Það er ekki hægt að fjalla um rætur hins íslenska kúltúrs án þess að nefna blessuð skáldin, sérstaklega í ljósi þess hve öll okkar saga og hin svokallaða „þjóðmenning” er mikill uppspuni. Skáldskapur er líka stundum kallaður lygi en það er samt yfirleitt af fólki sem skilur hann ekki og það sem verra er, á engan stað í hjarta sínu fyrir hann.
Orðið „saga” er okkar helsta framlag til heimstungunnar og hugtak sem þekkt er í flestum tungumálum.
Eins og Móse flúði Egyptaland undan Faraó, er sagt að formæður okkar hafi flúið Noreg undan Haraldi hárfagra. Þetta er mjög líklega tómur uppspuni, að minnsta kosti í okkar tilfelli. Það eru engar staðfestar heimildir til um þennan Harald. Ég held að það sé næsta víst að hann sé uppdiktuð persóna og hafi aldrei raunverulega verið til. Það voru engir fjölmiðlar eða fréttaveitur á þessum tíma. Samgöngur voru takmarkaðar nema á sumrin og fólk tók ekki göngutúra milli þorpa til þess eins að skiptast á sögum og upplýsingum. Þær komu örugglega helst með betlurum og flækingum. Þið gefið mér að éta og ég skal segja ykkur sögur í staðinn. Þegar sagðar voru sögur af herleiðöngrum og bardögum þá viðurkenndi sögumaður ekki að hann hefði heyrt þetta frá konu sem þekkti mann sem átti systur sem átti barn með manni sem var frændi manns sem hafði verið þarna. Nei, þannig segir enginn góður sögumaður frá. Hann var þarna sjálfur, í hringiðu atburðanna, og sá þetta allt með eigin augum. Reglulega gerir hann hlé á máli sínu og stingur uppí sig matarbita og á meðan hann tyggur veltir hann fyrir sér framhaldi sögunnar.
Lélegir bardagamenn verða skáld
Ég ímynda mér að skáldin hafi verið léleg til erfiðisvinnu og vonlaus til bardaga. Kannski var þetta oft fólk sem var fatlað eða haldið sjúkdómum sem gerðu þeim erfitt fyrir að sinna hefðbundnum störfum. Öll vinna var náttúrlega erfiðisvinna á þessum tímum. Kannski gerðust sum þeirra í upphafi skáld til þess að vera löglega afsökuð frá slagsmálum. Ég hef sjálfur margoft kjaftað mig frá hvoru tveggja. Þetta er hæfileiki sem eflist með æfingu.
Skáldin voru nokkuð örugg með sig því það voru örugglega bara bjánar sem drápu skáld. Það var eins og að lóga gæðingi eða henda verkfærum í sjóinn. Að drepa skáld var meira en að drepa eina manneskju, því með skáldinu glötuðust allar þær upplýsingar sem skáldið bjó yfir. Það var eins og að brenna dýrmætt bókasafn. Í versta falli tóku þau stöðu með einhverjum sem tapaði fyrir einhverjum öðrum og enduðu á því að vera handtekin og jafnvel dæmd til dauða. Því mátti redda með því að semja góðan vísnabálk um nýja kónginn eða níðkvæði um þann dauða og eflaust mörg skáld sem björguðu þannig lífi sínu fyrir horn.
Skáldin voru flest förufólk og bjuggu sjaldnast lengi á sama stað en flæktust á milli þorpa og bæja. Það er ekki tilviljun að hrafnar Óðins hétu Huginn og Muninn. Ég er enginn málfræðingur en íslenska sögnin „að vita” er víst nátengd latneska orðinu video: „Ég sé”. Sá veit sem sá eitthvað. Kommon sens fornaldar.
En þau gátu líka verið almannatenglar og áróðursmeistarar og nauðsynleg öllum þeim sem vildu komast til metorða og virðingar.
Var Ísland fangaeyja?
Ekki veit ég hvað varð til þess að svo mörg skáld komu til Íslands. Það veit enginn.
Eins og Sókrates og Jesús skrifuðu skáldin aldrei neitt sjálf. Þau voru fólk hins lifandi orðs, það sem seinna var kallað kjaftaskar. Þau þekktu ekki einu sinni bókstafina sem í dag þykja svo gríðarlega mikilvægir. Ritmálið kom ekki til fyrr en löngu seinna með kristninni. Regluverk Rómarkirkju teygði sig æ norðar upp Evrópu og hið skrifaða orð hafði meira átorítet en eitthvað blaður. Ritmálið geymdi upplýsingar sem taldar voru áreiðanlegar en það var ekki síst regluverk. Rómverskur kirkjuréttur var þýddur á norrænu og varð að fyrstu lögbókunum. Frasinn „Með lögum skal land byggja” er nær orðrétt þýðing úr Rómarétti. Og líklega fór þá eftirspurn eftir skáldum dvínandi og þau líka stór hluti af þeim heiðna sið sem þarna var byrjað að útrýma. Og þá varð það ekki lengur lífsbjörg að vera skáld, jafnvel þvert á móti lífshættulegt og illa séð og villutrú að hlusta á skáld. Voru þau kannski kuklarar og galdrahyski? Það var önnur stétt fólks sem uppi var á þessum tímum fornaldar sem voru Völvurnar. Það voru menn og konur sem höfðu sérstaka hæfileika og gátu spáð fyrir fólki. Völvurnar höfðu mikilvægu hlutverki að gegna í trúarlífi forn-germanskra þjóða. Eftir kristni voru völvur taldar réttdræpar og þær miskunnarlaust drepnar hvar sem náðist til þeirra. Kannski rugluðust margir á skáldum og völvum og hengdu þannig oft bakara fyrir smið. Eftilvill voru mörg bæði skáld og völvur, allt eftir því hvers óskað var hverju sinni. Það er ekki ósvipað spákonunni sem auglýsti í dagblaði fyrir löngu: Spái í spil og bolla. Strekki dúka á sama stað. Neyðin kennir naktri völvu að skálda.
Kannski flúðu þau hingað. Kannski voru þau hreinlega dæmd til útlegðar og send hingað í hlekkjum í refsingarskyni? Getur verið að Ísland hafi verið fangaeyja, einhverskonar síberískt Gúlag fornaldar? Það voru nú mörg skáld þar.
En hver sem ástæðan er þá lifðu skáldin lengur hér en í Noregi og regluverk kirkjunnar lengur á leiðinni hingað. En það breyttist og kristinn siður komst hér á eftir að hafa fest sig almennilega í sessi í Skandinavíu. Það var þá orðið augljóst í hvað stefndi og fólk sætti sig við hinn nýja sið án mikilla mótmæla og við urðum kaþólsk þjóð. Og eins og kristnin afmáði heiðnina þá afmáðu siðaskiptin okkar kaþólsku arfleifð og nú kemur það nútímaíslendingum jafnvel á óvart að heyra að þjóðin hafi einhvern tíma verið kaþólsk.
Tappað af gömlum sögum
Snorri Sturluson og margir fleiri, í samstarfi við klaustur og kirkjustofnanir ákváðu að tappa einhverjum af þessum gömlu sögum og skáldskap öllum af skáldunum og festa á bók. Af hverju nákvæmlega og í hvaða tilgangi er mér ekki alveg ljóst. En ég á mjög bágt með að trúa því að þessir rammkaþólsku kallar hafi sjálfir trúað þessum sögum öllum og allra síst því sem snéri að heiðnum siðum og kúltúr. En Snorri var lögfróður og menntaður pólitíkus og af góðum ættum. Hann vildi halda áfram góðu sambandi við Noreg. Þar voru líka eflaust margir sem vildu styrkja tengslin við matarkistuna Ísland og tryggja áframhaldandi yfirráð yfir þeim fjölmörgu iðnaðarsvæðum sem höfðu byggst hér upp.
Snorri var sjálfur skáld og dvaldist sem slíkur við norsku hirðina. Þetta var náttúrlega á tímum þar sem gat verið hættulegt að vera skáld. En Snorri fann einhvern nýjan vinkil og sá tækifæri í þessum sagnarfi sem fáir aðrir virtust vera að pæla í. Kannski var það persónulegt fyrir honum. Kannski heillaðist hann bara af þessu sem barn eins og ég sjálfur heillaðist af sjónvarpinu mörgum öldum síðar? Kannski sá hann gjaldmiðil falinn í þessum fornu fræðum, í viðskiptum sínum við höfðingja Noregs. Líklega var það sitt lítið af hverju, brennandi áhugi sem hafði líka hagnýtan tilgang og pólitísk vægi. En svo fór fyrir honum eins og öðrum skáldum og gjarnan þeim sem bera einhverjar háleitar hugsjónir í brjósti um kærleikann, mannsandann og skapandi hugsun og hann var drepinn. Hann gerði líka sömu mistök og Sókrates og Jesús með því að vera að skipta sér af pólitík. Þarna dóu síðustu skáldin og nöfn þeirra voru afmáð af kreditlistunum. Þá gátu sigurvegararnir skrifað söguna eins og þeir vildu hafa hana.