NATO-leiðtogar vonast til að geta treyst vestræn tengsl í kjölfar ákvörðunar Breta að segja sig úr Evrópusambandinu á leiðtogafundi Atlantsahafsbandalagsins sem hefst í Varsjá í dag. Bæði Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra, sækja fundinn fyrir hönd Íslands. Fundurinn stendur í tvo daga, í dag og á morgun.
Á leiðtogafundinum er ætlunin að samþykkja flutning alþjóðlegra herfylkja til Póllands og allra þriggja Eistrasaltsríkjanna til að mæta rússneskri ógn sem hefur aukist mikið undanfarin ár, til dæmis með íhlutunum Rússa í Úkraínu. Þau NATO-ríki sem eiga landamæri að Rússlandi hafa lýst yfir ótta um að Rússar muni beita sömu brögðum gagnvart sér og þeir gerðu í Úkraínu. Einnig er talið að leiðtogarnir muni kynna nýtt eldflaugavarnarkerfi í Austur-Evrópu.
Þetta er fyrsti leiðtogafundur hernaðarbandalagsins síðan Bretar ákváðu að ganga út úr ESB í Brexit-þjóðaratkvæðagreiðslunni. Leiðtogar kosningabaráttu Evrópuandstöðunnar í Bretlandi lögðu á það áherslu að NATO gæti orðið vettvangur aukins samstarfs Breta við önnur Evrópuríki yrði Brexit að veruleika. Aðrir bentu á að klofningur frá ESB myndi síður en svo treysta raðir NATO-ríkja í Evrópu.
Staða Breta óbreytt?
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, skrifar í pistli í Financial Times að hann trúi að Bretar verði áfram lykilþátttakandi í öryggisgæslu Evrópu. Evrópa og NATO ættu að auka öryggissamstarf sitt og ákveða að halda viðskiptaþvingunum gegn Rússum til streitu.
Andrzej Duda, forseti Póllands, og Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sögðu í morgun að styrkur hernaðarbandalagsins liði ekki fyrir Brexit. „ESB og NATO eru nokkuð ólíkar stofnanir,“ sagði Duda. „Bretland er eitt af sterkustu aðildarríkjum NATO og ég efast ekki um að þátttaka og samstarf í bandalaginu verði áfram sú sama.“
Brexit gerir það óhjákvæmilega að verkum að ESB hefur ekki eins mikil áhrif á alþjóðavettvangi og það gerði. Til að bæta upp fyrir það ætti Evrópa að efla hernaðarmátt sinn, að mati Bogdan Klich, fyrrverandi varnarmálaráðherra Póllands.
Utanríkisráðherrar Frakklands og Bretlands, þeir Frank-Walter Steinmeier og Jean-Marc Ayrault, hafa lagt það sama til í sameiginlegri stefnuyfirlýsingu í kjölfar Brexit. Stefnuyfirlýsingin var gefin út undir fyrirsögninni „Sterkari Evrópa í heimi óvissu“. Plaggið fór fyrir brjóstið á Bandaríkjunum og Kanada sem vilja ekki að Evrópusambandið búi til aðra hernaðarblokk á meginlandi Evrópu.
Í samtali við breska blaðið The Guardian segir Krzysztof Blusz, hernaðarsérfræðingur í Póllandi, að útkoma þjóðaratkvæðagreiðslunnar hefði margar óbeinar afleiðingar fyrir samstarf hernaðarbandalagsins. „Útganga Breta úr ESB mun skapa þá stöðu að aðildarríkin fara að huga meira að högum sínum heimafyrir. Löngunin er þegar til staðar en Brexit mun auka þessa heimahneigð enn frekar. Stjórnvöld í Moskvu munu ekki missa af tækifærinu til að nýta sér stöðuna.“
Gamla góða tvíbenta stefna NATO
„NATO er ekki að leita að átökum. Við viljum ekki annað Kalt stríð. Kalda stríðið er í fortíðinni og ætti að vera þar áfram,“ sagði Jens Stoltenberg í ræðu sinni í dag og lagði áherslu á að samtali yrði haldið áfram við Rússa. Niðurstaða NATO-fundarins verður því að öllum líkindum sú sama og oft áður: tvíbent stefna um aukið samtal í kjölfar orða um aukin hernaðarumsvif við landamæri að Rússlandi.
Óvíst er hvernig Rússar eiga eftir að bregðast við leiðtogafundinum í Póllandi. Að líkindum verður viðbragðið táknræn yfirlýsing um uppfærðan herafla og ný hernaðartæki. Lukasz Kulesa, rannsóknarstjóri hjá European Leadership Network, samtökum sem sérhæfa sig í rannsókum á utanríkis-, hernaðar- og öryggisstefnu Evrópusambandsins, telur að stjórnvöld í Moskvu muni að öllum líkindum tína til tilbúnar áætlanir og setja í nýjan búning sem viðbragð við leiðtogafundi NATO í Póllandi.
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur talað óljóst um hvernig Rússar þurfi að auka hermátt sinn á meðan aðrir embættismenn hafa sagt að Kreml muni mæta aðgerðum NATO á sama hátt; færa herfylki að landamærum í vestri og efla eldflaugavarnarkerfi.
Kulesa telur að Rússar geti hins vegar gert tvennskonar mistök í viðbrögðum sínum við útkomu leiðtogafundsins. Bæði munu á endanum leiða til þess að samskiptin stirðni enn frekar. Fyrstu mistökin, að mati Kulesa, yrðu þau ef Rússar læsu of mikið í útkomu fundarins og héldu að nú væri NATO að undirbúa átök. Vesturveldin myndu um leið bæta í herafla sinn við landamærin að Rússlandi og fjölga aðildarríkjum frá Austur-Evrópu og Skandinavíu. Af Norðurlöndum eru Ísland, Danmörk og Noregur aðilar að NATO en ekki Svíþjóð og Finnland. Eystrasaltsríkin hlutu öll aðild árið 2004.
Hin mistök Rússa væru að taka niðurstöðu leiðtogafundarins of létt. Rússar gætu allt eins metið stöðuna á Vesturlöndum þannig að bandalagsríkin gangi ekki í takt. Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, lét til dæmis hafa eftir sér á dögunum að herfylking NATO við landamærin væru eins og táknrænar hergagnasýningar. Kulesa bendir einnig á að Rússar gætu talið Bandaríkin veikari nú en oft áður sökum þess að nýr forseti verður kosinn þar á komandi vetri. Hann nefnir einnig að Rússar gætu talið aðgerðir aðildarríkja NATO gegn sér nokkuð bitlausan ljá í þúfu.
„Afleiðingar þessara hugsanlegu mistaka gætu orðið alvarlegar,“ skrifar Kulesa á vef European Leadership Network. „Rússar gætu ákveðið að hefja miklar breytingar á herafla sínum sem stillt er upp við landamærin og gert mun meira en að spegla vesturveldin hinumegin við landamærin. Viðbrögð NATO við slíkum tilfærslum yrðu að efla mátt sinn í Austur-Evrópu til að geta auðveldlega brugðist við grein 5 í stofnsáttmála NATO. Grein 5 vísar í skuldbindingu allra aðildarríkja um að árás á eitt aðildarríki þýði árás á þau öll.
Séu stjórnvöld í Kreml hins vegar með puttan á púlsinum og taka rökrétta ákvörðun þá verður auðvelt fyrir Pútín að sjá að aðildarríkin hafa engan sérstakan áhuga á átökum eða aukinni öryggisgæslu við landamærin.