Eftirlaun og eftirlaunaaldur eru stærsta pólitíska málið í Frakklandi í dag og klýfur þjóðina hreinlega í tvennt. Emmanuel Macron, forseti Frakklands, vill færa töku eftirlauna úr 62 árum í 65 ára en bæði Marine Le Pen, formaður Rassemblement national eða „Landssamtakanna“, og vinstri blokkin—Nupe (La Nouvelle Union Populaire Ecologique et Sociale) með Jean-Luc Mélenchon, formann La France insoumise, „andófsmanna“, í broddi fylkingar, vilja að eftirlaun miðist við 60 ára aldur. Kerfið er að auki flókið og minnir um margt á gamla B-lífeyrissjóð ríkisstarfsmanna.
Þetta er ekki nýtt mál og gífurlega viðkvæmt pólitískt séð, svo viðkvæmt að Nicolas Sarkozy, sem kom með slagorðið: meiri vinna, hærri laun, í forsetatíð sinni 2007 til 2012 vildi aldrei snerta á því og upphaf mótmæla svokallaðra gulvestunga-árið 2019 má rekja til þessa.
Það var François Mitterrand sem færði eftirlaunaaldurinn úr 65 ára í 60 ára aldur til að draga úr atvinnuleysi í olíukreppunni á fyrsta ári sínu sem forseti 1981. Hann ákvað líka að þjóðnýta öll stærstu fyrirtæki landsins og stytta vinnuvikuna um eina klukkustund, úr 40 stundum í 39 stundir. Eftirlaunin eru greidd úr ríkissjóði með sköttum yfirstandandi árs, svokallað gegnumstreymiskerfi, og fara u.þ.b. 14% af landsframleiðslunni til greiðslu þeirra. Fjórðungur Frakka er á eftirlaunum og nemur hlutfall þeirra sem eru 65 ára og eldri af fólki á vinnualdri rúmum 37%. Miðaldur Frakka er 41,6 ár, fimm árum hærri en hérlendis, en fæðingartíðni hefur lækkað í Frakklandi, eins og víðar í Evrópu, og hefur þeim sem ætlað er að standa undir eftirlaununum fækkað hraðar en þeim sem fara á eftirlaun. Mikill halli er á eftirlaunasjóði Frakklands og ástandið er alvarlegt.
Svipuð staða í Danmörku á áttunda áratugnum
Staðan á áttunda áratugnum í Danmörku var að mörgu leyti svipuð þeirri sem var uppi í Frakklandi og á Íslandi. Laun voru vísitölubundin og þegar olíuverð hækkaði, hækkuðu launin. Til að örva samkeppni í atvinnulífinu var gengið fellt og í kjölfarið hækkuðu vextir. Upp kom sami hringurinn og hérlendis með gengisfellingu og frystingu hluta af umsaminni leiðréttingu launa m.v. framfærslukostnað. Staðan versnaði enn þegar seinni olíukreppan skall á 1980 með miklu atvinnuleysi og halla á ríkissjóði. Minnihlutastjórn jafnaðarmanna féll í Danmörku. Það sama gerðist í Frakklandi og á Íslandi. Mitterrand sigraði Valéry Giscard d'Estaing í forsetakosningunum 1981 og hérlendis ríkti stjórnarkreppa fram að Þjóðarsátt 1990.
Helstu breytingarnar sem Poul Schlüter gerði á skattkerfinu og fjármögnun eftirlaunakerfisins voru eftirfarandi: danska krónan var bundin við þýska markið (nú evruna) til að ná niður verðbólgunni – verðbólgan fór hæst í rúm 15% – og verðtrygging launa var hætt. Felld voru niður öll tryggingargjöld, bæði launþega og atvinnurekenda, til að auka samkeppni í atvinnulífinu, og gengu Danir þar skrefinu lengra en vinstri stjórnin á Íslandi 1971-1974; virðisaukaskattur hækkaði úr 8% í 25%; skattar einstaklinga hækkuðu til muna, einkum þeirra tekjuháu, en skattar á fyrirtæki lækkuðu, einnig var stofnun fyrirtækja auðvelduð; síðast ekki síst efldu Danir skatteftirlit. Samhliða varð til svokallaður séreignarlífeyrir. Nú gátu verkamenn, rétt eins og opinberir starfsmenn, samið um aukalífeyri ofan á þann lágmarkslífeyri sem allir fengu frá ríkinu. Heildartekjur hins opinbera breyttust ekki. Þær nema nú um 50% af landsframleiðslu og standa að mestu saman af háum stighækkandi skatti á launatekjur og fjármagnstekjur og virðisaukaskatti. Þegar jafnaðarmenn komust til valda eftir hið svokallaða Tamíla-mál, þar sem Poul Schlüter varð að segja af sér, héldu þeir áfram á sömu braut og stendur eftirlaunakerfi þeirra nú á traustum grunni. Hlutfall Dana sem eru 65 ára og eldri af fólki á vinnualdri nemur rétt rúmum 30%. Miðaldur Dana er 41,8 ár, sá sami og Frakka, og fimm árum hærri en Íslendinga. Eftirlaunaaldurinn í Danaveldi er hins vegar 66 ár, hækkar í 68 ár árið 2030, og fylgir síðan hækkandi ævilengd. Hann er mun hærri en í Frakklandi þar sem hann er 62 ár. Kerfið er líka ódýrara fyrir skattgreiðendur þar vegna séreignarlífeyriskerfisins, sem er skyldubundið. Aðeins 9,8% af landsframleiðslunni í Danmörku fer í eftirlaun. Þýskaland fór dönsku leiðina undir stjórn demókratans Gerhard Schröder, svokallað Agenda 2010, sem íhaldsmaðurinn Angela Merkel tók við. Bæði þessi lönd standa betur að vígi en Frakkland og leggur Henri Lagarde til að þessi leið verði valin, þ.e. taka upp séreignarsparnaðinn, breyta skattkerfinu og afnema tryggingagjöldin, sem hvíla mjög þungt á frönsku atvinnulífi en þau nema alls um 32% af launum og þar af er helmingurinn eftirlaun. Eftirlaunaaldurinn skiptir því máli í Frakklandi.
Mismunandi viðhorf til hins opinbera
Íslendingar brugðust við olíukreppunni 1980 með öðrum hætti en Danir og Frakkar. Meginskýringin liggur í mismunandi viðhorfi til hins opinbera og þar með er eftirlaunakerfið með öðrum hætti, sbr. kenningar úkraínska hagfræðingsins Alexander Gerschenkron. Hann sýndi fram á að þjóðleg efnahagsstefna elur af sér öfluga en fámenna borgarastétt, nomenklatúru eða elítu, sem byggði stjórnkerfið í kringum eigin þarfir en ekki þarfir hins almenna borgara. Nomenklatúran telur erlend lán ógna valdastöðu sinni. Þegar viðkomandi ríki hafur ekki nægan eigin sparnað til að mæta eigin fjárfestingarþörf er innlendur sparnaður þvingaður fram með því að minnka hlut heimila í landsframleiðslunni. Gunnar Hansen, nefndarmaður í nefnd um einn lífeyrissjóð fyrir landsmenn á sjöunda áratugnum, staðfestir þetta í einu af sínum mörgu bréfum til stjórnvalda (sjá nánar hér). Hann varar t.d. mjög við gegnumstreymiskerfinu segir að í „...sjóði með þátttökuskyldu er sjóðmyndun ákveðin fremur í efnahagslegum en tryggingafræðilegum tilgangi, og frá því sjónarmiði tel ég sjóðmyndun þurfa að vera meiri í landi, þar sem sparnaðar- og fjárfestingarþörf er mikil“. Hann sagði jafnframt að þáverandi stjórnarmenn í lífeyrissjóðunum hefðu komið að máli við sig vegna ótta um að missa bæði tögl og haldir í efnahagslífinu og segir að lokum: „Hitt teldi ég æskilegt, að Sjálfstæðisflokkurinn gæti haft nokkurt frumkvæði í málinu og þar með ráðið meira um gang þeirra en ella.“ Þetta leiddi til þess að norrænu leiðinni í lífeyrismálum var hafnað og stofnað var til sjóðakerfis á Íslandi.
Þegar seinni olíukreppan skall á var verðbólga mun hærri á Íslandi en í Danmörku og í Frakklandi eða um 58% á ársgrundvelli miðað við um 15% í Danmörku og um 13% í Frakklandi. Þetta þýddi á mæltu máli að hreinn sparnaður landsmanna, sem var að mestu bundinn í innstæðum lífeyrissjóðanna, var færður til fyrirtækja og til hins opinbera. Gerschenkron bendir á að til að losna úr þeim vítahring og koma hagkerfinu í eðlilegan gír aftur, þyrftu miðstýrðar langtímafjárfestingar að koma til. Þær kalla hins vegar á stofnanaumbætur sem hafa löngum verið Akkilesarhæll okkar Íslendinga.
Gengið var ekki bundið við þýska markið eins og hjá Dönum (og síðar Frökkum), heldur bjuggu stjórnvöld til nýja krónu, svokallaða verðtryggða krónu, sem skuldir landsmanna miðast við. Til að rugla fólk enn frekar í ríminu voru tekin tvö núll aftan af krónunni. Í almennri umræðu voru þrjá krónur á lofti: sú gamla góða, sú nýja – þessi með tvö núll niður um sig – og svo þessi verðtryggða. Á Íslandi eru því tveir verðmælar, ólíkt því sem tíðkast í Danmörku. Fyrst mæla menn launin í sentímetrum, síðan snúa þeir málbandinu við og margfalda fjölda sentímetra með tommum til að mæla skuldirnar. Það er sama hvað menn vinna mikið, skuldirnar hækka alltaf meira. Kaupmátturinn hrapaði og tók á annan áratug að ná upp sama kaupmætti og var fyrir verðtryggingu. Þúsundir Íslendinga misstu allan sinn sparnað. Verst úti urðu auðvitað þeir sem verst stóðu.
Gerðar voru grundvallarbreytingar á skattalögum. Framkvæmdin var hins vegar ekki eins og margir höfðu vonast til. Beinir skattar hækkuðu lítið sem ekkert, miðað við það sem hefði þurft til að ná niður verðbólgunni, heldur snerist umræðan um keisarans skegg, þ.e. hvernig ætti að útfæra hinn nýja gjaldmiðil í skattalögum: hin svokölluðu verðbólgureikningsskil og skattvísitöluna. Með þessu var algerlega var skilið milli kaupgjalds og greiðslu skatta í vitund manna fram að staðgreiðslunni. Reiknað endurgjald kemur þarna til sögunnar eftir margra ára mótmæli skattgreiðenda víða um land gegn skattsvikum útgerðarmanna. Reiknað endurgjald er hins vegar hvorki fugl né fiskur og að sögn Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, skilur það enginn enn í dag: hvorki embættismenn skattkerfisins né þeir sem eiga að reikna sér það. Árum saman hefur ríkisskattstjóri mælst til að reiknuðu endurgjaldi yrði breytt til samræmis við hin Norðurlöndin. Nomenklatúran hefur ekkert á móti sköttum. Hún vill bara ekki borga þá sjálf (sjá t.d. hér). Stjórnvöld hafa því heykst á öllum breytingum síðustu 40 ár.
Stjórnmálamenn vara við lífeyrissjóðum
Stjórnmálamenn hafa almennt ekki frumkvæði að breytingum. Atvinnurekendur og verkalýðshreyfingin náðu að þrýsta á upptöku staðgreiðslu skatta og upptöku virðisaukaskatts, sem breytti miklu fyrir umbjóðendur þeirra. Það jók líka tekjur hins opinbera, einkum beinna skatta, en OECD hafði um árabil þrýst á hækkun þeirra fyrir daufum eyrum stjórnmálamanna. Þær stofnanaumbætur sem þó voru gerðar á þessum árum (ríkisendurskoðun, umboðsmaður alþingis, skattrannsóknarstjóri) hafa koðnað niður. Skýringin er einföld. Um leið og embættismaður sinnir starfi sínu, sbr. Bryndís Kristjánsdóttir, síðasti skattrannsóknarstjórinn, er embætti hans lagt niður og hann látinn taka pokann sinn. Hinir verma stólana.
Má Guðmundssyni tekst líka mjög vel til. Hann byggir niðurstöðu sína á gömlum upplýsingum um stöðu lífeyrissjóða með því að vísa í skýrslu starfshóps um hlutverk lífeyrissjóða í uppbyggingu atvinnulífs frá 2018, sem byggist á enn eldri upplýsingum þótt skýrsluhöfundar taki fram að reiknilíkan Talnakönnunar frá 2013 eigi ekki við þar sem lífeyrisiðgjaldið hafi aukist úr 12% af launum í 15,5%. Meginniðurstaða Más er þessi: „Skoða þarf hvort gera eigi breytingar á hámarki gjaldmiðlaáhættu lífeyrissjóða þar sem núverandi 50% hámark virðist hamla erlendum fjárfestingum lífeyrissjóðanna áður en æskilegu hlutfalli erlendra eigna er náð.“
Jafnframt segir Már, líklega til að friða Þorgerði Katrínu: „Upptaka evru með fullri aðild að evrusvæðinu felur í sér aðgang að fjármálamörkuðum aðildarlandanna án gjaldmiðlaáhættu. Gjaldmiðlaáhætta lífeyrissjóðanna minnkar þá verulega. ... Tenging krónunnar við evru með tvíhliða samkomulagi við Evrópusambandið hefur ekki þessi áhrif þar sem gjaldmiðlaáhætta verður enn til staðar varðandi fjárfestingar á evrusvæðinu.“
Már svarar því hins vegar ekki hvort sú gjaldmiðilsáhætta yrði meiri eða minni en er af hinni séríslensku verðtryggðu krónu né hver ávinningur hins almenna borgara yrði af einum og sama verðmælinum fyrir laun og skuldir, enda ekki spurt um það. Ekki er heldur spurt af hverju eldri borgarar eiga einir að bera áhættuna af hinu nýja vistarbandi; gjaldmiðlinum, en nefnir þó að engin gjaldeyrishöft séu á danska lífeyrissjóði.
Ástandið svipað og þegar Schlüter komst til valda
Önnur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er ekki mynduð fyrr en tveimur mánuðum eftir kosningarnar 2021, eða 28. nóvember. Lífeyrissjóðirnir eru öflugustu hagsmunasamtök landsins og greinilegt að þau hafa gefið sér nægan tíma en í stjórnarsáttmálanum kemur fram að:
„Grænbók um lífeyrismál verður unnin í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og lífeyrissjóði á fyrri hluta kjörtímabilsins í því skyni að skapa grundvöll fyrir umræðu, stefnumörkun og ákvarðanir um lífeyriskerfið og framtíðarþróun þess með heildstæðum hætti. Meðal annars verður horft til einföldunar kerfisins og fjallað um grundvallarforsendur varðandi hlutverk, uppbyggingu, sjálfærni og umfang sjóðanna í efnahagslífinu, uppbyggingu réttinda og samspil milli ólíkra stoða lífeyriskerfisins, nauðsynlega hækkun lífeyrisaldurs og sveigjanleika til töku lífeyris í samhengi við hækkandi lífaldur, tryggingafræðilegar forsendur, fárfestingarheimildir, starfsumhverfi og eftirlit. ...
Mikilvægt er að stuðla að því að lífeyrissjóðirnir geti ávaxtað eignir sínar með fjölbreyttum, ábyrgum og öruggum hætti að teknu tilliti til vaxandi umsvifa þeirra í íslensku efnahagslíf á undanförnum árum.“
Ástandið er að mörgu leyti svipað í heiminum í dag og þegar Poul Schlüter komst til valda í Danmörku. Það er bullandi verðbólga og hagvöxtur tekur ekki við sér, eins og menn höfðu vonað þegar Covid-19 einangruninni var aflétt. Sá vandi er fyrst og fremst afleiðing stríðsins í Úkraínu en markaðsverð olíu og gass hefur margfaldast. Ekki er séð fyrir endann á stríðinu og afleiðingum þess. Á meðan sitja loftlagsmálin á hakanum í Evrópu en fjármagnið sem átti að fara í að þróa og finna upp nýja orkugjafa fer allt í að kaupa gas og olíu frá Bandaríkjunum. Vandi Frakklands í eftirlaunamálum verður þó ekki rakinn til þessa, heldur miklu frekar til ákvarðana sem teknar voru vegna olíukreppunnar 1980. Vandi Íslands snýr hins vegar að almennu getuleysi stjórnmálamanna til að takast á við raunveruleikann. Þeir eru í einhverjum hlutverkaleik þar sem kjósendur eru ekki af holdi og blóði heldur eru þeir eingöngu til í höfðinu á þeim sjálfum og aðgerðir þeirra við niðurrif innviða bera það með sér. Stjórnvöld hafa niðurgreitt fjárfestingar hins svokallaða 1% í húsnæði, fyrst með hinni svokölluðu „leiðréttingu“ sem rann að stærstum hluta til þeirra sem tilheyra þeim hópi, síðan með afnámi haftanna og að lokum með stýrivaxtaákvörðun Seðlabanka. Afleiðingarnar hafa ekki látið á sér standa. Húsnæðisverð hefur rokið upp í mæni með tilheyrandi hækkun leiguverðs og verðbólgan að nálgast tveggja stafa tölu, sem þýðir að skuldir aukast á meðan laun annarra en elítunnar lækka. Þegar húsnæðisbólan springur sitja lífeyrissjóðirnir svo uppi með tapið og lífeyrisgreiðslur lækka. Með öðrum orðum blasir veruleg kaupmáttarrýrnun við þorra þjóðarinnar.
Hvorki í stjórnarsáttmála né í framkvæmdum ríkisstjórnarinnar er að sjá áætlun um að taka á þessu, heldur fól ríkisstjórnin Má Guðmundssyni, líklega á grundvelli sama verktakasamnings við fjármálaráðuneyti og áður var getið, að gera skýrslu um gjaldmiðla áhættu lífeyriskerfisins, sbr. breytingar á lögum nr. 129/1997 um lífeyrissjóði sem ríkisstjórnin hyggst leggja fram og Samkeppnisstofnun gerði athugasemdir við og minnst var á hér að ofan. Meginniðurstaða Más er að núgildandi hámark gjaldmiðlaáhættu verði hækkað úr 50% í 65% og að gerðar verði breytingar á ákvæðum laga um notkun lífeyrissjóða á afleiðum. Þar er annars vegar um að ræða að fella niður kröfu um að afleiður sem ekki eru skráðar á markaði sé hægt að gera upp samdægurs á raunvirði og að takmörk á umfang afleiða séu orðaðar í lífeyrissjóðalögum með þeim hætti að ljóst sé að afleiður geta endað í neikvæðu virði.
Á síðasta áratug hefur innlent eignasafn lífeyrissjóða aukist þrisvar sinnum hraðar en hagvöxtur að raunvirði og áttu þeir um þriðjung allra eigna landsins og eru stærstu fagfjárfestarnir, eiga um 80% af öllum eignum fagfjárfesta. Heildareignir lífeyrissjóða námu 163% af vergri landsframleiðslu (VLF) í árslok 2019. Í árslok 2021 höfðu heildareignir þeirra aukist í 208%.
Ríki í ríkinu
Lífeyrissjóðirnir eru orðnir ríki í ríkinu og ákveða það sem þeim sýnist, sjá einnig hér. Þeir eiga eftir að stækka enn hraðar á næstu árum verði ekkert að gert. Greinilegt er að sparnaður landsmanna, sem knúinn er áfram af ójafnri tekjudreifingu, er orðinn allt of mikill. Við Íslendingar þekkjum vel til þess hvert þessi eignaþróun leiðir, en eignasöfnun Kaþólsku kirkjunnar og rentuaðalsins sem stóð að baki henni hófst á tólftu öld. Um aldamótin 1700 átti kirkjan 32% allra eigna landsins, konungur 16% og einstaklingar 52%. Með öðrum orðum átti kirkja og krúna hartnær helming eigna landsins og restina áttu einstaklingar þeim tengdir. 1% landsmanna átti 24% alls lands á Íslandi og 96% landsmanna voru leiguliðar en landskuld og leigur, sem nam 10% samkvæmt Jónsbók, voru helsta tekjulind rentuaðalsins. Ráðið er að auka neyslu millistéttarinnar í stað þess að flytja sparnað landsmanna út, sbr. hagfræðingurinn John A Hobson, sem fjallaði um ójöfnuð í Englandi og það, hvernig auðmenn fluttu umframsparnaðinn til annarra landa í stað þess að hækka laun enskra verkamanna og auka þar með neyslu þeirra á eigin framleiðslu, svipað og Danir gripu til hérlendis með sölu stólsjarðanna um aldamótin 1800 til að rífa þjóðina upp úr eymdinni og leyfa bændum að njóta hagnaðar af eigin vinnu. Hobson hélt því fram að misskipting tekna hefði í för með sér ofsparnað og vanneyslu sem héldi efnahagskerfinu í helgreipum eftirspurnarinnar og að úrræðið væri að uppræta „afganginn“ með endurdreifingu tekna í gegnum skattkerfið.
Upphaf lífeyrissjóða má rekja til vantrausts verkalýðshreyfingarinnar til stjórnmálamanna, eins og rakið var hér að framan. Greiðslurnar eru hins vegar fyrir utan fjárlög og eftirlit þingsins, og er þjóðhagslega óhagkvæmt. Þannig geta lífeyrissjóðir í reynd ráðstafað lífeyrinum til sérvalinna félaga, óháð ávöxtun lífeyrisins. Þetta virkar líka á hinn veginn og kom t.d. vel fram þegar stjórnvöld beittu lífeyrissjóði þrýstingi til að fjárfesta í Icelandair og gáfu í skyn að þeir sem stýrðu þeim sjóðum og ekki vildu fjárfesta í Icelandair væru hálfgerðir landráðamenn. Þessi samþætting skýrist enn betur þegar litið er á greiðslu lífeyrisins til eftirlaunamanna. Þeir sem greitt hafa í lífeyrissjóð alla sína tíð fá í reynd minna en hefðu þeir aldrei greitt í neinn lífeyrissjóð, sbr. dómsmál Gráahersins gegn ríkinu, og þrátt fyrir að verkalýðshreyfingin segi lífeyrisréttindin vera hluta af þeim heildarkjörum sem hún hafi samið um við atvinnurekendur er það ekki hún sem fer í dómsmálið fyrir hönd umbjóðenda sinna, heldur er það einstaklingurinn. Með öðrum orðum: þegar félagsmenn vitja réttinda sinna eftir 40 ára greiðslur í lífeyrissjóð er verkalýðsfélagið ekki heima. Á þessu þarf að finna lausn.
Hlutur atvinnurekenda í greiðslum iðgjalds hefur hækkað um tæp 100% að viðbættu iðgjaldi af vaktaálagi og yfirtíð síðan 1970. Starfsævi þeirra sem eru að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði er nú þegar níu árum lengri en starfsævi kollega þeirra í Evrópu. Þetta er ekki samt nóg. Lífeyrissjóðirnir vilja meira. Ríkisstjórnin vill hækka lífeyrisaldur úr 67 ára aldri í 70 ár eða 75 ár. Vandséð er önnur ástæða en vilji hennar til að stækka lífeyrissjóðina enn frekar svo þeir getið haldið áfram að fjárfesta í fyrirtækjum nómenklatúrunnar.
Miðaldur Íslendinga er 36,3 ár, þ.e. fimm árum lægri miðaldur en í Danmörku og í Frakklandi. Hlutfall þjóðarinnar sem er 65 ára og eldri af vinnualdri er 26,6% á m.v. 34,9% í Danmörku og 37,3% í Frakklandi. Í Frakklandi er samt stefnt að eftirlaunaaldur verði 65 ár, þ.e. tveimur árum lægri en tíðkast nú þegar á Íslandi, og lífslíkur Íslendinga, Dana og Frakka 65 ára og eldri er svo til þær sömu, eða 20,4 ár fyrir Íslendinga, 19,2 fyrir Dani og 21,3 fyrir Frakka
Þá er það kostnaðurinn. Í Frakklandi kostar eftirlaunakerfið 13,9% af vergri landsframleiðslu ár hvert. Í Danmörku kostar það hins vegar 9,8% af VLF, þegar útgreiðslum lífeyrissjóða hefur verið bætt við og 6,7% á Íslandi.
Hlutfall kostnaðar atvinnurekenda við eftirlaunakerfið er hins vegar mun hærra á Íslandi en þessu nemur vegna uppbyggingar lífeyriskerfisins, eða 10,5% af VLF. Þegar séreigninni hefur verið bætt við hækkar kostnaðurinn í 13,3% af VLF (tryggingagjald 2,6%, 7,9% af VLF í lífeyrissjóð, sameign, og að auki 2,8% í séreign). Í Danmörku eru lífeyrisgreiðslurnar jafnari en á Íslandi þar sem stærsti hluti þess fer í gegnum skattkerfið; síðan bætist lífeyrissjóðurinn við. Hérlendis eru greiðslur ríkisins hins vegar skattlagðar aukalega um 38,35%, eftir að 25.000 króna tekjum frá lífeyrissjóðum er náð, sbr. mál Gráahersins.
Kostnaður atvinnurekenda kemur enn betur í ljós þegar fjármögnun eftirlaunakerfisins er skoðuð sem hlutfall af launum. Í Danmörku nemur hlutfall launatengdra gjalda vegna eftirlauna 12,8% af launum, í Frakklandi 27,8%. Á Íslandi getur kostnaðurinn við kerfið numið allt að 27,9% af brúttólaunum þeirra tekjuhæstu, þegar 6% séreigninni hefur verið bætt við. Ástandið á Íslandi er því ekki síður alvarlegt en í Frakklandi og það eina sem skilur á milli er að Íslendingar eru hlutfallslega yngri en Frakkar.
Launakostnaðurinn dregur úr hagnaði lítilla og meðalstórra fyrirtækja, einkum þar sem keppt er við innflutt vinnuafl sem greiðir ekki þessi gjöld, s.s. í ferðaþjónustu. Vitaskuld dansa limirnir eftir höfðinu, sbr. Panamaskjölin, en launakostnaður, ásamt skorti á starfsmönnum, hefur áhrif á svarta vinnu. 20% af allri vinnu á Íslandi í dag er ekki gefin upp til skatts. Ójöfnuður á Íslandi er því meiri en opinbera tölur segja til um!
Í Danmörku og í Frakklandi hafa beinir stighækkandi skattar verið aðaltekjulind hins opinbera um árabil og eftirlaunakerfið byggt á gegnumstreymiskerfi. Á Íslandi eru skattar hins vegar lægri, eða um 40% af landsframleiðslu á móti u.þ.b. 53% í Danmörku og í Frakklandi. Að teknu tilliti til lífeyriskerfisins og aldurs Íslendinga eru skattgreiðslur á Íslandi mjög sambærilegar, eða um 48 % af VLF. Hlutur hins opinbera er hins vegar of lítill eins og kemur hvað skýrast í ljós þegar það stendur ekki við þær skuldbindingar sem það þó hefur á sinni könnu, hvort sem það er í mengunarmálum eða heilbrigðismálum. Samt leggur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur til að um 7% af VLF, þ.e. 65% af lífeyrisgreiðslum landsmanna, verði flutt úr landi eins og Englendingar gerðu forðum, í stað þess að nota skattkerfið til tekjujöfnunar.
Hlutfallsleg skattbyrði hæst hjá þeim tekjulægstu
Á Íslandi, ólíkt því sem tíðkast í Danmörku og Frakklandi, er hlutfallsleg skattbyrði hæst hjá þeim sem lægstar hafa tekjurnar, að auki veitir ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hinu svokallaða 1% sérstaka skattastyrki til að auka þann mun enn frekar. Skattastyrkir mælast seint og illa og koma ekki fram í skattatölfræði heldur finnast eftir dúk og disk í ríkisreikningi, sbr. lög um opinber fjármál, ef þeir þá gera það. Aðgerðir Katrínar vekja því ekki eins mikil viðbrögð almennings og nefskattur Margrétar Thatcher gerði árið 1989. Tilgangur Katrínar er hins vegar sá sami: að færa fé frá hinum fátæku til hinna ríku. Þetta snýr ekki bara að of miklum lífeyrissparnaði, heldur notar Katrín Jakobsdóttir öll tækifæri til að endurdreifa skattpeningunum til hinna betur settu (sjá t.d. hér og hér).
Stærð og áhrif lífeyriskerfisins á efnahagslíf Íslendinga er afleiðing ójöfnuðar og rangláts skattkerfis. Lífeyriskerfið leiðir til ofsparnaðar og er grundvöllur hins séríslenska gjaldmiðils: verðtryggðu krónunnar. Verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur ættu að sameinast um að skoða breytingar á lífeyriskerfinu og það, hvernig Danir hafa framkvæmt þær áður en rentuaðallinn tekur yfir allar eignir landsmanna og drepur í dróma allt atvinnulíf eins og gerðist hér á miðöldum. Þannig mætti auka og jafna lífeyrisgreiðslur, minnka skattundanskot og bæta samkeppni lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Jafnframt má benda á að gjöld vegna lífeyrisgreiðslna er stór kostnaður hjá hinu opinbera, a.m.k. reikningslega. Takist að minnka hann, minnka skattar. Aukning lífeyris má líka vera með öðrum hætti, t.d. lægri skattprósentu eins og tíðkast Noregi eða niðurfellingu skulda. Iðgjald í séreignasjóði gæti verið óbreytt eða lítið breytt. Svona breytingar taka tíma, allt að 40 ár, og þarf að vanda vel til. Nauðsynlegt er að allir landsmenn séu í eina og sama lífeyriskerfinu, líka þingmenn og ráðherrar. Fyrsta skrefið gæti verið að hætta að skattleggja hinn venjulega lífeyri um 76% en skattleggja hinn umdeilda lífeyri þingmanna um 100%.
Höfundur er hagfræðingur og sagnfræðingur. Grein á ensku um samanburð við Norðurlöndin, ásamt heimildalista, verður birt á næstunni.