Hjólreiðamenning á Íslandi hefur breyst mikið undanfarin ár og margir landsmenn hafa tekið upp á því að fara að hjóla. Smám saman hefur fólk uppgötvað að hægt sé, þrátt fyrir breytilegt veður, að nýta þennan ferðamáta enda sé hann ódýrari, heilsusamlegri og umhverfisvænni en margur annar.
Umræður um hjólreiðamenningu skjóta iðulega upp kollinum þar sem kostir og gallar hjólreiða eru reifaðir. Og vegna þess að þetta er tiltölulega nýr lífstílsmáti hér á landi þá er skiljanlegt að ákveðnir vaxtaverkir láti á sér kræla. Hjólreiðamenn hafa stundum verið ásakaðir um að hjóla of hratt eða óvarlega á göngustígum Reykjavíkurborgar. Þeir hjólreiðamenn sem Kjarninn talaði við voru sammála um að það væri mikilvægt fyrir hjólreiðamenn að bera virðingu fyrir gangandi vegfarendum og að auðvitað yrði sú virðing að vera gagnkvæm.
Gaman að kynnast borginni með öðrum hætti
Sesselja Traustadóttir, framkvæmdastýra Hjólafærni á Íslandi, byrjaði að hjóla af einhverri alvöru fyrir 10 árum þegar hún tók fyrst þátt í Hjólað í vinnuna. Hún vann sem grunnskólakennari og segir hún að það hafi hentað einstaklega vel að hjóla í vinnuna þetta vorið. Hún hjólaði einnig út um alla Reykjavíkurborg og kynntist hún henni alveg upp á nýtt. Eftir þessa reynslu segist hún hafa komist á bragðið og í dag séu hjólreiðar og allt sem þeim tengist ástríða hennar og vinna.
Við þessa fyrstu hjólreiðaáskorun þá útbjó hún hjólaleik fyrir vinnufélaga sína. Hann virkaði þannig að þegar fólk sem hjólaði í vinnuna kom við á ákveðnum stöðum þá fékk það límmiða að launum. Sesselja segir að þetta hafi gefist vel og verið skemmtilegt. Hún segir að á þessum tíma hafi hún stöðugt verið að koma sjálfri sér á óvart og að hún hafi séð miklar framfarir. Hún hafi til dæmis allt í einu getað farið upp brekkur sem hún hafi ekki ráðið við áður og þegar hún hjólaði í fyrsta skiptið 60 kílómetra þá hringdi hún stolt í eiginmann sinn til að segja honum frá því. „Þetta var líka skemmtileg kynning á borginni en það er gaman að þekkja hana með þessum hætti,“ segir hún og hlær. Hún segir að Reykjavíkursvæðið sé algjörlega frábært til hjólreiða.
Vinnur nú við að opna augu fólks fyrir hjólreiðum
Upp úr þessu byrjaði Sesselja að vinna að málefnum tengdum hjólreiðum. Hún segir að hjartað sé samofið ýmis konar grasrótarstarfi og að það sé einstaklega gaman að opna augu fólks fyrir hjólreiðum.
Sesselja vinnur nú að ýmis konar verkefnum sem stuðla að bættri hjólreiðamenningu. Meðal þessara verkefna er Hjólað óháð aldri sem byggir á því að rjúfa einangrun og efla lífsgleði íbúa á hjúkrunarheimilum með því að gefa þeim kost á að fara út að hjóla. Hún segir að það sé einkar gefandi verkefni og að það sé hreint stórkostlegt að finna hvað almenningur sýni því mikinn áhuga.
Hún telur að þrátt fyrir miklar breytingar á hugsunarhætti og viðhorfum til hjólreiða síðustu ár mætti gera enn betur. Hún telur enn fremur að þessar miklu breytingar á hjólreiðamenningu á Íslandi megi að hluta til rekja til hrunsins. Eftir efnahagskrísu hafi margir landsmenn selt bílinn og leitað annarra leiða til að koma sér á milli staða. Hún segir að mikill umsnúningur hafi orðið á hjólavenjum landsmanna frá árinu 2008.
Rafmagnshjólið kemur sterkt inn
Sjálf segist Sesselja byrjuð að nota rafmagnshjól en hún ákvað fyrir um ári síðan að prófa það. Hún segir að það sé góður kostur fyrir Reykjavíkinga en nú getur hún hjólað allar brekkur eins og ekkert sé. „Þú veist ekki fyrr en þú hefur prófað hvað rafmagnshjólið gerir fyrir þig. Það frábæra við rafmagnshjólið er að það er hægt að fara hratt en það er líka svo auðvelt að stjórna hraðanum,“ segir hún. Hún hvetur Íslendinga til að prófa rafmagnshjólið og hún segir að það sé gott tæki til að nota til jákvæðrar stefnumótunar. Það sé hægt að deila rými með gangandi vegfarendur en það sé einmitt svakalega mikilvægt að sýna tillitsemi á gangstéttunum þannig að samvinna milli hópanna gangi vel. „Við verðum að vera meðvitaðari um umhverfið í kringum okkur,“ segir hún og bætir við að hjólreiðamenn verði að taka þetta alvarlega. Fólk læri líka betur á umferðina með því að nota mismunandi ferðamáta.
Sesselju er mikið í mun að landsmenn allir horfi til fjölbreyttra samgönguvenja. Hún segir að það sé allra hagur að virkja samgöngur og ráðamenn heimsins horfi til hjólreiða sem hluta af lausn samgangna í þéttbýli.
„Við eigum að horfa til framtíðar og taka ábyrgð á vistsporum okkar. Við skuldum framtíð okkar og barnanna okkar slíka breytni,“ segir hún. Hún telur að bílaumferðinni sé sýnt allt of mikið umburðarlyndi. Hún vill að stjórnvöld taki til sinna ráða og geri opinbera hjólreiðaáætlun fyrir íslenskt samfélag. Út frá henni væri auðveldara fyrir sveitafélög að gera slíkt hið sama og svo myndu fyrirtæki fylgja í kjölfarið.
Vill breyta ímynd hjólreiða
Páll Guðjónsson er ritstjóri síðunnar Hjólreiðar.is en á síðunni segir að tilgangur hennar sé að efla hjólreiðar á Íslandi með því að auka öryggi með fræðslu, hvetja til hjólreiða með því að kynna kostina, eyða mýtum og síðan en ekki síst að breyta ímynd hjólreiða.
Páll er búinn að vera viðriðinn hjólreiðahreyfinguna í tvo áratugi en hann segir að viðhorf til hjólreiða hafi breyst mikið á þessum árum. Hann segir að þau sem vinni að málefnunum séu hægt og sígandi að sá fræjum með öllu því ötula starfi sem unnið er og að hægt sé að sjá uppskeruna nú þegar. „Fólk hélt að við værum skrítin til að byrja með en núna er allt annað viðhorf,“ bætir hann við.
Það þarf ekki að selja bílinn
Páll segir að á vefsíðunni séu allar þær upplýsingar sem byrjendur þurfi á að halda. Það sé ekki verið að leggja áherslu á þjálfunarplön eða svoleiðis upplýsingum. Markmiðið sé að upplýsingarnar séu aðgengilegar og sé þetta tilraun til að ná til nýliða sem finnast hjólreiðar spennandi. „Þetta er ekki flókið. Þú sest upp á hjólið og hjólar af stað. Það þarf engan sérstakan búnað eða undirbúning,“ segir Páll. Hann bendir einnig á að það þurfi ekki að fara með hjólreiðar „alla leið“, það þurfi ekki að selja bílinn eða eyða miklum peningum í búnað. Þau sem standa fyrir síðunni vilji normalísera hjólreiðar sem venjulegan ferðamáta. Þau vilji benda fólki á valkostinn og hvetja til að prufa.
Páll segir að þau byggi hugmyndafræði sína á jákvæðni. Þau vilji ekki gera lítið úr öðrum samgöngumáta. Þau séu líka með lausnir fyrir fatlaða og aldraða og lumi á alls kyns skemmtilegum ferðasögum. Hann tekur í sama streng og Sesselja í sambandi við rafmagnshjólin. Hann segir að mikið hafi breyst með aukinni notkun þeirra, með þeim sé hægt að hjóla lengri vegalengdir og að brekkurnar hætti að vera vandamál. Möguleikarnir séu því margir og allir geti fundið eitthvað fyrir sinn snúð.
Landssamtök hjólreiðamanna hafa starfað í yfir 20 ár. Meginmarkmið samtakanna er að efla hjólreiðar, komast yfir mýtu um þær og ná til nýs fólks. Einnig ber að nefna Íslenska fjallahjólaklúbbinn sem samanstendur af breiðum hópi fólks sem hefur hjólreiðamenningu að áhugamáli, vill auka veg reiðhjólsins sem samgöngutækis og vinnur að bættri aðstöðu hjólreiðafólks til samgangna. Markmiðið, eins og fram kemur á heimasíðu þeirra, er að fá sem flesta til að fara ferða sinna á hjóli og komast í náið samband við móður náttúru, takast á við hana, skilja hana og virða.