Í ágúst 2008 var forstjóri lyfjafyrirtækis látinn hætta eftir níu ára starf. Helsti eigandi þess sagðist hafa rekið hann en forstjórinn sagði það rangt. Hann hefði einfaldlega viljað hætta. Slíkir atburðir eru daglegt brauð í atvinnulífi heimsins.
Það er hins vegar sjaldgæft að þrettán og hálfu ári síðar séu mennirnir enn leynt og ljóst að takast á af mikilli hörku. Þessi átök hafa tekið á sig margar myndir á þessum tíma. Þau eiga sér stað í dómstólum, í bloggfærslum, greinaskrifum, með skæðadrífu yfirlýsinga og í gegnum fjármögnun fjölmiðla.
Hér er auðvitað um að ræða þá Róbert Wessman, mann sem segist ætla að byggja upp útflutningsiðnað á Íslandi sem muni nema um 20 prósent vergrar landsframleiðslu innan fárra ára, og Björgólf Thor Björgólfsson, ríkasta núlifandi Íslendinginn, með auð sem er metinn á hátt í þrjú hundruð milljarða króna.
Annar þeirra á kastala í Frakklandi og hinn veiðir með David Beckham og Guy Ritchie. Helsta áhugamál þeirra virðist þó vera að knésetja hvorn annan. Og lítillækka sjálfa sig um leið.
Rifist um hvor borgaði minna af skuldum sínum
Deilurnar virðast upphaflega hafa snúist um að Björgólfur Thor, sem var aðaleigandi Actavis, lét það fara í taugarnar á sér að Róbert, forstjóri fyrirtækisins, hafi veðsett eignarhlut sinn í lyfjafyrirtækinu sem hann fékk gefins til að geta fjárfest í öðrum og óskyldum geirum samhliða forstjórastarfinu. Þess vegna hafi hann rekið Róbert.
Þegar bankahrunið varð lentu báðir mennirnir svo í miklum vandræðum og þurftu að semja við lánardrottna sína. Það leið ekki á löngu þar til að skotum var hleypt af á báða bóga um hvor væri meiri samfélagsleg byrði.
Árið 2015 sagði Björgólfur Thor á bloggsíðu sinni að Róbert og Árni Harðarson, nánasti starfsmaður hans, hefðu ekki hikað við að leggja í tugmilljóna króna kostnað til að reyna að klekkja á sér. „Róbert hefur í digra sjóði að sækja, enda gætti hann þess vandlega að koma auð sínum undan kröfuhöfum, í stað þess að gera upp milljarða skuldir sínar við íslensku bankana eftir hrun.“
Málarekstur, ísfötubað og bloggfærslur
Deilurnar rötuðu, nánast óumflýjanlega, fyrir dómstóla. Björgólfur Thor stefndi til að mynda Róberti og Árna árið 2014 vegna viðskipta sem þeir áttu saman í gegnum félagið Mainsee Holding.
Róbert svaraði stefnunni með yfirlýsingu í fjölmiðlum þar sem hann sagðist vilja „nota tækifærið og skora á Björgólf Thor að fara í ísfötubað, enda virðist hann þurfa smá kælingu. Þannig má líka komast hjá því að eyða tíma og fjármunum dómstóla í að fjalla um tilhæfulaus mál.“ Hæstiréttur sýknaði Róbert og Árna af kröfunum árið 2017.
Á árinu 2016 réðust fyrrverandi hluthafar í Landsbanka Íslands í hópmálsókn gegn Björgólfi Thor, fyrrverandi aðaleiganda bankans, og vildu fá viðurkennda bótaskyldu hans vegna tjóns sem þeir urðu fyrir þegar bankinn hrundi. Kjarninn opinberaði skömmu síðar að félag Árna Harðarsonar hefði keypt verðlaus hlutabréf í Landsbankanum og ætti um 60 prósent þeirra hlutabréfa sem væru að baki málsókninni. Þegar Hæstiréttur Íslands vísaði málinu frá bloggaði Björgólfur Thor um það og sagði: „Þessi ófrægingarleiðangur, undir stjórn Árna Harðarsonar og Róberts Wessman, hefur reynst þeim köppum lítil frægðarför. Árni og Róbert hafa líklega þegar varið um 100 milljónum króna í þennan rakalausa og ruglingslega málarekstur. Þeir fengu hóp fyrrum hluthafa Landsbankans til að leggja nafn sitt við feigðarflanið, en sjálfir fara þeir fyrir 2/3 hlutum málsóknarfélagsins.“
Illa rekinn einkabanki og greiðsla með steikum
Pissukeppnin milli Björgólfs Thors og Róberts hefur teygt sig víðar, og haft alvarlegar afleiðingar. Til að mynda inn í íslenskt fjölmiðlaumhverfi.
Stutta sagan er sú að Róbert Wessman tók þátt í fjármögnun á fjölmiðlaveldi Björns Inga Hrafnssonar undir hatti Pressunar, sem reis hæst á árunum 2014 til 2017 með fjölmörgum yfirtökum á öðrum fjölmiðlum. Reksturinn gekk hörmulega og útheimti sífellt meira fé. Það leiddi til þess að í apríl 2017 var tilkynnt um að hlutafé Pressunnar yrði aukið um 300 milljónir króna og að samhliða myndi Björn Ingi stíga til hliðar.
Sá aðili sem ætlaði að koma með mest fé inn í reksturinn var Fjárfestingafélagið Dalurinn, félag í eigu Róberts, Árna og þriggja annarra manna, sem höfðu áður lánað Birni Inga.
Viðmælandi Kjarnans sem kom að þessari fjárfestingu lýsti henni þannig að þegar hópurinn hafi „kíkt undir húddið“ hafi komið í ljós að ekkert virkaði og staðan var miklu verri en þeim hafði verið talið trú um. Árni lýsti því síðar í yfirlýsingu að Björn Ingi hefði hótað sér þegar Dalurinn „vildi ekki setja meiri pening í að bjarga illa reknum einkabanka hans í formi Pressunnar og [...] þegar Dalurinn vildi ekki láta hann fá hlutafé sitt í Pressunni eftir að hann seldi allar eigur þess (fyrir það átti m.a. að greiða með steikum á Argentínu fyrir 6 milljónir króna).“
Annar fjármagnaði kaup á ónýtum fjölmiðlum
Þegar Dalurinn vildi bakka út úr því að setja meira fé í rekstur Pressuveldisins gerðist það að Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður steig fram og keypti flesta lykilmiðla Pressusamstæðunnar með hlutafjáraukningu, meðal annars DV og tengda miðla. Forsvarsmenn Dalsins sögðu að þeir hefðu ekki vitað um þennan gjörning fyrr en hann var afstaðinn. Verið væri að selja undan þeim eignir sem þeir ættu með réttu.
Kjarninn sendi ítrekað fyrirspurnir á þáverandi talsmann Björgólfs Thors á árunum 2018 og 2019 vegna orðróms um að hann hefði fjármagnað kaupinn og botnlausan taprekstur DV. Því var ætið hafnað af viðkomandi talsmanni.
Síðar greindi Kjarninn þó frá því að þau kaup, og rekstur miðlanna næstu ár á eftir, hefðu sannarlega verið fjármögnuð af Novator, fjárfestingafélagi sem leitt er af Björgólfi Thor. Það félag lánaði útgáfufélagi DV og tengdra miðla yfir einn milljarð króna vaxtalaust og án tilgreinds gjalddaga. Slíkt fyrirkomulag bendir til þess að engar væntingar séu um að peningarnir verði endurgreiddir.
Hinn fjármagnaði rekstur á ónýtum fjölmiðlum
Dalurinn sat eftir með fjölmiðlafyrirtækið Birting, sem gaf meðal annars úr fríblaðið Mannlíf, eftir þessar deilur og árið 2018 var eignarhaldið á því fært að öllu leyti yfir til manns sem heitir Halldór Kristmannsson. Hann starfaði í 18 ár fyrir Róbert Wessman sem upplýsingafulltrúi og varðhundur hagsmuna hans, meðal annars gagnvart fjölmiðlum.
Ljóst var að Róbert hélt áfram að fjármagna gríðarlegan taprekstur Birtings í gegnum Halldór. Alls telja viðmælendur Kjarnans að kostnaður Róberts og samstarfsmanna hans vegna fjölmiðlaþátttöku þeirra síðastliðinn rúma áratug nemi yfir milljarði króna hið minnsta.
Í umfjöllun sem Kjarninn birti í mars í fyrra staðfestu fjölmargir aðilar sem unnu á fjölmiðlum sem Róbert greiddi fyrir það sem þeir töldu tilraunir hans til að hafa óeðlileg áhrif á fréttaflutning miðla sem hann hefur komið að, með það fyrir augum að koma höggi á fólk sem hann taldi sig eiga sökótt við. Þar fór fremstur í flokki Björgólfur Thor.
Mynd af mönnum að borða og hvísluleikur um glæpamenn
Halldór Kristmannsson, sem hafði eytt mörgum árum í að tuddast í fjölmiðlafólki fyrir hönd Róberts, snerist gegn honum á árinu 2020. Í nóvember það ár fór Halldór að hitta Björgólf Thor á veitingastað í London af einhverjum ástæðum, og mynd sem einhverjir spæjarar tóku af þeim fundi birtist í íslenskum fjölmiðlum. Ýjað hefur verið að því í fjölmiðlum að Björgólfur Thor sé að láta Halldór hafa fjármagn til ýmissa verka en báðir hafa neitað því.
Vorið 2021 sprakk málið upp í nýja tegund af farsa þegar Halldór steig fram sem uppljóstrari og sendi frá sér yfirlýsingu sem á sér ekki margar líkar. Þar sagði meðal annars að Halldór hefði verið beittur óeðlilegum þrýstingi til að koma höggi á óvildarmenn Róberts, sem hann bar þungum sökum, og að Halldór hafi talið „fulla ástæðu til þess að setja fótinn niður og tjáði Róbert ítrekað, að ég myndi ekki beita mér fyrir því að koma höggi á umrædda aðila í fjölmiðlum og vega beinlínis að æru og mannorði þeirra, eins og hann vildi. Ég var um tíma útgefandi Mannlífs, sem Róbert fjármagnaði og átti, en þar myndaðist til að mynda mikill ágreiningur um ritstjórnarstefnu og sjálfstæði.“
Einn einn leikþátturinn í þessum fáránlegu deilum var settur á fót á síðustu vikum. Hann hófst með því að Róbert réð rándýra alþjóðlega lögfræðistofu til að senda ritstjóra Mannlífs bréf vegna einhverra upplýsinga sem hann á að hafa haft um Róbert. Í kjölfarið braust einhver inn í bifreið Reynis Traustasonar og stal þaðan lyklum að skrifstofu. Viðkomandi virðist síðan hafa farið inn á ritstjórnarskrifstofur Mannlífs, stolið tölvubúnaði og eytt út efni af vef.
Reynir hefur ýjað að því að hann viti hverjir „glæpamennirnir“ séu en ekki viljað nefna þá, þótt hvísluleikurinn snúist allur um að beina sjónum að Róberti. Sá sendi svo auðvitað frá sér yfirlýsingu til að sverja af sér ábyrgð á innbrotinu sem hann hafði þó ekki beint verið ásakaður um.
Fjármagnar bók um fyrrverandi yfirmann sinn
Á fimmtudag sendi nýr upplýsingafulltrúi Róberts enn eina yfirlýsinguna þar sem sagði að félag í eigu Halldórs væri að greiða félaginu sem á Mannlíf tugi milljóna króna fyrir að halda úti níðskrifum um Róbert. „Frá því í janúar árið 2021, eða allt frá því að fyrrum samstarfsfélagi Róberts Wessman, Halldór Kristmannsson, lét af störfum hjá Alvogen, hefur Mannlíf skrifað hátt í 70 greinar um Róbert og félög honum tengd í þeim tilgangi einum að rýra trúverðugleika hans sem og þeirra félaga sem hann stýrir [...] Þess ber að geta að Mannlíf var áður í eigu Halldórs Kristmannssonar.“
Reynir opinberaði í kjölfarið að hann væri að skrifa bók um Róbert og að Halldór Kristmannsson hafi aðstoðað hann við upplýsingaöflun. „Heimildarbókin er og verður fjármögnuð af Halldóri og sérstaklega verður greint frá þessum tengslum við útgáfuna og þann fjárhagsstuðning sem því tengist.“
Ljúkið þessu, utan almannarýmis
Því sem er lýst hér að ofan er ekki handrit að framhaldsseríu um bílastæðaverði Fóstbræðra. Þetta er ekki ýkt paródía um veruleikafirringu hinna ofsaríku og fylgitungla þeirra sem hafa misst alla jarðtengingu og allt raunveruleikaskyn. Þetta er lýsing á einhverju sem er í alvöru að eiga sér stað yfir langt árabil í íslensku samfélagi.
Tveir milljarðamæringar eru að sturta peningum í að berja á hvor öðrum án þess að skeyta nokkuð um hver áhrif þess eru á aðra. Þeir krefjast þess að fjölmiðlar hoppi til og básúni nýjustu vendingum í ati þeirra, að dómstólar hjálpi þeim að ná höggum á andstæðinga sína, að eftirlitsstofnanir elti ásakanir þeirra og að siðanefnd fagfélags leggist í umfangsmikla vinnu til að ná fram einhverskonar fordæmingu sem hægt sé að nýta sér í áróðursstríði.
Alvarlegustu áhrif þessa eru á samkeppnisumhverfi fjölmiðla. Ákvörðun mannanna tveggja um að setja milljarða í ósjálfbærar fjölmiðlasjoppur ár eftir ár hefur gert rekstraraðstæður annarra sem vilja gera vel, starfa af heilindum og reka sig með sjálfbærum hætti, afar erfiðar.
Það er nær ógjörningur að keppa á örmarkaði við aðila sem geta bara brennt peningum án þess að eiga eitthvað eðlilegt erindi eða vera með annað rekstrarlegt markmið en að láta Björgólf Thor Björgólfsson eða Róbert Wessman líta illa út. Ótrúlegt er að eftirlitsaðilar hafi látið þetta brölt með öllu athugasemdalaust.
Það er orðið samfélagslega áríðandi að Róbert Wessman og Björgólfur Thor komi sér saman um leið til að gera upp deilur sínar án aðkomu annarra, og fjarri almannarýminu. Þeir gætu kannski látið skipa gerðardóm sem getur skorið úr um hvor geti pissað lengra. Eða leigt Coloseum í Róm og barist líkt og skylmingaþrælar.
Aðferðin sem er valin skiptir ekki máli, heldur einungis það að okkur hinum verði haldið utan við þetta. Og að þeir hætti um leið að valda skemmdum á samfélaginu sem bjó þá til með þessum firrta hanaslag.