Í sögulegu samhengi hafa það einkum verið fjórir flokkar sem deilt hafa völdum hér á landi. Þessir flokkar, sem oftast eru einu nafni kallaðir „fjórflokkurinn“ eru jafnframt grunnurinn af því sem hefur einkennt íslenska flokkaskipan frá stofnun lýðveldisins.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur jafnan verið stærstur og yfirleitt átt auðvelt með að taka Framsóknarflokkinn með sér í stjórnarsamstarf. Ef kosningaúrslitin hafa hins vegar þótt Framsóknarflokknum í vil hefur formaðurinn oftast hringt í kollega sinn í Valhöll. Ef málefnaágreiningur kom upp milli þessara flokka varð oft stjórnarkreppa.
Hinir flokkarnir í fjórflokknum eru tveir vinstriflokkar. Saga þeirra er mun flóknari en saga Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins og hafa þeir gengið undir ýmsum nöfnum. Síðan um aldamótin hafa þessir flokkar heitið Samfylkingin og Vinstri hreyfingin - grænt framboð. Í öllum kosningum og skoðanakönnunum á síðari hluta 20. aldar og á fyrsta áratug þeirrar 21. hefur fjórflokkurinn vegið þyngst og átt hið pólitíska svið út af fyrir sig, nema þegar fimmti aukaleikarinn hefur troðið sér inn í senurnar og jafnvel valdið nokkrum usla áður en áhorfendur púa hann niður af sviðinu.
Á árunum sem liðin eru frá bankahruni hafa æ fleiri framboð rutt sér inn á sviðið til þess að verða þessi fimmti leikari. Mörgum hefur mistekist þetta verkefni en eftir standa nú þrjú framboð sem mælast með nógu mikið fylgi til að geta verið tekið alvarlega. Fjórir leikarar eru þess vegna orðnir sjö.
Tveggja turna tal
Í Alþingiskosningum síðan árið 1963 hafa Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn yfirleitt hlotið samtals meira en helming atkvæða. Samtals voru flokkarnir með tæplega 70 prósent atkvæða í kosningunum 1963. Árið 1999 var það hlutfall tæplega 60 prósent. Áratug síðar hlutu þessir flokkar einungis 38,5 prósent atkvæða samanlagt en fengu svo aftur meirihluta fjórum árum síðar. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson hringdust þess vegna á eins og svo oft áður.
Í nýjustu kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar, og öllum kosningaspám sem gerðar hafa verið á þessu ári, eru Sjálfstæðisflokkurinn og Píratar langvinsælustu framboðin til Alþingis. Í nýjustu kosningaspánni sem gerð var 16. september mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 26 prósent fylgi og Píratar með 24,6 prósent fylgi. Píratar eru einn af þessum þremur nýju leikurum sem vilja deila sviðinu með fjórflokknum til frambúðar. Framsóknarflokkurinn hefur á þessum tíma varla mælst með mikið meira en 10 prósent fylgi og er nú með 9,7 prósent samkvæmt kosningaspánni.
Annar turnanna virðist því vera fallinn á meðan hinn stendur hálfur eftir, við hlið nýs turns.
Annað framboð sem gerir verulegt tilkall til hlutverks í næsta leikþætti þessa pólitíska leikrits er Viðreisn. Það framboð hefur undanfarna mánuði mælst með um tíu prósent fylgi. Í nýjustu kosningaspánni er Viðreisn með 10,4 prósent og hefur aldrei mælst vinsælli.
Þriðja framboðið sem hlýtur nógu mikið fylgi til þess að eftir því verði tekið er Björt framtíð. Undanfarin misseri hafa vinsældirnar ekki mælst miklar – aðeins um fjögur prósent – en það er hins vegar erfitt að áætla hvaðan flokkurinn sækir það fylgi. Á landsvísu er reiknað með að framboð þurfi um það bil fimm prósent atkvæða til þess að ná manni á þing en það segir auðvitað bara hálfa sögu. Í einu kjördæminu gæti flokkurinn notið mun meira fylgis en hann gerir í öllum hinum. Í kosningunum árið 2013 hlaut flokkurinn 8,2 prósent atkvæða og á kjörtímabilinu sem er að ljúka hefur Björt framtíð sex þingmenn.
Hrun flokkakerfisins
Flokkakerfið – sem við höfum hingað til kallað fjórflokkinn – virðist vera á undanhaldi. Á fáeinum árum hafa vinsældir rótgrónu stjórnmálaflokkanna fallið og svo virðist sem að stuðningur við þá verði mun minni en nokkru sinni í kosningunum 29. október. Fylgi við Sjálfstæðisflokkinn sjaldan verið jafn lítið, Framsóknarflokkurinn er krísu og Samfylkingin hefur aldrei mælst jafn illa.
Samanburður á niðurstöðum kosninga við nýjustu kosningaspána renna stoðum undir þessa tilgátu. Árið 1963 fengu flokkarnir sem þá skipuðu fjórflokkinn samtals 99,8 prósent atkvæða. Árið 1987, þegar einn vinsælasti fimmti leikarinn, Borgaraflokkurinn, steig fram á sviðið hlaut fjórflokkurinn 74,6 prósent atkvæða. Í kosningunum árið 2009, fáeinum mánuðum eftir bankahrunið, hlaut fjórflokkurinn 90 prósent atkvæða. Samkvæmt kosningaspánni í dag mun fjórflokkurinn hins vegar einungis fá 58,1 prósent atkvæða.
Um kosningaspána 16. september
Nýjasta kosningaspáin tekur mið af fjórum nýjustu könnunum sem gerðar hafa verið á fylgi framboða í Alþingiskosningunum í haust. Í spálíkaninu eru allar kannanir vegnar eftir fyrir fram ákveðnum atriðum. Þar vega þyngst atriði eins og stærð úrtaks, svarhlutfall, lengd könnunartímabils og sögulegur áreiðanleiki könnunaraðila. Í kosningaspánni 16. september er það nýjasta könnunin sem hefur mest vægi. Helgast það aðallega af lengd könnunartímabilsins og fjölda svarenda í könnuninni, miðað við hinar þrjár sem vegnar eru. Kannanirnar sem kosningaspáin tekur mið af eru:
- Þjóðarpúls Gallup 31. ágúst til 14. september (vægi: 42,2%)
- Skoðanakönnun Fréttablaðsins 6. til 7. september (vægi: 15,0%)
- Þjóðarpúls Gallup 26. júlí til 31. ágúst (vægi 25,6%)
- Skoðanakönnun MMR 22. ágúst til 29. ágúst (vægi 17,2%)
Kosningaspálíkan Baldurs Héðinssonar miðar að því að setja upplýsingarnar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Kjarninn birti Kosningaspá Baldurs fyrir sveitarstjórnarkosningarnar og reyndist sú tilraun vel. Á vefnumkosningaspá.is má lesa niðurstöður þeirrar spár og hvernig vægi kannana var í takt við frávik kannana miðað við kosningaúrslitin.
Áreiðanleiki könnunaraðila er reiknaður út frá sögulegum skoðanakönnunum og kosningaúrslitum. Einnig hefur það vægi hversu langt er síðan könnunin var framkvæmd og svo hversu margir svara í könnununum.