Fyrir fjórum árum var mynduð ríkisstjórn sem hafði það yfirlýsta meginmarkmið að koma á pólitískum stöðugleika á Íslandi. Ríkisstjórn hafði ekki setið sem meirihlutastjórn út kjörtímabil síðan árið 2007, eða í áratug, og fjölgun flokka, minni flokkshollusta, vantraust milli forystumanna og dreifðara fylgi gerði það að verkum að flókið hafði verið að mynda ríkisstjórn með hugmyndafræðilega sambærilegan grunn eftir kosningarnar 2016 og 2017.
Þess vegna ákváðu flokkar frá ysta vinstri, yfir miðju og til hægri að taka höndum saman og fara áður ófarna leið.
Stjórnarsáttmálinn sem gerður var bar þess merki að vera málamiðlun þriggja flokka með ólíkar áherslur. Í honum var skýrt kveðið á um hvert meginmarkmið ríkisstjórnarinnar væri. Þar stóð að „umfram allt er á kjörtímabilinu lögð áhersla á að viðhalda efnahagslegum stöðugleika og að aðgerðir tengdar vinnumarkaði skili sér í raunverulegum kjarabótum.“
Þar af leiðandi var lítið um útfærðar aðgerðir eða skýrar stefnur í honum. Þess í stað var mikill texti í sáttmálanum sem hver stjórnarflokkur fyrir sig gat nýtt til að sýna að hann hafi náð helstu áherslum sínum fram.
Þeim áherslum var svo fyrst og fremst náð fram í gegnum þá ráðherrastóla sem hver flokkur fékk í sinn hlut. Kórónuveirufaraldur, þar sem lykilákvarðanir voru að einhverju leyti framseldar til embættismanna og svigrúmið til að elta hugmyndafræðilegar útfærslur til stefnumótunar var lítið, gerði svo að verkum að síðasta eina og hálfa ár kjörtímabilsins fór í björgunaraðgerðir. Færa má rök fyrir því að stjórn með breiða skírskotun sem byggði á lítilli eða engri pólitískri hugmyndafræði hafi hentað í það verkefni.
Risastór verkefni framundan
Nú er staðan hins vegar önnur. Framundan eru risastór verkefni á hinu pólitíska sviði. Hér þarf að móta efnahagsáætlun sem hefur það markmið að rétta við stöðu ríkisfjármála, eftir að ríkissjóður hefur verið rekinn í mörg hundruð milljarða króna halla vegna faraldursins. Svo þarf að finna jafnvægi milli þess markmiðs og nauðsynlegrar eyðslu opinberra fjármuna til að takast á við áskoranir framtíðar í gegnum opinbera fjárfestingu, til dæmis í margháttuðum innviðum og á húsnæðismarkaði.
Hér þarf að endurskoða skatta- og millifærslukerfastefnu til að mæta nýjum þörfum og afla tekna til standa undir þjónustuhlutverki ríkis og sveitarfélaga til framtíðar.
Hér þarf að endurskoða kerfin utan um grunnframfærslu, sérstaklega þeirra öryrkja, lífeyrisþega og láglaunaða einstæðinga sem eru fastir í fátækragildrum.
Hér þarf að ráðast í orkuskipti og stórátak í loftslagsmálum. Það er risastórt efnahagsmál ekki síður en siðferðislegt réttlætismál.
Hér þarf að styrkja stoðir heilbrigðiskerfisins enn frekar, vinna á biðlistum eftir aðgerðum og þjónustu og undirbúa það fyrir mikið viðbótarálag sem framundan er með sífellt eldri þjóð.
Og allir stjórnmálamenn með einhvern dug hljóta að sjá að hér þarf að vinna að nýrri sátt um fiskveiðistjórnunarkerfið. Ef stjórnmálamaður hunsar það svöðusár á samfélaginu okkar, hunsar það að átta af hverjum tíu Íslendingum vilja grundvallarbreytingu á kerfinu, að sjö af hverjum tíu eru óánægðir með núverandi útfærslu á kvótakerfinu og sex af hverjum tíu telja það vega raunverulega að lýðræðinu í landinu, þá á hann vart erindi.
Ástæðan fyrir hægaganginum
Ef hægt er að vera sammála um að þetta séu úrlausnarefnin, og að það sé ekki hægt að mynda aftur einhverskonar þverpólitíska starfsstjórn án sérstakrar framtíðarsýnar, þá ætti að teiknast upp fyrir flestum af hverju það þokast hægt hjá formönnum Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að greiða úr ágreiningsmálum sínum, skipta á milli sín ráðherrastólum og setja saman nýjan stjórnarsáttmála. Flokkarnir voru ósammála um margt á síðasta kjörtímabili, lögðu áherslu á gjörólíka hluti í kosningabaráttunni og eru ósammála um stefnu til framtíðar. Persónulegt traust og vinskapur milli formanna flokkanna getur ekki komið í stað þess að þeir eru í grundvallaratriðum með ósamrýmanlegar skoðanir um hvert þeir vilja teyma þjóðfélagið.
Í baksýnisspeglinum eru óleyst ágreiningsmál um hálendisþjóðgarð, friðlýsingar, aðgerðir til að bæta rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla, deilur um rekstrarform innan heilbrigðisgeirans, breytingar á fjölda sveitarfélaga og breytingar á stjórnarskrá.
Í kosningabaráttunni lögðu Vinstri græn og Framsóknarflokkur fram gerólíkar áherslur hvað varðar ríkisútgjöld, millifærslukerfi, skatta, loftslagsmál og húsnæðismál en Sjálfstæðisflokkurinn. Sömuleiðis eru áherslur Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks varðandi frekari virkjanir og orkuvinnslu og aðkomu einkaaðila að heilbrigðiskerfinu allt aðrar en þær sem Vinstri græn standa fyrir.
Við blasa þrír möguleikar. Í fyrsta lagi að flokkarnir reyni aftur að mynda ríkisstjórn um ekkert annað en að stjórna, sem fáum hugnast og getur valdið miklum skaða á þessum miklu tímamótum sem við stöndum frammi fyrir. Í annan stað að ríkisstjórn verði mynduð að uppistöðu um stærstu stefnumál flokkanna til vinstri eða hægri, sem myndi skilja kjósendur annars hvors þeirra eftir með að hafa greitt einhverju atkvæði sem er andstætt vilja þeirra.
Í þriðja lagi gætu flokkarnir ákveðið að skoða aðra möguleika í stöðunni, sem eru sannarlega til staðar ólíkt því sem raunhæft var 2016 og 2017.
Það er hægt að mynda hægri stjórn
Brynjar Níelsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í nýlegu hlaðvarpsviðtali að hann teldi of erfitt fyrir flokk sinn að ná saman við Vinstri græn. Tveir möguleikar væru í stöðunni „annað hvort að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn fari með Viðreisn, eða að Framsóknarflokkurinn fari bara með vinstriflokkunum. Þannig horfi ég á þetta í fjarlægð núna.“
Ef vilji Framsóknarflokksins hneigist til hægri er fyrri valkosturinn sem Brynjar viðrar sannarlega möguleiki. Samanlagt fengu Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Viðreisn 34 þingmenn út úr síðustu kosningum. Eftir makalaus vistaskipti Birgis Þórarinssonar úr Miðflokki yfir í Sjálfstæðisflokk innan við tveimur vikum eftir kosningar þá er sá meirihluti kominn í 35.
Erfið persónuleg samskipti gætu hins vegar sett strik í reikninginn, en það fór vart framhjá neinum að ekki var allt með felldu milli formanna Framsóknarflokks og Viðreisnar í síðustu kappræðum kosningabaráttunnar.
Og það er hægt að mynda vinstri stjórn
Steingrímur J. Sigfússon, stofnandi Vinstri grænna og formaður þess flokks um margra ára skeið, sagði í viðtali við Kjarnann í febrúar að ríkisstjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn væri ekki endilega eitthvað sem flokkur hans ætti að horfa á til langrar framtíðar. „Það getur vel verið að það sé nauðsynlegt að leyfa stjórnmálunum svolítið að þroskast og takast á með hefðbundnari hætti, að minnsta kosti inn á milli, þannig að samstæðari flokkar, hugmyndafræðilega séð, myndu vinna saman í annað hvort minnihluta eða meirihluta [...] Síðan hefði ég ekkert persónulega á móti því ef hér myndaðist það sem kalla mætti sterka minnihlutastjórn. Það er að segja vel mannaða og öfluga stjórn þó að ekki væru allir flokkarnir með í ríkisstjórninni sem væru í hennar baklandi. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það gæti verið hollt, sérstaklega fyrir þingræðið. Það er almenn kenning að tímabil með minnihlutastjórnum styrki þjóðþingið því þá þurfa menn meira að semja um sín mál.“
Þannig myndu skapast hreinni línur um að mynda ríkisstjórn á annan hvorn vænginn.
Tækifæri til vinstri með hægristjórn
Líkt og svo oft áður þá hvílir ákvörðunarvaldið um næstu skref, gangi það sem nú er reynt ekki upp, hjá Framsóknarflokknum.
Ef hann vill að mynduð yrði hægri stjórn gætu falist í því umtalsverð tækifæri fyrir flokka til vinstri til að horfa inn á við og endurskipuleggja sig. Enginn flokkur frá miðju til vinstri getur sagt með hreinni samvisku að hann hafi komið vel út úr síðustu kosningum. Sósíalistaflokkur Íslands náði ekki inn á þing. Samfylkingin beið afhroð og fékk sína næst verstu útkomu í sögunni, þegar væntingar voru til þess að kosningarnar myndu skila flokknum í sterkri stöðu í ríkisstjórn. Ábyrgðin þar liggur öll hjá flokknum sjálfum. Vinstri græn töpuðu 4,3 prósentustigum af fylgi og Píratar fengu minna en fyrir fjórum árum.
Það er rétt sem Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur sagt eftir kosningarnar: þessir flokkar þurfa að fara í nýtt leikskipulag. Ef þeir enduðu saman í stjórnarandstöðu væri hægt að móta slíkt skipulag fyrir næstu kosningar, og mynda einhverskonar félagshyggjubreiðfylkingu undir stjórn Katrínar Jakobsdóttur, langvinsælasta stjórnmálamanns landsins.
Tækifæri til hægri með vinstristjórn
Að sama skapi væri hægt að mynda þá breiðfylkingu strax í dag ef Framsókn skilgreinir sig meira til vinstri en hægri þessi dægrin, líkt og margt bendir til. Hún fengi þá að þróast og mótast við stjórn frekar en í stjórnarandstöðu, svipað og R-listinn gerði þegar hann tók við stjórnartaumunum í Reykjavík á tíunda áratugnum.
Í því gætu líka falist tækifæri fyrir hægrið á Íslandi, og sérstaklega Sjálfstæðisflokkinn, til að ganga í gegnum hugmyndafræðilega endurnýjun og átta sig á fyrir hvað hann stendur annað en að stjórna. Fyrir vikið ættu kjósendur að fá skýrari valkosti, í átt að meiri félagshyggju eða minni opinberum afskiptum, eftir fjögur ár.
Hver sem niðurstaða Framsóknarflokksins verður þá er ljóst að hún þarf að innihalda skýra stefnu. Kyrrstaða fyrir stöðugleika er ekki í boði lengur, sama hversu vel Katrín, Sigurður Ingi og Bjarni kunna persónulega hvert við annað.