Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP21, lýkur þann 11. desember eða eftir réttan mánuð og þá verður, ef fundurinn stenst væntingar, búið að útbúa lagalega bindandi samkomulag um útblástur gróðurhúsalofttegunda um allan heim. En hvað er COP21 eiginlega og hvers vegna er talað um ráðstefnuna sem þá mikilvægustu í mannkynssögunni? Á loftslagsvef CNN má finna fimm atriði sem vert er að vita um COP21.
Hvað er COP21?
Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (e. United Nations Framwork Convention on Climate Change - UNFCCC) var undirritaður á Umhverfisráðstefnunni í Rio árið 1992. Ráðstefna á vegum UNFCCC hefur verið haldin árlega síðan 1995 þegar sú fyrsta var haldin í Berlín. Þær eru kallaðar COP sem stendur fyrir „Conference of Parties“. Í ár fer fram 21. ráðstefnan í París.
Ástæða þess að ráðstefnan er haldin árlega er til þess að stöðugt sé fylgst með og lagt mat á aðgerðir og stöðu ríkja í loftslagsmálum. Reglulega fjalla ráðstefnurnar um nýja samninga og markmiðasetningar í loftslagsmálum. Eftirminnilegustu ráðstefnurnar á vegum UNFCCC eru tvímælalaust COP3 í Kyoto þar sem Kyotobókunin var undirrituð, COP11 í Motréal þar sem líftími Kyotobókunin var framlengd og COP15 í Kaupmannahöfn þar sem þess var freistað að búa til samkomulag allra ríkja um minnkun útblásturs gróðurhúsalofttegunda.
Samhliða COP21 í París mun fara fram CMP 11; ellefti fundur þeirra ríkja sem undirrituðu Kyotobókunina 1997. Ísland er aðili að báðum ráðstefnum.
Hvert er markmiðið með ráðstefnunni í ár?
Markmið COP21 í París dagana 30. nóvember til 11. desember er nokkuð skýrt. Það er að búa til lagalega bindandi samkomulag allra þjóða heimsins til þess að halda hlýnun jarðar undir tveimur gráðum, eða því sem vísindamenn hafa kallað þröskuld þess sem mannkynið og jörðin geta höndlað.
Þegar vísað er til minna en tveggja gráðu hlýnunar er talað um hlýnun loftslags (bæði sjávar- og lofthita) miðað við meðalhita fyrir iðnbyltinguna á nítjándu öld. Það er augljóst að það er ekki auðvelt að ná þessu markmiði enda benda mælingar til þess að hlýnun um heila gráðu á Celcius hafi þegar verið náð. Skýrsla IPCC (Intergovernmental Panel on Climate Change) síðan 2014 sýnir fram á að síðan 1880 hefur loftslag jarðar hlýnað um 0.85°C.
Í skýrslunni eru einnig leiddar líkur að því að miðað við það magn gróðurhúsalofttegunda sem þegar hefur verið losað þá getur verið að hitastig jarðar sé nú læst í um tveggja gráðu hlýnun. Það er aðeins ef heiminum tekst að minnka losunina gríðarlega á næstu árum.
Hverjir mæta?
Á ráðstefnunni í París er talið að meira en 40.000 fulltrúar 195 landa í öllum heiminum muni koma saman. Þetta er stærsti fundur sem frönsk stjórnvöld hafa nokkru sinni skipulagt. Francois Hollande, forseti Frakklands, mun taka á móti nokkrum af leiðtogum áhrifamestu ríkja heims. Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, mun láta sjá sig sem og Xi Jinping, forseti Kína, auk Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands. Saman bera þessu lönd ábyrgð á um það bil helmingi allrar losunar heimsins.
Margir leiðtoga þessara 195 ríkja munu vera viðstaddir frá upphafi fundarins í París, ólíkt því sem gerðist í Kaupmannahöfn þegar helstu leiðtogar létu aðeins sjá sig síðustu daga fundarins. Er talið að það hafi átt þátt í að COP15 fundurinn varð svo slæmur; samningaviðræðurnar fengu ekkert vægi fyrr en of seint.
Frá Íslandi munu Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra, og Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, fara. Fulltrúar allra þingflokka á Alþingi verða einnig viðstaddir, auk sendinefndar Íslands frá Umhverfisráðuneytinu undir forystu Huga Ólafssonar. Auk þeirra munu embættismenn og fulltrúar íslenskra fyrirtækja sækja ráðstefnuna.
Samkvæmt heimildum CNN er óvíst að Frans páfi geri sér ferð til Parísar en hann hefur talað opinskátt fyrir því að ríki heims setji sér raunveruleg markmið í loftslagsmálum til þess að tryggja velferð mannkyns um ókomna framtíð.
Hvers vegna verður fundurinn að slá í gegn?
Markmiðið með ráðstefnunni er skýrt og þess vegna er mikilvægt að ríki heimsins komist að samhljóða bindandi niðurstöðu sem kemur til með að minnka losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. Allt sem mun líkjast niðurstöðu ráðstefnunnar í Kaupmannahöfn, þar sem enginn samningur var undirritaður, verður dæmt sem mistök.
Takmarkanir Kyotobókunarinnar munu renna út árið 2020, svo nú fer tíminn að renna út eigi að halda samkomulaginu óslitnu.
Loftslagsmálin eru hins vegar ekki aðeins umhverfismál heldur einnig efnahagsmál. Lang flest ríkin hafa þegar skilað stefnumótunarmarkmiðum sínum sem væntanlegt samkomulag mun byggja á. En það er fjármálahlið á loftslagsmálunum líka, þar sem málin munu hugsanlega stranda.
Á undirbúningsfundum fyrir COP21 hefur það verið áætlað að iðnvædd ríki heimsins þurfi að útvega um það bil 100 milljörðum bandaríkjadölum á ári frá og með 2020. Peningarnir eru ætlaðir vanþróuðum ríkjum til þess að berjast gegn aukinni mengun og hjálpa við sjálfbæra efnahagsþróun landanna. Það hefur nefnilega verið sýnt fram á að hagvöxtur og aukin útblástur gróðurhúsalofttegunda eru tengd fyrirbæri. Hvaðan þessir peningar eiga að koma er hugsanlegt steytisker viðræðnanna. Hversu mikið á að koma frá ríkjum heims og hversu mikið verður lagt í skaut einkafyrirtækja? Hvaða hlutverki á markaðurinn að gegna í þessu?
Hvers vegna skiptir þetta mig máli?
Ef þú átt ekki miða með Mars One og hyggist stofna nýlendu á Mars þá þarftu að öllum líkindum að búa á jörðinni í nokkra áratugi í viðbót. Á meðan munt þú finna fyrir loftslagsbreytingum og ættir að hafa áhuga á útkomu ráðstefnunnar í París.
Sýnt hefur verið fram á að afleiðingar hlýnunar loftslags verða ákafari veður á borð við miklar hitabylgjur, þurrka og flóð. Um leið bráðna jöklar og hafísbreiður með þeim afleiðingum að yfirborð sjávar hækkar. Margar af helstu verslunarstöðvum heimsins munu sökkva í sæ og margar milljónir manna neyðast til að yfirgefa heimili sín og flytja annað.
Um leið og veðurfar breytist munu vatnslindir þorna upp eða breytast og matvælaöryggi skerðast eða breytast. Afleiðingarnar munu helst bitna á þróunar- og fátækari löndum þar sem stjórnvöld eiga ekki efni á þeim ráðstöfunum sem þarf að grípa til.