Samgöngur á landi – í hinu stóra samhengi orku- og auðlindadrifins skattkerfis

Árni B. Helgason fjallar um hin ýmsu áhrif er orku- og auðlindagjöld myndu hafa á rekstur samgangna – og á hin ýmsu önnur svið þjóðlífs og atvinnulífs – að hinu gamalgróna tekjuskattskerfi upprættu.

Auglýsing

Grein þessi er fram­hald grein­ar­innar Sam­göngur á landi – undir orku- og auð­linda­drifnu skatt­kerfi sem birt­ist í Kjarn­anum 12. nóv­em­ber s.l. Til glöggv­unar á hinu stóra sam­hengi skatt­heimtu – yfir höfuð að tala – verður litið til hinna ýmsu fleiri greina þjóð­lífs og atvinnu­rekstrar en sam­gangna einna.

Verður meðal ann­ars spurt að hinu eig­in­lega hlut­verki opin­berra álaga, hvort það snúi ein­göngu að öflun fjár til opin­bers rekstrar – per se – hvort þá sem sagt einu gildi hvað sé haft af hverjum eða hverjir séu und­an­þegn­ir, sama hve órétt­látar heimt­urnar kunni að vera. Eða á hinn bóg­inn hvort svo stór­felld mis­munun kunni bein­línis að vera mark­mið í sjálfu sér, að jafna mætti marg­vís­legum afleið­ingum skatt­heimt­unnar við stuld, enda helgi ein­beittur til­gang­ur­inn þá algjör­lega með­al­ið. Að jafn­vel svo sjálf­stæð ríki sé að finna í rík­inu að þau séu nán­ast und­an­þegin álög­um, enda sé hvort eð er yfrið nóg af vel­ferð­ar­þegnum til að rísa undir byrð­un­um.

Sjáv­ar­út­vegs­þáttur

Ind­riði H. Þor­láks­son, hag­fræð­ingur og fyrrv. rík­is­skatt­stjóri, rit­aði nýverið þrjár afar áhuga­verðar greinar í Kjarn­ann, undir sam­heit­inu Fisk­veiði­auð­lindin og þjóðin, þar sem hann fjallar um hluta­skipti í sjáv­ar­út­vegi, með höf­uð­á­herslu á þann hluta arðs­ins af sjáv­ar­auð­lind­inni sem nefndur hefur verið auð­lind­arenta. Að mati Ind­riða er renta þessi einn af þremur meg­in­hlutum þess virð­is­auka sem verði til í sjáv­ar­út­vegi – auk þess hlutar sem laun telji ann­ars veg­ar, að með­töldum launa­kostn­aði, og hins vegar þess hlutar sem feli í sér vergan hagnað fjár­magns­eig­enda. Að allur annar rekstr­ar­kostn­aður telj­ist því til aðfanga – til aðfanga­kostn­aðar – og þar af leið­andi til virð­is­auka ann­ars rekst­urs en sjáv­ar­út­vegs­ins.

Ind­riði kemst að þeirri nið­ur­stöðu að á árunum 2010 til 2020 hafi auð­lind­arentan numið um 47 millj­örðum króna að með­al­tali á ári, en það svarar til tæp­lega fimmt­ungs árlegs verð­mætis sjáv­ar­af­urða, sem var um 240 millj­arðar króna, til jafn­aðar reiknað yfir allt 11 ára tíma­bil­ið. Eða með hans eigin orðum í grein tvö, af alls þrem­ur:

  • Á árunum 2010 til 2020 voru tekjur af sölu sjá­v­­­ar­af­­urða sam­tals 2.640 mrd. kr. [til jafn­aðar 240 millj­arðar króna á ári.] Að frá­­­dregnum aðfanga­­kostn­aði var eftir virð­is­­auki að fjár­­hæð 1.709 mrd. kr. Í hlut launa komu 920 mrd. kr. Hluti fjár­­­magns var 270 mrd. kr. og afgang­inn alls 519 mrd. kr. var að rekja til auð­lind­­ar­inn­­ar. – Auð­lind­­arenta í sjá­v­­­ar­út­­­vegi var sam­­kvæmt þessu alls 519 mrd. kr. á tíma­bilnu, 47 mrd. kr. á ári að með­­al­tali, tæp 20% af sölu­verð­­mæti sjá­v­­­ar­af­­urða. Nið­­ur­­staða þessi er í sam­ræmi við þrjár rann­­sóknir sem vitnað er til. Auð­lind­­arenta er óum­­deil­an­­lega mikil í sjá­v­­­ar­út­­­vegi á Íslandi. Eigna­­söfnun eig­enda íslenskra sjá­v­­­ar­út­­­vegs­­fé­laga á síð­­asta ára­tug er einnig birt­ing­­ar­­mynd þess. (IHÞ: Fisk­veiði­auð­lindin og þjóðin, grein nr. tvö – sbr. einnig greinar IHÞ nr. eitt og nr. þrjú)

Sam­kvæmt þessu hefur virð­is­auk­inn numið um 155 millj­örðum króna á ári – til jafn­aðar ár hvert á tíma­bil­inu 2010 til 2020 (1.709/11 = 155). Hefði því mátt ætla að hluta­skiptin hefðu þá orðið u.þ.b. þessi, ár hvert til jafn­að­ar, sam­kvæmt ofan­greindu: Laun og launa­tengdur kostn­aður um 84 millj­arðar (þar af um 26 millj­arðar í skatta, sbr. töflu hér að neð­an), verg fjár­magns­renta eig­enda um 25 millj­arðar (þar af um 10 millj­arðar í skatta, sbr. töflu hér að neð­an) og auð­lind­arent­an, sem sagt hlutur þjóð­ar­inn­ar, um 47 millj­arðar króna.

En svo sem Ind­riði lýsir í lok greina­flokks­ins, í lok þriðju greinar sinn­ar, þar sem hann dregur saman nið­ur­stöður sín­ar, þá er reyndin allt önn­ur, horft yfir þetta 11 ára tíma­bil, ár hvert til jafn­að­ar: Laun ásamt launa­tengdum kostn­aði hafa vissu­lega numið um 84 millj­örðum króna, en verg fjár­magns­renta eig­enda hvorki meira né minna en um 65 millj­örðum króna! Auð­lind­arent­an, sem sagt hlutur þjóð­ar­inn­ar, hefur því ein­ungis numið um 7 millj­örðum króna, til jafn­aðar ár hvert…

Skipting tekna og tekjuskatta í sjávarútvegi – til jafnaðar ár hvert á tímabilinu 2010 til 2020 – að frádregnum u.þ.b. 85 milljarða króna árlegum aðfangakostnaði. SKJÁSKOT: Tafla 5 í þriðja hluta greinaflokks Indriða H. Þorlákssonar, Fiskveiðiauðlindin og þjóðin.

Það er mat Ind­riða að 65 millj­arða króna ofur­tekjur fjár­magns­eig­enda feli í sér um 40 millj­arða króna oftek­inn hlut á kostnað rétt­mætra eig­enda auð­lind­ar­inn­ar. Vergur hlutur fjár­magns­eig­enda skyldi því fremur hafa numið um 25 millj­örðum króna og hreinn hlutur þeirra eftir skatta þá öllu nær um 15 millj­örðum króna. Auð­lind­arentan og þar með veiði­gjöldin hefðu þá einmitt numið um 47 millj­örðum króna – en ekki ein­ungis um 7 millj­örð­um…

Ef öllu hefði verið til skila haldið myndu opin­ber gjöld – tekju­skatt­ar, trygg­inga­gjald og veiði­gjöld – því alls hafa numið um 83 millj­örðum króna í stað um 43 millj­arða. Þar af hefðu álögur vinnu­afls numið 26,3 millj­örð­um, fjár­magnsálögur um 9,6 millj­örðum og auð­lind­arentan um 47 millj­örðum króna.

Svo ágætur sem greina­flokkur Ind­riða er, og sann­ar­lega þarft inn­legg í ann­ars afar fátæk­lega og oft á tíðum býsna ein­streng­ings­lega umræðu, þá er samt spurn­ing hvort ekki væri eðli­leg­ast að líta á auð­lind­arent­una sem aðfanga­kostnað – líkt og t.d. leigur af landi, skip­um, bif­reið­um, fast­eignum eða af hvers kyns hlunn­ind­um, t.d. fyrir not af reka, fugla­bjargi eða æða­varpi, skyldu vera bók­færðar sem aðfanga­kostn­aður leigu­taka ann­ars vegar en sem vergur virð­is­auki leigu­sala hins veg­ar.

Með nákvæm­lega sama hætti og hafn­ar­gjöld, er renna til eig­enda hafn­anna, sem renta af rekstri þeirra, hljóta að vera færð sem aðfanga­kostn­aður í bók­haldi útgerð­ar­manns, til sam­svar­andi lækk­unar á virð­is­auka hans. Með sama hætti og veggjöld, t.d. af fisk­flutn­inga­bíl útgerð­ar­manns, hlytu að vera færð til bókar sem aðfanga­kostn­aður útgerð­ar­inn­ar, þá bók­staf­lega svar­andi til virð­is­auka okk­ar, eig­enda sam­göngu­mann­virkj­anna, eðli­lega að frá­dregnum öllum kostn­aði okkar (hins opin­bera) við rekstur mann­virkj­anna.

Vissu­lega vaknar þá sú spurn­ing hvort skattar og yfir­leitt öll opin­ber gjöld, sama hvers kyns eru, skyldu ekki ein­fald­lega fær­ast til bókar sem hver annar aðfanga­kostn­aður hjá hverjum og einum – svo ótví­rætt sem álög­urnar einmitt mynda allan vergan virð­is­auka hins opin­bera þjóð­fé­lags­rekstr­ar…

Það er vissu­lega stór spurn­ing hvernig hinn vísi bók­hald­ari Luca Paci­oli hefði brugð­ist við þessu álita­máli, hvað þá hag­fræð­ing­arnir Adam Smith og Karl Marx, hver og einn á sína vísu, hver og einn á sinni tíð – hvað þá ef uppi væru nú, velt­andi fyrir sér því öllu meira álita­máli, hvort jafn­vel væri ekki orðið tíma­bært að stokka upp hin ýmsu fleiri spil­in…

Mögu­lega myndi Paci­oli ein­fald­lega hafa sagt, ein­falda, ein­falda, ein­falda, en Smith ein­fald­lega spurt – hvaða opin­beri rekst­ur? Eðli­lega, enda vart um nokkurn slíkan rekstur að ræða á hans tíð nema þá ef væri mynt­slátt­an, svo algjör­lega sem slátta krún­unnar var þó og er háð afar tak­mark­aðri aðals­á­byrgð – en ekki rík­is­ins. Marx hefði þó lík­lega leyst málið á hinn allra ein­faldasta máta: Ríkið – það erum við! Við erum öll sem eitt, við þurfum því ekk­ert bók­hald… Vive la révolution!

Afar einfölduð mynd af mögulegum millivegi margvíslegra sjónarmiða gagnvart skattheimtu – að gefnum 5 til 10 ára aðlögunartíma, sbr. megindálkana þrjá, miðsvegar í bókhaldinu. Höfð er hliðsjón af núverandi skattkerfi, með tilliti til jafnaðarlegs rekstrarreiknings áranna 2010 til 2020, sbr. dálkana þrjá til hægri. TAFLA: ÁBH – með hliðsjón af greinaflokki Indriða H. Þorlákssonar, Fiskveiðiauðlindin og þjóðin.

Að væntri for­skrift Paci­oli er orku- og auð­linda­drifnu skatt­kerfi hér lýst með sem ein­földustum hætti. Smith væri mögu­lega nokkuð sáttur við mark­mið þess, væri hann uppi nú á dög­um, svo algjört eitur í beinum hans sem þau voru, gömlu bræðra­lags­gild­in, og hvort þá ekki væru það, ein­ok­un­ar­hringirnir nú á dög­um, öll þau systra- og bræðra­lög­in, svo vel sem vel­ferð­ar­ríkið kynni líka að falla að kenn­ingu hans um sið­ferð­is­kennd­irn­ar. Ef Marx hefði lifað allar bylt­ingar sín­ar, væri hann vafa­laust heldur far­inn að mildast, karl­inn, jafn­vel svo að hann sæti þá á rök­stólum með Smith gamla, þeir mögu­lega að bolla­leggja með Paci­oli hver skyldi nú vera ein­faldasta fram­setn­ing­in…

Allar opin­berar álögur – hverju nafni sem þær nefn­ast – fær­ast að lokum til gjalda hjá neyt­end­um. Gildir þá einu hvers kyns álög­urnar eru – tekju­skatt­ur, trygg­inga­gjöld, fjár­magnstekju­skatt­ur, veiði­gjöld, orku­gjöld, kolefn­is­gjöld, umhverf­is­gjöld, virð­is­auka­skattur – allt saman fær­ist að lokum til reikn­ings í buddu neyt­and­ans. Að öðrum kosti hlyti hið opin­bera – ekk­ert síður en orku­frekur aðall­inn – að lifa sjálf­stæðu lífi, alls óháð neyt­endum og þar með alls óháð kjós­end­um.

Vilji manna – vinnu­afls jafnt sem fjár­magns­eig­enda – til þátt­töku í sjáv­ar­út­vegi, ræðst af af þeim hreina virð­is­auka sem til skipt­anna er að greiddum öllum aðfanga­kostn­aði – að þar með töldum öllum opin­berum álög­um. Líkt og á raunar við um öll umsvif manna, á hvaða rekstr­ar­sviði sem er.

Veiði­gjöld – fyrir aðgang að auð­lindum jarðar – myndu í raun ráð­ast af fram­boði fisk­veiði­heim­ilda, sem sagt útgefnum heim­ildum hins opin­bera, og hins vegar af eft­ir­spurn þeirra er afla veið­innar og vinna afurð­irn­ar. Þeim mun meiri eft­ir­spurn, miðað við ákveðið fram­boð, þvi hærri væru gjöld­in. Þeim mun lægri væru þau á hinn bóg­inn sem eft­ir­spurnin væri minni.

Veiði­gjöld réð­ust því alfarið af áhuga manna á veiðum og vinnslu. Líkt og á raunar við um allan rekst­ur, að fram­boð vinnu­afls og fjár­magns ræðst af þeim kjörum sem rekstr­ar­arð­ur­inn – virð­is­auk­inn – felur í sér, jafnt af laun­aðri vinnu sem af vinnu fjár­magns. Þeim mun minni gróða­von, því lægri væru gjöldin – en þeim mun hærri væru þau ella.

Orku­gjöld – fyrir aðgang að orku jarðar – myndu hvetja til orku­sparn­að­ar, sem er þeim mun brýnni sem orku­öfl­unin er nátt­úru­frek­ari eða óvænni líf­rík­inu. Gildir þá nán­ast einu hve hrein orkan kann að vera, hvort sem unnin er fyrir vatns­afl, vindafl eða sól­ar­afl, hún er nátt­úru­frek fyrir því og nán­ast alltaf fremur óvæn umhverf­inu, ekki síður en vinnsla jarð­varma, hvað þá þegar líf­rænt elds­neyti á í hlut, jafnt sem hver þau önnur orku­ferli sem ógna eða hamla líf­rík­inu.

Kolefn­is­gjöld – fyrir spill­ingu loft­hjúps jarðar – hamla gegn brennslu á jarð­efna­elds­neyti en hvetja til notk­unar á hreinum orku­gjöf­um. Paci­oli hefði hér mögu­lega viljað leggja ríka áherslu á mik­il­vægi þess í öllum reikn­ings­skilum rekstr­ar, að horfa ekki bara til nútíð­ar, heldur að horfa jafn­framt svo langt fram á veg­inn sem draga mætti lær­dóm af for­tíð­inni, jafn­vel svo langt að hin tor­skildasta þáskil­daga­tíð mætti lýs­ing­ar­hætti mögu­legra fram­tíð­ar­vona, jafn­vel þó að það flækti bók­haldið ofur­lítið um hríð, sér í lagi á meðan þessi ógn­vekj­andi spill­ing hefði ekki verið upp­rætt…

Auglýsing
Afnám tekju­skatta og trygg­inga­gjalda styrkir stöðu vinnu­afls gagn­vart órétt­mætri ofur­fram­leiðni, svo ofur und­an­þegin sköttum og skyldum sem mjög tækni­vædd fram­leiðni hefur löngum ver­ið. Afnám sam­svar­andi tekju­skatta á fjár­magns­eig­endur ein­faldar alla yfir­sýn yfir rekstur og gerir því fleirum kleift að fást við og skilja rekstur en sér­fræð­inga­hirð nán­ast einni. Sér­fræði skatta­laga og und­an­skota frá sköttum myndi reyndar heyra til lið­inni tíð, nánast, nema þá einna helst á sviði veiði­þjófn­að­ar, orku­þjófn­aðar og spill­ingar nátt­úr­unnar og and­rúms­lofts­ins, auk þess vissu­lega sem varð­aði virð­is­auka­skatts­svik, svo lít­ill sem hvat­inn þó væri, gagn­vart ein­ungis 13% altækum álögum á hreinan virð­is­auka undir orku- og auð­linda­drifnu skatt­kerfi.

Óvæntur virð­is­auki félli raunar vinnu­afli og fjár­magns­eig­endum í skaut á flestum sviðum þjóð­lífs og atvinnu­rekstrar – þá er litið væri til æ minni afskrifta ann­ars vegar og hins vegar til þeirrar bylt­ingar hug­ar­fars­ins sem nið­ur­brot allrar morknu laga­steypunnar leiddi af sér, sem sagt að upp­rættri allri þeirri miklu spill­ingu, enda ætti sér­fræði­hirðin þá líka fótum fjör að launa.

Rekstr­ar­reikn­ingur vel­ferð­ar­inn­ar… á heims­vísu… á lands­vísu…

Undir orku- og auð­linda­drifnu skatt­kerfi myndu afskriftir vega svo miklum mun minna í þjóð­hags­reikn­ing­um, og hvort þá ekki í heim­ils­bók­hald­inu – sem öllu jöfnu er ann­ars að mestu und­an­skil­ið! – að hrein afkoma þjóð­anna myndi raunar batna til mik­illa muna. Enda jafn­gilti æ betri end­ing orð­inna hluta þá raunar batn­andi hag, sem sagt hag­vexti.

Ekki ein­ungis myndi nýt­ing auð­linda og allra­handa hrá­efna batna, og virð­ingin þar með vaxa fyrir nátt­úr­unni – jafnt sem fyrir orðnum hlutum – heldur myndi bættur hagur ekki síður birt­ast í mun skil­virk­ari þjón­ustu hins opin­bera, enda myndi meg­in­drag­bít­ur­inn, tekju­skattar og trygg­inga­gjöld, allar þær yfir­gengi­legu álögur hins opin­bera á sjálft sig, ekki vera lengur til stað­ar, heldur nær ein­ungs 13% virð­is­auka­skatt­ur, er tæki raunar til allra sviða þjóð­ar­bú­skap­ar­ins, án und­an­tekn­inga.

Reikn­ings­leg hlut­deild hins opin­bera í heild­ar­rekstr­inum myndi reyndar skreppa svo saman – að alls óhagg­aðri en þó mun skil­virk­ari þjón­ust­unni – að hún lægi öllu nær því að telja þriðj­ung allrar heildar fremur en sem næst helm­ing, líkt og nú er þjóð­hags­reikn­ings­leg raunin í flestum vel­ferð­ar­ríkj­um, með þeim afleið­ingum að bók­fært virði lands­fram­leiðslu í heild myndi lækka að skapi, þrátt fyrir veru­lega aukið raun­virði

Súluritin tvö sýna muninn á skattkerfum tveimur í allra grófustu mynd. Athuga ber að lækkun hlutdeildar lífeyrisgjalda úr u.þ.b. 8% í u.þ.b. 6% stafar einungis af afnámi tekjuskatta, án minnstu skerðingar á raunvirði gjalda og greiðslna. Hér er einungis horft til afskrifta samkvæmt þjóðhagsreikningum. Að meðtöldum öllum hingað til vanreiknuðum afskriftum, ekki síst í heimilisbókahaldi, myndi munurinn vera talsvert meiri. SÚLURIT: ÁBH

Um súlu­ritin tvö, sjá nánar grein höf­und­ar: Herra­garð­ur­inn – óðal aðals eða orkubú jarð­ar­búa?

Undir orku- og auð­linda­drifnu skatt­­kerfi dregur veru­­lega úr þeim ofur­sköttum sem hið opin­bera leggur ann­­ars á sjálft sig undir hefð­bundnu, tekju­drifnu kerfi. Marg­­feld­is­á­hrif alls þess furð­u­­lega spuna, þar sem drýgsti hluti lands­fram­­leiðsl­unnar hring­­sólar lát­­laust úr einum vasa hins opin­bera yfir í annan (sem sagt álögur hins opin­bera á sitt eigið skinn, sjálfu sér til fram­­færslu!) myndu dvína svo mjög, að bók­­fært virði lands­fram­­leiðsl­unnar myndi drag­­ast saman um a.m.k. fjórð­ung – frá því að vera um 3.000 millj­­arðar króna í um það bil 2.250 millj­­arða, án þess þó að raun­virði fram­­leiðslu og þjón­­ustu hefði að nokkru leyti verið skert, hvað þá heldur þjón­usta hins opin­bera…

Nokkrir helstu bókhaldslyklar orku- og auðlindadrifins skattkerfis – að teknu dæmi af Íslandi. Innleiðing kerfisins tæki e.t.v. um 5 til 10 ár, allt þó eftir vilja þings og þjóðar – og styrk fjötranna – veikleika alls hins aflóga tekjudrifna kerfis. Bókfært virði landframleiðslu myndi lækka verulega frá því sem það er nú, þrátt fyrir aukna raunframleiðslu – og þjónustu – einfaldlega vegna hærra raunvirðis fjármagnsins, af völdum bættrar nýtingar þess. LYKLAR: ÁBH

Vog­ar­aflið: Afnám álaga á tekjur og hagn­að, ásamt lækkun virð­is­auka­skatts á flestum svið­um, myndar rekstr­ar­á­bata til mót­vægis orku- og auð­linda­gjöldum

Tekju­skattar (að með­töldum frest­uðum líf­eyr­is­skött­um) og trygg­inga­gjöld, nema u.þ.b. þriðj­ungi af launum og launa­tengdum gjöldum ein­stak­linga (sbr. m.a. rík­is­reikn­ing 2019 og lands­fram­leiðslu­yf­ir­lit Hag­stof­unnar sama ár, enda Covid-­tíma­bilið almennt fremur vill­and­i). Gróft á litið nemur hlut­fallið um 20% af allra lægsta heild­ar­launa­kostn­aði en um 40% af hinum hæsta, eða hart­nær þriðj­ungi af heild­ar­launa­kostn­aði flestra.

Þar til við­bótar nemur virð­is­auka­skattur af öllum launa­kostn­aði oft­ast 24% en ella 11% – ein­ungis að und­an­skyldum flestum greinum opin­bers rekstrar og hinum ýmsu fleiri greinum almanna­heilla, aðal­lega á sviði menn­ing­ar- og vel­ferð­ar­mála, sem greiða þó yfir­leitt virð­is­auka­skatt af flestum aðföng­um.

Taflan hér að neðan – hér end­ur­birt, til nán­ari skýr­ing­ar, frá nið­ur­lagskafla fyrri greinar – gefur grófa hug­mynd um ábata sam­göngu­rekstrar í kjöl­far afnáms tekju­skatta og trygg­inga­gjalda og lækk­unar virð­is­auka­skatts úr 24% á flestum einka­reknum sviðum í 13%, sem myndi þá eiga við á öllum svið­um, án und­an­tekn­inga. Ábat­inn myndi ann­ars vegar leiða til lægri kostn­aðar af sam­göngu­rekstri en hins vegar vega á móti álögðum veggjöldum og kolefn­is­gjöldum – sem ítar­lega var um fjallað í fyrri grein­inni, Sam­göngur á landi – undir orku- og auð­linda­drifnu skatt­kerfi – á alveg sam­svar­andi máta og afnám álaga á tekjur myndi vega á móti álögðum gjöldum á sjáv­ar­út­veg, líkt og á öllum öðrum svið­um, allt eftir vægi gjald­anna.

Til ein­föld­unar er fyrst og fremst litið til þess hluta ábatans er lýtur að afnámi eða lækkun skatta af launum atvinnu­bíl­stjóra, að með­töldum þeim ýmsu (þá oft­ast í flokkum öku­tækja M1 og N1, sbr. fremsta dálk töfl­unn­ar) er bera önnur starfs­heiti en t.d. leigu­bíl­stjóri eða sendi­bíl­stjóri, sbr. t.d. hina ýmsu vega- og lög­gæslu­að­ila, pítsu­send­la, iðn­að­ar­menn í útrétt­ingum og marg­vís­lega fleiri sem starfs síns vegna verja drjúgum hluta vinnu­tíma síns undir stýri.

Auglýsing
Er þá reyndar ótal­inn allur sam­svar­andi ábati er lýtur að lækkun kostn­aðar af launum bif­véla­virkja og bif­reiða­sölu­manna og hinna ýmsu fleiri, er jafn­framt hefði bein áhrif til lækk­unar rekstr­ar­kostn­aðar öku­tækja, auk þess sem afnám skatta af stjórn­un­ar­á­lagi og afnám skatta af eig­infé rekstrar myndi telja – en allir rekstr­ar­þætt­irnir sam­an­lagð­ir, að með­töldum öllum aðfanga­kostn­aði, mynda þann grunn sem útseld vinna eða vara, fram­leiðsla eða þjón­usta, tekur ávallt mið af, að við­bættum virð­is­auka­skatti, þar á meðal útseldur akst­ur.

Heild­ar­á­bat­inn næmi því ekki ein­ungis þeim u.þ.b. 40 millj­örðum króna sem taldir eru fram í töfl­unni (sbr. rauð­lit­að), er lúta að vægi launa­kostn­aðar öku­manna fyrst og fremst, heldur öllu nær 50 millj­örðum króna ef allt væri talið, og þó að lík­indum eitt­hvað á sjötta tug millj­arða. Er þá ótal­inn sam­svar­andi ábati almennra bif­reiða­eig­enda af lækkun virð­is­auka­skatts af nýjum bif­reiðum og vara­hlut­um, auk þess sem nemur lækkun skatta af sölu­á­lagn­ingu, sem og af sam­svar­andi lækkun við­halds­kostn­að­ar, sem sagt af vinnu bif­véla­virkja, og þar með jafn­framt ábat­inn af lækkun trygg­inga­ið­gjalda, auk þess sem t.d. lækkun á gjald­skrám stræt­is­vagna, leigu­bíla og sendi­bíla myndi ekki síður telja gagn­vart not­endum þeirrar þjón­ustu, að sínu leyti, svo drjúgt sem launa­kostn­aður nú vegur á meðal þeirra greina.

Veggjöld og kolefnisgjöld í ljósi u.þ.b. 40 milljarða króna rekstrarábata samgangna vegna afnáms tekjuskatta og tryggingagjalda atvinnubílstjóra og lækkunar virðisaukaskatts um 11% á allflestum sviðum (úr 24% í 13%). Heildarábatinn lægi þó öllu nær 50 milljörðum króna, að teknu tilliti til samsvarandi afnáms álaga á laun bifvélavirkja, bifreiðasölumanna og á hagnað þeirra ýmsu greina er tengjast samgöngurekstri, að ótöldum öllum ábata almennra bifreiðaeigenda. TAFLA: ÁBH

Sam­kvæmt launa­yf­ir­liti Hag­stof­unnar fyrir árið 2021 námu „reglu­leg heild­ar­laun“ atvinnu­bíl­stjóra um 650 þús. kr. að með­al­tali (sbr. lið Hag­stofu-­yf­ir­lits­ins nr. 832) – sem svarar til u.þ.b. 771 þús. kr. heild­ar­launa­kostn­aðar á mán­uði en um 465 þús. kr. í útborguð laun, sam­kvæmt Payda­y-­laun­reikn­inum.

Þegar á heild­ina er litið nemur hlutur opin­berra gjalda um 205 þús. kr. og frestaðra skatta af líf­eyr­is­greiðslum e.t.v. um 25 þús. kr. sem svarar alls til um 230 þús. króna álaga hins opin­bera á mán­uði (um 30% af allri heild), sem jafn­gildir u.þ.b. 2,7 millj­ónum króna á ári. – Hér í töfl­unni eru álög­urnar leiddar í grófum dráttum af mis­mun­andi launum bif­reiða­stjóra eftir eðli akst­urs og öku­tækja, sbr. liði nr. 8322 til 8324 í yfir­liti Hag­stof­unn­ar, með þeirri nið­ur­stöðu að álög­urnar sem falla myndu niður – líkt og hjá öllum laun­þegum með sam­svar­andi laun – liggi á bil­inu 2,3 til 3 millj­ónir króna á ári, til jafn­að­ar. En heilt yfir allt sam­fé­lagið litið hlytu samn­ingar um laun og kjör að vera end­ur­skoð­aðir með hlið­sjón af gjör­breyttu skatt­kerfi, sem og þá ekki síður allur gjald­stofn­inn til útreikn­ings á útseldri vinnu – að því gefnu að heil­brigð sam­keppni væri lögð til grund­vallar en ekki hel­ber fákeppn­in, ein­ok­un­in…

Fjöldi árs­verka í hverjum flokki öku­tækja byggir ein­ungis á grófu mati, ekki síður en matið á mis­mun­andi laun­um. Hvað varðar öku­tækja­flokk­inn M1, fólks­bif­reiðar 8 far­þega eða færri, má ætla að árs­verk leigu­bíl­stjóra séu e.t.v. um 1.000 og að þar til við­bótar séu að minnsta kosti 1.500 árs­verk af ýmsum toga unnin að drýgstum hluta undir stýri, sbr. áður nefnt, sem er áreið­an­lega ekki ofmat – að fjöldi árs­verka í þessum flokki sé því að algjöru lág­marki um 2.500 (burt­séð frá heild­ar­fjölda ein­stak­ling­anna að baki). Má raunar ætla að árs­verkin séu van­metin í öllum flokkum öku­tækja, jafn­vel all­nokk­uð.

Ekki er nú greiddur virð­is­auka­skattur af akstri leigu­bíla né af akstri t.d. opin­berra eft­ir­lits- og lög­gæslu­að­ila, né heldur af rekstri almenn­ings­vagna. Af rekstri hóp­ferða­bif­reiða er svo ein­ungis greiddur 11% en ekki 24% skattur sem er ann­ars meg­in­reglan á flestum einka­reknum svið­um. Ábati vegna lækk­unar VSK úr 24% í 13% myndi því ekki skila sér í þessum greinum hvað launin varðar heldur fyrst og fremst að því er snýr að veggjöldum og kolefn­is­gjöldum (og orku­kaupum o.fl. sem ekki er litið til á þessu stig­i). Með hlið­sjón af því er ábat­inn í þessum öku­tækja­flokkum (M1, M2 og M3, sbr. dálk lengst t.v.) því áætl­aður (áætl.) að hluta hvað virð­is­auka­skatt­inn varðar (sbr. dálk lengst t.h.).

Þegar á allt er litið – á álögur veggjalda og kolefn­is­gjalda og hins vegar til ábatans sem stafa myndi af afnámi og lækkun skatta (að meðt. afnámi núv. elds­neyt­is­gjalda og kíló­metra­gjalds) – þá má nokkuð ljóst vera að heild­ar­út­gjöld vegna flestra atvinnu­öku­tækja myndu lækka svo um mun­aði, jafn­vel veru­lega, og þá þeim mun frekar sem þau eru eru létt­ari og minni (sbr. flokka M1 og N1 og raunar drjúgan hluta M2 og N2). Enda telur launa­kostn­aður þeim mun hlut­falls­lega meira af heild­ar­rekstr­ar­kostn­aði sem þyngd og fyr­ir­ferð bif­reiðar er minni – og þar með jafn­framt ábat­inn af gjör­breyttu skatt­kerfi – þrátt fyrir að launin séu þá almennt heldur lægri en fyrir stjórn hinna stærri og þyngri öku­tækja.

Engu að síður myndi ábat­inn af afnámi og lækkun skatta vega svo drjúgt á móti veggjöldum og kolefn­is­gjöldum af hinum stærri öku­tækj­um, í flokkum M3 og N3, að rekstr­ar­kostn­aður í heild myndi í mörgum til­fellum lækka all­nokkuð frá því sem nú er raun­in. Það væru fyrst og fremst mjög stór­virk og þung öku­tæki, þar sem launa­kostn­aður vegur að til­tölu einna minnst (al­veg þver­öf­ugt við t.d. leigu­bíla og sendi­bíla), sem myndu bera svip­aðar álögur og nú, eða meiri – hvað þá mjög mikið keyrð öku­tæki. Og þá vissu­lega þeim mun frekar, eðli máls sam­kvæmt, sem miklir og þungir eft­ir­vagnar ættu í hlut, hvað þá hinar þung­lama­leg­ustu sanda- og fjalla-­flutn­inga-vagn-­lest­ir, sbr. ekki síst flokk O4, svo sára­litlar sem álög­urnar á þau öku­tæki eru nú.

Skyldi þá jafn­framt hafa í huga að allur launa­kostn­aður vegna vinn­unnar við ferm­ingu og afferm­ingu, t.d. hjá Sam­skip og Eim­skip, myndi ekki síður lækka en kostn­að­ur­inn af launum bíl­stjór­anna, sem og ekki síður allur umsýslu­kostn­að­ur, verg eig­in­fjár­krafan (ath. hrein krafa = verg krafa mínus skatt­ar) og þá raunar heild­ar­vaxta­byrðin líka (ath. hreinir vextir = vergir vextir mínus skatt­ar).

Að því gefnu að heil­brigð sam­keppni ríki í sam­göngu­rekstri – sem og þá í öllum öðrum rekstri, hvort sem er í lofti, á láði eða á legi – hlyti ábat­inn af afnámi tekju­skatta og lækkun virð­is­auka­skatts á flestum sviðum að leiða af sér sam­svar­andi ábata við­skipta­vina, og þar með að lok­um, að því er vænta mætti, á enda virð­is­keðj­unn­ar, að leiða myndi til bættra lífs­kjara allrar heild­ar­inn­ar.

Að öðrum kosti væri vart um auð­legð þjóðar að ræða heldur fyrst og fremst gróða orku­að­als, sægreifa og allra­handa lorda og lafða, er litu svo á rík­ið, að það sner­ist ein­ungis um ein­hver vér um oss frá oss til vor – alls án til­lits til allrar rík­is­heild­ar­inn­ar!

Orku­þáttur

Sala olíu á Íslandi nam um einni milljón tonna á ári fyrir Covid (Hag­stof­an: Olíu­notkun 1982-2020) og má raunar gera ráð fyr­ir, nú þegar hillir undir árið 2023, að salan sé nán­ast komin í fyrra horf. Orkan sem losnar við bruna alls þessa elds­neyt­is, sem sagt á árs­grund­velli, svarar til um 43 þús. tera­jou­la, sem jafn­gildir um 12 ter­awatt­stundum (TWst). Hart­nær þriðj­ungur brennsl­unn­ar, gróft á litið um 4 TWst, hefur verið nýttur til rekst­urs bif­reiða­flota lands­manna, sem svarar til um 4ra millj­arða kílówatt­stunda (KWst). Enn grófar á litið má e.t.v. gera ráð fyrir að góður þriðj­ungur þess hafi verið nýttur til rekst­urs atvinnu­bif­reiða, sem svara myndi til u.þ.b. 1,5 millj­arða KWst.

Enn sem komið er vegur raf­orku­notkun bif­reiða­flot­ans svo lítið að vart tekur því að reikna hana með. Með algjörum umskiptum yfir í hrein orku­ferli – hreint raf­magn, hreint vetni og við­líka – má hins vegar ætla að heild­ar­orku­þörf alls flot­ans muni minnka um að minnsta kosti helm­ing, eða jafn­vel allt að 2/3 hlut­um. Svo miklu betri er almennt nýt­ing hreinna orku­gjafa, sem sjá má m.a. af því að orku­þörf raf­magns­bíla nemur gróft á litið vart meira en um þriðj­ungi á við sam­svar­andi bíla sem knúnir eru bruna­hreyflum – slík sem er þá líka gnótt varma­orkunn­ar, sem sleppur óbeisluð út í and­rúms­loftið við brun­ann, og hvort þá ekki ofgnótt koltví­ild­isauðg­un­ar­innar jafn­framt…

Með upp­töku almenns orku­gjalds – sbr. töfl­una yfir bók­halds­lykla orku- og auð­linda­drif­ins hér aðeins ofar í grein – má gera ráð fyrir að álögur á orku til marg­vís­legs rekst­urs og almennra nota, þ.á.m. til rekst­urs öku­tækja, vinnu­véla, skipa og flug­véla af öllu tagi, myndu e.t.v. nema um 5 kr/KWst (að nið­ur­felldum núv. elds­neyt­is­gjöld­um). Gróft á litið myndi það fela í sér um 20 millj­arða króna gjald­töku af öku­tækj­um, þar af e.t.v. um 8 millj­arða króna af atvinnu­bif­reið­um.

Í reynd myndi orku­gjald af brennslu­olíu og bens­íni vera lagt á hvern lítra eða tonn – við inn­flutn­ings- eða fram­leiðslu­dyr. Magná­lagið væri háð orku­í­gildi hinna ýmsu teg­unda, alls óháð notk­un, sölu­ferli eða upp­runa (hvort sem inn­flutt væri eða heima­gert), sama hvort elds­neytið nýtt­ist flug- eða vega­sam­göng­um, sigl­ing­um, útgerð, iðn­aði eða hverju sem væri öðru. And­stætt við t.d. núver­andi bens­ín- og olíu­álögur væri gjaldið því almennt og því eigi eyrna­merkt einu eða neinu, ekki frekar en á öðrum orku­sviðum – vatns­orku, jarð­varma, vind- eða sól­ar­orku – og mætti raunar líta á gjaldið sem fram­leiðniskatt, líkt og hin ýmsu fleiri gjöld, er liggja myndu tekju­stofnum vel­ferð­ar­rík­is­ins til grund­vall­ar. Það væri og alveg undir selj­endum orkunnar kom­ið, af hvaða tagi sem orkan ann­ars væri, hvaða áhrif gjaldið hefði á sölu­verð, á það end­an­lega orku­verð er öllu jöfnu ræðst jafn­framt af dreif­ing­ar­kostn­aði og þó ekki síður af kaup­vilja, stórra sem smárra kaup­enda, allt eftir eðli orku­nýt­ingar á heild­sölu- eða smá­sölu­mark­aði.

Auglýsing
Að loknum orku­um­skipt­um, frá jarð­efna­elds­neyti til hreinnar orku (sem sagt ekki koltví­ild­isauð­g­andi orku), myndi orku­þörfin hafa skroppið svo saman á öllum þeim sviðum sem nú byggja á brennslu­olíu og bens­íni, að næmi vart nema um helm­ingi eða jafn­vel þriðj­ungi af því sem hún er nú, svo miklum mun betri er nýt­ing hreinnar orku á flestum svið­um. Til marks um það þá er varma­orka 1 lítra bens­íns um 9 KWst en dísilolíu um 10 KWst, en þar af nýta bens­ín­hreyflar vart nema um þriðj­ung orkunnar en dísil­bílar e.t.v. um 2/5 hluta hennar í allra skásta falli. Afgang­ur­inn hverfur sem ónýttur varmi – sem alls ónýtt orka – út í and­rúms­loft­ið. Orku­nýtni raf­hreyfla liggur á hinn bóg­inn nær því að vera algjör þegar best læt­ur.

Að því gefnu að orku­þörf raf­knú­inna fólks­bíla að heild­ar­þyngd um 2 tonn sé til jafn­aðar um 20 KWst pr. 100 km og að þörf sam­svar­andi bíla með bruna­hreyfli sé um 60 KWst pr. 100 km, myndi 5 króna orku­gjald pr. kílówatt­stund jafn­gilda um 1 kr/km fyrir raf­bíl­inn en um 3 kr/km fyrir bruna­hreyf­ils­bíl­inn, til við­bótar við um 11 kr/km í veggjöld, auk um 2ja til 3ja króna kolefn­is­gjalda fyrir síð­ar­nefnda bíl­inn (sbr. um fjallað í fyrri grein). Orku­gjald af 26 tonna vöru­bíl með bruna­hreyfli, er eyddi u.þ.b. 6-falt meiri orku en fólks­bíll með sam­svar­andi hreyfli, myndi þá vera u.þ.b. 18 kr/km – til við­bótar við um 100 kr/km í veg­gjald og um 15 kr/km í kolefn­is­gjöld.

Gjöldin er féllu á vöru­bíll­inn myndu þá nema til sam­ans um 133 kr/km, sem myndi jafn­gilda alls um 3,3 millj­ónum króna á ári miðað við 25 þús. km akstur á ári (sbr. til­vitn­aða töl­fræði Sam­göngu­stofu – um 26 tonna með­al­þyngd vöru­bíla í flokki N3 og 25 þús. km með­alakstur á ári – í töfl­unni hér að ofan, sem og í töflum í fyrri grein). En á móti kæmi u.þ.b. 3ja millj­óna króna ábati af völdum afnáms tekju­skatta og trygg­inga­gjalda og um 0,8 millj­ónir af völdum lækk­unar virð­is­auka­skatts úr 24% í 13% (sbr. töfl­una hér að ofan), alls um 3,8 millj­ónir króna.

3,3 millj­óna króna gjöldin af 26 tonna vöru­bílnum myndu sem sagt vega hálfri milljón króna minna en 3,8 millj­óna króna rekstr­ar­á­bat­inn, þá reyndar að ótöldum ábat­anum er hlyt­ist af lækk­uðu verði á þjón­ustu bif­véla­virkja og bif­reiða­sölu­manna og sam­svar­andi lækkun á umsýslu­kostn­aði og vergri ávöxt­un­ar­kröfu eign­ar­að­ila. Það væri með öðrum orðum ekki fyrr en að eknum e.t.v. um 30 til 35 þús. kíló­metrum sem gjöldin færu fyrst að telja… þó vissu­lega allt eftir því hvort um væri að ræða drátt­ar­bíl með tengi­vagni, enda myndu veggjöldin af vagn­inum þá jafn­framt telja, auk þess sem næmi gjöld­unum af við­bót­ar­orkunni sem drátt­ur­inn krefð­ist.

Leigu­bíl­stjóri á raf­bíl myndi sam­kvæmt ofan­sögðu greiða 11 kr/km í veggjöld og 1 kr/km í orku­gjöld, alls 12 kr/km, sem jafn­gilda myndi um 0,7 millj. króna króna álögum á ári miðað við 60 þús. km árlegan akst­ur. Sam­svar­andi bruna­hreyf­ils­bíll myndi hins vegar bera 11 kr/km í álögð veggjöld, 3 kr/km í orku­gjöld og um 3 kr/km í kolefn­is­gjöld, alls 17 kr/km, sem svara myndi til um 1 millj. króna álaga á ári miðað við jafn­mik­inn akst­ur, um 60 þús. km.

Á móti kæmi um 2,3 millj­óna króna ábati af völdum afnáms tekju­skatta og trygg­inga­gjalda bíl­stjór­ans, auk e.t.v. 0,2 millj­óna króna vegna lækk­aðs verðs á þjón­ustu bif­véla­virkja o.fl., sem og lægri umsýslu­kostn­aðar o.þ.h. – alls e.t.v. um 2,5 millj­ónir króna. Hins vegar myndu útgjöld aukast að álögðum 13% virð­is­auka­skatti (sem er nú 0% af akstri leigu­bíla), sem svar­aði e.t.v. til 0,9 millj­óna króna við­bót­ar­á­laga á ári, að frá­dregnum inn­skatti. Heild­ar­á­bat­inn næmi því u.þ.b. 1,6 millj­ónum króna (2,3+0,2-0,9=1,6), afar gróft á lit­ið, sem sagt að eknum 60 þús. km á ári, á móti u.þ.b. 0,7 millj­óna króna álögum á rekstur raf­bíls­ins. Vart þarf að meta hinn kost­inn, slíkur sem hvat­inn væri fyrir eig­anda bens­ín- eða dísil­bíls­ins að skipta yfir á raf­bíl, þá ekki síður í ljósi þess hve hreint raf­orku­verð, að frá­dregnum opin­berum álög­um, myndi vera miklum mun hag­stæð­ara en hreint bens­ín- eða olíu­verð, að frá­dregnum sam­svar­andi álög­um.

Að því gefnu að heil­brigð sam­keppni ríki, hlytu taxtar leigu­bíla að lækka, jafn­vel all­veru­lega, sem og taxtar miðl­ungi stórra vöru­bíla all­nokkuð – m.a. að teknu til­liti til þeirra olíu­á­laga sem eru nú í gildi en falla myndu niður að upp­teknu orku- og auð­linda­drifnu skatt­kerfi. Svo algjör sem hvat­inn væri þó jafn­framt til umskipta yfir í hreina orku, að teknu til­liti til alls.

Þjóðvegakerfið árið 2017, alls 12.901 km, auk ferjuleiða. Þar af telja stofnvegir (rauðar línur) 4.410 km og tengivegir (grænar línur) 3.393 km. KORT: Vegakerfið 2017. Vegagerðin

Virði sam­göngu­mann­virkja, rekstur þeirra og afleiddur kostn­aður

Sam­kvæmt rík­is­reikn­ingi 2021 nam virði sam­göngu­mann­virkja í rík­i­s­eigu, að frá­töldum hafn­ar- og flug­mann­virkj­um, um 660 millj­örðum króna. Með hlið­sjón af árs­reikn­ingi Reykja­vík­ur­borgar má ætla að virði gatna­kerfa í eigu allra sveit­ar­fé­laga lands­ins liggi gróft á litið nærri 90 millj­örðum króna (vænt­an­lega að und­an­skyldu virði drýgsta hluta veitu­kerfa, und­ir­liggj­andi í göt­u­m). Öll slík mann­virki hins opin­bera, er varða vega­sam­göngur í heild sinni, kunna því að vera um 750 millj­arða króna virði, gróft á lit­ið, að hafðri hlið­sjón af árlegu mati stofn­ana hins opin­bera m.t.t. virð­is­rýrn­un­ar, sem er almennt byggt á áætl­aðu end­urstofn­virði að frá­dregnum upp­söfn­uðum afskrift­um. En áætlað end­urstofn­virðið (ný­virð­ið) liggur nærri rúmum 1.000 millj­örðum króna, svo afar var­færn­is­legt sem það mat hlýtur þó að vera – jafn­vel svo að fremur bæri að líta á það sem raun­virði.

Gatna­gerða­gjöld sveit­ar­fé­laga eru ein­greiðslur sem leiddar eru af nýbygg­ingum og er þeim ætlað að standa undir hvers­konar nýrri gatna­gerð – ekki síður en undir við­haldi allra gatna (utan brauta í eigu rík­is­ins). Af því leiðir að sveit­ar­fé­lög sem búa ekki við stöðugan vöxt (fáar sem engar nýbygg­ing­ar) njóta engra sér­stakra tekna til að standa undir við­haldi gatna. Hér er því gert ráð fyrir að gatna­gerð­ar­gjöld myndu ein­göngu taka til nýfram­kvæmda, en að sveit­ar­fé­lög­unum væri markað ákveðið til­lag af rík­is­tekj­um, m.a. með hlið­sjón af veggjöldum og hlut sveit­ar­fé­laga í heild­ar­virði vega og gatna, til að standa straum af við­haldi og almennum rekstri sam­göngu­kerfa þeirra (eðli­lega að und­an­skyldum hlut veitu­stofn­ana).

Afskriftir ein­stakra þátta sam­göngu­mann­virkja eru æði breyti­legar – svo að numið geta allt frá 1% upp í 25% – allt eftir hinum ýmsu bygg­ing­ar­hlutum og ein­ing­um, hvort taki til und­ir­bygg­ing­ar, jöfn­un­ar­lags eða slit­lags vega, eða til brúa eða veg­ganga og hinna ýmsu hluta þeirra, eða til vegriða, umferð­ar­merk­inga og þar fram eftir göt­um.

Auglýsing
Að teknu til­liti til alls myndu vegnar raunaf­skriftir allrar heild­ar­innar vart verða vægar reikn­aðar en um 2,5% til 3% að algjöru lág­marki – sem svara myndi til um 20 millj­arða króna á ári (eða öllu nær 25 til 30 millj­örðum króna miðað við nývirði) – sem sam­svar­aði þá jafn­framt því árlega við­haldsfé sem öllu jöfnu mætti ætla að þörf væri á til að við­halda fyr­ir­liggj­andi sam­göngu­mann­virkjum ríkis og sveit­ar­fé­laga – sem sagt að u.þ.b. 750 millj­arða króna heild­ar­virði (eða öllu nær 1.000 millj­örðum króna að nývirði) – svo góðum og nýt­an­leg­um, að í besta falli væru þau á hverjum tíma sem næst jafn góð og ný…

Líkt og raun­ar, á sinn hátt, á við um allar vel við haldnar bygg­ingar (þá jafnan að miðað er við 2% afskrift­ir, svo vel sem þær end­ast öllu jöfnu) – að nota­gildið er almennt óháð því hvort eign­irnar séu komnar til ára sinna eða jafn­vel alda, líkt og t.d. Húsið á Eyr­ar­bakka eða Alþing­is­hús­ið, eða þær séu fremur nýleg­ar, líkt og t.d. Harpan eða fjöld­inn allur Búseta­eigna, svo örfá dæmi séu tek­in.

Til við­bótar afskrift­un­um, sem jafna má sem sagt til reglu­legs við­halds, má gera ráð fyrir að árlegur rekstr­ar­kostn­aður ásamt minni­háttar skamm­tíma­við­haldi næmi að lág­marki um 20 millj­örðum króna ef allt væri reiknað – að öllu því með­töldu sem felur í sér almennan rekstur Vega­gerð­ar­inn­ar, Sam­göngu­stofu og ann­arrar sam­göngu­stjórn­sýslu, ríkis jafnt sem sveit­ar­fé­laga, sem og allra­handa vega- og umferð­ar­eft­ir­lit, innan bæja sem utan, lög­gæslu á veg­um, og raunar býsna drjúgan hluta rekst­urs björg­un­ar­sveita, sem og snjó­mokstur og annað vetr­ar­við­hald (er telur eigi lít­ið), við­hald girð­inga, við­hald veg­stika og skilta, gatna­hreinsun og hreinsun nið­ur­falla (er æði mörg eru nú yfir­leitt stífl­uð!), umsjón með umferð­ar­ljósum og allra­handa veg­stýr­ing­um, sem og sem sagt allt til­fallandi skamm­tíma- og bráða­birgða­við­hald – auk þess sem stuðn­ingur við rekstur almenn­ings­sam­gangna kallar og kalla mun á, stuðlandi ekki síst að greið­ari sam­göngum allrar heild­ar.

Þá er eftir að líta til alls þess sam­fé­lags­lega kostn­aðar sem hlýst af umferð­ar­slysum, sem er tal­inn nema um 60 millj­örðum króna á ári, til jafn­að­ar, sam­kv. skýrslu Sam­göngu­stofu um Umferð­ar­slys á Íslandi 2021 (bls. 85), sem vart mun ofá­ætlað (m.a. í ljósi áhrifa covid-ár­anna til lækk­un­ar). Þar af má e.t.v. ætla, m.a. með hlið­sjón af árs­reikn­ingum trygg­inga­fé­lag­anna 2021, að kostn­aður af lög­bundnum og frjálsum öku­tækja­trygg­ingum nemi um 40 millj­örðum króna. Mis­mun­ur­inn, um 20 millj­arðar króna, er þá gróft á litið það verð sem ein­stak­ling­ar, heil­brigð­is­kerfið og almanna­trygg­ingar gjalda fyrir allra­handa tjón og slys­farir af völdum umferð­ar­innar – til við­bótar trygg­ing­ar­ið­gjöldum – og verða alvar­leg slys, örorka og dauði þó seint metin svo til fjár að til enda verði reikn­að.

SÚLURIT: Samgöngustofa; skýrslan Umferðarslys á Íslandi 2021 (bls. 85). Athuga ber að Covid hefur haft allnokkur áhrif til lækkunar á árunum 2020 og 2021, svo mjög sem þá dró úr umferð á löngum tímabilum.

Að öllum þessum þáttum athug­uðum – afskrift­um, er svara myndu til um 20 millj­arða króna við­halds­kostn­að­ar, almennum rekstri, er svar­aði einnig til um 20 millj­arða króna, og sam­fé­lags­legum kostn­aði af völdum slysa, er svar­aði jafn­framt til um 20 millj­arða króna (að ótöldum tjóna­trygg­ingum öku­tækja) – þá má ætla að kostn­aður hins opin­bera af umferð­inni nemi a.m.k. 60 millj­örðum króna á ári (sem sagt auk þeirra u.þ.b. 40 millj­arða króna sem fólgnar eru í öku­tækja­trygg­ing­um), og er þá vissu­lega alls ótal­inn allur kostn­aður við nýfram­kvæmd­ir!

En væri veggjöldum öll­um, þeim 60 millj­arða króna árlegu gjöld­um, sem hér hefur verið gert ráð fyr­ir, jafn­framt ætlað að mæta kröfum um hinar ýmsu nýfram­kvæmdir og bættar sam­göngur byggða og á milli – og þá ekki síður um bætt öryggi á vegum – þá væri sem sagt ekk­ert eftir til slíkrar ráð­stöf­un­ar…

En nýfram­kvæmdir hafa ann­ars, hin allra sein­ustu ár, numið um 15 til 20 millj­örðum króna á ári, en þeim mun almennt minna sem lengra er skyggnst aftur í tím­ann, svo æði mörg þau eru orð­in, óleystu verk­efn­in, sem hafa hlað­ist upp fyrir vik­ið…

Skýrsla Sam­taka iðn­að­ar­ins, Inn­viðir á Íslandi 2021 -- ástand og fram­tíð­ar­horfur, sem og ekki síður hin fyrri skýrsla sam­tak­anna frá 2017, dregur upp býsna dökka mynd af áætl­aðri upp­safn­aðri við­halds­þörf þjóð­vega, sem sagt vega og brauta í eigu rík­is­ins og vega og gatna í eigu sveit­ar­fé­laga, sbr. m.a. bls. 9 og 31 í skýrsl­unni. Áætla höf­undar að upp­söfnuð við­halds­þörf þjóð­vega nemi um 110 millj­örðum króna og að sam­svar­andi við­halds­þörf sveit­ar­fé­laga­vega sé um 50 til 70 millj­arðar – að van­rækt við­halds­þörfin í heild nemi því um 160 til 180 millj­örðum króna.

Þó að mörkin milli við­halds og nýfram­kvæmda séu iðu­lega nokkuð óljós, og að ein­hverju leyti megi því ætla að matið á við­halds­þörf­inni feli í sér a.m.k. brýn­ustu nýfram­kvæmd­ir, má engu að síður ljóst vera að um ræðir vega­fram­kvæmdir er kynnu að krefj­ast eitt­hvað á þriðja hund­rað millj­arða króna í fjár­veit­ingar á allra næstu árum – þá jafn­framt í ljósi brýnna nýfram­kvæmda á hinum ýmsu þétt­býl­ustu slóð­um, er varða bæði almenn­ings­sam­göngur og skil meg­in­um­ferða­æða frá íbúa­byggð, sem og þó ekki síður í ljósi aðkallandi nýfram­kvæmda á vegum um land allt, að ekki sé þá minnst á hinar ýmsu afskipt­ustu byggðir sem löngum hafa setið á hak­an­um.

Auglýsing
Það hljóta því að vera áhöld um, hvort þau veggjöld, sem hér hefur verið gert ráð fyr­ir, um 60 millj­arðar króna á ári, séu ekki alltof lágt metin – hvað þá í ljósi alls rekstr­ar­á­batans til mót­væg­is, er leiða myndi af afnámi tekju­skatta og trygg­inga­gjalda og lækkun virð­is­auka­skatts um hart­nær helm­ing á flestum svið­um.

Hlýtur það ekki ann­ars að vera lág­marks­krafa að sam­göngu­kerfið í heild sinni, þetta eitt hið fram­leiðni­væddasta svið þjóð­ar­bú­skap­ar­ins, standi a.m.k. undir útgjöldum sjálfs sín vegna? Líkt og ekki síður er gerð krafa um gagn­vart fjar­skipta­net­um, dreifi­kerfum raf­orku, hita- og kalda­vatns­veit­um, frá­veitum o.fl. o.fl. – svo sem þeir sam­svar­andi reikn­ingar gefa til kynna, er allir þeir sem reka heim­ili eða fyr­ir­tæki fá yfir­leitt í hendur mán­að­ar­lega. Eða því skyldi ekki hvert og eitt slíkt kerfi standa undir sér fjár­hags­lega?

Það verður því vart annað séð en að árleg veggjöld þyrftu að nema a.m.k. 80 millj­örðum króna, að minnsta kosti á meðan verið væri að vinda ofan af stærsta kúf van­ræksl­unn­ar. Sam­kvæmt því þyrfti gjaldið fyrir hvern ekinn tonn-km að vera um 8,4 krónur – til jafn­aðar – í stað 6,3 króna, sbr. nán­ari umfjöllun um veggjöldin í fyrri grein höf­und­ar, Sam­göngur á landi – undir orku- og auð­linda­drifnu skatt­kerfi, þ.á.m. um þá gjald­þyngd sem lögð væri til grund­vall­ar, og um þau áhrif til hækk­unar og lækk­unar sem breyti­legt umferð­ar­á­lag og afslátt­ar­kjör hefðu frá degi til dags, frá einum tíma til ann­ars.

Sam­göngur á landi – gjald­taka og rekstr­ar­á­bati í stórum dráttum

Sam­kvæmt því sem í greinum þessum hefur verið um fjallað myndu álögur á sam­göngur vera um það bil þessar í heild sinni undir orku- og auð­linda­drifnu skatt­kerfi, að því gefnu að fremur væri miðað við hin hærri mörk veggjalda:

80 millj­arðar króna í veggjöld, um 11 millj­arðar króna í kolefn­is­gjöld og um 20 millj­arðar króna í orku­gjöld, auk e.t.v. um 12 millj­arða króna í vöru­gjöld af inn­flutn­ingi bif­reiða, sem alls myndi svara til um 123 millj­arða króna, eða sem næst 140 millj­örðum króna að með­töldum 13% virð­is­auka­skatti.

Á móti kæmi rekstr­ar­á­bati af völdum afnáms tekju­skatta og trygg­inga­gjalda og lækk­unar virð­is­auka­skatts á flestum svið­um, er næmi e.t.v. um 40 millj­örðum króna hvað öku­menn atvinnu­bif­reiða varð­aði og um 10 millj­örðum króna er leiddar væru af öðrum sam­svar­andi ábata við rekstur atvinnu­öku­tækja, vægt áætl­að, eða sem svar­aði alls til um 50 millj­arða króna, sbr. í greinum þessum marg­um­fjall­að. Þar til við­bótar kæmi svo hinn ýmsi ábati almennra bif­reiða­eig­enda, þá m.a. af lækkun launa­kostn­aðar bif­véla­virkja, að trygg­inga­ið­gjöld lækk­uðu þar með einnig, sem og hin ýmsu þjón­ustu­gjöld, auk þess sem næmi lækkun virð­is­auka­skatts af nýjum bif­reiðum um 11 hund­raðs­hluta, úr 24% í 13%, sem og þá sam­svar­andi af vara­hlutum og trygg­ing­um. Ef þessi ábati almennra bif­reiða­eig­enda næmi alls um 25 millj­örðum króna, vægt áætl­að, væri því alls um 75 millj­arða króna ábata að ræða (50 ma kr + 25 ma kr) vegna afnáms og lækk­unar skatt­heimtu hvað sam­göngur á landi varð­aði.

Um 140 millj­arða króna heild­ar­álögur að frá­dregnum um 75 millj­arða króna ábata svarar til alls um 65 millj­arða króna, sem myndi þá jafn­gilda þeirri eig­in­legu skatt­heimtu af sam­göngum á landi undir orku- og auð­linda­drifnu skatt­kerfi – er bera mætti saman við það sem nú er af sam­göngum heimt. Þeir 65 millj­arðar króna myndu þá sem sagt vera sú fjár­hags­stærð, afar gróft á lit­ið, sem væri hæf til sam­an­burðar við það sem hið opin­bera heimtir nú af þeim sama skatt­stofni…

Samkvæmt samantekt FÍB námu skattar af bifreiðum og umferð 80 milljörðum króna árið 2018, nánar um fjallað í Býtinu á Bylgjunni 8. febrúar 2019 kl. 10 (+ 1 klst, 45 mín, 35 sek.), sbr. frétt FÍB. SKJÁSKOT: Hluti fréttar á vef FÍB 12.02.2019

Sam­kvæmt frétt á vef Félags íslenskra bif­reiða­eig­enda í febr­úar 2019 (sjá hér), sem höf­undur vís­aði jafn­framt til í fyrri grein (sbr. kafl­ann Útúr­dúr eða hjá­­leið að kjarna máls­ins…), námu skattar af bif­reiðum og umferð 80 millj­örðum króna árið 2018, og má þó svo skilja á frétt­inni að þar með sé vissu­lega ekki allt talið, jafn­vel ekki virð­is­auka­skatt­ur­inn... Hvað þá að með séu taldar him­in­gnæfar álög­urnar af völdum tekju­skatta og trygg­inga­gjalda og…

Hve dæmi­gert þetta ár kann að vera, skal ósagt um lát­ið, svo miklar eru efna­hags­sveifl­urnar sem löngum hafa snert sam­göngur sem önnur svið þjóð­lífs, að ekki sé þá talað um áhrifin af Covid hin síð­ari ár. En nokkuð ljóst má þó vera að hrein skatt­heimta – að öllu athug­uðu – myndi sann­ar­lega ekki aukast á sviði sam­gangna undir orku- og auð­linda­drifnu skatt­kerfi frá því sem hún er nú og hefur verið löng­um.

Jafn ljóst má jafn­framt vera að orku- og auð­linda­drifið skatt­kerfi myndi hvetja til slíks orku­sparn­aðar á öllum sviðum þjóð­lífs og atvinnu­lífs, og hvort þá ekki til orku­skipta hvar­vetna þar sem jarð­efna­elds­neyti er nú nýtt sem orku­gjafi, að í stað hálof­legra fyr­ir­heita kæmi ein­fald­lega ríku­legur hvati til að haf­ast að. Að ekki sé þá talað um hvern og einn ein­stak­ling, hvern og einn sam­fé­lags­þegn, og þá næstum því hvern ein­asta atvinnu­rekst­ur, allt það hand­verk, hug­verk og vél­verk er leyst væri úr viðjum skatta­á­þjánar – hve margir fengju ein­fald­lega um frjálst höfuð strok­ið, lausir undan dilka­drætti, him­in­hróp­andi mis­munun og ofríki léns­drottna, allrar þeirrar ofur­með­virku hirðar frí­heit­anna. Svo mjög sem af orku­aðl­inum væri þá dreg­ið.

Enn um hinn sam­fé­lags­lega reikn­ings­skap… á heims­vísu, á lands­vísu…

Fram­lög til við­halds og rekstrar hins opin­bera, og þá til sam­göngu­mann­virkja þess sem hvers ann­ars, helg­ast fyrst og fremst af póli­tískum vilja – af póli­tískri stefnu­mótun við öflun fjár og útdeil­ingu fjár – sem tekur þó miklu síður mið af eig­in­legri veg­ferð vel­ferð­ar­sam­fé­lags­ins, hvað þá til langs tíma lit­ið, en af væntri veg­ferð sjálfra póli­tíku­s­anna, svo sam­ofin sem veg­ferð sú hefur löngum verið vilja drottn­ara þeirra.

Því skyldi ann­ars réttur einna vera bor­inn fyrir borð á for­sendum arð­ráns og atkvæða­veiða, þá lík­ast því sem jafnt atkvæða­vægi sé meit­lað svo í stein eða helgað af ritn­ing­unni, að einu gildi um landið og mið­in, allar auð­lind­irn­ar, allan fram­leiðni­gróð­ann, þegar hinir mæt­ustu félags-, hag- og þjóð­rétt­ar­fræð­ingar pré­dika slíkt jafn­ræði á alþjóða­þing­um, að atkvæða­vægi ein­stakra heims­borg­ara skipti raunar alls engu máli heldur ein­ungis land­fræði­legur réttur þjóða og rík­is­heilda til áhrifa­valds á heims­vísu, sama hve muna kunni þó marg­þús­und­falt á höfða­tölu ríkja, og hvort þá ekki á fram­lögum fjár til vel­ferðar og þró­unar afskipt­ustu hluta heims­byggð­ar­inn­ar…

Því skyldu þá ekki hinar ýmsu afskiptu byggð­ir, svo sem Vest­firð­inga og Grímsey­inga, helga sér sinn óskor­aða hlut í fisk­veið­lög­sög­unni og þá sam­svar­andi rétt til að ráða löndum og lýðum sér við­kom­andi – sjálfir – hvort sem varð­aði mennta­mál, heil­brigð­is­mál, almanna­trygg­ing­ar, almenn­ings­sam­göng­ur, vega­mál, vatns­afl, jarð­varma eða vind? Og þá ekki síður Mel­rakka­sléttu­búar og jafn­vel öll Langa­nes­byggð, hvort ekki gætu líka gripið tæki­færið, alveg klippt og skorið eftir ítr­ustu hug­mynda­fræði hinna göf­ug­ustu haf­rétt­ar-, lofts­lags- og mann­rétt­inda­sátt­mála, alls án íhlut­un­ar­réttar sér óvið­kom­andi jarð­ar­búa? Og jafn­vel Vest­manna­ey­ing­ar, að gætu séð sér leik á borði…

Vissu­lega gæti þá verið um sjálf­stjórn­ar­héruð innan rík­is­heildar að ræða, en líka sjálf­stætt banda­lags­ríki afskiptra og þó mögu­lega býsna vel­meg­andi byggða – þá að sjálf­gefnu með sama atkvæð­is­rétti og hver önnur ríki á alls­herj­ar­þingi Sam­ein­uðu þjóð­anna – sama sem sagt hvað hver ann­ars taut­aði eða raulaði um helgi atkvæða­vægis í sinni fjöl­mennu eða þétt­setnu heima­byggð…. eða þeim mun fjálg­legar um mik­il­vægi allrar efna­hags­lög­sögu, og hvort þá ekki hinnar ítr­ustu og allt­um­faðm­andi land­helgi!

Hve djúpt sokk­inn er ekki ann­ars kostn­að­ur­inn af sam­göngu­mann­virkjum öllum í heild? svo vísað sé, til orða­lags Gylfa pró­fess­ors Magn­ús­ar­son­ar, sbr. áður um fjallað í fyrri grein, um fest­ingar fjár í hinum ýmsu innvið­um. Að ekki væri þá minnst á her­kostn­að­inn af öllum land­helg­is­stríð­um! Hver hefur ann­ars löngum verið meg­in­upp­spretta fjár­ins, burt­séð frá því hve blóm­legan útskækil fjár­veit­inga­valdið kann að hafa valið sér til síns aðset­urs? Eða heilt yfir litið – til meg­in­upp­bygg­ingar rík­is­ins í heild? Hver hafa ann­ars sótt hvað til hvers? Hvað þá á alþjóða­vísu, hver skyldu hafa ásælst mest og grætt á hinum ann­ars afskipt­ustu byggð­um, þjóð­um, ríkj­um? Jafn­vel í krafti múta gagn­vart hinum hável­born­ustu póli­tíkusum…

Auglýsing
Hve auð­veld­lega gætu ekki ann­ars hinar ýmsu afskiptu byggðir kom­ist af sem sjálf­stætt banda­lags­ríki – ein­fald­lega ef þær kærðu sig um? Fámenn­ustu aðild­ar­ríki Sam­ein­uðu þjóð­anna, Tuvalu og Nauru, telja ein­ungis um eða eða innan við 11 til 12 þús­und manns hvort um sig, auk þess sem hið allra fámenn­asta allra ríkja, Vatíkan­ið, telj­andi ein­ungis rétt um 800 manns, vermir þar sæti í krafti áheyrn­ar­full­trúa síns, haf­andi þó jafn­framt til­lögu­rétt fyrir hönd millj­arða manns, a.m.k. sam­kvæmt próta­koll­in­um…

Byggðir Vest­firð­inga, Grímsey­inga, Mel­rakka­sléttu­búa og Lang­nes­inga, telja til sam­ans vart fleiri en um 11 til 12 þús­und manns, allt þó eftir því hvar línur væru nákvæm­lega dregn­ar, hvort t.d. með eða án Bakka­fjarðar og þá Bakka­flóa í heild. Hvað þá í öllu víð­tækari, land­fræði­legri skiln­ingi, að með­töldum 200 míl­unum öllum – öllum við­bót­ar­fermíl­unum lengst út við hið ysta haf! Og þá vissu­lega líka spurn­ing með Öxar­fjörð, Tjör­nes og jafn­vel Skjálf­anda, og hvort Vopn­firð­ingar myndu vilja fljóta með og Borg­firð­ing­ar, a.m.k. þeir eystri… Og jafn­vel Seyð­firð­ing­ar, Mjó­firð­ing­ar… Hve mjög væri þá ekki efld brjóst­vörnin þar eystra? Nema að Gerpir yrði sá grunn- og skurð­línu­punktur sem tek­ist yrði harð­ast á um frekar en Dala­tangi eða jafn­vel Flesjartangi? Sem sagt þeim megin frá séð – hvorum megin hryggjar sem Jök­ul­dæl­ing­ar, Hér­aðs- og Egils­staða­búar kysu ann­ars að lenda, nú eða á hinn bóg­inn þarna vestra, jafn­vel spurn­ing með Skarðs­strönd og Fells­strönd, að ekki væri þá talað um Flat­eyj­arnar báð­ar, vestra og nyrðra… Hvað svo aftur t.d. yrði um Bjarney­inga, eða yfir höfuð að tala, hver yrðu örlög Breið­firð­inga, Dala­manna og jafn­vel Hrút­firð­inga, Ásbirn­inga… Vissu­lega, eigi ólík­lega, mætti gera ráð fyrir vax­andi hrepp­aríg og ýmis­legum klofn­ingi sveit­ar­fé­laga og byggða…

Fisk­veiði­lög­saga slíks banda­lags­ríkis tæki í öllu falli yfir býsna góðan þriðj­ung núv. 200 mílna land­helgi íslenska rík­is­ins, og þó öllu nær helm­ingi, að hafðri hlið­sjón af hlut­falls­legu vægi feng­sælla fiski­miða, þannig séð, þá vissu­lega, eigi ólík­lega, að und­an­skil­inni smá bleiðu undan Norð­ur­landi, er helg­að­ist af grunn­línu­punktum skaga og táa móð­ur­lands­ins frá aust­an­verðum Húnaflóa að Axar­firði (eða frekar Skjálf­anda?) u.þ.b. miðj­um. Í ljósi land­fræði­legrar legu Kol­beins­eyjar og sögu­legra nytja Grímsey­inga af mið­unum þar allt um kring – raunar lengst aftur í ald­ir, raunar frá því löngu fyrir tíma ríkis Guð­mundar bisk­ups hins góða – helg­að­ist sá grunn­línu­punktur eðli­lega alfarið banda­lags­rík­inu, hvar sem ann­ars hinir ýmsu aðrir punktar og marka­línur nákvæm­lega féllu, er um væri samið… eða harðar yrði um barist…

Rauðleit brotalína: Möguleg lögsaga bandalagsríkis norðurhjarans. Skástrikuð sneið: Sterk staða Grímseyjar, jafnvel sem sjálfstæðs ríkis, helgast meðal annars af áhrifasvæði Kolbeinseyjar. Ljósleita punktalínusneiðin: Möguleg lögsaga Vestmannaeyja sem fullvalda greifadæmis. Grænir og bleikir deplar: Nokkrar helstu auðvalds- og orkustöðvar mæðra- og feðraveldisins. GRUNNKORT: Gæslan / Brotalínur og deplar: ÁBH

Rétt­ur­inn til veiða á þessum einum gjöf­ul­ustu fiski­miðum heims, sem nú er deilt út árlega nán­ast sem gjöf væri – og um er því ævin­lega deilt þeim mun harka­legar – er í öllu falli um 60 millj­arða króna árlegrar rentu virði, að algjöru lág­marki, gróft á lit­ið, í heild­ina tek­ið, slíkt van­mat sem það má þó vera, ekki síst í ljósi þeirrar eig­in­legu rentu sem sjálfir hand­hafar heim­ild­anna krefj­ast sér til handa er þeir bjóða sér úthlut­aðar gjaf­irnar falar hæst­bjóð­end­um.

Að því gefnu að frekar fleiri en færri byggðir kysu að fylgja banda­lags­rík­inu og það myndi því telja a.m.k. 12 til 14 þús­und manns, og að fisk­veiði­lög­saga rík­is­ins væri eftir því víð­tækari, kynni það að hafa um 25 til 30 millj­arða króna í árlegar lág­marks­tekjur af sölu veiði­heim­ilda, hámarkið þá sveifland­ist, allt eftir fiski­gengd og greiðslu­vilja sjáv­ar­út­vegs­ins hring­inn í kringum gjör­vallt sker­ið...

Tekjur af veiði­gjöldum einum kynnu því nema um 2 til 2,5 millj­ónum króna á hvern íbúa – sem sagt að lág­marki – sem svara myndi til um 6 til 7,5 millj­óna króna á hverja 3ja manna fjöl­skyldu. Gefur auga­leið að skatt­heimta slíks banda­lags­ríkis væri þá þegar orðin svo býsna vel mett að vænt­an­lega myndi nægja að inn­heimta orku­gjöld, kolefn­is­gjöld, veggjöld og umhverf­is­gjöld, þó ekki væri nema Sam­ein­uðu þjóð­anna vegna og skuld­bind­inga rík­is­ins gagn­vart heims­byggð­inni, auk fast­eigna­gjalda og erfða­fjár­skatts, til að endar tekna og gjalda hins opin­bera næðu örugg­lega sam­an. Vöru­gjöld væru þá raunar óþörf, og jafn­vel virð­is­auka­skatt­ur­inn... hvað sem þá ann­ars liði skatt­heimtu frænd­rík­is­ins, tekju­sköttum öll­um, trygg­inga­gjöldum og him­in­háum Arn­ar­hóls­vöxt­un­um, sem og þá tollum og vöru­gjöldum og svim­andi háum virð­is­auka­skatt­inum á flest­öllum svið­um, sem sagt þeim megin hryggjar…

Vissu­lega gætu Grímsey­ingar séð sér leik á borði og stofnað sitt eigið sjálf­stæða ríki, alveg einir og sér, er myndi þá vissu­lega verða smæsta aðild­ar­ríki Sam­ein­uðu þjóð­anna en jafn­framt örugg­lega hið mold­rík­asta – hvort sem tekið væri mið af vergri lands­fram­leiðslu á íbúa eða alls­herj­ar­þings-­at­kvæð­is­rétti (15-­földum á við til­lögu­rétt Vatík­ans­ins og 25-millj­ón­földum á við full­gilt atkvæði Kína) – án þess þó að þá klofið banda­lags­ríkið missti endi­lega svo stóran spón úr aski sín­um, slíkri gnægð feng­sælla miða sem það byggi samt sem áður að…

Þeir banda­lags­menn væru alla­vega ólíkt betur settir en Vest­mann­ey­ing­ar, ef þeir léku sama leik­inn og létu lang­þráðan draum greifynja sinna og greifa rætast, þá sem sagt út og suður allt að þeim ystu 200 mílna mörk­unum – sbr. köku­sneið­ina á sunn­an­verðum upp­drætt­inum hér að ofan, með hlið­sjón af þeim hér fyrir neðan – greifa­dæmið þá raunar vart með sjálf­gef­inn aðgang nema að örlitlu broti feng­sæl­ustu mið­anna, jafn­vel svo sett afla­rýr­ustu árin að varla feng­ist baun í bala… hvað sem nú ann­ars líður úthlutun hart­nær tíunda hluta allra afla­heim­ilda íslenska rík­is­ins til þeirra örfáu Eyjapæja og peyja sem löngum hafa setið að fengn­um…

Sókn íslenskra fiskiskipa á Íslandsmiðum árið 2015 – flokkuð eftir veiðarfærum. Gult, grænt = dreifð sókn. Blátt = miðlungs sókn. Rautt = mikil sókn. Svart = mesta sókn. Frá vinstri til hægri, efri röð: Skip sem nota botnvörpu / línu / handfæri /net. Neðri röð: Skip sem nota dragnót / rækju og humarvörpur / flotvörpu / nót. MYNDIR: Hafró 2016 – Nytjastofnar sjávar 2015/2016 og aflahorfur fiskveiðiárið 2016/2017, bls. 24 – www.hafogvatn.is/static/research/files/fjolrit_185.pdf

Þarf ann­ars Sturl­unga­öld til að binda enda á margra ára­tuga arð­rán og mis­skipt­ingu þess auðs sem rík­is­vald­inu hefur þó lengstum legið til grund­vallar sem sjálf­stæðs afls í sam­fé­lagi þjóða?

Hvers virði er ann­ars slíkt ríki sem mis­munar þegnum svo gróf­lega, að hinar opin­beru álög­ur, til rekst­urs rík­is­ins, taka fyrst og fremst til launa og launa­tengdra gjalda, sem sagt til brauð­strits­ins, en svo miklum mun síður til ávinn­ings af orku og auð­lindum – sem sagt til ávinn­ings af fram­leiðni – að ekki sé þá talað um allan fram­leiðni­gróð­ann af koltví­ild­isauðgun jarð­ar­inn­ar…

Fyrir vikið þríf­ast heilu frí­ríkin á meðal vor, reyndar slíkar auð­valds- og orku­stöðvar að við fátt verður líkt annað en herra­garða og léns­ríki aðals og hirðar fyrri tíma, slík sem eru skatt­fríð­ind­in, svo lítt sem rekstur vel­ferð­ar­sam­fé­lags kemur þá við sögu – nema sem sagt í tax-free sam­fé­lögum inn­múr­aðra frí­heit­anna.

En þyki svo sjálf­sagt að skipta skatt­tekjum af mannauði og t.d. sam­göngu­auði sem næst eftir þétt­leika byggða eða höfða­tölu – þá er að fjár­veit­ingum kemur – hvers vegna, yfir höf­uð, gildir þá ekki hið sama sjón­ar­mið gagn­vart sjáv­ar­auð­lind­um, orku­auð­lind­um, hinum marg­vís­legu nátt­úru­auð­lind­um? Sem sagt jafnt hvað varðar álögur sem fjár­veit­ingar hins opin­bera…

Því skyldu þá ekki hinar afskipt­ustu byggðir setja sér sín eigin lög og sína eigin stjórn­ar­skrá, til grund­vallar sínu eigin frí­ríki, ef þeim svo sýnd­ist, þó ekki væri nema með vísan til hinna marg­vís­leg­ustu haf­rétt­ar-, lofts­lags- og mann­rétt­inda­sátt­mála alþjóða­sam­fé­lags­ins? Hvernig sem sjálftöku gamla móð­ur­rík­is­ins þá ann­ars reiddi af, gróða­pungum öllum og gleðipinn­um, Skaups­ins stjórn­urum norðan sem sunnan heiða…

Auglýsing
Hver er ann­ars hvat­inn að öllum tví­skinnungn­um? Liggur heilög bók ríkjum til grund­vall­ar? Eða því skyldu t.d. Ásbirn­ing­ar, nú eða þá sam­herjar þeirra, eiga sér ein­hvern einka­rétt á að ræna og rupla björgum ann­arra fram á Kol­beins­eyj­ar­hrygg eða jafn­vel lengst vestur á Hala, jafn­vel allt út á Reykja­nes­hrygg og Rauða torg, og hvort þá ekki í öllum mögu­legum smug­um? Jafn­vel í því augna­miði einu að fá ginið yfir sem sjálf­virkustum sjoppu­rekstri sunnan heiða, as tax-free as possi­ble, svo alltof marg­slungin sem þau eru orð­in, kvóta­kaupin – og jafn­vel dýr­keypt! – jafn­vel þarna lengst suður í henni Namib­íu. Ellegar ein­hverjir álgreifar fái helgað sér sinn einka­rétt á heilu og hálfu heið­un­um, og hvort þá ekki heilu bæj­unum og hálfu sveit­un­um, til að mala sitt gráa gull, sinn tax-free gróða, kaup­fé­lögum sínum til upp­hafn­ing­ar, alþjóð­leg­ustu kaup­höll­unum til lofs og dýrð­ar… Jafn­vel skyldi heilu fjöll­unum fórnað og sönd­unum – og hvort þá ekki tax-free! – svo sjálf­sagt sem það þá líka sé að aka bók­staf­lega land­inu í burtu um nán­ast tax-free veg­ina.

Hvers virði eru ann­ars slík ríki sem bein­línis hvetja til ofur­fríð­inda á sumum sviðum en til þeim mun þyngri álaga á öðrum? Og eftir því sem fríð­inda­bú­skapnum vex ásmeg­in, og þá ágengnin gagn­vart nátt­úr­unni og afar tak­mörk­uðum auð­lindum jarðar á flestum svið­um, fyrir bless­un­ar­ríka náð og miskun Vatík­ans­ins – og hvort þá ekki hag­fræði- og heim­speki­deilda háskól­anna! – þeim mun æ þyngra vegur sem sagt brauð­stritið í kokka­bókum vel­ferð­ar­rík­is­ins, eðli tekju­skatt­kerf­is­ins sam­kvæmt.

Hverra eru ann­ars rík­in? Til hvers og til hverra var ann­ars til þeirra stofn­að?

Sama hve megi ann­ars deila um mark­mið og leið­ir, þá til­einkar höf­undur grein­arnar bar­áttu­mann­eskj­unni sem VAR, ER OG VERÐUR BIRNA (frá Borg­ar­firði eystra, sem sagt þeim eystri…)

Höf­undur er áhuga­­maður um auð­fræði, mann­líf og nátt­úru­vernd

Tit­il­mynd grein­ar­inn­ar: Sýn­is­horn bómull­ar­verka eftir Niraja Cheryl Lor­enz – sjá nán­ar: www.saqa.com/­art/juried-­artists/nira­ja-lor­enz

Fyrri hluti grein­ar­inn­ar, Sam­göngur á landi – undir orku- og auð­linda­drifnu skatt­kerfi, birt­ist í Kjarn­anum 12. nóv­em­ber 2022. Grein­arnar eru nátengdar greina­flokki höf­undar um Herra­garð­inn, sem birt­ist í Kjarn­anum á árunum 2020 til 2022 – sjá hér: 1. grein, 2. grein, 3. grein og 4. grein.

Ítar­efni:

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar