Knattspyrnuunnendur um alla Evrópu eru að fylgjast með fótbolta í beinum útsendingum frá Frakklandi. Margir af bestu knattspyrnumönnum heims eru þar mættir til að keppa um einn af stóru titlunum í þessari vinsælustu íþrótt í heimi. Mótið dregur einnig að sér fjölda stuðningsmanna til að fylgjast með löndunum 24 keppa. Búist er við að samtals muni tvær og hálf milljón manna mæta á alla leikina á mótinu. Allur þessi fjöldi er kannski ekki aðalatriðið í útsendingunum en við heyrum vel í þeim.
Þannig hafa erlendir miðlar flutt fréttir af ógnvekjandi liðshrópum íslensku stuðningsmannanna á leik Íslands og Portúgal á þriðjudag. Þeir sem fylgst hafa með íslenska landsliðinu í fótbolta þekkja þetta orðið vel og fá jafnvel ennþá gæsahúð þegar allur mannskarinn hrópar „HÚHH!“ eftir tvo slætti á trommu. Vel heyrist í Íslendingunum í útsendingu á rússnesku frá leiknum við Portúgali.
En þó íslensku stuðningsmennirnir skeri sig úr með friðsælum en ógnvekjandi fagnaðarlátum þá eiga þeir það sameiginlegt með stuðningsmönnum nær allra hinna þjóðanna að söngla amerískt rokklag þegar best lætur. Stefið úr White Stripes-laginu Seven Nation Army er nefnilega eitt útbreiddasta íþróttafagn í heiminum, eins ólíklega og það kann að hljóma.
Misskildi Salvation Army
Lagið, sem er fyrir löngu orðið eitt vinsælasta lag The White Stripes, kom fyrst út í byrjun mars árið 2003. Jack White, forsprakki dúósins í The White Stripes, hafði verið að undirbúa sig fyrir tónleika í Ástralíu þegar hann setti óvart saman nokkra hljóma. Hann spurði félaga sinn um leið hvað honum fyndist. „Þetta er svosem ágætt,“ svaraði félaginn og hló en Jack White var ósammála. Honum leið eins og að hafa rekist á gull.
Lagið kom síðan út á fjórðu breiðskífu hljómsveitarinnar sem fékk nafnið Elephant. Jack White notaði hugtakið „Seven Nation Army“ sem grunn að texta við lagið. „Seven Nation Army“ þýðir ekki neitt fyrir neinum heldur er það, að sögn höfundarins, það sem hann misheyrði í æsku þegar talað var um „Salvation Army“.
Lagið náði aldrei neitt ofboðslega hátt á almennum vinsældalistum og fylgdi hefðbundinni hlustunarkúrvu popplaga; Toppaði hratt áður en vinsældirnar fjöruðu út. Efst fór það þó í fyrsta sæti á hliðarlista Billboard-listans bandaríska. Lagið var þess vegna löngu búið að missa flugið þegar það heyrðist á bar í Mílanó hálfu ári síðar þar sem stuðningsmenn belgíska fótboltaliðsins Club Brugge sátu að sumbli fyrir leik liðsins við stórliðið AC Mílan í Evrópukeppninni. Stefið hreif stuðningsmennina sem hófu að humma með: „Da… da-DA-da da DAAH DAAH“.
Oh…oh-OH-oh oh OHH OHH
Á 33. mínútu leiksins skoraði Club Brugge á San Siro-vellinum og það fyrsta sem heyrðist úr stúku Belganna var stefið sem þeir höfðu heyrt á barnum. Brugge vann leikinn 1-0 svo stuðningsmennirnir sungu alla leið til Belgíu þar sem lagið varð að markalagi liðsins. Seven Nation Army var spilað hátt og snjallt úr hljómtækjum heimavallarins þegar Brugge skoraði og hefur verið síðan.
Francesco Totti, leikmaður Roma og landsliðsmaður frá Ítalíu, varð svo uppveðraður af laginu þegar hann lék með Roma gegn Brugge í Belgíu í febrúar 2006 að hann fór beinustu leið eftir leik og keypti plötuna. Og þegar Ítalir mættu til leiks á heimsmeistaramótinu í Þýskalandi þetta sama ár var stefið úr Seven Nation Army orðið að fagni stuðningsmanna Ítalíu.
Ítalía komst alla leið í úrslitaleikinn á HM 2006 og vann í eftirminnilegum leik þegar stjarnan Zinedine Zidane, í franska liði andstæðinganna, stangaði Marco Materazzi og fékk fyrir vikið rautt spjald. Ítölsku stuðningsmennirnir sungu svo „Oh…oh-OH-oh oh OHH OHH“ alla leið heim til Ítalíu og söngurinn barst heim í stofu til áhorfenda um allan heim.
Ekkert jafn fallegt og þegar lögin verða þjóðlög
Jack White var vitanlega þakklátur Ítölunum fyrir að gera lagið hans að eins konar þjóðlagi, jafnvel þó því fylgi að um leið verði uppruni lagsins óljós. „Það er ekkert eins fallegt og þegar fólk hrífst af laglínum og kemur þeim fyrir í hofi þjóðlagatónlistar,“ lét White hafa eftir sér þegar hann var inntur eftir viðbrögðum við því að lagið hans væri orðið að íþróttasöng.
Lagið er ekki aðeins vinsælt meðal stuðningsmanna knattspyrnuliða. Í Bandaríkjunum fylla ruðningslið marga af stærstu leikvöngum heims í hverri viku góðan part úr ári hverju. Þar hefur stefið úr þessu fyrsta lagi Elephant-plötunnar einnig orðið að fagnaðarlagi stuðningsmanna fjölmargra liða.
Það er raunar alveg magnað að sjá myndbönd úr stúkunum þar sem tugþúsund manns sveifla samlitum treflum og kyrja þetta vinsæla stef. Maður getur vart ímyndað sér hvernig er að vera staddur í stúkunni.
Lagið fær að hljóma víðar á íþróttaleikvöngum og í mun fleiri útgáfum en hér hefur verið talið upp. Lesendum er bent á nokkuð ítarlega yfirferð yfir notkun lagsins meðal íþróttaliða um víða veröld á Wikipediu.
Tilvalið Bond-lag
Jack White hafði hins vegar aðrar hugmyndir um lagið þegar það var tilbúið. Hann hafði ákveðið að geyma það, svona ef ske kynni að einhver myndi biðja hann um að semja lag við James Bond-mynd. Hann komst þó að þeirri niðurstöðu að ólíklegt væri að hann myndi nokkurntíma fá að semja slíkt lag svo því var þrumað á plötuna Elephant með The White Stripes sem kom út árið 2003. Platan er frábær og er af mörgum talin vera besta verk hljómsveitarinnar. Til marks um það komst hún í 390. sæti á lista Rolling Stone-tímaritsins yfir 500 bestu plötur allra tíma.
Í myndbandinu hér að neðan ræðir Jack White við Jimmy Page, gítarleikara Led Zeppelin, og The Edge, gítarleikara U2, um lagið og kennir þeim að spila það með sér.
Það er kannski kaldhæðni örlaganna sem réð því að Jack White var síðar beðinn um að semja upphafslag Bond-myndarinnar Quantum of Solace sem kom út árið 2008. Lagið Another Way to die flutti hann með bandarísku söngkonunni Aliciu Keys, og þótti þeim hafa tekist misjafnlega til. Undirriaður telur þetta lag hinsvegar til bestu Bond-laga.
Rétt er að geta þess að Seven Nation Army komst nýverið aftur á topplista í Bandaríkjunum í fyrsta sinn síðan árið 2003. Lagið er notað við stiklu úr nýjum tölvuleik, Battlefield 1, sem kemur út í haust. Seven Nation Army er þar í nýjum búningi og heldur drungalegri en í upprunalegri útgáfu Jack og Meg White. Og upprunalega lagið sjálft? Það hljómar svona á Elephant frá árinu 2003: