Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar og umsvifamikill fjárfestir, skrifaði nýverið grein í Áramót, blað sem Viðskiptablaðið gefur út í lok hvers árs. Þar sagði meðal annars: „Í dag er mikil pressa á fyrirtæki að hugsa út fyrir hefðbundið markmið sitt, að skapa verðmæti. Í dag eiga fyrirtæki að hafa sjálfbærnistefnu, samfélagsstefnu, umhverfisstefnu og svo mætti lengi telja. Það sem einhverjir virðast ekki átta sig á er að allar nýjar kvaðir takmarka burði fyrirtækja til verðmætasköpunar.“
Hann véfengdi í greininni að stjórnendur fyrirtækja hafi einhverskonar umboð til að krýna sig sem „riddara réttlætis“ í þeim skilningi að þeir innleiði einhverskonar samfélagslega stefnu og vék svo að stærstu eigendum íslenskra fyrirtækja, lífeyrissjóðum landsins.
Heiðar sagði lög um þá vera alveg skýr, tilgangur sjóðanna væri að ávaxta fé, ekkert annað. Semsagt að græða peninginn. „Ég tel einsýnt að ef lífeyrissjóðir ætla að fjárfesta út frá öðrum forsendum þurfi fyrst að fá samþykki eigenda sjóðanna, sjóðsfélaga, á aðalfundi. En jafnvel áður en það gerist þyrfti auðvitað að breyta lögum til þess að löglegt væri að framkvæma nýja stefnu sem snýr ekki bara um að velja arðbærasta fjárfestingakostinn, með tilliti til áhættu.“
Í niðurlagi greinar sinnar skrifaði hann að það væri kjörinna fulltrúa, engra annarra, að „marka stefnu í umhverfismálum og samfélaginu öllu. Það er ekki fyrirtækja, fjárfesta eða lífeyrissjóða að gera það. Ef þessum hlutverkum er blandað saman villumst við algerlega af leið. Við getum ekki blandað pólitík inn í alla hluti, pólitík á heima á Alþingi og í sveitarstjórnum.“
Þröng túlkun
Það er ýmislegt við grein Heiðars að athuga. Í fyrsta lagi er það kolrangt hjá honum að lög um lífeyrissjóði afmarki tilgang þeirra sem fjárfesta við það að græða pening.
Þvert á móti er sérstakur kafli í lögunum sem fjallar um fjárfestingarstefnur lífeyrissjóða. Þar segir að stjórn sjóða skuli móta fjárfestingarstefnu og ávaxta fé í samræmi við fimm reglur. Sú fyrsta er að sjóðirnir skuli alltaf hafa hagsmuni sjóðsfélaga að leiðarljósi. Sú fimmta er að lífeyrissjóður skuli „setja sér siðferðileg viðmið í fjárfestingum.“
Sú þrönga túlkun Heiðars að tilgangur lífeyrissjóða sé einungis sá að „velja arðbærasta fjárfestingakostinn“ er því ekkert annað en nákvæmlega það; þröng túlkun hans.
Það verður að hafa í huga hvar Heiðar situr. Hann er forstjóri Sýnar, fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækis sem lífeyrissjóðir landsins eiga hlut í. Hann á 9,16 prósent hlut á meðan að lífeyrissjóðir eiga, beint og óbeint, sennilega nálægt helming hlutafjár í félaginu. Sjóðirnir eru óvirkir eigendur í félaginu og eftirláta einkafjárfestum eins og Heiðari að móta og reka það.
Bein arðsemi hefur ekki verið í fyrirrúmi þar þorra þess tíma sem Heiðar hefur verið forstjóri. Á tveggja og hálfs árs tímabili, frá byrjun árs 2019 og fram á mitt ár í fyrra, skilaði félagið tapi í átta af níu ársfjórðungum, alls upp á rúmlega 2,6 milljarða króna. Viðsnúningur varð í rekstrinum á seinni hluta síðasta árs, bæði vegna þess að undirliggjandi rekstur batnaði og þess að félagið seldi innviði, meðal annars til að geta skilað allt að tveimur milljörðum króna til hluthafa sinna.
6.555 milljarðar króna
Nú skulum við fara yfir nokkrar tölur. Íslenskir lífeyrissjóðir áttu 6.555 milljarða króna í lok nóvember síðastliðins. Eignir þeirra hafa vaxið um tæplega fimm þúsund milljarða króna frá byrjun árs 2008, um rúmlega 2.500 milljarða króna frá byrjun árs 2018 og rúmlega 1.500 milljarða króna frá því að kórónuveirufaraldurinn skall á snemma árs 2020. Á þessu tímabili hafa þeir orðið alltumlykjandi í íslensku viðskiptalífi.
Innlendar eignir þeirra voru 4.256 milljarðar króna seint á síðasta ári. Stór hluti þeirra eigna eru skuldabréf, en strax árið 2016 áttu þeir 71 prósent allra slíka sem gefin höfðu verið út á markaði hérlendis. Sjóðirnir áttu líka 1.117 milljarða króna í innlendum hlutabréfum og í hlutdeildarskírteinum í sjóðum sem fjárfesta í skráðum og óskráðum bréfum. Samanlagt virði allra hlutabréfa í Kauphöllinni á sama tíma, í lok nóvember í fyrra, var 2.463 milljarðar króna. Það má því áætla að lífeyrissjóðir landsins eigi allt að 45 prósent allra hlutabréfa í skráðum íslenskum félögum. Og lífeyrissjóðirnir, það erum við öll.
Hvaða fyrirtæki eru þetta sem við eigum svona stóra hluti í? Að uppistöðu, fyrir utan Marel, eru þetta ekki fyrirtæki sem byggja á snilldarhugmyndum eða einkaleyfisvörðum uppfinningum. Þetta eru að mestu þjónustufyrirtæki sem íslensku kerfin hafa alið af sér, sem keppa á fákeppnismarkaði hér innanlands og þjónusta íslensk heimili og fyrirtæki. Þetta eru smásölufyrirtæki sem selja okkur matvöru og bensín. Tryggingafélög sem lögbundið er að kaupa þjónustu af. Fasteignafélög sem eiga einvörðungu íslenskar fasteignir sem leigðar eru af íslenskum leigutökum. Bankar sem voru endurreistir með lagasetningu eftir bankahrunið og fengu tilverugrundvöll sinn þannig í arf frá ríkissjóði, og starfa nær einvörðungu innanlands. Sjávarútvegsfyrirtæki sem byggja rekstur sinn á að veiða, verka eða selja auðlind sem er sameign þjóðarinnar. Flugfélag sem nýtur ríkisábyrgðar á hluta skulda. Skipafélag á markaði sem telur tvo. Fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtæki með íslenska viðskiptavini. Og svo framvegis.
„Við eigum Ísland”
Með öðrum orðum eru flest skráðu fyrirtækin þau sem veita okkur þá þjónustu sem við þurfum til að láta nútímasamfélag ganga upp. Þau hafa áhrif á flest svið lífs okkar.
Það er því ljóst að ef lífeyrissjóðirnir sem fara með lögbundinn sparnað almennings í landinu eiga að framfylgja reglum sínum um fjárfestingarstefnu, og hafa alltaf hagsmuni sjóðsfélaga og siðferðileg viðmið að leiðarljósi, þá þarf að taka tillit til fleiri þátta en bara arðsemi.
Það geta ekki verið hagsmunir sjóðsfélaga að eiga öll þessi fyrirtæki á þessum litla fákeppnismarkaði og láta nokkra minnihlutafjárfesta alfarið um að móta hver stefna þeirra er, ákveða hvernig þau eru rekin og hvernig ávinningnum af þeim rekstri er ráðstafað.
Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs starfsgreinafélags, orðaði þetta ágætlega á fundi sem haldinn var haustið 2018 þegar hann bauð sig fram til formanns Alþýðusambands Íslands (ASÍ). Í umræðum um hvort lífeyrissjóðirnir ættu að taka sér stærra samfélagslegt hlutverk ræddi hann um sögu verkalýðsfélaganna og hvað hefði áorkast frá því að fyrsta slíka félagið var stofnað hérlendis 1896. „Þetta er fólk sem bjó í nánast moldarkofum, áhyggjuefnin voru hvort að börnin fengu mat daginn eftir. Menn voru settir út á kaldan klaka og fengu ekki atvinnu ef þeir voru í forystu fyrir verkalýðsfélagið. Í dag, félögin sem þetta fólk stofnaði, við eigum Ísland. Það eina sem við eigum eftir að gera er að taka það.“
Mótframbjóðandi Sverris, Drífa Snædal, sagðist vera honum sammála. Drífa var á endanum kjörin í embættið og gegnir því enn.
Veik merki um breyttar áherslur
Einhver teikn hafa verið á lofti um að núverandi stjórnir og stjórnendur sjóðanna séu að skilja þetta, þótt enn sem komið er séu þeir tilburðir fremur veiklulegir.
Árið 2020 varð opinber óánægja sjóðanna sem eiga i Eimskip með fyrirferð Samherja, stærsta eiganda félagsins, í kringum stjórnarkjör, yfirtökuskyldu, slaka rekstrarframmistöðu og meint brot á lögum um meðhöndlun úrgangs, með því að láta rífa skip í Asíu.
Í mars í fyrra lögðust tveir af stærstu sjóðum landsins gegn tillögu um breytta starfskjarastefnu Arion banka sem fól í sér að að koma á fót árangurstengdu launakerfi, aukningu kauprétta og áskriftarréttindum. Þeim varð lítið ágengt.
Síðar, í tengslum við ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál í Glasgow, skuldbundu þrettán íslenskir lífeyrissjóðir sig til að setja allt að 580 milljarða króna í grænar fjárfestingar fram til ársins 2030.
Og fyrr á þessu ári beittu sjóðir sér fyrir því að Þórður Már Jóhannesson, stjórnarformaður Festi, yrði látinn stíga til hliðar eftir ásakanir um alvarlegt kynferðisofbeldi sem hann og nokkrir vinir hans eiga að hafa beitt unga konu í heitum potti. Umræddir sjóðir eru stærstu eigendur Festi. Raunar er staðan þannig innan Festi að ellefu stærstu eigendurnir eru lífeyrissjóðir.
Þrír einkafjárfestar eru á meðal 20 stærstu hluthafa. Félag í eigu Hreggviðs Jónssonar, sem er líka á meðal þeirra sem eru ásakaðir um að brjóta gegn konunni, á 1,9 prósent hlut. Hreggviður var stjórnarformaður Festi áður en Þórður Már, vinur hans, tók við því starfi. Félag Bjarna Ármannssonar, vinar Þórðar Más sem hefur stundað fjárfestingar með honum, á 1,6 prósent hlut. Og félag Þórðar Más á tæplega 1,6 prósent. Samanlagður eignarhlutur þeirra er því rétt rúmlega fimm prósent. Altalað er í viðskiptalífinu að þessi hópur hafi haft tögl og hagldir í Festi á undanförnum árum.
Sama dómgreindin
Þórður Már fór þó ekki frá fyrr en málið hafði verið opinberað í fjölmiðlum. Vitneskja hafði þá verið um það innan stjórnar Festi og á meðal sumra sjóðanna í margar vikur án þess að brugðist væri við af krafti. Ingunn Agnes Kro, sem situr í stjórn nokkurra félaga, orðaði það vel í Kastljósi í kjölfarið þegar hún sagði það einfaldlega lélega viðskiptalega ákvörðun að bregðast ekki við strax. „Segjum að konan bara kæri ekki og þú veist ef við tökum það lengra, þá ertu með þennan stjórnanda í fyrirtækinu þínu sem hefur sýnt af sér þennan gríðarlega dómgreindarbrest. Er þetta ekki sama dómgreindin og hann notar til þess að taka ákvarðanir almennt inni í fyrirtækinu þínu um allskonar mikilvæg mál? Er þetta manneskja sem þú treystir fyrir því að byggja upp kúltúrinn í fyrirtækinu þínu? Verður þetta kúltúr virðingar og traust og jafnréttis?“
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, stærsta stéttarfélags landsins sem skipar helming stjórnarmanna í Lífeyrissjóð verzlunarmanna, sagði í samtali við Kjarnann að málið sýndi að við værum óþolandi meðvirkt samfélag. „Þetta er ekki ósvipað og afstaða sumra innan KSÍ var á sínum tíma. Að allir vissu en ekkert var aðhafst fyrr en málin komust í hámæli fjölmiðla og urðu óþægileg fyrir það fólk.“
Ragnar sagði einnig að fjölmörg dæmi væru um að viðskiptablokkir í miklum minnihluta stjórni fyrirtækjum sem séu að mestu í eigu lífeyrissjóða. Fyrirtækjum og sjóðum sem stjórnað er af nafntoguðu fólki sem hefur orð á sér fyrir að skeyta engu um samfélagsleg áhrif gjörða sinna, skeyta engu um almennt siðferði eða kröfu um óflekkað mannorð. Allt snýst um gróðann og græðgina. Og ekki síst að komast upp með að gera það sem þeim sýnist.“
Þurfa að verða virkir eigendur
Guðrún Johnsen, lektor í CBS og stjórnarmaður í Lífeyrissjóði verzlunarmanna, var á svipuðum slóðum og Ragnar í grein sem hún skrifaði í Vísbendingu í síðustu viku.
Þar sagði hún meðal annars að ójöfnuður auðs og tekna hefði aukist um allan hinn vestræna heim og nálgist í sumum löndum hratt þá stöðu sem uppi var um þar síðustu aldamót. „Samfara ójöfnuði hefur raunverulegur heildarkostnaður seldra vara ekki endurspeglast í útsöluverði vara á markaði, sem hefur leitt til mikillar aukningar loftslagsáhættu. Þess vegna hafa augu fólks m.a. beinst að lífeyrissjóðunum á ný um að þeir sinni upprunalegum tilgangi sínum af einurð og beiti afli sínu sem hluthafar og fjármagnseigendur, svo að stjórnendur og iðnrekendur stundi heilbrigða og sjálfbæra viðskiptahætti, ásamt því að tryggja öruggan lífeyri eftir starfslok.“
Það sem við blasir er að íslensku lífeyrissjóðirnir þurfa að vera virkir eigendur í þeim íslensku félögum sem þeir eiga. Taka stjórnina af litlu mönnunum sem komast að áhrifum og peningum á baki þeirra. Samhliða þarf að auka lýðræði innan sjóðanna og láta sjóðsfélaga kjósa stjórnir þeirra með beinum hætti.
Það yrði risavaxin samfélagsleg breyting til góðs ef lífeyrissjóðirnir myndu fá skýrt umboð til að beita sér fyrir hagsmunum sjóðsfélaga sinna á breiðum grunni og út frá viðurkenndum siðferðilegum viðmiðum. Það þýðir ekki að lífeyrissjóðir eigi að hunsa beina arðsemi, heldur að þeir eigi ekki bara að hugsa um hana.
Við eigum nefnilega Ísland, við þurfum bara að taka það.