Reykjavík Development ehf. fékk byggingarleyfi 5. apríl síðastliðinn fyrir reitinn við Austurbakka 2. Reiturinn hefur verið gríðarlega umdeildur en nú stendur til að húsaþyrpingin sem fengið hefur nafnið Hafnartorg muni rísa þar. Óvænt útspil fyrrverandi forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, hefur verið mikið í umræðunni en hann vildi að verktakar myndu hlusta á gagnrýni á Hafnartorg og endurhanna teikningar. Þessum hugmyndum Sigmundar Davíðs hefur verið hafnað eins og Stundin greindi frá.
Guðni Rafn Eiríksson, einn eigenda Reykjavík Development ehf., sem sér um framkvæmdir við reitinn, staðfestir við Kjarnann að byggingarleyfi frá Reykjavíkurborg sé komið og að framkvæmdir hefjist í mánuðinum.
Sigmundur Davíð með sérstakan áhuga á Hafnartorgi
Fram hefur komið að Sigmundur Davíð gerði alvarlegar athugasemdir við útlit bygginganna. Mynd af teikningu Sigmundar Davíðs birtist í Reykjavík Vikublaði en mikinn mun má sjá á henni og þeim upprunalegum hugmyndum sem komið hafa frá PK arkitekrum og Reykjavík Development.
Í Stundinni kemur fram að hugmyndum Sigmundar Davíðs hafi verið hafnað en þær samræmdust ekki deiliskipulagi. Turninn var of hár á teikningu Sigmundar Davíðs og samkvæmt skipulaginu áttu tvær efstu hæðir hússins að vera inndregnar en teikning Sigmundar gerði ekki ráð fyrir því.
Munu leita réttar síns
Kjarninn sagði frá því í janúar að í fyrra ákvað Minjastofnun Íslands, sem heyrir undir forsætisráðuneytið, að skyndifriða hafnargarð sem er á lóðinni. Lóðarhafar höfðu sagt að friðlýsing á hafnargarðinum muni að lágmarki valda þeim 2,2 milljarða króna tjóni. Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra var sett forsætisráðherra í málinu og tilkynnti um friðunina. Reykjavíkurborg hafði dregið í efa stjórnsýslulegt hæfi Sigmundar Davíðs til að taka afstöðu til málsins, meðal annars vegna greinar sem hann birti um skipulagsmál í Reykjavík í ágúst 2015. Á endanum náðist sátt um að færa hafnargarðinn á meðan framkvæmdir standa yfir en setja hann svo upp aftur.
Guðni segir að mesti kostnaðurinn sé við að setja upp garðinn en það þurfti að taka hann í burtu stein fyrir stein. Þeir séu búnir að borga fyrir mesta tjónið en að ekki sé útséð fyrir frekara tjón. Hann staðfestir að Reykjavík Development muni leita réttar síns vegna garðsins sem mun líklega hlaupa á tugum milljóna.
Stefán Thors, húsameistari ríkisins, telur aftur á móti að Reykjavík development geti ekki krafist skaðabóta vegna framgöngu ríkisins við skipulag Hafnartorgs. Þetta kemur fram á fréttavef RÚV.
Stórt verkefni á vinsælu svæði
Allt í allt eru níu byggingareitir á Austurbakka 2. Félagið Reykjavík Development ehf. á tvo þeirra. Í apríl 2015 var tekin fyrsta skóflustunga vegna upphafs framkvæmda á reitunum. Í frétt á heimasíðu Reykjavíkurborgar af því tilefni segir:
„Fyrirhugaðar framkvæmdir eru hluti af stærsta byggingaverkefni fram til þessa í hjarta Reykjavíkur. Samkvæmt deiliskipulagi má byggja á reitum 1 og 2 við Austurbakka, 21.400 m2 ofanjarðar. Áætlað er að þar verði íbúðir og fjölbreytt húsnæði fyrir ýmsa atvinnustarfsemi, s.s. verslanir, veitingahús, skrifstofur og þjónustu. Auk þess verður byggður bílakjallari á reitnum sem verður samtengdur öðrum bílakjöllurum á lóðinni, allt að Hörpu. Áætlað að sameiginlegur kjallari rúmi um 1.000 bíla.“
Umdeild tilfærsla forsætisráðuneytis
Kjarninn fjallaði um tilfærslu Minjastofnunar í október 2015. Þar kom fram að á síðasta þingi voru samþykkt lög um verndarsvæði í byggð. Flutningsmaður þeirra var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra. Samkvæmt lögunum getur forsætisráðherra, en ekki sveitarfélög, tekið ákvörðun um vernd byggðar að fenginni tillögu sveitarstjórnar eða Minjastofnunar Íslands. Minjastofnun var færð undir forsætisráðuneytið þegar ríkisstjórn Sigmundar Davíðs tók við völdum. Hún heyrði áður undir mennta- og menningarmálaráðuneytið. Var þetta gert sérstaklega að ósk þáverandi forsætisráðherra, sem er mikill áhugamaður um skipulagsmál. Minjastofnun er eina eftirlitsstofnun landsins sem heyrir undir forsætisráðuneytið.