Guðni Bergsson sagði af sér sem formaður KSÍ í gær. Það var rétt ákvörðun hjá Guðna enda blasti við að honum var ekki stætt að sitja áfram.
Ástæðan var annars vegar yfirlýsing sem KSÍ sendi frá sér 17. ágúst síðastliðinn, sem enginn innan sambandsins hafði dug til að skrifa sig fyrir, vegna umræðu um þöggunartilburði sambandsins yfir kynferðisbrotum landsliðsmanna. Þar sagði meðal annars: „Rétt er þó að ítreka að KSÍ gerir engar tilraunir til að þagga niður ofbeldismál eða hylma yfir með gerendum. Dylgjum um slíkt er alfarið vísað á bug.“
Hins vegar fór Guðni í viðtal við Kastljós á fimmtudag þar sem hann sagði að engin tilkynning hefði borist sambandinu um kynferðisbrot að hálfu leikmanns í landsliði karla í knattspyrnu.
Hvorug ofangreindra fullyrðinga er sönn. Guðni bar endanlega ábyrgð á þeim og því þurfti hann að stíga til hliðar.
Það sem var óvenjulegt við ákvörðun Guðna er hvað það tók skamman tíma fyrir hann að átta sig á stöðunni. Það hjálpar til að móta þá menningu að í siðmenntuðu samfélagi axli fólk í valdastöðum ábyrgð á gjörðum sínum. Enginn einstaklingur er stærri en starfið og allir geta gert mistök.
Hitt sem var óvenjulegt er tilraun stjórnar KSÍ og lykilstjórnenda sambandsins að láta formanninn falla einan á sverðið. Líkt og Guðni Bergsson sé ástæðan fyrir þeim vandamálum sem eru í knattspyrnuhreyfingunni.
En það er hann ekki. Meinið var til löngu áður en Guðni Bergsson varð formaður KSÍ. Og það er áfram til staðar í þessu höfuðvígi karlmennskunnar eftir að hann stígur til hliðar.
„Ofbeldi og Landsliðið í fótbolta á enga samleið“
Ósannindi sambandsins opinberuðust á föstudag þegar Þórhildur Gyða Arnarsdóttir steig fram og greindi frá sinni sögu. Þar kom fram að frá 19. mars 2018 hið minnsta hefur legið fyrir að full vitneskja var um ofbeldishegðun landsliðsmanns innan KSÍ. Þá sendi faðir Þórhildar Gyðu tölvupóst á KSÍ, formann sambandsins og fjölmarga lykilstarfsmenn þar sem hann greindi frá því að dóttir hans hefði kært umræddan landsliðsmann til lögreglu fyrir líkamsárás og grófa kynferðislega áreitni. Yfirskrift tölvupóstsins var: „Ofbeldi og Landsliðið í fótbolta á enga samleið“.
Brugðist var við með því að taka leikmanninn úr hópnum, en opinberlega var ekki greint frá því að það væri vegna ofbeldisbrota heldur sagt að hann væri meiddur í nára.
25. ágúst síðastliðinn var sami leikmaður valinn í landsliðshópinn sem spilar þrjá leiki á næstu dögum.
Þórhildur Gyða fór svo í viðtal við RÚV á föstudag og sagði meðal annars að lögmaður á vegum KSÍ hefði boðið henni að skrifa undir þagnaskyldusamning gegn því að fá nokkur hundruð þúsund krónur greiddar, sem hún hefði hafnað. Hún náði sáttum við landsliðsmanninn sem fól í sér greiðslu bóta og afsökunarbeiðni. Því liggur fyrir viðurkenning á verknaðinum.
Umræddur leikmaður var fjarlægður úr landsliðshópnum í gær.
Sögurnar og boltinn sem rúllaði af stað
Sögusagnir um hegðun og meint ofbeldisbrot sumra landsliðsmanna þjóðarinnar hafa grasserað árum saman. Sögusagnir um gróft heimilisofbeldi, stafræn kynferðisbrot, nauðganir og jafnvel brot gegn barnungum stúlkum. Þessi strákar, gulldrengirnir sem komu litla íslenska landsliðinu á EM og HM, áttu að eiga sér skuggahliðar. Hvíslað var um að innan KSÍ hafi verið vitneskja um ýmislegt sem leikmennirnir áttu að hafa gert, og að sumt hafi verið framið á meðan að þeir voru í landsliðsferðum á vegum sambandsins.
Fórnarlömb áttu að vera búin að fara í viðtöl við stóra íslenska fjölmiðla þar sem opinbera átti allt. Til áttu að vera óyggjandi sannanir, jafnvel myndbandsupptökur, sem sönnuðu sekt þeirra. Og svo framvegis.
Samt gerðist ekkert. Þeir fjölmiðlar sem fóru af stað í að skoða þessi máli komust lítið áfram. Nær ómögulegt var að fá nokkuð staðfest. Þagnarmúr var reistur í kringum gulldrengina. Þeir virtust ósnertanlegir og farið var með þá eins og hálfguði. Sýnilegust var meðvirknin hjá ýmsum íþróttafréttamönnum, sérstaklega þeim sem treystu á sambönd til að tryggja gott aðgengi að landsliðinu og landsliðsmönnunum og áframhaldandi beina þátttöku í „ævintýrinu“.
Þegar stærsta stjarnan, Gylfi Sigurðsson, var handtekinn 16. júlí í Bretlandi fyrir meint kynferðisbrot gegn barni, breyttist allt. Þótt mikill þagnarmúr hafi líka verið reistur í kringum Gylfa, og lítið sem ekkert hafi spurst út um hvar rannsókn þess máls stendur eða um eðli þeirra brota sem hann er grunaður um að hafa framið, þá var ljóst að ákveðinn bolti var farinn að rúlla. Og að aðrir gulldrengir sem töldu sig hafa komist upp með brot gætu orðið fyrir honum.
Það þurfti Hönnu til
Sú kona sem ýtti fast við þeim bolta heitir Hanna Björg Vilhjálmsdóttir. Hún skrifaði grein á Vísi 13. ágúst og fjallaði meðal annars um mál ungrar konu sem steig nýverið fram og sagði frá hópnauðgun sem átti sér stað árið 2010. Þar sagði meðal annars: „Lýsingin á ofbeldinu er hroðaleg og glæpurinn varðar við margra ára fangelsi. Það hafði þó ekki meiri áhrif á gerendurna (landsliðsmennina) en svo að þeir gerðu grín að nauðguninni daginn eftir. Forherðingin algjör. Í frásögninni kemur fram hvaða afleiðingar þessi unga kona hefur þurft að burðast með. Lýsingin er þyngri en tárum taki. Þolandanum var eindregið ráðlagt að kæra ekki, við ofurefli væri að etja.
Fleiri frásagnir eru um landsliðsmenn sem eru sagðir beita konur ofbeldi – bæði kynferðislegu og heimilisofbeldi. Þetta virðist ekki hafa haft nein áhrif á velgengni þessara manna. Þeim er hampað og njóta mikilla vinsælda meðal þjóðarinnar. Þöggunin er alger, og KSÍ ber vitaskuld ábyrgð á henni.“
Það þarf að rannsaka hvað gerðist 2010
Þetta var í fyrsta sinn sem frásögn ungu konunnar var tengd við íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu á opinberum vettvangi, þótt mikið hafi verið hvíslað um það frá því að hún birtist í maí. Unga konan sagði þar að um þekkta menn væri að ræða en ekki hvers vegna þeir væru þekktir.
Samkvæmt upplýsingum sem Kjarninn hefur aflað snýst málið sem um ræðir um atburði sem áttu sér stað eftir landsleik Íslands og Danmerkur þann 7. september 2010 í Kaupmannahöfn. Vitneskja er um málið innan KSÍ.
Það stendur upp á fyrrverandi formann KSÍ, Geir Þorsteinsson, þáverandi lykilstjórnendur sambandsins og þáverandi stjórnarmenn að skýra hvort sambandið hafi beitt sér í því máli, með hvaða hætti og af hverju það var gert. Vonandi leiðir ítarleg rannsókn á málinu til þess að þeirra skýringa verði leitað.
Mikið spurt en engu svarað
Frá 18. ágúst hefur Kjarninn ítrekað spurt KSÍ að því hvort sambandið hafi einhvern tímann haft vitneskju um ásakanir um kynferðisbrot eða ofbeldi á hendur landsliðsmanna í fótbolta, hvort KSÍ hafi einhvern tímann haft afskipti af málum sem tengjast slíkum ásökunum gegn landsliðsmanni og hvort KSÍ hafi hvatt til aðkomu lögregluyfirvalda eða leitað aðstoðar hjá samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsmála ef og þegar grunur hafi verið um lögbrot?
Þá var spurt sérstaklega hvort KSÍ hefði vitneskju um meint atvik eftir landsleik Danmerkur og Íslands í Kaupmannahöfn í september 2010 þar sem tveir landsliðsmenn voru ásakaðir um kynferðislegt ofbeldi gegn ungri konu og ef svo væri, í hvaða verkferla það mál hefði farið?
Fyrstu svör sambandsins við fyrirspurnunum voru út í hött og í raun svör við öðrum spurningum en spurt var. Þar sagði meðal annars að „kvartanir um meint brot leikmanna hafa ekki borist inn á borð KSÍ.“ Fyrirspurn Kjarnans snýst ekki um kvartanir né hvað hefði borist „inn á borð KSÍ“. Hún snýst um að fá upplýsingar um hvað starfsmenn og stjórnarmenn vissu, og hvað þeir gerðu.
Í dag, tólf dögum eftir að fyrirspurnirnar voru sendar, þá hefur enn ekki borist neitt vitrænt svar við þeim þrátt fyrir að þær hafi verið sendar frá samskiptastjóra, til framkvæmdastjóra og á endanum til nú fyrrverandi formanns. Enginn innan KSÍ virðist treysta sér til að svara þeim.
Búinn að spila fótbolta allt sitt líf
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem KSÍ lendir í stormi vegna þöggunartilburða og yfirhylmingar. Árið 2009 var upplýst að fjármálastjóri KSÍ hefði eytt 3,2 milljónum króna á þáverandi gengi (um 8,8 milljónir króna á gengi dagsins í dag) af peningum sambandsins á strippbúllu í Sviss árið 2005. Hann gaf þá skýringu að úttektir hefðu verið framkvæmdar af korti sambandsins í leyfisleysi og sótti hluta þeirra aftur með því að stefna framkvæmdastjóra búllunnar. Þó er staðfest að fjármálastjórinn var staddur á umræddum stað og að hann hafi notað greiðslukort KSÍ þetta kvöld. Samkvæmt frásögn svissneskra fjölmiðla á sínumt tíma var fjármálastjórinn í fylgd annars manns framan af kvöldi og síðar með þremur rússneskum stúlkum. Hann á að hafa keypt hverja rándýru kampavínsflöskuna á fætur annarri.
Stjórn KSÍ var ekki upplýst um athæfið þegar það átti sér stað heldur ákváðu lykilstjórnendur sambandsins að þagga það niður. Þegar stjórnin loks frétti af því ákvað hún að aðhafast ekkert í málinu.
Femínistafélag Íslands krafðist þess að fjármálastjórinn og aðrir stjórnendur KSÍ segðu af sér vegna málsins. KSÍ gaf hins vegar út stuðningsyfirlýsingu við hann. Geir Þorsteinsson, þáverandi formaður sambandsins, sagðist mjög sár út í Femínistafélagið og að það hefði strax verið tekin ákvörðun um að styðja fjármálastjórann. „Þetta er mjög góður maður og gott hjá honum að hafa leitað réttar síns úti, það hefðu ekki allir gert. Við trúum engu öðru en hans frásögn enda hef ég þekkt hann langt aftur og hefur hann spilað fótbolta allt sitt líf.“ Fjármálastjórinn sagði sjálfur í samtali við DV að hann hefði engan áhuga á að „röfla við femínistana. Þær starfa bara svona og nýta greinilega hvert tækifæri til að koma sínum skoðunum á framfæri.“
Fjármálastjórinn starfaði hjá KSÍ þangað til að Guðni Bergsson rak hann, skömmu eftir að hafa tekið við sem formaður sambandsins árið 2017.
Ekki góð í „þessum málaflokki“
KSÍ er gríðarlega valdamikið fyrirbæri. Knattspyrna er langvinsælasta íþrótt landsins, og heimsins. Skráðir knattspyrnuiðkendur eru um 30 þúsund talsins og sambandið veltir um 1,7 milljörðum króna á ári.
Hingað til hefur sambandið, því miður, ekki valið að nýta sér þetta afl nægilega mikið til að takast á við landlæga og kerfisbundna kvenfyrirlitningu innan hreyfingarinnar. Fyrirlitningu sem hefur margar birtingarmyndir. Kostnaður við rekstur A-landsliðs karla, þar með talin laun, er til að mynda 125 prósent meiri en kostnaður við A-landslið kvenna, sem stendur sig þó mun betur um þessar mundir. Í þeirri stjórn sem tók til starfa eftir síðasta ársþing sátu 14 karlmenn og tvær konur. Af þeim fulltrúum sem hafa atkvæðarétt á ársþingi KSÍ hafa um sjö prósent verið konur. Aðbúnaður og umgjörð kvennaboltans er langt frá því sem körlum er boðið upp á. Orðræða um kvennafótbolta er oft á tíðum óásættanleg. Og teknar eru ákvarðanir um að hylma yfir með körlum sem beita konur ofbeldi, eða í það minnsta að líta í hina áttina þegar látið er vita af því.
Áherslur KSÍ hafa einfaldlega ekki legið þarna. Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, orðaði þessa stöðu óvart vel í fréttum Stöðvar 2 í gær. Þar sagði hún: „Við gerðum þetta ekki nógu vel og við áttum að gera betur. Við gerum okkur grein fyrir því. Við gerum okkur líka grein fyrir því hvað við kunnum og hvað við kunnum ekki. Við kunnum fótbolta, við kunnum að skipuleggja fótbolta, en í þessum málaflokki erum við pínulítið á gati.“
Vandamálið getur ekki verið lausnin
Þótt Guðni Bergsson hafi tekið rétta ákvörðun með að segja af sér, og axla þar með ábyrgð á mistökum sínum og þeirrar hreyfingar sem hann leiddi, þá leysir sú afsögn ekki vandamálið. Guðni Bergsson er ekki vandamálið þótt hann hafi unnið hjá því í nokkur ár. Vandamálið er ömurleg klefamenning sem hyllir ofbeldismenn, lítur niður á konur og upphefur eitraða karlmennsku. Hún hefur viðgengist í áratugi og á henni ber Guðni Bergsson ekki einn ábyrgð. Forysta íslenskrar knattspyrnuhreyfingar í heild á stóra hlutdeild í henni.
Stjórn KSÍ sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hún sagðist trúa þolendum en að hún ætlaði að sitja af sér storminn, líklega í þeirri von að það væri farið að lægja í febrúar þegar næst verður kosið til áhrifa innan sambandsins.
Í yfirlýsingunni sagði meðal annars: Við ætlum að lagfæra þá hluti sem farið hafa aflaga og skoða frá grunni þá menningu sem við lýði er innan knattspyrnuhreyfingarinnar með það fyrir augum að öll sem að starfi þess koma fái upplifað velferð og öryggi, um leið og hlustað er á þolendur og tillit tekið til þeirra hagsmuna.“
Sú yfirlýsing kom 12 dögum eftir að frásögn af þolanda var kölluð dylgjur af KSÍ.
Í stjórn KSÍ er fólk sem hefur verið í forystu íslenskrar knattspyrnu áratugum saman. Fólk sem skapaði, eða í það minnsta umbar, þá menningu sem ætlunin er að ráðast gegn. Það er ekki trúverðugt að þau sitji áfram og geri upp þennan tíma sem það sjálft ber ábyrgð á.
Nýtt fólk þarf í allar helstu stöður. Fólk sem er tilbúið að stuðla að algjörri hugarfars- og menningarbyltingu innan KSÍ og knattspyrnuhreyfingarinnar í heild. Fólk sem er tilbúið að láta rannsaka heiðarlega og tæmandi öll mál fortíðar þar sem grunur er um að ofbeldi, þöggun og yfirhylming hafi átt sér stað. Þar sem grunur er um spillta ákvörðunartöku eða meðvirkni með gerendum. Fólk sem getur raunverulega verið hluti af lausninni, vegna þess að það er ekki vandamálið.
Það fólk situr ekki í stjórn KSÍ í dag.