„Já, að sjálfsögðu sýnum við leikinn,“ segir sá sem er til svars á Otters bar, sportbarnum við rætur Kololo-hæðar, einni af sjö slíkum sem Kampala hóf að byggjast á við lok nítjándu aldar. Leikurinn sem um ræðir er allt að því draumkenndur í mínum huga.
Karlalandslið heimalandsins Íslands er að fara keppa í fótbolta við Úganda, landið sem ég hef margoft heimsótt síðasta áratuginn og bundist sterkum kærleiksböndum. Landslið þessara tveggja eftirlætis landa minna hafa aldrei áður att kappi. Þetta er sögulegur viðburður.
Þvílík tilviljun! hrópa ég nánast að manninum mínum þegar við erum lent í Úganda til þriggja mánaða dvalar og ég heyri af hinum fyrirhugaða leik. Eftir að hafa jafnað mig á þeim dulitlu vonbrigðum að leikurinn færi fram í Tyrklandi og að götur Kampala séu því ekki að fyllast af löndum mínum (að minnsta kosti ein stutt hliðargata) fer ég að leita logandi ljósi að veitingastað (lesist: bar) í nágrenninu til að fylgjast með leiknum. Ég sé fyrir mér eftirvæntingarfullt heimafólk, klætt hinum litríku landsliðstreyjum, skála í Tusker, Nile Special eða hinum íslensk ættaða Banange-bjór og hvetja sína menn til dáða.
Skál!
Maisha marefu!
Afya!
Vifijo!
Til að róa taugarnar fyrir leikinn fer ég út á svalir íbúðarinnar sem ég hef tekið á leigu og dáist enn einu sinni að útsýninu. Þarna er hún, Kampala. Borgin sem fékk nafn sitt eftir komu Breta á nítjándu öld. Þá voru hér að finna eftirlætis veiðilendur konungs Búganda-ríkisins sem stofnað var á 13. öld, að því er talið er, og er enn við lýði. Þetta voru heimahagar þokkafullra antílópa, aðallega af tegundinni impala sem á tungu heimamanna, lúganda, er empala í fleirtölu.
Bretarnir, sem þekktir voru fyrir að nefna allar koppagrundir sem þeir fóru um eftir sínu höfði, hófu að kalla svæðið Impala-hæðir. Það nafn útleggst Kasozi Ka Empala á lúganda, síðari hlutinn borinn fram Ka‘Mpala. Og þannig varð það líklegast til: Nafnið á svæðinu sem nú er höfuðborg Úganda.
Kampala hefur belgst svo hratt út síðustu ár að nú teygir hún sig til að minnsta kosti 21 hæðar – flæðir að mestu lágreist yfir hið öldótta landslag sem þær og áður votlendir dalirnir á milli þeirra mynda norðan Viktoríuvatns. Þar blandast saman konungshallir og kofaskrifli innan um rauðbrún múrsteinshús af öllum stærðum og gerðum. Hin áþreifanlega birtingarmynd ójöfnuðar. Hin bersýnilega gjá milli hinna ríku og fátæku.
Þetta er græna borgin í sólinni, eins og hún er stundum kölluð í ferðabókum, þótt nú á tímum liggi brúnt mengunarský iðulega yfir henni í morgunstillunni. Græna borgin ber nefnilega þann vafasama titil að vera meðal þeirra menguðustu í heimi, sú fimmta mengaðasta í Afríku, segir í einhverjum skýrslum.
Brúna slæðan sem liðast milli hæðanna er ofin úr ýmsu. Líklega má fyrst telja margvíslega iðnaðarstarfsemi sem fer sjaldnast eftir þeim ströngu stöðlum sem Evrópubúar þekkja. Þá loga eldar sleitulaust í sorpi hér og hvar enda hirða þess dýr og víða almennt takmörkuð. Tugir þúsunda bíla, sem margir hverjir eru komnir til ára sinna og í misjöfnu ástandi, losa sig við ófýsilegar gróðurhúsalofttegundir, oft fastir tímunum saman í flóknum umferðarhnútum í kyrrviðri Kampala.
Bílarnir og að því er virðist óteljandi skellinöðrur sem íbúar borgarinnar og gestir hennar taka sér far með til að komast hratt og ódýrt á milli staða og kallast boda boda, aka svo um ýmsa borgarhluta á hreinum og klárum moldarvegum. Hin gjöfula rauða jörð, sem allur gróður sem í hana er stungið virðist þjóta upp úr með litskrúð regnbogans, þyrlast undan ökutækjunum og svífur um sólbaðað loftið.
En Viktoríuvatnið, Nalubaale eins og það hefur í aldir heitið á lúganda, er lífrænt lofthreinsikerfi. Svo risastórt er vatnið að það hefur mikil áhrif á loftslagið, mettar það af raka og hreyfir vind og hefur sitt að segja um úrkomuna sem stundum fellur af miklum ákafa og gerir andrúmsloftið kristaltært.
Þar til hið taktfasta gangverk borgarinnar spillir því á ný.
„En þetta er Afríka – T.I.A.,“ segir kunningakona mín sem búið hefur í heimsálfunni í mörg ár. T.I.A. (e. This is Africa) er orðatiltæki sem heimamenn og gestir nota um þetta gangverk sem er um svo margt ólíkt því sem Vesturlandabúar eiga að venjast. Hér gerist flest hægt. Og stundum einfaldlega alls ekki. Jafnvel þótt því hafi verið lofað. Þá er eina ráðið að yppa öxlum, halla sér aftur og slaka á.
„Er leikurinn núna?“ spyr vertinn á Otters bar þegar við loks mætum í nokkru spennufalli eftir æsilegt ferðalag á boda boda sem tók annað okkar óvart langleiðina til næstu borgar. Eða svona hér um bil.
Hann virðist undrandi þar sem hann stendur fyrir innan barborðið og fægir glös. (Þetta er ekki skrifað til að draga upp erkitýpu af barþjóni. Hann er raunverulega að fægja glös). Ég horfi stóreyg á hann. Hafði talað við hann aðeins klukkutíma fyrr. „Að sjálfsögðu“ yrði leikurinn sýndur á sjónvarpsskjá, hafði hann þá sagt. Ég finn hnút í maganum. Leikurinn! Leikurinn minn! Móða kemur á gleraugun undan grímunni sem ég ber fyrir vitum. Ég er farin að anda ótt og títt.
Þrír karlmenn sem sitja við barinn og eru að fylgjast með leik Túnis og Malí í Afríkukeppninni, gjóa á mig augum. Það er bara einn sjónvarpsskjár. Vertinn spyr þá varfærnislega hvort þeim sé sama að skipt sé um stöð. Það standi yfir leikur Íslands og Úganda.
„Íslands og Úganda?“ spyr einn þeirra og það gætir stórkostlegrar undrunar í röddinni. „Já, þetta er sögulegur leikur,“ byrja ég á að útskýra nokkuð andstutt. „Í fyrsta sinn sem ...“
Ég kemst ekki lengra. Þremenningarnir eru allir á því að skjárinn sé okkar. Líklega hafa þeir séð örvæntingarglampann í augum mínum.
Vertinn tekur upp fjarstýringuna og byrjar að leita að réttri stöð. Hann flettir og flettir. Flettir hundrað sinnum.
„Ég skal athuga á hvaða stöð leikurinn er sýndur,“ segir einn þremenninganna uppörvandi þegar tvær grímur eru farnar að renna á mig. Sú þriðja enn fyrir vitunum.
Hann tekur upp símann og rýnir í hann um stund. Fer af einni íþróttasíðunni á aðra. Finnur ekki stakt orð um hvar leikurinn er sýndur. Finnur ekki stakt orð um leikinn yfir höfuð. „Þeir sýna hann ekki,“ segir hann með nokkurri meðaumkun. Leggur símann frá sér, yppir öxlum og bætir við: „T.I.A. Þetta er Afríka.“
Í stöðunni er ekkert annað að gera en að slaka á. Njóta augnabliksins. Hakuna matata. Horfa á leik Túnis og Malí innan um bananatré og undir djúpgrænum klifurplöntum sem þekja loft barsins. Fylgjast með leik Íslands og Úganda í textalýsingu á mbl.is.
Vegna óvissuferðarinnar á leiðinni á barinn höfðum við misst af fyrsta markinu. Það var íslenskt og kom á sjöttu mínútu. Á þeirri 31. fær Úganda víti og skorar úr því. Staðan er 1-1.
„Er netsambandið dottið út?“ hugsa ég upphátt er nánast engar færslur eru settar inn í lýsinguna í seinni hálfleik nema um skiptingar. Nei, það er fullt samband. „Síðari hálfleikurinn hefur verið ansi tíðindalítill,“ skrifar blaðamaður mbl.is loks á 67. mínútu. Stærstu tíðindin eru eiginlega þau að það er ekkert að frétta.
Leiknum lýkur með jafntefli. Það gleður mig þar sem ég gat engan veginn gert upp við mig með hvoru liðinu ég ætti að halda. Áfram Úganda! hafði ég skrifað, ósjálfrátt, í skilaboðum til félaga míns á Íslandi.
„Trönurnar sýndu stáltaugar gegn Íslandi,“ segir í samantekt um leikinn á vef úganska blaðsins Monitor daginn eftir. Trana er hinn margliti og tignarlegi einkennisfugl liðsins, sá hinn sami og prýðir úganska fánann. Trönurnar vörðust vel hinni norrænu sókn, segir þar ennfremur.
Ég fyllist stolti af mínum mönnum. Væntumþykja til tveggja heima seytlar um hverja taug.