Aðdáendum kvikmyndarinnar The Rocky Horror Picture Show gefst nú kostur á að hitta hetjurnar sínar í Los Angeles í byrjun júlí en þá munu aðalleikararnir mæta saman til endurfunda í annað skiptið. Tilefnið er að í fyrra voru 40 ár síðan myndin kom út.
Hér fyrir ofan er hið fræga byrjunaratrið þar sem Patricia Quinn ljáir varir sínar við rödd Richard O´Briens.
Myndin kom út árið 1975 en hún var unnin upp úr samnefndu leikriti eftir Richard O´Brien sem var frumsýnt tveimur árum áður. Kvikmyndin gekk ekki vel til að byrja með en varð síðan að költ-undri um allan heim.
Sprungið dekk með afdrifaríkar afleiðingar
Sögusvið myndarinnar er kastali dr. Frank N. Furter en eftir að springur á bíl parsins Brad Majors og Janet Weiss verða þau að leita á náðir hans með húsaskjól og aðstoð. Gestgjafinn býður þeim að gista og sérkennilegir atburðir eiga sér stað þessa nótt.
Einn eftirminnilegasti leikari myndarinnar er Tim Curry sem lék hinn litríka dr. Frank N. Furter. Upphaflega hugmyndin hjá honum var að leika hann sem Þjóðverja eða sem Ameríkana en Tim datt loksins niður á hreiminn þegar hann heyrði eldri konu tala í strætó með sama hreim. Hann hugsaði með sér að þarna væri dr. Frank N. Furter kominn.
Hér fyrir neðan er áhugavert viðtal við Tim Curry frá árinu 1975 þar sem hann talar um hvernig það kom til að hann fór með hlutverkið og hvernig upplifun það hafi verið.
Frægt leikverk
Leikritið hefur verið sýnt um allan heim og er einn vinsælasti söngleikur síðari hluta 20. aldar. Kvikmyndin kom einmitt til þegar Jim Sharman bjó til handrit upp úr leikritinu í samstarfi við O´Brien en hinn síðarnefndi leikur einnig í myndinni aðstoðarmanninn Riff Raff.
Fjölmargar sýningar á verkinu hafa verið settar upp á Íslandi og má þar nefna eftirminnilega uppsetningu í Loftkastalanum árið 1995 í leikstjórn Baltasars Kormáks. Söngleikurinn var sýndur oftar en 60 sinnum og fór Helgi Björnsson á kostum sem dr. Frank N. Furter. Björn Jörundur Friðbjörnsson lék Riff Raff og Hilmir Snær Guðnason og Valgerður Guðnadóttir fóru með hlutverk Brads og Janetar.
„Sumir fá kannski hland fyrir hjartað þegar tæpt er á vissum velsæmismörkum, en „hver er meiri pervert sá sem er pervert eða sá sem borgar fyrir að horfa á pervertinn?“.“ Þetta kom fram í ritdómi sem Ingvi Þór Kormáksson skrifaði í DV árið 1995. Hann lýsti sýningunni sem vandaðri, hressilegri og hraðri og að heilmikið stuð hefði verið í tónlistinni.
Söngleikurinn hefur einnig verið fluttur í nemendaleikhúsum um allt land og ber að minnast þess þegar Margrét Vera Mánadóttir auglýsti sýningu Menntaskóla Borgarfjarðar með því að segjast vera dóttir höfundarins og leikarans Richards O´Brien og villti þar með um fyrir blaðamanni Fréttablaðsins. Þessi brella ku hafa aukið aðsókn og ekki haft aðrar afdrifaríkar afleiðingar í för með sér.
Hvert sækir höfundur efnið sitt?
Sagan sjálf byggir í raun á gömlu sagnaminni. Richard O´Brien hefur sjálfur sagt frá því að hugmyndina megi finna í sjálfri sköpunarsögunni um Adam og Evu og í sögunni um Hans og Grétu. Þess vegna, meðal annars, sé Rocky Horror Picture Show eins vinsæl mynd og raun ber vitni.
Ný endurgerð
Til stendur að endurgera kvikmyndina og mun sjónvarpsmynd koma út á næstunni. Tim Curry sjálfur tekur þátt í þessari nýju endurgerð en hann leikur svokallaðan afbrotafræðing sem hefur það hlutverk að segja söguna.
Mikil hefð hefur skapast í kringum sýningu kvikmyndarinnar en hún er einnig sýnd í kvikmyndahúsum út um heim allan enn í dag. Fólk klæðir sig iðulega upp og sækir sýningar aftur og aftur. Hér kemur stutt heimildamynd frá árinu 1981.