Bretar fá engan aðgang að sameiginlegum markaði Evrópusambandsins kjósi þeir að yfirgefa sambandið í þjóðaratkvæðagreiðslunni í næstu viku. Þetta segir Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, í viðtali við þýska vikuritið Der Spiegel sem kom út á sunnudag. Kosið verður í Bretlandi fimmtudaginn 23. júní um áframhaldandi veru í ESB. Frá þessu er greint á vef The Guardian.
Schäuble var spurður hvort Bretum stæði til boða að ganga í evrópska efnahagssvæðið (EES) eftir útgöngu úr ESB og gera svipaðan samning og Ísland, Noregur, Liechtenstein eða Sviss hafa við sambandið. „Það mun ekki ganga,“ sagði hann. „Þá þyrfti landið að fylgja reglum klúbbsins sem það vill hætta í. Ef meirihluti kjósenda í Bretlandi velur að samstarfinu sé slitið verður það ákvörðun gegn sameiginlega markaðinum. Annað hvort ertu með eða ekki.“
Ísland, Noregur og Liechtenstein eru með samning við Evrópusambandið um aðild að evrópska efnahagssvæðinu en Sviss hafa viðskiptasamning við sambandið sem gengur mun skemur. Leiðtogar í Evrópu hafa sagt báðar leiðir vera lokaðar Bretum ef þeir kjósa að yfirgefa sambandið.
Mjótt er á munum milli fylkinga í Bretlandi. Skoðanakannanir hafa undanfarið sýnt að ekki má miklu muna í hvora áttina sem er; meðaltal síðustu sex skoðanakanna sýna að þeir sem vilja slíta samstarfinu eru 52 prósent kjósenda og þeir sem vilja vera áfram í ESB eru 48 prósent kjósenda.
Í Bretlandi hefur þeirri hugmynd verið velt upp að Evrópusinnaðir þingmenn Westminster noti meirihluta sinn í þinginu til þess að halda í aðgang að sameiginlegum markaði ESB. Fyrsta og líklegasta tilraunin sem þeir munu gera er að fá svipaðan samning og Ísland, Noregur og Sviss. Meginstoðin í sameiginlegum markaði ESB er hið svokallaða fjórfrelsi; frelsi til flutninga fólks, varnings, þjónustu og fjármagns innan evrópska efnahagssvæðisins.
Stuðningsmenn þeirra sem vilja ekki halda áfram í ESB segja að það sé í Þýskalandi í hag að geta áfram stundað óhindruð viðskipti við Bretland. Bretar séu þriðji stærsta útflutningsland þýskra bílaframleiðenda og Bretland áfangastaður um 7 prósent alls útflutnings frá Þýskalandi. Álitsgjafar í Þýskalandi segja hins vegar um meira að tefla en efnahagslega hagsmuni.
„Evrópa mun virka án Bretlands ef það kemur til þess,“ er haft eftir Schäuble í Der Spiegel. „Á einhverjum tímapunkti munu Bretar átta sig á því að þeir hafi tekið ranga ákvörðun. Einn daginn munum við taka á móti þeim aftur, ef það er það sem þeir vilja.“
Þýski fjármálaráðherran segir ESB ekki geta útilokað að fleiri lönd fari sömu leið og Bretar, ef Bretar kjósa að hætta í sambandinu. „Hversu langt munu, til dæmis, Hollendingar ganga? Það er land sem hefur sterk sambönd við Bretland. Það verður mikilvægt fyrir Evrópusambandið að senda skýr skilaboð um að það sé tilbúið að læra af atkvæðagreiðslu Breta,“ segir Schäuble.
Kosningabaráttan nær hámarki
Kosningabarátta fylkinganna tveggja, með og á móti útgöngu Bretlands, fer nú að ná hámarki sínu og minnir orðræðan og ágreiningsmálin um margt á þá umræðu sem var hér á landi fyrir fáeinum árum þegar umsóknarferli Íslands að ESB var í gangi. Á vef Guardian er kosningabaráttan útskýrð á einfaldan hátt. Þeir sem telja Bretlandi best borgið utan ESB hafa lagt árherslu á minninguna um breska heimsveldið, hugarfar Breta á stríðsárunum og Thatcher-tímann á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Fyrir þeim er ESB ofríkisfullt, dýrt og ólýðræðislegt; og innflutningur fólks í álfuna veldur þeim hugarangri.
Þeir sem vilja halda sambandinu við ESB minna á það hversu vel Evrópusamstarfinu hefur tekist að stilla til friðar í heimsálfu sem logaði áður í deilum. Þar er einnig lögð áhersla á hversu vel fjórfrelsið hefur komið sér fyrir alla þátttakendur í samstarfinu.
Meðal þeirra sem sem styðja áframhaldandi veru Bretlands í ESB eru allir leiðtogar allra stærstu stjórnmálaflokka á Bretlandi, þar með talið David Cameron forsætisráðherra Íhaldsflokksins. Allir helstu leiðtogar Evrópusambandsríkjanna hafa einnig hvatt Breta til að kjósa áframhaldandi aðild og nýverið lagði Barack Obama Bandaríkjaforseti sitt á vogarskálarnar.
Meðal þeirra sem vilja að Bretland yfirgefi ESB fyrir fullt og allt eru Boris Johnson, fyrrverandi borgarstjóri í London og Nigel Farage, yfirlýstur Evrópuandstæðingur og leiðtogi sjálfstæðisflokks Bretlands. Donald Trump, hinn alræmdi forsetaframbjóðandi í Bandaríkjunum, hefur einnig látið hafa eftir sér að Bretar eigi að kjósa gegn Evrópu.