Loftslagsmál voru svo sannarlega áberandi þetta árið. Afleiðingar loftslagsbreytinga og samverkandi áhrif þeirra á félags- og efnahagslegar áskoranir vöktu mikla athygli, nýjum hæðum var náð í fjárfestingum í endurnýjanlegri orku og sögulegum alþjóðlegum samþykktum var fagnað. Orkukreppan setti svo hæði okkar á jarðefnaeldsneyti í nýtt samhengi, en hún er ekki einungis afleiðing stríðs heldur ein af fjölmörgum birtingarmyndum áratuga aðgerðaleysis í loftslags- og orkumálum. Að viðburðaríku ári liðnu er úr mörgu að velja, en hér verður stiklað á stóru yfir helstu atburði ársins á innlendum og erlendum vettvangi.
Afleiðingar hamfarahlýnunar
Afleiðingar hamfarahlýnunar voru í kastljósinu á árinu sem einkenndist af hitabylgjum, skógareldum, þurrkum og flóðum. Þessum öfgakenndu atburðum fylgdu bæði dauðsföll og annars konar skaði sem hafði áhrif á milljónir manna og dýra víða um heim. Einna verstar voru afleiðingarnar í Pakistan en þar dundu yfir verstu flóð í sögu landsins. Þriðjungur Pakistan var undir vatni á einum tímapunkti, meira en þúsund manns létust og milljónir neyddust til að flýja heimili sín. Líkur á slíkum hamförum eru mun meiri vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar síðustu áratugi og leiddu rannsóknir í ljós að þessar tilteknu hamfarir hafi að miklu leyti átt sér stað vegna loftslagsbreytinga.
Hækkun yfirborðs sjávar náði nýju meti í ár og sömuleiðis var metbráðnun í jöklum evrópsku Alpanna. Einnig átti sér stað sögulegur atburður er það rigndi (í stað þess að snjóa) á toppi Grænlandsjökuls í september í fyrsta skipti síðan mælingar hófust árið 1987.
Þessar afdrifaríku afleiðingar hamfarahlýnunar á árinu settu mark sitt á andrúmsloftið fyrir stærstu loftslagssamkomu ársins, COP27.
COP27
Aðildarríkjaþing Loftslagsamnings Sameinuðu þjóðanna, COP27, var haldið í Sharm el-Sheikh í Egyptalandi í nóvember. Niðurstöður fundarins voru af mörgum toga en stærsta ákvörðunin var vafalaust stofnun loftslagshamfarasjóðs til að aðstoða þau ríki sem verða fyrir verstu afleiðingum hamfarahlýnunar.
Hins vegar á eftir að fjármagna sjóðinn og útfæra marga lausa enda, líkt og hver skuli greiða í hann, hvaða upphæðir er um að ræða og hvaða ríki geta sótt fjármagn í sjóðinn. Sérstök 23ja manna nefnd mun sjá um að útfæra þessi atriði og verður að öllum líkindum komin mun skýrari mynd á sjóðinn fyrir næsta aðildarríkjaþing, COP28. Stofnun sjóðsins er gríðarlega mikilvægt skref í átt að loftslagsréttlæti, en krafan um fjárstuðning vegna loftslagshamfara er yfir 30 ára gömul.
Hamfarasjóðurinn markar tímamót er varðar aðgerðir til að taka á verstu afleiðingum loftslagsbreytinga. Hins vegar mistókst hrapalega að taka á orsökum vandans þar sem ekki náðist samstaða um að herða orðalag um jarðefnaeldsneyti í lokasamþykkt þingsins. Niðurstaðan var því endurtekning orðalags úr lokasamþykkt COP26 í fyrra um að draga hratt úr kolanotkun, í stað þess að láta klausuna ná til alls jarðefnaeldsneytis. Ljóst er að betur má ef duga skal, en samkvæmt Alþjóða Orkumálastofnuninni (IEA) verðum við að hætta tafarlaust nýjum fjárfestingum í jarðefnaeldsneyti til að eiga möguleika á að ná markmiðum Parísarsáttmálans.
Á COP27 var því miður tekist á um markmið alþjóðasamfélagsins um að takmarka hnattræna hlýnun við 1,5 °C. Slík átök verður að taka alvarlega þar sem fremsta vísindafólk heims hefur sammælst um að markmiðið um 1,5 °C sé grunnforsenda fyrir farsælli framtíð komandi kynslóða.
Blessunarlega varð ekki bakslag er varðar orðalag um 1,5 °C í samþykktum þingsins en samt sem áður er ljóst að í ár mjökuðumst við ekki mikið nær því að ná markmiðinu, bæði er varðar hertar aðgerðir og svo raunverulegan samdrátt í losun. Í skýrslu Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP) um losun gróðurhúsalofttegunda 2022 kemur fram að núverandi markmið stefna okkur í 2,6 °C hlýnun, og núverandi loftslagsstefnur í 2,8 °C hlýnun. Í lokasamþykkt COP27 voru aðildarríki því hvött til að uppfæra markmið sín fyrir næsta þing að ári liðnu. Slíkt ákall á ekki síst við um Ísland, sem lagði ríka áherslu á markmiðið um 1,5 °C í málflutningi sínum.
Þrátt fyrir að Ísland hafi ekki látið kné fylgja kviði er varðar fullnægjandi loftslagsmarkmið og aðgerðir á aðildarríkjaþinginu var ánægjulegt að sjá Ísland og Síle ýta úr vör sameiginlegu verkefni um verndum freðhvolfsins (cryosphere). Framtakið hlaut nafnið „Ambition on Melting Ice“ og er ætlað að vekja athygli á bráðnun jökla, heimskautasvæða og þiðnun sífrera og afleiðingum þessa. Sömuleiðis er fagnaðarefni að í ár var fyrsta skiptið sem Ísland styrkir Aðlögunarsjóðinn og bind ég vonir við að slíkt hið sama muni eiga við um hinn nýstofnaða loftslagshamfarasjóð þegar hann er kominn á laggirnar.
COP15
Í desember í Montréal fór fram ekki síður mikilvæg ráðstefna sem hlaut því miður töluvert minni athygli. Þar var um að ræða fimmtánda aðildarríkjaþing Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (COP15).
Þar komu aðildarríki saman með það að meginmarkmiði að stöðva hnignun líffræðilegrar fjölbreytni og stuðla að verndun og endurheimt vistkerfa sem og sjálfbærri nýtingu líffræðilegra auðlinda. Einn stærsti sigur þingsins var samþykkt svokallaðs „30x30 markmiðs“ sem snýr að því að vernda 30% af landi og hafi Jarðar fyrir árið 2030 (nú eru um 17% landsvæða og 8% hafsvæða undir vernd).
Margvísleg undirmarkmið voru sett fram þessu til stuðnings en m.a. samþykktu þróuð ríki að veita að minnsta kosti 30 milljarða dollara árlega til þróunarríkja til að stuðla að líffræðilegum fjölbreytileika fyrir 2030. Lokasamþykktir fundarins eru sögulegar og hefur þeim verið líkt við það samkomulag sem náðist á sviði loftslagsmála árið 2015 við undirritun Parísarsáttmálans. Þrátt fyrir að um sé að ræða mismunandi aðildarríkjaþing er misvísandi að tala um loftslagsmál og líffræðilega fjölbreytni sem aðskilin málefni, því þau eru tvær hliðar á sama peningi. Þessi tengsl birtust hvað skýrast í matsskýrslu vinnuhóps 2 (AR6-WGII) hjá Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC), sem kom út í febrúar og fjallaði um afleiðingar loftslagsbreytinga, aðlögun og tjónnæmi.
Skýrsla IPCC
Í apríl kom svo út önnur matsskýrsla frá áðurnefndri Milliríkjanefnd SÞ um loftslagsbreytingar, að þessu sinni frá vinnuhópi 3 (AR6-WGIII), en þar var fjallað um mótvægisaðgerðir til að draga úr losun. Samkvæmt skýrslunni hefur hnattræn losun aukist og hefur hún í raun aldrei verið meiri, þótt hægt hafi á aukningu í losun. Mótvægisaðgerðir þurfa að margfaldast eigi alþjóðasamfélagið að eiga möguleika á að standast markmið Parísarsáttmálans.
Afgreiðsla á þriðja áfanga rammaáætlunar
Þriðji áfangi rammaáætlunar, þ.e. áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða, var loksins afgreiddur í júní. Lokaútkoman var óneitanlega umdeilanleg, sér í lagi sú ákvörðun að færa kosti sem verkefnisstjórn hafði sett í biðflokk í nýtingarflokk og sömuleiðis úr verndarflokki í biðflokk en ljóst er að þar laut náttúruvernd í lægra haldi. Einnig var samþykkt að stækkanir á virkjunum sem þegar eru í rekstri verði undanþegnar málsmeðferð rammaáætlunar, jákvætt skref sem hraðar framkvæmdum sem auka afkastagetu núverandi virkjanna.
Það er vissulega fagnaðarefni að loksins hafi tekist að samþykkja rammaáætlun eftir margra ára pattstöðu og liðka fyrir aflaukningu núverandi virkjana. Þó er enn að mörgu að huga í orkumálum en það skortir skýra framtíðarsýn sem og regluverk og aðgerðir til fylgja henni eftir. Líkt og Orkumálastjóri hefur ítrekað bent á, er nú engin trygging fyrir því að framtíðar raforka rati raunverulega í orkuskiptin. Til að eiga möguleika á að standast loftslagsmarkmið stjórnvalda sem og alþjóðlegar skuldbindingar þurfum við regluverk sem tryggir að framtíðar orku sé forgangsraðað í þágu orkuskipta.
Loftslagsdagur, Loftslagsfestival & Loftslagsverkfall
Tveir nýjir viðburðir litu dagsins ljós á árinu. Í maí stóðu Umhverfisstofnun og nokkrar samstarfsstofnanir fyrir fyrsta Loftslagsdeginum í Hörpu, en stefnt er á að gera hann að árlegum viðburði. Sömuleiðis urðu tímamót þegar fyrsta Loftslagsfestival Íslands fór fram á Menningarnótt, skipulagt af breiðfylkingu Loftslagsverkfallsins og átta öðrum samtökum. Hátíðarhöldin fóru fram á Austurvelli en þar var boðið upp á mat, drykki, tónlistaratriði og eldræður til að vekja athygli á því neyðarástandi sem ríkir vegna loftslagsbreytinga og ófullnægjandi aðgerðum íslenskra stjórnvalda í málaflokknum.
Þann 16. desember stóð svo Loftslagsverkfallið fyrir sínu tvöhundraðasta verkfalli. Loftslagsverkfallið er lengsta yfirstandandi verkfall Íslandssögunnar en við höfum staðið vaktina á Austurvelli hvern einasta föstudag í rúmlega þrjú og hálft ár (að samkomutakmörkunum undanskildum) til að mótmæla ófullnægjandi aðgerðum íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum. Ekki er laust við að mannskapurinn sé farinn að fyllast óþolinmæði en að þremur á hálfu ári liðnu erum við enn án heildrænnar stefnu í loftslagsmálum. Árangurinn er svo í samræmi við það, líkt og nýjustu skýrslur sýna svart á hvítu.
Framreikningar Umhverfisstofnunar
Í mars skilaði Umhverfisstofnun skýrslu um framreiknaða losun til 2040 til ESB fyrir hönd Íslands. Skýrslan sýnir að við eigum afar langt í land ef við eigum að ná settum loftslagsmarkmiðum.
Íslensk stjórnvöld stefna á 55% samdrátt í losun sem flokkast undir beina ábyrgð Íslands (ESR) árið 2030, samanborið við 2005. Hins vegar sýna framreikningarnir að við munum einungis ná 28% samdrætti miðað við núgildandi aðgerðir.
Einnig er áhugavert að setja framreikningana í samhengi við markmið stjórnvalda um kolefnishlutleysi 2040 en það virðist enn langsóttara í ljósi niðurstaðna Umhverfisstofnunar. Framreikningarnir sýna að nettóheildarlosun, miðað við núgildandi aðgerðir, mun einungis verða 10% lægri árið 2040 en árið 2005, sem er langt frá þeim 100% samdrætti í nettólosun sem kolefnishlutleysi felur í sér.
Álit Loftslagsráðs
Í júní gaf Loftslagsráð út álit þar sem ítrekað var að loftslagsaðgerðir íslenskra stjórnvalda væru ekki í samræmi við viðvaranir Milliríkjanefndar SÞ um loftslagsbreytingar. Líkt og kemur fram í álitinu eru markmið stjórnvalda um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fram til 2030 óljós og ófullnægjandi og framkvæmd aðgerðaáætlunar ómarkviss.
Slíkum fullyrðingum verður að taka alvarlega, en ljóst er að hljóð fylgir ekki mynd er kemur að markmiði stjórnvalda að gera Ísland leiðandi í loftslagsmálum. Við höfum vissulega sett okkur háleit markmið, 55% samdráttur í losun á beinni ábyrgð fyrir 2030 (m.v. 2005) og kolefnishlutlaust og jarðefnaeldsneytislaust Ísland árið 2040. Hins vegar er enn á huldu hvernig við ætlum að ná þessum markmiðum og líkt og nýjustu skýrslur sýna eigum við afar langt í land. Án skilgreiningar á (og loks framkvæmd) þeirra aðgerða sem þarf að ráðast í eru þau lítils virði, við þurfum að láta verkin tala.
2023, ár hugrekkis í loftslagsmálum?
Ljóst er að árið sem er að líða var viðburðaríkt hvað varðar loftslagsmál, en hér hefur verið stiklað á stóru um afleiðingar loftslagsbreytinga, samtvinnun þeirra við líffræðilegan fjölbreytileika, ákall vísindasamfélagsins og almennings um breytingar, mikilvæga áfangasigra sem unnust á innlendum og alþjóðlegum vettvangi og, síðast en ekki síst, hvar eru tækifæri til að gera betur.
Um áramót horfa flest til framtíðar og mörg setja sér markmið. Því er ekki úr vegi að spyrja hvers konar framtíð við viljum og hvort við séum tilbúin að ráðast í þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru til að sú framtíðarsýn verði að veruleika. Þegar 2023 gengur í garð eru aðeins tvö ár til 2025, ársins þegar hnattræn losun má í seinasta lagi ná hámarki, og einungis sjö ár til 2030 þegar hún þarf að hafa dregist saman um 43% miðað við 2010. Það er því löngu orðið of seint fyrir lítil skref, tími kerfislægra breytinga er runninn upp. Góðu fréttirnar eru að við getum nýtt þær umbreytingar sem þarf að ráðast í ekki einungis til að skapa samfélag sem lifir af í síhlýnandi heimi, heldur betra samfélag en það sem við búum í núna. Valið er okkar og til alls er að vinna. Látum 2023 einkennast af hugrekki í loftslagsmálum!
Höfundur er umhverfis- og auðlindafræðingur, forseti Ungra umhverfissinna og fulltrúi í Loftslagsráði.