Stríðið í Úkraínu hefur gjörbreytt heimsmynd okkar. Einhvern veginn var það óhugsandi að á 21. öldinni yrði ráðist inn í frjálst og fullvalda ríki í Evrópu af viðlíka offorsi og Rússar hafa beitt síðustu vikur. Það er engu að síður staðan og við henni þarf að bregðast af festu og ábyrgð.
Hvaða áhrif hefur þessi breytta heimsmynd á stöðu Íslands í Evrópu? Hvernig tryggjum við sem best öryggi okkar og varnir og hvernig verndum við grunngildin okkar um frelsi, lýðræði og mannréttindi? Við þurfum að vera óhrædd við að spyrja þessara spurninga og eiga hreinskiptið og heiðarlegt samtal um þessa breyttu stöðu.
Allir flokkar eiga því að sameinast um að fram fari opið samtal á vettvangi stjórnmálanna um kosti og galla aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Þeir stjórnmálaflokkar sem eru andvígir aðild eiga ekki að neita þjóðinni um þetta samtal og þeir eiga ekki að óttast lýðræðislega og beitta umræðu. Þau viðbrögð að segja grundvallarmál ekki á dagskrá spegla ekki annað en ótta.
Breytt heimsmynd kallar fram viðhorfsbreytingu
Árás Rússa er árás á alla Evrópu og grunngildin um frelsi, lýðræði og mannréttindi. Helsta markmið Evrópusambandsins hefur frá upphafi verið að tryggja frið og lýðræði í álfunni. Ef til vill hafa þessi gildi og þetta markmið stundum gleymst í umræðunni um Evrópuhugsjónina, enda hefur Evrópa á undanförnum árum að mestu verið laus undan hörmungum stríðsreksturs og stríðsglæpa. Nú stöndum við hins vegar frammi fyrir baráttu fyrir friði, lýðræði, frelsi og mannréttindum.
Hér heima hefur breytt heimsmynd framkallað viðhorfsbreytingu hjá þjóðinni þar sem helmingur Íslendinga segist nú hlynntur aðild að Evrópusambandinu. Umtalsvert stærri hluti er hlynntur en sá sem er andvígur. Ákveðnir stjórnmálaflokkar kjósa að líta undan og virðast óttast vilja þjóðarinnar, eins og sést best á viðbrögðum Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, við þingsályktunartillögu Viðreisnar, Pírata og Samfylkingar um þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Það er varasamt þegar forsætisráðherra talar með þeim hætti að þetta samtal um grundvallarhagsmuni þjóðarinnar sé bundið við þingið. Það er varasamt að forsætisráðherra reisi nýja girðingu með því að tala um að meirihluti þurfi fyrst að liggja fyrir á Alþingi áður en þjóðin fær að segja sitt. Þjóðin á að taka þessa ákvörðun. Óhjákvæmilega vaknar sú spurning hverra hagsmuna ráðherrann vilji gæta; almannahagsmuna eða sérhagsmuna.
Ástæðulaust að óttast umræðuna
Aðild Íslands að Evrópusambandinu er mál af slíkri stærðargráðu og varðar slíka grundvallarhagsmuni að það er ekki bara eðlilegt heldur nauðsynlegt að leita vilja þjóðarinnar um framhald þess.
Ekki aðeins hníga sterk efnahagsleg rök að því að hagsmunum íslensks almennings og íslenskra fyrirtækja sé best borgið innan Evrópusambandsins heldur blasir nú við að brýnt er að Ísland taki afstöðu til aðildar vegna nýs veruleika í varnar- og öryggismálum og hlutverks Evrópusambandsins í þeim efnum.
Varnar- og öryggismál munu fá stærra hlutverk í Evrópusamstarfinu vegna innrásarinnar í Úkraínu og þar getur Ísland styrkt áhrifastöðu sína með því að sitja við borðið í Evrópusambandinu líkt og í Atlantshafsbandalaginu. Það gerir okkur jafnframt kleift að taka sterkari afstöðu með friði, lýðræði og mannréttindum á sama tíma og hagsmunir þjóðarinnar eru tryggðir.
Við eigum ekki að vera hrædd við umræðuna um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Það hefur aldrei verið mikilvægara að fram fari opin, beinskeytt og lýðræðisleg umræða um pólitíska og efnahagslega stöðu Íslands í Evrópu. Í kjölfarið er svo farsælast að láta þjóðina ákveða framhaldið.
Höfundur er þingmaður Viðreisnar.