setjast á þá í hvert sinn sem örlaði á gagnrýni, stjórnmálaflokkar sem áttu möguleika á að setjast í ríkisstjórn voru keyptir til hlýðni með styrkjum. Aðrar eftirlitsstofnanir voru fjársveltar. Aðbúnaður og aðstæður rannsakenda efnahagsbrota voru með öllu í ósamræmi við umhverfið sem þeir störfuðu í.
Afleiðingin varð glæpasúpa og mesta efnahagshrun sem vestræn þjóð varð fyrir vegna bankakreppunnar. Afleiðingin varð siðrof sem orsakaði meiri reiði á meðal meginþorra þjóðarinnar en hefur blossað upp fyrr eða síðar.
Fortíðin látin vera
Öll eftirlitskerfi brugðust fullkomlega. Þúsundir Íslendinga flykktust með peningana sína í aflönd til að forðast skattgreiðslur eða til að fela þá fyrir þeim sem áttu lögmæta kröfu til þeirra. Eftirlitsleysið sendi þá tilfinningu til þeirra sem voru beinir þátttakendur í þessum aðförum að þetta væri bara eðlilegt ástand. Græðgi er góð og annað er vesen. Þeir sem skilja það ekki eru neikvæðir öfundarmenn.
Enn hefur lítið sem ekkert verið gert til að láta þá sem svikust undan því að greiða skatta hérlendis með þessum hætti greiða skuld sína tilbaka. Uppsafnað umfang þessara eigna Íslendinga á aflandssvæðum frá 1990 til 2015 er talið vera allt að 810 milljarðar króna. Tekjutap hins opinbera frá árinu 2006 gæti verið vel yfir hundrað milljarðar króna. Þegar hluti þessa fólks vildi taka út gengishagnað eftir að krónan hrundi, og fá lögmæti á skítugu peninganna sína, setti Seðlabanki Íslands upp fjárfestingaleið fyrir það og bauð þeim að auki viðbótar 20 prósent virðisaukningu fyrir að koma heim og kaupa eignir hér á brunaútsölu. Fyrir vikið er margt fólk með peninga úr aflandi ráðandi öfl í íslensku viðskiptalífi í dag. Þegar skattyfirvöld voru spurð hvort þau hefðu rannsakað fjárfestingaleiðina var svarið nei, ekki nema að takmörkuðu leyti. Ástæðan var mannekla og önnur aðkallandi verkefni. Viðbragð íslenskra stjórnvalda við þessari stöðu er að veikja skattrannsóknir enn frekar.
Með þessa sögu á bakinu þá er samt sem áður virkilega til fólk sem heldur því fram að íslenskt samfélag virki best án eftirlits. Treysta þurfi einstaklingnum til að taka ákvarðanir sem gagnist heildinni. Eftirlit sé bara vesen. Gagg í óhressum vinstrimönnum sem vinni aldrei neina sigra í lífinu.
Jafnræði og traust
Það er staðreynd að við búum í landi þar sem fákeppni ríkir á nánast öllum mörkuðum. Smæð og fámenni gerir það að verkum að samkeppnishindranir myndast víða á stöðum sem aðrar og stærri þjóðir þurfa ekki að horfa til. Smæð og fámenni gera það að verkum að aðgengi að upplýsingum og tækifærum skiptir oft meira máli en góðar hugmyndir þegar kemur að því að efnast. Hver þú ert og hvern þú þekkir er stærri breyta en hvað þú getur.
Við erum með örmynt sem fjármagnseigendur, að uppistöðu rúmlega þrjú þúsund einstaklingar af þjóð sem telur tæplega 370 þúsund manns, nýta sér margir hverjir eftir hentugleika til að ýkja auð sinn með því einu saman að færa peninga út úr íslensku hagkerfi þegar krónan er sterk og aftur inn þegar hún veikist.
Það liggur fyrir að stórfyrirtæki hérlendis eru búin að koma málum þannig fyrir að þau geta tekið út hagnað, og greitt af honum skatta, víða í virðiskeðju sinni, til dæmis í löndum þar sem þau þurfa að borga litla eða enga skatta. Á meðan að við búum við allar þær gloppur sem tilgreindar hafa verið hér, og þá sögu sem við eigum, þá ætti öllu skynsömu fólki að vera ljóst að það þurfi að styrkja eftirlitsstofnanir, ekki veikja þær. Tilgangurinn er að stuðla að jafnræði og auka traust almennings á kerfum samfélagsins. Taka hagsmuni heildarinnar fram yfir það að fámennir hópar geti gert það sem þeim sýnist án afleiðinga. Það er sannarlega ekki ómerkilegur tilgangur. Þótt það sé rétt að fæstir séu óheiðarlegir, þá liggur fyrir að sumir eru það. Og það er barnalegt að halda öðru fram.
Með þeirri aðgerð sem stjórnvöld réðust í á þriðjudag var annaðhvort verið að gengisfella baráttuna við skattsvik eða verið að leggja fram frumvarp og samþykkja það án þess að gera sér grein fyrir afleiðingum þess.
Það er erfitt að átta sig á hvort sé verra.