„Áttu eitt barn?“ segir hann og hlær sínum dillandi hlátri. Íslenskt dekurbarn, hugsar hann kannski og fagnar ákaft þegar ég bæti við að stjúpbörnin séu fjögur, barnabörnin tvö og eitt til viðbótar á leiðinni. „Þú ert rík!“
Í Úganda og auðvitað mun víðar í þessum heimi er ríkidæmi ekki síst talið í börnum. Forsetafrú Úganda minnir landa sína stöðugt á þetta. Eignist börn, segir hún, líkt og það sé hluti af lausninni á því að koma milljónum út úr fátækt. En á þennan mælikvarða er Laban, minn trausti boda (boda boda eru skellinöðrur sem íbúar Úganda og gestir taka sér far með til að komast hratt milli staða) sannarlega ríkur. Sex hjörtu slá í þessum heimi vegna hans. Eitt þeirra er veikt. Og eitt til slær ekki lengur.
Bodarnir í Kampala, borginni sem ég er gestur í næstu vikurnar, eru á hverju götuhorni. Bjóða far. En hjólin eru alls konar. „Passaðu að þeir séu með spegla,“ segir ráðagóð vinkona mín sem hefur búið hér í nokkur ár. „Það er langbest að hringja í Laban. Hann er svo traustur.“
Þannig kom það til að hvert sem ég fer tek ég mér far með Laban. Glaðlynda manninum sem er alltaf snyrtilegur til fara, með grímu fyrir vitum, klæddur endurskinsvesti og með hjálm. Hann stoppar á rauðu ljósi, ólíkt mörgum öðrum bodum, ekur varlega (stundum aaaðeins um of!) og segir mér í leiðinni sögur af borginni sem ég er rétt að byrja að kynnast.
Ferðalög okkar Labans byrja oftast efst á Kololo-hæð þar sem leiguíbúðina mína er að finna. Neðan við brekkurnar bröttu förum við iðulega framhjá gamla flugvellinum í Kampala, velli sem Bretar útbjuggu á sínum yfirráðatíma í Úganda og þar sem athöfn var haldin er sjálfstæði var náð árið 1962.
Þar með var Elísabet drottning, sú hin sama og ríkir enn yfir Bretlandi og sambandsríkjum þess, ekki lengur þjóðhöfðingi landsins. Engin flugvél lendir lengur á gömlu flugbrautinni, alþjóðaflugvöllurinn er í næstu borg, Entebbe, sem komst í heimsfréttirnar er farþegaflugvél á leið frá Ísrael til Frakklands var rænt árið 1976 og henni lent í borginni.
„Mig langar að bjóða þér í skoðunarferð um Kampala,“ segir Laban einn daginn en þá höfðu ferðir okkar verið bundnar við skreppitúra niður hæðina og í verslanir eða á veitingastaði við rætur hennar. „Og svo langar mig og Scoviu konunni minni til að bjóða þér og manninum þínum í mat.“
Þyrst í að metta skilningarvitin af einhverju nýju var þessu góða boði tekið og nokkrum dögum síðar erum við lögð af stað „með vindinn í hárið“ um borgina sem í fyrstu virðist nokkuð einsleit, en er alls konar er betur er að gáð.
„Ég segi við alla múslima í þessu landi: Þetta allt er ykkar.“
Þannig komst Idi Amin að orði árið 1972 er hann gaf samfélagi múslima í Úganda land til að reisa mosku. Amin, sem rændi völdum og var forseti á árunum 1971-1979 eða þar til honum var sjálfum steypt af stóli, var múslimi. Múslimar, sem hófu fyrst að koma til landsins sem nú heitir Úganda á fimmta áratug nítjándu aldar, höfðu átt í innbyrðis deilum og Amin vildi sætta hópana.
Og tólf ekrur á Kampala-hæð norðan Viktoríuvatns, í hjarta höfuðborgarinnar, voru gjöfin sem hann taldi þurfa til. Þetta var einnig hæðin sem Bretar stungu fyrst niður sínum þjóðfána á tíunda áratug nítjándu aldar. Þar reistu þeir líka sína fyrstu byggingu í landinu sem þeir gerðu að sínu, í óþökk fólksins sem það hafði byggt í þúsundir ára.
Bygging moskunnar hófst eins og að var stefnt árið 1972. En fjórum árum seinna var henni hætt. Þá var verulega farið að hitna undir Amin, enda voðaverk hans komin upp á yfirborðið og stuðningsmenn hans, innanlands og utan, farnir að sjá skrímslið á bak við brosið á feitlögnu andlitinu.
Moskan sem Laban ekur mér upp að er gríðarstór, tekur 12-15 þúsund gesti ef þétt er setið, og turnspíran sem hana skreytir nær lengra til himins en flest ef ekki öll mannvirki Kampala. En þetta er ekki moska Idi Amins, hershöfðingjans grimma. Þetta er moska Muammars Gaddafís, sem réði lögum og lofum í Líbíu allt frá áttunda áratug síðustu aldar og til dauðadags árið 2011. Gaddafí var nefnilega sá sem gaf fé til þess að klára að byggja mosku á Kampala-hæð, þá næst stærstu í Afríku. Það var árið 2004 og aðeins fjórum árum síðar var Gaddafí mættur til að vera viðstaddur vígsluna.
Hún hét moska Gaddafís en eftir að hann var drepinn var nafn hans afmáð þótt Kampala-búar kenni moskuna enn við hann.
Næst vill Laban sýna mér konungshöllina. Jú, það er konungsríki í Úganda – og reyndar nokkur. Búganda-ríkið, sem á sér aldalanga sögu, er þeirra stærst og nær yfir Kampala. Konungar þess (kabaka) hafa verið auðugir og á síðari hluta nítjándu aldar reisti Mwanga II, 31. konungur Búganda, sér höll. Hún er hógvær samanborið við hallir Evrópu og aðeins opinbert heimili núverandi konungs, Muwenda Mutebi II. Hann hefur ekkert pólitískt vald en þarf ekki að aka í kringum hringtorg eins og almúginn heldur eru hlið á þeim svo hann komist beint í gegn. Kannski meira um hann og hans ríki síðar.
Er Idi Amin komst til valda fór þáverandi konungur Búganda í útlegð og Amin og hans menn lögðu höllina undir sig. Skammt þar frá byggðu þeir svo neðanjarðarhýsi sem hafði það yfirlýsta hlutverk að vera vopnageymsla.
En Amin var orðinn sjúklega tortrygginn og vopnabúrinu var snarlega breytt í óhugnanlega pyntingarklefa. Fangar voru geymdir í þremur af fjórum geymslum og næðust játningar á uppdiktuðum glæpum ekki upp úr þeim var gangurinn fyrir framan fylltur vatni og svo rafstraumur leiddur í gegnum það. Þar var svo hópur fanga látinn standa. Fá raflost. Deyja.
Enn má sjá línur á veggjunum sem sýna hvað vatnið stóð hátt og enn má sjá hvar kveikt var á rafmagninu. Í fjórðu geymslunni voru svo líkin geymd.
Ég hrylli mig og lít á Laban sem lokar augunum og hristir höfuðið. Hann segir ekki vitað með vissu hversu margir voru drepnir í pyntingaklefanum við konungshöllina. Kannski nokkur hundruð? Kannski nokkur þúsund?
„Hann var brjálaður,“ segi ég er við komum aftur út í birtuna. „Já, en hann hafði fólkið með sér í fyrstu,“ bendir Laban á. Þannig tókst honum að blekkja alla – alltof lengi.
En við viljum ekki dvelja of lengi við fortíðina. Scovia, eiginkona Labans, hringir í hann og spyr hvenær í ósköpunum gestirnir séu væntanlegir. „Við erum á leiðinni!“
Við þræðum fyrst breiðar göturnar í Gömlu-Kambala. Til beggja handa standa nokkurra hæða verslunarhús, sumum er vel við haldið en önnur þarfnast upplyftingar. Smám saman verða vegirnir þrengri og holóttari. Húsin lágreistari, ýmist úr múrsteini eða bárujárni. Í einu þeirra er verið að selja ávexti og grænmeti. Framan við það næsta er verið að rista hnetur. Í því þriðja má sjá litrík notuð föt í stöflum til sölu.
Loks staðnæmist Laban. Við erum komin í Joseph, hverfi sem merkt er fátækarhverfi á Google Maps. Við stígum af hjólinu og hann reiðir það inn á milli húsa eftir moldarstígum sem eru svo mjóir að ekki er hægt að aka um þá. Þetta er þyrping nokkurra smárra húsa. Hænur með unga vappa á milli þeirra. Kona og tvær dætur hennar þvo þvott í höndunum og hengja til þerris á snúru sem strengd hefur verið frá einu húsi í annað. Hér er þétt búið. Vatn seytlar um stíginn og breytir miðju hans í leðjusvað. Það hafði rignt daginn áður.
Laban lítur annað slagið um öxl. Ég elti hann og heilsa þeim sem á vegi okkar verða. Þetta eru nágrannar hans.
Þegar við komum fyrir horn tveggja húsa erum við komin að útjaðri þorpsins. Þar hlaupa tvær geitur léttar á fæti um, endur eru á vappi og kroppa í grastoppa sem hafa skotið sér upp úr rauðri moldinni. Lítill grænmetisgarður er framan við eitt húsið og þar kunna litlir hænuungar vel við sig.
Lítill drengur kemur hlaupandi með útbreiddan faðminn. Þetta er Lars, yngsta barnið hans Labans og eiginkonan Scovia hrópar kveðju til okkar þaðan sem hún stendur í dyrum húss þeirra hjóna. „Velkomin! Loksins hitti ég ykkur!“ segir hún glaðlega, klædd fallegum síðum kjól sem einkadóttirin, hin sex ára gamla Christine, felur sig á bak við. Hún er búin að bíða spennt eftir okkur segja foreldrarnir en þegar á hólminn er komið nær feimnin yfirhöndinni.
„Komið inn, komið inn!“ Scovia hefur verið að elda allan morguninn. Ilmur af framandi réttum fyllir vitin. Húsið hans Labans er lítið. Kannski 15-20 fermetrar. Þar er rafmagn en mjög takmarkað og því enginn ísskápur og aðeins ein ljósapera hangir úr loftinu. Ekkert rennandi vatn. Rýminu er skipt í tvennt með tjaldi. Handan þess sefur fjölskyldan en okkur er boðið til sætis við borð sem líkt og á auga bragði er orðið hlaðið af veislumat. Úr litlu útvarpi ómar popptónlist, sum lögin eru afrísk en önnur evrópsk. Allt er til reiðu.
Að síðustu setur Scovia glös af nýkreistum safa úr ástaraldin fyrir framan okkur. Hún fer með stutta borðbæn. „Gjörið svo vel, fáið ykkur!“ segir hún svo. Af nógu er að taka: Steikt egg, hrísgrjón svo himnesk á bragðið og mjúk að þau allt að því bráðna í munni. Frá geitakjötssúpunni leggur kryddaðan angan og steikta grænmetinu í rjómasósunni sömuleiðis. Allt er þetta borðað með matoke, hinni úgönsku ósykruðu bananastöppu sem þó er svo sæt að hana má allt eins borða sem eftirrétt.
Þetta er veisla. Scovia er úrvalskokkur. „Laban, þú ert heppinn,“ segi ég en Scovia er fljót að bæta við: „Ég er heppin. Að vera gift Laban.“ Hún klappar honum létt á hnéð og þau brosa til hvors annars. Hafa verið saman síðan þau voru unglingar. Enn ástfangin upp fyrir haus.
Aðeins tvö af börnum þeirra eru heima. Skólarnir í Úganda eru loks byrjaðir eftir tveggja ára lokun vegna faraldursins og Laban og Scovia spara allt sem þau geta til að senda eldri börnin í góða skóla. Þetta eru heimavistarskólar og þau koma aðeins heim annað slagið á hverju misseri.
Elsti sonurinn, Harrison, er átján ára og í framhaldsskóla. Þau eru stolt af syninum sem hefur átt erfitt. Fyrir nokkrum árum varð hann hjartveikur og duglegi íþróttastrákurinn missti allt þrek. Scovia verður alvarleg er hún rifjar þetta upp. „Hann þurfti aðgerð. Og það var ekki hægt að gera hana í Úganda. Laban varð að fara til Indlands með hann. Þeir voru þar í marga mánuði.“
Laban kinkar kolli og rifjar upp erfiðleikana við að fá vegabréf og áritun til að komast frá heimalandinu með drenginn. Þetta var árið 2009. Fjölskyldan lagði allt sitt litla sparifé til. Flutti í ódýrara og minna húsnæði til að steypa sér ekki í of miklar skuldir. Þröngt var í búi hjá Scoviu og börnunum á meðan því engin var innkoman. „En aðgerðin heppnaðist vel,“ segir Scovia full þakklætis og það lifnar yfir henni. Nú getur Harrison hlaupið og stundað íþróttir. Gengið í skóla og vonandi fengið góða vinnu með menntun í farteskinu.
„En hann þarf að fara í aðra aðgerð fljótlega,“ útskýrir Laban. „Aftur til Indlands.“ Þess vegna vinnur hann myrkrana á milli sem boda en á tímum þar sem fáir ferðamenn eru í Úganda vegna faraldursins. Þeim er að fjölga, ég er til vitnis um það, en hafi þetta verið hark áður er þetta stöðugt basl núna. Aðgerðin verður því að bíða. Það eru einfaldlega ekki til peningar fyrir henni í augnablikinu.
„Börnunum líður öllum vel,“ undirstrikar Laban þó. „Öllum sex,“ bæti ég brosandi við og klappa á kollinn á Lars sem er steinsofnaður í fangi móður sinnar, saddur og sæll. „Við áttum aðra stelpu,“ segir þá Scovia allt í einu. „Hún var annað barnið okkar en dó þegar hún var þriggja ára.“ Aftur horfast þau hjónin í augu en eru nú alvarleg í bragði. Ekkert er sárara en að missa barn.
Christine litla vill fara út að leika. Henni er óhætt úti einni. Hér líta nágrannar eftir börnum hvers annars. Eftir að hafa sagt þeim frá eldfjöllunum og jöklunum á Íslandi, og eina skrautlega fuglinum, lundanum, er komið að kveðjustund. Laban og Scovia standa við litla húsið sitt, þar sem annað lítið kot er áfast norðan megin en sunnan við er öskuhaugur. Fjöll af plasti og öðru rusli sem kindur og geitur krafsa í og leita að einhverju ætilegu.
Þannig býr hann, vinur minn Laban. Með fallegu fjölskylduna sína í koti sem er álíka stórt og svefnherbergið mitt heima á Íslandi.
Það er freistandi að fallast í faðma. Scovia sendir mér í staðinn óteljandi fingurkossa og ég snara mér aftur á hjólið hjá Laban og við fjarlægjumst smám saman heimili hans. Litla húsið sem er óravegu í öllum skilningi frá risavöxnu moskunni hans Gaddafís og glæsihöll konungs Búganda. En er stútfullt af hjartahlýju, vonum og óskum um betra líf fyrir sex börn.